21.05.1957
Neðri deild: 102. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1386 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. hefur svo rækilega gert húsnæðismálunum almenn skil hér í sinni ræðu, að það er ekki ástæða til þess, að ég hafi mörg orð um það efni, en það voru þó örfá atriði, sem mig langaði til að minnast hér á við þessa umr.

Það er töluvert lærdómsríkt að bera saman í þessu máli eins og fleirum, sem hér hafa komið fyrir hið háa Alþingi nú, ummæli og fullyrðingar hv. núv. stjórnarflokka nú, eftir að þeir hafa komizt í valdastóla, og áður, þegar þeir voru að deila á fyrrverandi ríkisstj. fyrir hennar aðgerðir. Þá var vissulega meiri stórhugurinn og ætlunin að gera stór átök, eða a.m.k. þess var krafizt af þeirri ríkisstj. eða þeim ríkisstj., að þær gerðu stór átök. Maður gæti freistazt til þess að halda, þegar borin eru saman orðin þá og efndirnar nú, að þessir hv. flokkar bæru jafnvei ekki sama traust til núverandi ríkisstj. og hinna fyrrverandi, vegna þess að þeir ætluðust til svo miklu meira af þeim en þeir ætlast til af þessari ríkisstj.

Ég hef hér fyrir framan mig brtt., mjög veigamiklar, sem fluttar voru á þingi 1954 við húsnæðismálafrv., sem hæstv. þáv. ríkisstj. lagði fram og varð síðan að þeirri húsnæðismálalöggjöf, sem nú gildir. Þær brtt. byrja nú hvorki meira né minna en með þeirri hátíðlegu yfirlýsingu, að sérhver íslenzkur ríkisborgari, sem ekki eigi sjálfur íbúð, sem hæf sé til íbúðar, eigi rétt til að byggja sér íhúðarhús með einni íbúð eða stærra hús, ef hann byggir með öðrum. Á hann kröfu á að fá til þess aðstoð frá því opinbera, sem nánar er kveðið á um í þessum lögum. Síðan koma ákvæðin um lán, allt upp í 90% af kostnaðarverði, og hefðu þessi ákvæði verið lögfest, hefði það verið tvímælalaus skylda ríkisins að sjá um, að menn fengju lán sem þessu næmi. Það hefði vissulega verið ánægjuefni, ef hægt hefði verið að lögfesta þessar stórhuga till., sem þarna voru fram settar af manni, sem nú er mikill áhrifamaður í stjórnarliðinu, og þess hefði vissulega mátt vænta og vafalaust hafa ýmsir gert ráð fyrir því, að þegar nú hann og hans flokksbræður hefðu hin æðstu völd varðandi húsnæðismálin og skipan þeirra, þá mundi vera gert veigamikið átak til þess að tryggja framgang þessarar stóru hugsjónar. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er árangur þessarar baráttu.

Það er að vísu talað töluvert stórum orðum nm það átak, sem hér sé gert í húsnæðismálunum, en ég er hræddur um, að þegar menn fara að koma og leita eftir sínum stóru lánum, sem einu sinni var lagt til að menn ættu kröfu á að fá, þá verði erfiðara um úrlausn en ætla hefði mátt eftir hinum fyrri loforðum.

Það skal að vísu fram tekið, að það er næsta erfitt að átta sig á, hvað raunverulega er hér um að ræða. Það er að vísu ljóst, að það er aðeins um að ræða tvo nýja tekjustofna, annars vegar 1% álag á öll aðflutningsgjöld og hins vegar skyldusparnaðinn. Það eru einu nýju tekjuliðirnir, sem koma samkvæmt þessu frv. Að vísu er um að ræða einhverja smávægilega hækkun á framlagi til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði, en það er hverfandi lítið og skiptir ekki miklu máli. Það ætti að vera nokkurn veginn auðvelt að gera sér grein fyrir, hvað 1% álag á alla tolla gefur, en hitt er auðvitað gersamlega í lausu lofti, hvað skyldusparnaðurinn gefur í aðra hönd, eins og hér hefur áður verið minnzt á.

