21.05.1957
Neðri deild: 102. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (1406)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Frv. um húsnæðismálastofnun, byggingarsjóð ríkisins, sparnað til íbúðabygginga og breyt. á I. kafla l. nr. 36/1952 hefur verið til afgreiðslu í hv. Ed. og tekið þar nokkrum breytingum, frá því að það var lagt fram, en þó engum að meginefni. Frv. fekk þá meðferð í hv. Ed., að félmn. beggja deilda komu saman á nokkra fundi og ræddu um málið og hafa þannig undirbúið það, að vonir standa til, að frv. geti fengið nokkru fljótari afgreiðslu hér í þessari hv. deild vegna þessara skynsamlegu vinnubragða. Ég held, að það sé alveg ástæðulaust að ræða málið mjög ýtarlega hér, það var gert undir meðferð málsins í Ed. Málið er líka fyrir löngu komið fram og hefur auk þess verið rætt í blöðum og manna á milli, og öllum hv. dm. er því óefað vel kunnugt um efni frv. Ég vil þó vekja athygli á helztu efnisatriðum þess.

Í I. kafla frv. er kveðið á um það, að setja skuli á stofn húsnæðismálastofnun ríkisins. Hún á að lúta stjórn 5 manna, sem kosnir eru 4 hlutbundinni kosningu af sameinuðu Alþingi til 3 ára í senn, en 1 skipaður af félmrh. samkvæmt tilnefningu Landsbanka Íslands. Félmrh. skal skipa formann húsnæðismálastjórnarinnar. Einnig er félmrh. ætlað það hlutverk að skipa húsnæðismálastofnuninni framkvæmdastjóra að fengnum till. húsnæðismálastjórnar og ákveða þeim starfsmanni stofnunarinnar laun.

Í 2. gr. er rætt um ýmiss konar hlutverk húsnæðismálastofnunarinnar, og er það nokkuð mikið samhljóða því verkefni, sem húsnæðismálastjórn var ætlað samkv. gildandi l. um húsnæðismálastjórn, útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis o.fl.

Í II. kafla frv. kemur að fyrsta nýmæli þess, sem er um það, að stofna skuli byggingarsjóð ríkisins, og er honum ætlað stofnfé, sem nemur rúmlega 118 millj. kr. Einn þátturinn í stofnfé byggingarsjóðs ríkisins er 2/3 af skatti af stóreignum, en frv. um það mál var hér til umr. í hv. deild í gær og í nótt. Sá skattur er, eins og öllum er kunnugt, áætlaður um 80 millj. kr., og eiga 2/3 hlutar þess skatts að renna í byggingarsjóð ríkisins. Árlegar tekjur byggingarsjóðsins skulu svo enn fremur vera — auk árlegra tekna af stofnfénu — 1% álag, sem innheimta skal aukalega á tekju- og eignarskatt og stríðsgróðaskatt og aðflutningsgjöld samkvæmt tollskrá, eins og hún er í gildi í dag. Í öðru lagi eiga árlegu tekjurnar að vera afborganir og vextir lána, sem hafa verið veitt eða verða veitt af framlögum ríkisins til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, en það eru þegar nokkrar millj. kr. og ætlað á fjárl. núna 4 millj. kr. í því skyni, og verður slíkt fjárlagaframlag smám saman eign byggingarsjóðsins og kemur honum til tekna. Þá er í þriðja lagi 1% lántökugjald af öllum þeim lánum, sem húsnæðismálastjórnin veitir og vaxtatekjur byggingarsjóðsins. Í fjórða lagi fellur til árlegra tekna sjóðnum höfuðstóll vaxtabréfa samkvæmt 4. gr. og vaxtafé af þeim, sem komið er til gjalddaga og útborgunar, ef þess er ekki vitjað innan tuttugu ára frá gjalddaga. Það er ekki víst, að það verði neitt fé, og undir öllum kringumstæðum verður það lítið, sem sá liður gefur.

