18.05.1957
Efri deild: 102. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (1392)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Síðan þetta mál var lagt fram, hefur komið í ljós, að nýmæli þess hafa vakið mikla athygli og yfirleitt fundið ríkan hljómgrunn meðal fólks í öllum stjórnmálaflokkum, ekki síður meðal stjórnarandstæðinga en fylgismanna stjórnarinnar. Í umræðum blaða um málið hefur það líka verið ljóst, að gegn nýmælum frv., t.d. um byggingarsjóð og um frjálsan sparnað og skyldusparnað, hafa ekki verið neinar ádeilur, sem teljandi séu, og frá unga fólkinu sjálfu hefur ekki heyrzt nokkur mótmælarödd, svo að ég minnist.

Þetta allt saman er ánægjulegt og gat vakið vonir um það, að hv. n., sem málið fékk til meðferðar, bæri gæfu til þess að skila samhljóða áliti um það. Því miður hefur þó þannig farið, að n. hefur klofnað og meiri hl. skilað nokkrum breytingum til lagfæringar á frv., og eru þær flestar smávægilegs eðlis og umturna á engan hátt frv., valda engum stórbreytingum á meginefni þess.

Ég sé nú fyrst í dag nál. minni hl., og virðist mér það nál. og þær brtt., sem því fylgja, einmitt undirstrika það, að efnislega sé ekki mikill ágreiningur um málið. Ég fæ ekki betur séð en að minni hl. taki einmitt upp í sínar brtt. kjarnann úr ýmsum nýmælum frv., vilji þó ekki sætta sig við þau heiti, sem þessi nýmæli bera í frv., vilji ekki, að varasjóður hins almenna veðlánakerfis heiti byggingarsjóður ríkisins, ekki heldur, að skyldusparnaðurinn heiti skyldusparnaður, heldur séu það húsinnián í banka, sem njóti sams konar fríðinda og skyldusparnaðurinn átti að njóta, þ.e.a.s. skattfrelsis og útsvarsfrelsis, og fái forgang til lána, þegar þeirri sömu upphæð sé náð á sama tíma sem ráð er fyrir gert í frv., þ.e.a.s. ekki minna en 25 þús. kr. á 5 árum. Og eins og um þetta atriði er það um mörg önnur, að efnið í nýmælum frv. er tekið upp í þessar brtt., og aðalsvipsmótsbreytingin á brtt. minni hl. mörgum hverjum og meiri hl. er svo sú, að allar eru brtt. bornar fram sem breytingar á hinum gömlu lögum um húsnæðismálastjórn, sem gilt hafa s.l. 2 ár, en ekki breytingar við frv., sem hér liggur fyrir, og er það svona eins og tilhneiging til þess að seilast svolítið um öxl til lokunnar, en ekki að grípa beint til þess, sem fyrir hendinni lá, sem var frv. um hina nýju skipun húsnæðismálanna. Það kunna einhverjar ástæður, sem mér er ekki kunnugt um, að hafa legið til þess, að hv. minni hl. kaus heldur að hafa þetta heildarform á sínum brtt., og hef ég ekkert við það að athuga. Hin gamla húsnæðismálalöggjöf með sínum kostum og sínum mörgu og stóru göllum er einhvers konar heilög kýr, sem hv. minni hl. hefur sérstaka ást á, og það er hans einkamál.

Um brtt. skal ég svo leyfa mér að fara örfáum orðum. — Ég skal taka það fram um 1. brtt. hjá hv. meiri hl., að mér finnst sú till. ganga of skammt, þ.e.a.s. hún takmarkar alveg ákveðið, að hve miklu leyti ríkissjóður eigi að bera kostnað af hinni opinberu fyrirgreiðslu fyrir fólkið í húsnæðismálunum. Þar segir nefnilega, að þóknun húsnæðismálastjórnar og laun framkvæmdastjóra skuli greiðast úr ríkissjóði, en annar kostnaður stofnunarinnar úr byggingarsjóði ríkisins.

Þessum málum er viða í löndum þannig skipað, að byggingarmálin eru í sérstöku rn. hjá ríkisstjórnunum, húsnæðismálaráðuneyti, og þá er auðvitað allur kostnaður við rekstur þessara mála borgaður af ríkissjóði viðkomandi lands. Ekkert hefði verið óeðlilegt, að þetta form hefði verið haft á hér, og þá hefði engum manni dottið í hug annað en að kostnaðurinn við stofnunina sjálfa alla væri borinn uppi af ríkissjóði.

