18.05.1957
Efri deild: 102. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (1399)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Frsm. meiri hl. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég held, að það sé bezt að undirstrika enn í umr., að það er sýnilegt á stjórnarandstöðunni, að hér er um mikið og stórvægilegt mál að ræða, þrátt fyrir alla þá orðamælgi, sem fram hefur farið, sérstaklega af hálfu hv. þm. N-Ísf. (SB), t. d. um að frv. sé eitt ómerkilegasta mál, sem flutt hafi verið á undanförnum mörgum árum. Ég ætla, að sá æsingur og allt það moldviðri, sem búið er að þyrla upp fyrir atbeina hans í þessum umr. og frá honum, sé öruggt merki þess, að hér er um stórmerkilegt mál að ræða, og það kemur einnig glögglega í ljós í hinum hógværu ræðum frsm. minni hl. í n., sem leggur sérstaka áherzlu á það í nál. sínu, að hann sé samþykkur mörgum af þeim greinum, sem breytingar eru gerðar á og í frv. felast, og telur nauðsynlegt að fara enn lengra en þar er gert ráð fyrir.

Hv. þm. N-Ísf. talaði um mína framsöguræðu. Ég geri ráð fyrir, að hann hafi átt við ræðuna, sem ég flutti hér áðan. Framsöguræða mín í málinu eða framsöguræða meiri hl. var flutt hér í gær að honum fjarstöddum. Þar var ýtarlega rakið, hverjar helztu nýjungar væru í þessu frv., og því hefur ekki verið hnekkt þrátt fyrir allan þann hávaða og moldviðri, sem búið er að þeyta upp fyrir hans atbeina í þessum umr.

Það var m.a. lögð áherzla á það af hans hálfu, að ekkert fjárhagslegt öryggi sé í frv. eða þeim brtt., sem meiri hl. flytur. Ég vil þá spyrja: Hvert er það fjárhagslega öryggi minni hl., sem hann ætlast til að verði í væntanlegum l.? Hann vill hverfa frá því eina atriði, sem raunverulega telst til öryggis, skyldusparnaðinum, sem ég skal þó hafa fyrirvara um fyrir hönd hv. þm. N-Ísf., að hann virðist hugmyndinni hlynntur, þó að hann beri brigður á framkvæmdirnar. Hv. minni hl. leggur áherzlu á, að skyldusparnaðurinn sé ekki með í þeim brtt., sem hann leggur fram, nákvæmlega það eina höfuðatriði, sem á að tryggja þessum málum fé í framtíðinni, en vill þess í stað taka upp samningsbundinn sparnað við þá einstaklinga, sem kynnu að vilja leggja fé til þessara mála. Ég hygg, að það þurfi ekki nánari skilgreiningu á viljanum hjá hv. stjórnarandstöðu fyrir því að koma þessum málum í viðunanlegt horf og að öryggi megi vera í fjárhagsafkomu þeirra á næstu árum. Það sýnir sig í þeirra eigin till., svo að ekki verður um villzt.

Hv. þm. N-Ísf. taldi, að allmikið fé mætti fá með samningsbundnum sparnaði. Er það öryggið, sem á að skapa húsnæðismálastofnuninni og útlánastarfseminni til húsbygginga í framtíðinni, eitthvert allmikið fé, sem í þoku verður séð og enginn veit um nema eftir á?

Það, sem hefur skort og ég lagði sérstaka áherzlu á í minni framsöguræðu í málinu af hálfu meiri hl., var, að um fjárhagshlið þessara mála hefði ekki verið samið af hæstv. fyrrv. ríkisstj. nema til tveggja ára, þó að forustunni, sjálfri húsnæðismálastjórninni, væri ætlaður 6 ára aldur. Þá var ekki hugsað nema 2 ár fram í tímann, og allar framkvæmdirnar í sambandi við það hafa því verið á þeim leirfótum, sem hv. þm. N-Ísf. kom að í sinni ræðu áðan.

Það hefur ekki heldur verið hrakið neitt af því, sem við lögðum áherzlu á í okkar brtt. og ég í minni framsöguræðu, þau atriði, sem við teljum að séu til framtíðaröryggis þessara mála. En það eitt er nú talið höfuðrökin að lokum, að stofnfé, sem ekki á að hreyfa á þessu ári a.m.k. sé ekki tilbúið á þessu ári til útlána. (SB: Á aldrei að hreyfa það?) Það á ekki að hreyfa það, a.m.k. ekki á þessu eða næsta ári, það er öruggt. Það, sem verður til ráðstöfunar af hálfu húsnæðismálastofnunarinnar á næstu árum, eins og félmrh. tók skýrt og skilmerkilega fram, eru þær 44 millj., sem eiga að fara þetta ár, auk tekna sjóðsins sjálfs.

Ég gat þess einnig mjög ýtarlega í minni framsöguræðu í gær, að ég teldi, að málflutningur hv. stjórnarblaða á þeim tíma, sem veðlánakerfislögin voru sett, hefði verið mjög óheppilegur, og ég vil vænta þess, að það verði öðruvísi að þessum málum búið nú og í framtíðinni, þannig að vonir verði ekki vaktar umfram það, sem staðreyndir sýna að hægt verði að láta fólkinu sjálfu í té.

Ég vil einnig drepa á það, sem ég tel vera eitt merki þess, hvernig öðruvísi er nú unnið að þessum málum en áður. Samkvæmt frv. á nú að kjósa 4 menn hlutbundinni kosningu á Alþingi í væntanlega húsnæðismálastjórn, og er það ólíkt meira í lýðræðisátt en þau lög, sem samþykkt voru undir forsæti hv. þm. N-Ísf. árið 1955. Það er þó a.m.k. til þess ætlazt, að stjórnarandstaðan geti átt þar fulltrúa, sem hv. þm. N-Ísf. taldi ekki ástæðu til á sínum tíma að gera athugasemdir við, þó að stjórnarandstöðunni þá væri ekki ætlað að geta fylgzt með þessum málum á einn eða annan hátt.

Ég held svo, að það sé rétt að taka undir þau orð hæstv. félmrh. og reyndar þm. N-Ísf. einnig, að þær óskir, sem þeir létu báðir í ljós, og ég efast ekki um, að þær óskir eru byggðar á þeirri trú, að þessum málum sé stefnt í betri átt, að betur gangi um úrlausn þessara mála í framtíðinni en hingað til hefur gert.