21.05.1957
Neðri deild: 102. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1410)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Jónas Rafnar:

Herra forseti. Það má segja, að á síðustu árum hafi húsnæðisvandræðin í bæjunum verið eitt af þeim málum, sem þurft hefur að leysa og hefur valdið margvíslegum erfiðleikum og þurft ýmiss konar ráð til þess að finna þar einhverja bót á. Fyrir þessu liggja að sjálfsögðu eins og öðru harla margar ástæður, fyrst og fremst sú ástæða, að Fólkinu hefur fjölgað mjög mikið í bæjunum og í bæina hefur verið misjafnlega mikið aðstreymi af fólki utan af landsbyggðinni, og svo það ekki sízt, að með aukinni velmegun þjóðarinnar hefur fólkið að sjálfsögðu gert auknar kröfur um betra húsnæði.

Í þessu sambandi er varla hægt að komast fram hjá þeirri hugsun, að í allri þeirri uppbyggingu, sem hér hefur átt sér stað á síðari árum, hafi það eiginlega gleymzt, að það er engu síður þýðingarmikið, að fólkið í bæjunum og raunar alls staðar á landinu hafi viðunandi þak yfir höfuðið. Það er engu síður þýðingarmikið en það, að atvinnuvegirnir geti staðið á eigin fótum. Það er nauðsynlegt, að fólk búi í sæmilegu húsnæði, ekki sízt í landi eins og okkar landi, þar sem veðurskilyrðin eru þannig, að gott húsnæði er nauðsynlegt.

Flestir sanngjarnir menn munu vera sammála um það, að fyrrv. ríkisstj. hafi gert myndarlegt átak með löggjöfinni frá 1955 í þá áttina að leysa vandræði þeirra manna, sem þá voru að byggja. Með lögunum um nýja veðlánakerfið var hafizt handa um að útvega fé í þessu skyni, og það má segja, að þá fyrst eftir mörg ár, eða síðan veðdeild Landsbankans hætti að lána út fé til íbúðabygginga, hafi húsbyggjendur fengið lánsfé með viðunandi kjörum.

Að sjálfsögðu hafa vissar stéttir þarna sérstöðu, eins og opinberir starfsmenn, sem hafa fengið fé að láni í lífeyrissjóðum, en allur fjöldi manna hefur ekki fyrr en 1955 haft aðstöðu til þess að fá lán með bagstæðum kjörum.

Fyrrv. ríkisstj. tókst á einu ári eða rúmlega einu ári að útvega í þessu skyni töluvert yfir 100 millj. kr., og verður ekki annað sagt en að þarna hafi verið um allmyndarlegt átak að ræða.

Það var engin furða, þó að húsnæðismálin væru nokkuð ofarlega á baugi fyrir síðustu kosningar. Þetta var mál, sem skipti svo marga landsmenn.

Núverandi stjórnarflokkar höfðu þó í þessu töluvert ólíkar skoðanir og ólík sjónarmið. Framsfl. deildi á of mikla fjárfestingu, taldi, að sú mikla fjárfesting, sem hér hefði verið undanfarin ár, væri að sliga þjóðarbúskapinn og þá að sjálfsögðu fyrst og fremst íbúðabyggingarnar í kaupstöðunum. Hins vegar gaf Alþb. sínum kjósendum þau fyrirheit, að ef það næði völdum, þá mundi það beita sér fyrir því, að byggt yrði yfir alla húsnæðisleysingjana í Reykjavík.

Þarna voru því nokkuð ólík sjónarmið, og maður skyldi ætla, að eftir að þessir tveir flokkar mynduðu með sér ríkisstj., hefði komið til áreksturs út af þessu máli. En þetta mál virðist hafa verið leyst þannig, að báðir aðilar fengu nokkuð.

Fjárfestingarreglunum var ekki breytt, sem sé að menn gátu eftir sem áður byggt óhindrað og þurftu ekki að sækja um leyfi til þess að byggja yfir sig íbúðir, það var óbreytt. En þá gerðist það, að með algerðu aðgerðaleysi ríkisstj. var svo til skrúfað fyrir allar lánveitingar til íbúðabygginga, og þetta varð til þess, að mjög fór að draga úr íbúðabyggingum, þ.e.a.s. færri menn en áður þorðu að ráðast í það að koma sér upp viðunandi húsnæði.

Í stuttu máli er óhætt að segja það, að hæstv. ríkisstj. hafi í þessu máli að útvega húsbyggjendum lánsfé eða útvega lánsfé til veðiánakerfisins gersamlega brugðizt. Þar sem ég þekki til úti á landsbyggðinni, hafa sárafá lán komið úr veðdeildinni núna á þessu sumri, og því miður hafa þeir menn, sem sótt hafa um lánin, fengið þær undirtektir, að það er ekki að búast við neinni verulegri úrbót á næstunni.

Í frv. því, sem hér liggur nú fyrir til 1. umr., má segja, að ekkert liggi fyrir, sem leysi vandann núna í dag. Ég vil undirstrika það: Það er ekki eitt einasta atriði í þessu stjórnarfrv., sem leysir vandræði þeirra manna, sem í dag eru að byggja og eru að sligast undir sínum skuldum.

Vegna dugnaðar fyrrv. ríkisstj. höfðu margir gert sér vonir um það, eftir að þeir peningar voru fengnir, sem stjórnin útvegaði, að á þessu yrði áframhald. Menn töldu, að eftir að ríkisstj. hafði hafizt svo myndarlega handa að útvega á tæpu ári 100 millj. kr. í þessu skyni, þá hlyti að verða framhald á þessu. En einmitt það, sem gerist, er það, að eftir að núverandi ríkisstj. tekur við völdum, virðast framkvæmdir í þessum málum gersamlega hafa stöðvazt.