Þá er ætlazt til þess samkvæmt þessu frv., að áfram skuli starfa veðlánakerfi til íbúðabygginga og á að starfrækja það undir stjórn húsnæðismálastjórnar og veðdeildar Landsbanka Íslands. Í þessu skyni á veðdeild Landsbankans að fá heimild til að gefa út bankavaxtabréf, sem nemi allt að 100 millj. kr. árlega næstu 10 ár. Þessi vaxtabréf skulu vera þannig, að annar helmingurinn, A-flokkur, verður með föstum vöxtum og afborgunum, en h-nn hlutinn, B-flokkur, hinn helmingurinn, 50 millj. kr. á ári, verði með vísitölukjörum. Er þetta svipað fyrirkomulag og í gildandi lögum er ákveðið, að öðru leyti en því, að hlutfallið milli A- og B-bréfa er nú að jöfnu, en var áður 2 á móti 5. B-bréfin voru aðeins 2 á móti 5 A-bréfanna. Það er ætlazt til þess, að veðdeild Landsbanka Íslands hafi ein heimild til þess að gefa út slík vísitölubundin verðbréf.

Þá er í frv. heimild til þess, að byggingarsjóður ríkisins og veðdeildin megi taka erlend lán til íbúðabygginga að fengnu leyfi ríkisstj. Þau bankavaxtabréf, sem gefin verða út samkvæmt þessu frv., skulu njóta ríkisábyrgðar.

Ef við gerum okkur grein fyrir, hvaðan tekjur eigi að koma til húsnæðismálanna samkv. þessu frv., þá er það í aðalatriðum á þessa leið. Byggingarsjóðurinn á mjög fljótlega, sennilega að loknu þessu ári, að fá árlegar tekjur, sem nema um 23 millj. kr. Það er a.m.k. áætlun, sem gerð hefur verið af starfsmönnum við hagfræðideild Landsbankans, sem hnígur í þá átt, að strax á árinu 1958 geti tekjur byggingarsjóðsins orðið 23 millj. kr. af stofnfé hans og árlegar tekjur hans að öðru leyti 7–8 millj. kr. Þá er enn fremur af sömu mönnum áætlað, að árlegar tekjur af skyldusparnaði geti numið um 15 millj. kr., og mætti þá ætla, að árlegar tekjur byggingarsjóðsins samtals verði 40–45 millj. kr. Þá hefur ríkisstj. tekið á sig þá skuldbindingu að tryggja, að frá bönkum, sparisjóðum, tryggingafélögum og tryggingastofnunum skuli á næsta ári koma ekki minna en 44 millj. kr. til íbúðarhúsnæðislána, og ætti þá samkvæmt þessu, þegar saman er lagt það, sem á að koma gegnum veðlánakerfið og sem stofntekjur og árlegar tekjur byggingarsjóðs ríkisins, að vera um að ræða 84–90 millj. kr. á ári til húsnæðismálanna. Það er alveg vitað mál, að þó að þetta sé miklu hærri upphæð en árlega hefur runnið til þessara mála í gegnum húsnæðismálakerfið að undanförnu, þá er þetta þó takmarkað fjármagn, miðað við þá miklu og brýnu þörf, sem fyrir hendi er að leysa. Skal því alls ekki neitað, að það hefði verið æskilegt, að hægt hefði verið að búa enn betur að þessum málum til þess að leysa þá miklu húsnæðisneyð, sem ríkir einkanlega hér á suðvesturhluta landsins.

Samkvæmt skýrslum Landsbankans hefur heildarfjárveitingin til húsnæðislána hjá búsnæðismálastjórn s.l. 2 ár verið 76 millj. kr., eða nokkru lægri á tveimur árum heldur en hér er ætlazt til að samtals verði til umráða á ári hverju. Þó má geta þess, að eftir því sem byggingarsjóði ríkisins vex fiskur um hrygg, þá hljóta árlegar tekjur hans að vaxa nokkuð með árunum.

Ýmis nýmæli eru í 6. gr. frv. viðvíkjandi lánveitingunum. Ég skal aðeins stikla á þeim helztu. Það er þá fyrst það, að engum einstaklingi má veita lán nema út á eina íbúð. Það var auðvitað meginregla húsnæðismálastjórnar einnig samkvæmt gildandi lögum, en vegna þess að ýmsir aðrir aðilar höfðu heimildir til þess að lána til íbúðarhúsnæðis, kom í ljós, að sumir höfðu lánað einni og sömu fjölskyldu milli 20 og 30 lán. Og það er vitanlega með öllu ósæmilegt að láta slíkt viðgangast, þegar svo verður að synja þúsundum nauðstaddra manna um eitt lán til íbúðar yfir sig og sína.