Ég hygg, að ég sé ekki einn um það, heldur séu það margir, sem er nokkuð sárt um að þurfa nokkuð að skerða hið takmarkaða fé byggingarsjóðsins til annars en lánveitinganna sjálfra til þess að bæta úr húsnæðisástandinu og sjái eftir hverjum eyri, sem þarf að fara í rekstrarkostnað stofnunarinnar sjálfrar. Ég hefði því kosið, að kostnaðurinn við húsnæðismálastofnunina hefði, eins og til var ætlazt í frv. sjálfu, átt að vera borinn uppi af ríkissjóði og að ekki væri gert ráð fyrir, að neitt þyrfti að taka af tekjum byggingarsjóðsins til rekstrarkostnaðarins. Það hefði mér verið mest að skapi og vil raunar víkja því til hv. meiri hl., hvort hann vilji ekki freista þess að koma rýmri ákvæðum þarna í gegn um hlutdeild ríkissjóðs í kostnaði við rekstur búsnæðismálastofnunar ríkisins.

Í b-lið 2. till. segir, að húsnæðismálastjórninni sé heimilt að undirbúa byggingu íbúðarhúsahverfa í kaupstöðum með því að láta gera skipulagsuppdrætti að þeim í samráði við skipulagsnefnd ríkisins. Þetta er gamalt heiti á þessum aðila, en síðan hefur vaxið upp sérstök stofnun, sem fer með skipulagsmálin, og skipulagsstjóri ríkisins er forstöðumaður þeirrar stofnunar. Ég geri ráð fyrir, að þrátt fyrir gamla nafnið, skipulagsnefnd ríkisins, sé þarna átt við, að þessi mál eigi að fá samþykki skipulagsstjóra og þeirrar stofnunar, sem undir hann heyrir, en ekki bara n., sem aðeins mun nú koma saman einu sinni til tvisvar sinnum á ári og er þannig í raun og veru meira nafnið heldur en hitt, að hún sé sú stofnunin, sem ræður fram úr þessum málum. Upphaflega voru vegamálastjóri, vitamálastjóri og húsameistari ríkisins þeir aðilar, sem með lögum fóru með skipulagsmálin, en síðan hefur skipulagsstjóri og hans stofnun risið upp, og er það auðvitað það, sem við er átt að þarna eigi að skera úr ásamt samþykki félmrh., þegar um er að ræða skipulagsuppdrætti af svæðum, sem húsnæðismálastjórnin á að undirbúa byggingar á.

Um tillögurnar að öðru leyti, flestar, sé ég ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum. Ég tel þær sjálfsagðar, bæði þær, sem eru þarna niðurfeilingar og eins viðaukar og breytt orðalag. Ég vil láta í ljós, að ég tel alveg sjálfsagt, að bending sé um það gefin, að húsnæðismálastjórnin skuli veita lán út um landsbyggðina með það fyrir augum að greiða í ríkari mæli fyrir byggingu íbúðarhúsnæðis úti um landið, ef það mætti stuðla heldur að auknu jafnvægi í byggð landsins, en um þetta er hér brtt. Tel ég það til bóta.

Þá er enn fremur hér till., 8. brtt., um það, að veðdeildin skuli sjá um, að afgreiðsla og innheimta þessara lána geti farið fram í peningastofnunum sem viðast úti um landið. Veðdeildin hefur haft það þannig í framkvæmdinni, að öll lánin hafa verið greidd inn hér og menn hafa sent greiðslurnar hingað og þurft að hafa umboðsmenn til þess að rekast í þessu fyrir sig. Þetta eru veruleg óþægindi fyrir fólk úti um land, og væri miklu eðlilegra, að afgreiðsla lánanna gæti farið fram úti um land í peningastofnunum og eins innborganir á afborgunum og vöxtum, og tel ég þessa brtt. vera mjög til bóta og vafalaust í samræmi við vilja fólks úti um landsbyggðina í þessu efni.