Það er auðvitað saga út af fyrir sig, hvernig allt þetta tollkerfi er orðið. Það mun hafa verið samþ. hér áður á þingi að leggja 1% ofan á aðflutningsgjöld, siðan kemur annað 1% ofan á aðflutningsgjöld og væntanlega það eina prósent, og það má gera ráð fyrir, að það geti orðið æði mörg prósentin, sem þannig komi áfram, ef svipaðri stefnu verður fylgt. Út í þá sálma skal ég ekki fara, en allt þetta flókna skattakerfi, sem að vísu var flókið áður, hefur nú verið af þessari hæstv. ríkisstj. gert flóknara en það nokkru sinni áður hefur verið, svo flókið, að fjöldamargir, sem með það eiga að fara, eiga erfitt með að átta sig á, hvað raunverulega í því felist, sbr. bjargráðatollana svokölluðu og framkvæmd þeirra. Það er mál út af fyrir sig, og skal ég ekki hafa á móti því, að til þessara þjóðnýtu framkvæmda sé aflað fjár á þennan veg, en það væri vissulega þess virði fyrir hæstv. ríkisstj. að reyna að gera sér grein fyrir því eða hæstv. fjmrh., hvort ekki væri hægt að koma þessu fyrir öllu á þann veg, að ekki yrði úr þessu fullkominn óskapnaður, eins og virðist óneitanlega stefna með þessu álagi á álag ofan, eins og hér er gert ráð fyrir.

En það eru ýmis atriði í sambandi við þetta, sem eru ákaflega óljós og ég vildi leyfa mér að spyrjast fyrir um hjá hæstv. félmrh. og biðja hann að útskýra nánar. Hann hefur vísað til þess, að í grg. frv. væri útskýrt, hvernig tekjum þessa kerfis væri háttað, bæði veðlánakerfisins og byggingarsjóðsins. En ég verð nú að játa, það má segja, að ég sé ekki mikill reikningsmaður, — en ég verð að játa það a.m.k. að mín reikningskúnst nær ekki það langt, að ég geti til hlítar áttað mig á, hvað hér er alls staðar um að ræða, og geri ég ráð fyrir, að hæstv. ráðh. sé reiðubúinn til þess að upplýsa um það.

Í fyrsta lagi er það atriðið, sem er auðvitað veigamesti þáttur þessa máls, a.m.k. þangað til byggingarsjóði vex fiskur um hrygg, hvað verður til ráðstöfunar eftir hinum fyrri ákvæðum hins almenna veðiánakerfis. Það er talað um það í frv., að ríkisstj. muni sjá um, að húsnæðismálastjórn fái til úthlutunar á árinu 1957 eigi minni fjárhæð auk byggingarsjóðsins en 44 millj. kr., og mun hún taka upp samninga við banka og tryggingafélög. Það er nú æði mikið liðið af árinu, og ég vildi leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh., hvort þessir samningar hafi verið gerðir eða hvaða horfur eru um þá eða hvaða leiðir aðrar ríkisstj. hugsar sér þá að fara til þess að tryggja þetta fé. Mér sýnist þetta allt vera ákaflega í lausu lofti og stinga mjög í stúf við það, sem var við undirbúning húsnæðismálafrv. fyrrv. ríkisstj., þar sem beinlínis fyrir fram hafði verið samið um til tveggja ára við bankana, hvaða fé væri til ráðstöfunar. Hér er sagt aðeins það eitt, að það verði séð um þetta í ár, það verði teknir upp samningar við banka og ef það ekki takist, þá skilst manni, að það eigi að afla þess á annan hátt. En ég vil leyfa mér að spyrja: Hefur þetta ekki verið skipulagt lengra fram í tímann, eða er ætlunin e.t.v., að hið almenna veðlánakerfi hætti störfum eftir árið í ár, er það allt í fullkominni óvissu, hvernig verður með þessi lán, sem eru þó stærsti hlutinn af því lánsfé, sem gert er ráð fyrir að verði til ráðstöfunar til húsnæðismálanna? Mér finnst þetta vera mjög veigamikið atriði, og væri æskilegt, að hæstv. ráðh. gæti gefið þm. upplýsingar um, hvað hér raunverulega er um að ræða og hvað er hægt að byggja á þessum óljósu orðum, sem hér er að finna í frv.