Vegna þess að vonir standa til, að geta byggingarsjóðs ríkisins vaxi, eftir því sem tímar líða fram, þá er heimild í frv. til þess, að húsnæðismálastjórn megi breyta vaxtakjörum og lánstíma á nýjum lánum að fengnu samþykki ríkisstj. Hér er átt við það, að húsnæðismálastjórnin þurfi ekki að bíða eftir breyt. á l. sjálfum, ef fært þykir að lækka vexti eða breyta lánskjörum að öðru leyti í hagkvæmara horf fyrir lántakendur.

Ákvæði er um það í frv., að setja megi það skilyrði um skiptingu lánsfjárins milli byggðarlaga, að fyllsta tillit sé tekið til nauðsynlegs jafnvægis í byggð landsins. Ég býst við því, að þetta verði framkvæmt á þann hátt, að lögð verði stund á að fullnægja að hundraðshluta til meiri hluta lánsumsókna utan af landsbyggðinni heldur en úr þeim landshlutum, sem fólksstraumurinn beinist að. Ég tel það nokkuð mikilsvarðandi ákvæði í frv., að meðan ekki sé unnt að fullnægja lánsfjárþörf til íbúðarhúsabygginga, skuli þeir umsækjendur að öðru jöfnu sitja fyrir, sem byggi minni íbúðir, enda fullnægi íbúðarstærðin þó þörfum viðkomandi fjölskyldu að dómi húsnæðismálastjórnar. Einnig er húsnæðismálastjórninni heimilað að veita á hverjum tíma hlutfallslega hærri lán til þeirra íbúða, sem hún telur vera af hóflegri stærð, miðað við fjölskyldustærð umsækjanda. Þetta er viðleitni í þá átt að fá sem mest út úr því takmarkaða lánsfjármagni, sem fyrir hendi er, bæði út úr byggingarefni og fjármagni, og er fyllsta ástæða til þess fyrir okkur Íslendinga að fara þar svipaðar leiðir og nágrannaþjóðirnar, að hagnýta sem bezt bæði byggingarefni og fjármagn, meðan við erum bæði í fjármagnsþörf og í gjaldeyrisþröng nokkurri.

Í frv. er einnig ákvæði um það, að veðdeild Landsbankans, sem á að annast afgreiðslu allra lánanna, skuli sjá um, að afgreiðslan og innheimtan geti farið fram í peningastofnunum sem víðast á landinu. Þetta hefur verið, eins og með flest annað hjá okkur, að það hefur allt verið bundið við Reykjavík og lántakendur, hvar sem þeir hafa verið búsettir á landinn, orðið að hafa hér sína umboðsmenn í Reykjavík til þess að annast lántökur og sjá um greiðslu afborgana og vaxta af slíkum lánum hér inn í veðdeild Landsbankans. Nú hefur þetta gerzt til verulegs bagræðis og jafnréttis fyrir fólk, sem býr úti á landsbyggðinni.

Þá kemur að tveimur nýmælum þessa frv. Það er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því, að komið verði á fót sérstakri innnlánadeild, sem skuli starfa á vegum byggingarsjóðs ríkisins. Þeir, sem leggja fé inn í þessa deild, eiga a.m.k. að fimm árum liðnum, frá því að innlög þeirra hófust, kröfu á að fá útborgað fé sitt að viðbættum venjulegum innlánsvöxtum. Og nemi hin innlagða upphæð a.m.k. 5 þús. kr. á ári, þá er skylt að láta þessa menn, sem með frjálsum hætti hafa þannig sparað fé, sitja fyrir um lán til íbúðabygginga, og má húsnæðismálastjórnin hafa lánsupphæðina til þeirra allt að 25% hærri en almennt gerist, þegar lánið er veitt. Þó mega þessi lán ekki verða hærri en nemi 2/3 hlutum af matsverði þeirrar íbúðar, sem lánið er veitt til. Ég hef ekki gert neina áætlun um það, hvað húsnæðismálastjórn eða byggingarsjóði kunni að áskotnast af starfsfé í gegnum þetta ákvæði laganna um frjálsan sparnað, enda er enginn grundvöllur til þess að áætla það fyrir fram, reynslan verður að skera úr um það.