Þá var í frv. gert ráð fyrir því, að sveitarstjórnir gætu veitt undanþágu frá skyldusparnaði, en hér er lagt til, að þetta verði undirskattanefndir og þá væntanlega skattstjórar, þar sem þeir fara með störf undirskattanefnda eða eru komnir í þeirra stað, og get ég fallizt á, að þetta sé til bóta, því að í flestum tilfellum mundu sveitarstjórnirnar líklega hafa orðið að sækja upplýsingar um efnahagsástand og aðrar ástæður viðkomandi manna, sem voru að sækja um undanþágu, mikið í gögn og plögg skattanefndanna eða skattstjóranna. Tel ég þetta því krókaminni framkvæmd og eðlilegri.

Aðrar till. hjá meiri hl. tel ég alveg ástæðulaust að fjölyrða um. Mér finnst, að þegar menn bera þær saman við texta frv., þá muni flestir telja þær eðlilegar og til bóta.

Tillögur minni hlutans hef ég þegar nefnt, og það, sem sérstaklega einkennir þær, er þetta, að þær eru brtt. ekki við frv., sem fyrir liggur, heldur við lögin um húsnæðismálastjórn, og verða náttúrlega bornar fram sem slíkar, en ekki í sambandi við einstakar greinar frv. hér. Efnislega sé ég ekki annað en að margt í þeim sé einmitt tekið úr þessu frv., sem hv. frsm. minni hl. var mjög að tala um að væri ekki til fyrirmyndar og illa vandað að frágangi og þar fram eftir götunum, án þess að nokkur rök væru nefnd þeim staðhæfingum til stuðnings. Efnið hefur þó ekki verið svo fráleitt, að ekki þætti ástæða til þess að hirða meginhlutann af því. Og það gleður mig. Það sýnir einmitt, að bv. minni hl. viðurkennir, að öll helztu nýmæli frv. eru til bóta og eru girnileg í augum minni hlutans. Annars hefðu tillögurnar ekki verið efnislega á þann hátt, sem þær eru hér, því að efni þeirra mjög margra er sótt rakleitt í frv., meira að segja svo, að e.t.v. er það ástæðan til þess, að þær voru ekki bornar fram sem breytingar við frv., því að þá var ekki hægt að koma þeim við, þá var efni þessara tillagna til í frv., sem þeir ætluðu einmitt að breyta, og það var eingöngu hægt að setja það á pappír með því að fara þá krókaleið að gera þær að brtt. við lögin, sem núna eru í gildi og ekki hafa neitt af þessu efni inni að halda. Þetta er sjálfsagt skýringin á því. Þeir voru svo skotnir í efni frv., að í það þurftu þeir að sækja efnivið í sínar tillögur, og þá var auðvitað ekki hægt að forma það sem brtt. við frv. sjálft, en við lögin, sem ekki höfðu neitt af þessu efni, var vel hægt að hnoða því sem breytingum.

Það gleður mig alveg sérstaklega, að félmrh. virðist njóta mikils trausts hv. minni hl., því að það er við meginhluta þessara till. sá viðauki, að félmrh. skuli heimilað að setja reglugerðir þvers og kruss þessu til nánari útfærslu og framkvæmda, og get ég ekki tekið það öðruvísi en sem mjög greinilegar traustsyfirlýsingar. Er það nokkurn veginn eins og rauður þráður í gegnum brtt., og fyrir það er ég hv. minni hl. náttúrlega mjög svo þakklátur. Hins vegar hryggir það mig heldur að sjá, að þegar þeir voru komnir í gegnum I. og II. kafla og aftur í III. kafla, þá hafa þeir verið búnir að fá meginhlutann af þeim nýmælum, sem þeir vildu fá samþykkt sem breytingar á gildandi húsnæðismálalögum, og leggja þá eftir það til, þegar kemur að breytingum um verkamannabústaðina og um skyldusparnaðinn og um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis, að 10., 11., 12., 13., 14., 15., 16., 17., 18., 19., 20. og 21. gr. falli niður, sem sé að allur síðari helmingur frv. falli niður. Það kannske gerir löggjöfina svona heldur endasleppa, en þó voru þeir áður búnir að taka meginhlutann af efninu úr þessum greinum einnig í sínar brtt.