Þá vil ég enn fremur leyfa mér að spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ráðh., hvaða 8 millj. það eru, sem vísað er til neðar á 8. bls. í grg.: auk þess greiðir ríkissjóður 8 millj. kr. til verkamannabústaða. Það er rétt, að framlagið til verkamannabústaða var tvöfaldað á fjárl., úr 2 í 4 millj., en hvaða 8 millj. eru þetta, sem þarna koma til viðbótar?

Þá vildi ég enn fremur leyfa mér að biðja hæstv. ráðh. að sundurliða það, hvernig er fengin út sú tala, að á árinu 1957 verði a.m.k. 33 millj. kr. meira til úthlutunar í húsbyggingarlánum hins almenna kerfis, þ.e.a.s. sem beint er lánað af húsnæðismálastjórninni, skilst mér vera, heldur en á árinu 1956.

Þá vil ég í þriðja lagi spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ráðh., hvernig það er fundið út, að af stofnfé byggingarsjóðs ríkisins, sem tilgreint er að nemi 118.2 millj. kr., séu árlegar tekjur 23 millj. kr., að vísu er tekið fram, að það verði á árinu 1958. Ég vildi spyrjast fyrir nm. hvernig það er fundið út, að það verði það það ár — og hverjar verða tekjurnar í ár? Það er, eins og hér var minnzt á áðan, að sjálfsögðu ákaflega villandi, þegar talað er um, að það sé stofnaður byggingarsjóður með 118 millj. kr. stofnfé, og þessu slegið upp. Ég er hræddur um, að hæstv. félmrh. eigi eftir að hafa af því ýmiss konar óþægindi að segja fólki, að það sé myndaður sjóður með 118 millj. kr. framlagi, og það muni ýmsir hugsa sem svo, að þeir gætu e.t.v. fengið lán úr þessum sjóði. En það er nú eitthvað annað. 53.2 millj. kr. af þessu fé eru 2/3 hlutar af væntanlegum stóreignaskatti, sem á að borgast á 10 árum, og allur hinn hluti sjóðsins er gamalt fé, sem er í þessari starfsemi. Það er varasjóður hins almenna veðlánakerfis, sem áður er til, 20.9 millj., það er lán ríkisins til lánadeildar smáíbúða, sem allt er í útlánum, 32.8 millj., og það eru A-flokkabréf ríkisins, sem einnig mun allt vera í útlánum, 11.3 millj., þannig að hér er vitanlega ekki um neitt nýtt fé að ræða nema þessar 5 millj., sem gert er ráð fyrir að stóreignaskatturinn gefi. Ég sé ekki betur en það sé það eina, sem er nýtt fé, en hins vegar talað um það með allmiklu yfirlæti, að það sé stofnaður byggingarsjóður með 118 millj. kr. stofnfé.

Ég vil svo að lokum spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ráðh., hvað mikið verði til útlána á árinu 1957. Hvað mikið fé verður til útlána á árinu 1957 til viðbótar þessum 44 millj., sem ríkisstj. segist ætla að útvega og er það sama og lagt var fram á síðastliðnu ári af hönkunum, hvað há upphæð verður á þessu ári til úthlutunar til viðbótar þessu framlagi banka, sem þarna er gert ráð fyrir? Það er að sjálfsögðu ljóst eða sýnist vera það, að það verði litið, sem komi inn af skyldusparnaði á þessu ári. Stóreignaskatturinn, það er upplýst, að ekkert af honum verði innheimt á þessu ári, þannig að mér sýnist, ef þarna er ekki um einhvern misskilning að ræða hjá mér, að það sé tiltölulega ákaflega lítið fé, sem þarna komi inn til viðbótar, þannig að það sé ekki mikið, sem hægt sé að stæra sig af í því sambandi.

Þetta voru þau atriði varðandi lánsféð, sem til ráðstöfunar er, sem ég vildi sérstaklega biðja hæstv. ráðh. um upplýsingar um, og vona að hann sé fús til þess að gefa þær upplýsingar.