Þá er öllum kunnugt, að í þessu frv. er ákvæði um skyldusparnað ungra manna og kvenna á aldrinum 16–25 ára. Þeim er samkvæmt frv. gert að skyldu að leggja til hliðar 6% af launum sínum, sem greidd eru í peningum, eða sambærilegum atvinnutekjum í því skyni að mynda sér sjóð til íbúðabygginga eða til bústofnunar í sveit. Það fé, sem þannig safnast, á að ávaxta í innlánsdeild byggingarsjóðs ríkisins fyrir alla þá, sem búsettir eru í kaupstöðunum og kauptúnunum, en fé þeirra, sem búsettir eru í sveit, skal ávaxta í veðdeild Búnaðarbanka Íslands. Þau fríðindi, sem þessu fé fylgja, eru sem nú skal greina: Féð er í fyrsta lagi undanþegið tekjuskatti og útsvari og er ekki framtalsskylt. Þá veitir það forgangsrétt til lána, og þessi lán skulu vera 25% hærri en til annarra á sama tíma, og enn fremur skal þessi skylduinnstæða vera vísitölutryggð. Þetta eru hlunnindin, sem unga fólkinu eru ætluð í sambandi við það fé, sem það verður skyldað til að leggja til hliðar með það fyrir augum að taka þátt í því sjálft að leysa í framtíðinni hið stóra vandamál alls ungs fólks að geta eignazt þak yfir höfuðið.

Í frv. eru einnig heimildir til þess, að menn megi byrja að leggja inn í sérstakan sjóð sinn til íbúðabygginga, áður en þeir eru orðnir 16 ára, og megi líka halda skyldusparnaðinum áfram fram yfir 25 ára aldur.

Allvíðtækar heimildir til undanþágu eru í frv., og er skattanefndum heimilað að veita þær undanþágur. T. d. ef fólk er í skóla meira en G mánuði ársins, hefur orðið fyrir sjúkdómum eða slysum, er heimilisfyrirvinna eða gift fólk á í hlut, þá má veita því undanþágu frá skyldusparnaði. Það er ekki nokkur vafi á því, að þessi skyldusparnaður leysir mikinn vanda unga fólksins, og hefur ekki orðið vart við annað en unga fólkið hafi tekið þessu mjög vel og að þetta nýmæli hafi af eldri kynslóðinni einnig mælzt mjög vel fyrir, ekki aðeins talið, að hér sé verið að leysa fjárhagslegt vandamál, heldur líka af mörgum litið svo á, að þetta ákvæði hafi verulega uppeldislega þýðingu fyrir ungt fólk, því að sumir eru þeirrar skoðunar, að allt frá því á stríðsárum hafi unga fólkið í landinu heldur haft of mikið laust fé milli handa heldur en of lítið, þannig að það hafi heldur spillzt af þessari velgengni, að hafa mikið fjármagn handa á milli ávallt og þá auðvitað, — það mundi hafa farið ýmsum eldri þannig líka, — að því hafi ekki alltaf verið varið á sem beztan hátt. Heimild er nú í frv. til þess um ungt fólk á aldrinum 16–25 ára, þegar það fái greidd laun sin, að þá verði sparnaðarféð greitt í merkjum og sett inn í sérstaka bók, og við það vinnst það, að þá liggur fyrir í hendi unga mannsins eða ungu stúlkunnar sönnunargagn fyrir því, hvað hann hafi sparað mikið fé, og þeirri upphæð í sparimerkjabókinni á að bera saman við uppgjörið frá atvinnurekendunum, sem hafa haldið þessu eftir af launum unga fólksins. Þó þótti réttara að hafa þetta í heimildarformi heldur en eins og það var upphaflega í frv., að skylt skyldi að hafa þetta í sparimerkjaformi.

Það voru starfsmenn í hagfræðideild Landsbanka Íslands, sem áætluðu, að tekjurnar af skyldusparnaðinum mundu nema um 15 millj. kr. á ári. Hvort sú áætlun kemur til með að standast eða gera betur en að standast, það skal ég ekki fullyrða um á þessu stigi. Þetta var byggt á nokkurri athugun, sem fram fór á hagstofunni hér í Reykjavík um þetta atriði.