Það er náttúrlega augljóst mál, að skyldusparnaðurinn í því formi, sem þarna er, gefur húsnæðismálastjórninni og byggingarsjóði miklu öruggari tekjur til þess að reikna með ákveðið heldur en hið lauslega form hv. minni hluta um sparnað eða húsinnlán, eins og það er kallað hér, húsinnlán, sem enginn veit fyrir fram, hvort yrðu notuð í meiri eða minni stíl. Það mundi vera miklu lausara undir fæti hjá húsnæðismálastjórninni, ef hún ætti að byggja á þeim tekjuvonum, sem miðuðust við húsinnlánin skv. tillögum minni hl., heldur en þær tekjur, sem hún getur nokkurn veginn reiknað út, hverjar verði skv. ákvæðum 10. gr. um skyldusparnaðinn. Og það eitt væri þegar mjög mikill galli við till. minni hl.

Viðvíkjandi framkvæmdinni, að skyldusparnaðinn skuli innheimta með sparimerkjum, eins og það stendur í frv., sem nú hefur verið sett fram í heildarformi í till. meiri hl., er það að segja, að ég hygg nú, að það sé vandfundið form, þar sem betur sé tryggt það, sem þarna þarf að nást, sem sé að fyrir liggi í senn í höndum hins unga manns eða hinnar ungu stúlku, sem hefur innt af hendi skyldusparnaðinn, — hann eða hún þarf að hafa í höndum sönnun þess, hvað hún hefur sparað mikið. Og það verður að vera alveg óhrekjanlegt: þetta hefur verið sparað. Þessi gögn þurfa líka að vera í höndum atvinnurekendanna, sem eru skyldugir til þess að halda eftir sömu upphæð, og það verður að vera hægt að fylgjast með því, að þessu beri saman, því, sem atvinnurekandinn gefur upp og hann á að krefja hann um, og að ungi maðurinn eða stúlkan geti líka sannað, að þetta fé hafi verið sparað og ekki eytt í neitt annað, og á þessu fimm ára tímabili er vandséð, hvernig hægt sé að sanna það betur en með greiðslumerkjabókunum sínum, sem þá á að bera saman við það uppgjör, sem hins vegar hefur komið til búsnæðismálastjórnarinnar frá atvinnurekendunum, sem greitt hafa féð, hafa upphaflega tekið það sem geymslufé við launaútborgun og skilað því síðan til húsnæðismálastjórnar. Ég hygg því, að heimildin, sem hér er talað um, verði áreiðanlega það form, sem verði notað, til þess að þarna sé örugglega um búið, að ekki fari á milli mála, hvað af launum atvinnurekandinn hefur haldið eftir og hvað ungi maðurinn eða stúlkan á að fá að fimm árunum liðnum og hefur raunverulega lagt til hliðar og getur sannað, að þarna sé ógreitt í sínar hendur. Það sannar sparimerkjabókin alveg óumdeilanlega.

Ég skal þá ljúka máli mínu og læt í ljós ánægju mína með það, að þetta mál hefur tekizt að undirbúa þannig, og það fullyrði ég, að það var ekki kastað til þess höndum, að meiri hluti og minni hluti eru efnislega langleiðina sammála, að almenningsálitið, sem myndazt hefur, síðan frv. var lagt fram, — síðan er nokkuð langur tími, — virðist vera á þá lund, að málið eigi í heild miklu fylgi að fagna og hafi síður en svo valdið óánægju meðal unga fólksins út af þeim ákvæðum, sem í frv. eru um skyldusparnaðinn. Ég tel það ekki nema eðlilegt á frjálsu þingi, að einhver blæbrigði skoðana séu um svona stórfellt mál með margvislegum nýmælum, og er því ekkert hneykslaður á því, þó að hv. stjórnarandstaða hafi talið betur á því fara að kljúfa nefndina og skila sérstökum tillögum, sem þá fyrst og fremst virðast vera fluttar vegna þess, að þeir óskuðu að flytja þær sem brtt. við gildandi lög, en ekki við frv.

Ég þakka svo hv. n. fyrir athugun á málinu og tel um niðurstöður nefndarinnar, — vafalaust á minni hl. þar hlut að máli líka, þó að hann fylgdist ekki með við endanlegan flutning tillagnanna, — að málið hafi verið vel athugað og breytingar gerðar á því til bóta, eins og vænta mátti um slíkt stórmál með mörgum nýmælum.