Til viðbótar því, sem ég áðan sagði um undrun manna yfir því, að ekki skyldu vera fram bornar þær stóru hugsjónir, sem áður voru fram settar af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. sumum hverjum, eru ýmis önnur atriði þessa frv., sem hljóta að vekja allmikla undrun hjá þeim, sem minnast fullyrðinga bæði sósíalista og Alþýðuflokksmanna hér á Alþingi, þegar húsnæðismálalöggjöf ríkisstj. var þar til meðferðar. Ekki hvað sízt var þá tvennt, sem var haldið fram, annars vegar, að það væri hin mesta fásinna að vera að setja hér upp eitthvert húsnæðismálakerfi, eitthvert nýtt bákn, og heldur ætti að fela það veðdeild Landsbankans, sem gæti séð um þetta allt saman, - það kom fram í öllum þeim brtt., sem þá voru fram lagðar, og var önnur aðaluppistaðan í áróðrinum, að þarna væri gersamlega fráleitt að vera að setja upp nýtt embættismannabákn, sem ætti að leggja grundvöll að hlutdrægni og öðru illu í sambandi við þessi mál.

Nú gerist það hins vegar, að það er ætlunin að setja upp fasta stofnun, í rauninni miklu veigameiri stofnun en nú er starfandi, og færa út hennar starfsemi á margan máta, og það sem merkilegra er, að það er gert ráð fyrir því, sem var áður stórkostlega fordæmt og talið vera sönnun um, að þarna ætti að beita pólitískri hlutdrægni við lánveitingar, að fulltrúi Landsbankans hefði ekki atkvæðisrétt um lánveitingar. Það var m.a. bent á það þá af hæstv. núverandi félmrh., að þetta væri fullkomlega vitavert og sýndi, hver ætlunin væri með þessu, að láta þann manninn, sem helzt hefði vit á þessum málum, alls ekki hafa atkvæðisrétt um lánveitingar. Þetta er annað atriði málsins, sem þessir hv. núverandi forustumenn í þjóðmálum og í ríkisstj. hafa sjálfir gersamlega fallið frá, og hitt atriðið, sem ekki er minna, er ákvæðin um vextina. Það var tekið fram af hv. þáverandi 2. þm. Reykv., að það væri fullkomin óhæfa að hafa þessa vexti svona háa, og hæstv. núv. menntmrh. flutti þá langt mál um það, að þetta sýndi, að það væri alls ekki ætlunin að leysa húsnæðismálin, því að þarna væri gengið svo hart að fólki, að það væri gersamlega útilokað, að fólk gæti staðið straum af þessum mikla kostnaði, sem þessir háu vextir leiddu af sér, og það var sýnt fram á það, hvað menn gætu hæst staðið undir húsaleigu. Auðvitað er það rétt, sem þá var haldið fram, að það er ekki einhlítt að setja ákvæði um, hvað menn eigi að greiða öðrum í húsaleigu, það verður einnig að vera auðið fyrir menn að greiða þá húsaleigu, sem þeir verða að greiða sjálfum sér með vöxtum og afborgunum af lánum, sem á þeirra íbúðum hvíla. En nú hefur einnig þetta gersamlega gleymzt, og öll ákvæði, sem áður giltu um vexti og annað, sem þá var talið gersamlega óalandi og óferjandi, það er allt saman innleitt í þessu nýja frv. og engin breyting gerð á því, sem áður gilti um það efni.

Þegar þessi tvö meginatriði eru íhuguð og þegar það enn fremur er lesið niður í kjölinn, hversu raunverulega veigalitlar þær nýju fjáraflanir eru, sem nú er gert ráð fyrir, þá hlýtur það að vekja hina mestu undrun, að hæstv. félmrh. skuli hafa brjóstheilindi til að halda því fram hér á hinu háa Alþingi og láta hafa það eftir sér í málgagni sínu, Þjóðviljanum, að hér séu hinir núverandi stjórnarflokkar að uppfylla stórkostleg loforð, sem eigi að leysa vandræði þeirra þúsunda, sem nú bíða eftir lánum, og það sé eitthvað annað en fyrrv. ríkisstj. hafi talað um. Það er sannað, að fyrrv. ríkisstj. stóð við sín loforð og þau orð, sem hún viðhafði, en það hlýtur hins vegar að fullsannast af þessu frv., sem hér liggur fyrir, að því fer svo víðs fjarri, að það sé í nokkurn námunda við, að þessi hæstv. ráðh. og ýmsir hans stuðningsbræður í ríkisstj. hafi nokkra viðleitni til að standa við allar þær fullyrðingar og fyrirheit, sem þeir hafa áður gefið almenningi í þessu landi.