En það er nú sorgarsaga, að burt séð frá þessu eina máli hefur ekkert verið gert til þess að létta undir með húsbyggjendum, síður en svo. Staðreyndirnar eru þær, að það, sem ríkisvaldið hefur gert í sambandi við húsbyggingar í landinu, hefur verið og verkað í öfuga átt.

Ég vil nefna aðelns örfá dæmi: Nýskeð eða 1. maí hækkaði stimpilgjald á sölu íbúða og húsa, það þrefaldaðist til fjórfaldaðist, þ.e.a.s., að þegar menn keyptu íbúðir og verð ekki gefið upp, en miðað við, 5-falt fasteignamat. Nú skeður það, að eftir hækkunina á fasteignamatinu hafa þessi gjöld þrefaldazt til fjórfaldazt, og miðað við t.d. meðallbúð á Akureyri, þarf fátækur maður, það er náttúrlega ekki tekið tillit til efnahags, að greiða í ríkissjóðinn eingöngu fyrir það eitt, að hann kaupir handa sér íbúð, 6–7 þús. kr. skatt fyrir stimplun og þinglestur.

Með jólagjöfinni svonefndu hækkaði byggingarefni mjög verulega, og ýmsar þær vörur, sem áður voru á bátallsta, eins og t.d. hreinlætistæki, margvíslegar þilplötur, hafa gífurlega hækkað í verði. Það hefur verið reynt að vinna á móti þessari þróun með því að hafa verðlagsákvæði á byggingarefni eins og öðru. Það mætti ætla og er líklegt, að þetta hafi þó orðið nokkuð til gagns fyrir húsbyggjendur. En í því sambandi er hægt að benda á það atriði, að mjög margar byggingarvöruverzlanir, og mér er sérstaklega kunnugt um verzlanir úti á landi, hafa haft þann háttinn á að lána viðskiptamönnum sínum úttekt til margra mánaða. Með því móti hafa viðskiptavinirnir sparað sér 7–8% vexti af því fé, sem þeir hafa lagt fram til þess að fá byggingarefni.

Eftir að verðlagsákvæðin komu til sögunnar, munu flestar, ef ekki allar byggingarvöruverlanir hafa orðið að hætta því að veita mönnum gjaldfrest; í öllum tilfellum hafa þær orðið að taka vexti af því fé, sem þær hafa lánað.

Þá má benda á það, að vegna stefnunnar í efnahagsmálunum hefur orðið mun erfiðara fyrir sparisjóði og banka að veita mönnum fé út á byggingar. Ég held, að það sé ekki of mikið sagt, að sparisjóðir, bæði hér í Reykjavík og úti á landi, hafi mjög mikið dregið úr lánum til íbúðabygginga, og það stafar einfaldlega af þeirri ástæðu, að spariféð streymir ekki eins ört til þessara stofnana og áður og þeir hafa því ekki haft efni á því og getu að veita mönnum lán eins og þeir gerðu þó áður.

Það verður að viðurkennast, að eins og nú er háttað í okkar efnahagsmálum, sé ekki auðhlaupið að því að leysa vanda allra þeirra manna, sem nú standa í því að byggja yfir sig eða eignast húsnæði. En ég held, að ef eigi núna að ráða bót á brýnasta vandanum, þ.e.a.s. ef það á að hjálpa þeim mönnum, sem eiga erfiðast, og þá eru það að sjálfsögðu barnamennirnir, þá þurfi að grípa til sérstakra ráðstafana og allt annarra ráðstafana en þeirra, sem koma fram í því frv., sem liggur hér fyrir til umr.

Ég tel, að það þyrfti að kanna möguleikana á því að reyna að fá eitthvert lán erlendis til þess að leysa brýnustu vandræðin og koma þannig þeim mönnum til hjálpar, sem erfiðasta aðstöðuna eiga. Ég tel, að þegar verið er að athuga um lánsútveganir erlendis, sé ekki alltaf ástæða til þess að hafa óskir þeirra, sem eru að byggja, neðstar á listanum, og ég vil skora á hæstv. ríkisstj., að hún taki til rækilegrar athugunar nú í sumar, þegar hún heldur áfram með sínar lánsútveganir erlendis, hvort ekki sé hægt að hlaupa þarna eitthvað undir bagga.

Þá þyrfti að sjálfsögðu að gera raunhæfar ráðstafanir til þess að efla sparifjáraukninguna hér innanlands. Það er flókið mál, og koma þar sjálfsagt margar leiðir til athugunar, en það er staðreynd, sem allir eru sammála um, að ef ekki er hægt að auka spariféð, þá verður ómögulegt í framtíðinni að standa undir þeirri fjárfestingu, sem nú er hafin og nauðsynleg er á næstu árum.

Og að lokum er það eitt atriði, sem hæstv. ríkisstj. hlýtur að hafa í hendi sinni að framkvæma, og það er að afnema þær drápsklyfjar, sem nú hafa verið lagðar á allt byggingarefni. Það er ákaflega erfitt að skilja, að það sé nauðsynlegt að skattleggja einmitt þessar nauðsynjar, einmitt þessar vörur, sem óhjákvæmilegt er að fluttar séu til landsins, til þess að hægt sé að búa í þessu landi og lífa hér mannsæmandi lífi.

Þetta frv. er nú til 1. umr., og við 2. umr. gefst að sjálfsögðu tækifæri til þess að ræða elnstakar greinar þess nánar.