IV. kafli þessa frv. er svo um útrýmingu heilsuspillandi húsnæðis. Í honum eru engar verulegar breytingar frá gildandi ákvæðum um þetta efni. Ég skal aðeins taka það fram, að núna eru til umráða hjá húsnæðismálastjórn 4–5 millj. kr. til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis, af því að bæjarfélögin hafa ekki byggt í það stórum stíl samkvæmt þessum kafla, að féð hafi unnizt upp, og auk þess eru svo á fjárl. núna 4 millj. kr. í þessu skyni. Ef bæjarfélög leggja fram 8 millj. á móti, þá væri þarna á árinu 1957 hægt að byggja íbúðarhúsnæði til útrýmingar heilsuspillandi íbúðum fyrir allt að 16 millj. kr. Vitanlegt er, að Reykjavík hefur stór áform í þessu efni nú og er með verulegt verkefni í fanginu af þessu tagi, og má því alveg við því búast, að nokkur verulegur hluti af þessu fé fari til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis hér í Reykjavík, sérstaklega á braggahúsnæðinu, sem allir viðurkenna að mikil þörf er á að útrýma sem allra fyrst.

Í V. kaflanum eru svo nokkrar bráðabirgðabreytingar á lögunum um verkamannabústaði, hækkun úr 12–18 kr. í 24–36 kr., sem bæjarfélögunum er ætlað að leggja til jafns við byggingarsjóð verkamanna. Það er nokkurn veginn hlutfallsleg hækkun frá því, að þessi tala var síðast ákveðin, við það, sem dýrtíð hefur aukizt, byggingarkostnaður hefur hækkað síðan. Þá eru þarna enn fremur færð til nútímaverðgildis peninga þau tekju- og eignamörk, sem veita heimildir til þess að njóta réttar til lána úr byggingarsjóði verkamanna. Það voru í núgildandi lögum um 7 þús. kr., nú er það sett sem 5 þús. kr. og eignahámarkið 75 þús. kr. En við tekjuhámarkið 50 þús. kr. má bæta 5 þús. kr. fyrir hvern ómaga á framfæri viðkomandi manns. Þetta er nokkurn veginn miðað við það, að verkamaður, sem hafi stöðuga atvinnu allt árið og tvær stundir í eftirvinnu, hafi þó rétt til þess að njóta hinna niðurborguðu vaxta og hins langa og hagkvæma lánatíma, sem byggingarsjóður verkamanna veitir skv. lögunum um verkamannabústaði. Að öðru leyti var mönnum ljóst, að það er full ástæða til að endurskoða þessa góðu og gömlu löggjöf, og er fastráðið, að sú löggjöf skuli endurskoðuð rækilega fyrir næsta þing. En þessum talnaviðmiðunum þótti þó sjálfsagt að breyta á þessa leið nú þegar.

Í sambandi við þetta minnast menn þess, að ríkisstj. hefur ákveðið, að útvegaðar verði 8 millj. kr. til byggingar verkamannabústaða á þessu yfirstandandi ári auk 4 millj. kr., sem nú eru á fjárlögum, sem ættu að tryggja þá 4 millj. kr. framlag á móti fra hæjar- og sveitarfélögum. Það eru því a.m.k. 16 millj. kr., sem ætti að vera hægt að byggja verkamannabústaði fyrir á árinu 1957.

Fleira en ég hef nú tekið fram í sambandi við frv. tel ég ekki ástæðu til að fjölyrða um við þessa umr. Ég tel það þegar augljóst mál, að menn viðurkenna þörfina á auknu fjármagni til íbúðarhúsnæðis, og hitt dylst ekki, að ýmis þeirra nýmæla, sem í frv. felast, hafa fengið góðar undirtektir almenningsálitsins í landinu, og ég efa því ekki, að frv. fær góða og greiða afgreiðslu hér hjá hv. þd. í framhaldi af því, að félmn. hefur þegar athugaðmálið að nokkru.

Ég óska eftir, að málið fái skjóta og góða afgreiðslu hjá hv. heilbr.- og félmn., og læt þar með lokið máli mínu.