18.05.1957
Efri deild: 102. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1348 í B-deild Alþingistíðinda. (1394)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Frsm. minni hl. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Hæstv. félmrh. gat þess, að meginhluti efnis till. minni hl. n. væri tekinn upp úr frv. Þótti honum þetta nokkuð kynlega við horfa, en taldi þó, að skýringin á því væri sú, að hans dómi, að hið glæsilega frv. verkaði lokkandi á minni hlutann eða líkt og dætur Austurstrætis. En skýringin á þessu er nú ekki sú, heldur hitt: að sjálfsögðu reyndum við í minni hlutanum að teygja okkur eins langt til samkomulags við meiri hlutann og unnt var. Hér er því ekki um rithvinnsku að ræða, eins og lá í orðum hæstv. ráðherra, heldur einungis það, að við vildum ná samkomulagi um sem flest atriði. Þetta kemur líka fram í nál. okkar. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: .

„Aftur á móti er um aðrar breytingar að ræða, sem minni hlutinn leggur ekki á móti, svo sem ákvæðin um skipun húsnæðismálastjórnar. Þá er eðlilegt að veita veðdeild Landsbanka Íslands heimild til útgáfu bankavaxtabréfa, svo sem frv. gerir ráð fyrir. Enn fremur er rétt að stuðla að auknum umbótum í tæknimálunum, og vill minni hlutinn ganga lengra í þeim efnum en frv. gerir ráð fyrir og leggur því til, að sett sé á stofn tækniráð húsnæðismálastjórnar og byggingarmiðstöð og sérstök áherzla verði lögð á byggingarefnarannsóknir.“

Ég get einnig getið þess, að ég lánaði að sjálfsögðu meiri hluta nefndarinnar tillögur okkar minni hl. til yfirvegunar. Þeim var frjálst að móta þær og laga í hendi sér að eigin vild eftir nánara samkomulagi við okkur, þó að þeir reyndar notfærðu sér það ekki.

Þá telur hæstv. ráðh., að sér sé gefið nokkuð víðtækt vald með „öllum þeim reglugerðum“, sem ákveðnar eru í brtt. Ég held, að óhætt sé að geyma þessi atriði í reglugerðum, en það er bara verst, að við höfum enga tryggingu fyrir því, að sá góði félmrh. sitji lengi við völd.

Það er virðingarvert af höfundum frv. að leitast við að útvega aukið fjármagn til þessara mála, en ég tel eðlilegra, að því fjármagni sé veitt í æðar löggjafar, sem þegar er fyrir hendi fullsköpuð, í stað þess að láta útbúa æðaflækju, sem orðið getur vafasamur farvegur fyrir mikilvægt málefni.