21.05.1957
Neðri deild: 102. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1394 í B-deild Alþingistíðinda. (1411)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég vil nú þakka hv. stjórnarandstæðingum fyrir þann brennandi áhuga, sem þeir sýna þessu máli með þessum afar löngu ræðum sínum. Það getur ekki sprottið af öðru heldur en miklum vilja til þess að láta til sín taka í málinu, þó að getan virðist vera frekar lítil, en það verður að virða til vorkunnar.

Ég get t.d. ekki sagt annað um ræðu hv. þm. Ísaf. (KJJ) heldur en það hafi verið eitt af því aumasta og vesællegasta framlagi í mál, sem ég hef nokkurn tíma heyrt hér á Alþingi, en ég tek viljann fyrir verkið. Vinnubrögð hans voru þar að auki dálítið furðuleg, því að hann er búinn að starfa að þessu máli í n. í hv. Ed. og málið á að lokinni 1. umr. að fara til n., sem hann á sæti í hér í þessari hv. d., en samt heldur hann hér langa þynnkuræðu um málið, áður en því er vísað til áframhaldsmeðferðar til n., sem hann á sæti i. Þetta sýndist vera nokkurn veginn óþarft, en það er nú búið og gert og ekkert við því að segja. Hann hefur aðeins verið að sýna sinn mikla áhuga fyrir þessu máli með þessari ræðu sinni.

Hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) er eins og oft áður brennandi af áhuga fyrir þessu máli og hafði mikið mál að flytja, hafði allt á hornum sér viðvíkjandi frv. sjálfu, fullyrti, að það hefði verið ótrúlega illa vandað til þess, en rökstuddi það auðvitað á engan hátt. Hann sagði, að það hefðu verið gerðar óskaplega miklar breytingar á þessu frv. í hv. Ed. Það er ýkjusaga. Það voru fluttar 16 brtt. við frv., flestar orðalagsbreytingar, og engin þeirra snerti að verulegu leyti meginefni frv. 16 brtt. við frv., sem er í mörgum greinum og 6 köflum, eru engin nýlunda hér á Alþingi, sízt af öllu þegar um er að ræða frv., sem innihalda mörg nýmæli, eins og þetta gerir. Þess var beinlínis óskað af mér, þegar ég lagði frv. fyrir Ed., að n. færi vandlega yfir frv. og athugaði breytingar, sem hún teldi nauðsynlegar á því eða æskilegar, og það gerði n. og gerði það vel, og var ég ánægður með allar hennar brtt.

Á brtt. minni hl. n. sá ég hins vegar, að minni hl. hafði verið mjög hrifinn af flestum nýmælum þessa frv. og hafði engar efnislegar breytingar við það að gera. Það var bersýnilegt, að ástæðan til þess, að minni hl. n. flutti brtt., ekki við frv. sjálft, heldur við gildandi húsnæðismálalöggjöf, var sú ein, að nm. gátu ekki tekið efni frv., sem fyrir lá, og fléttað inn í brtt. sínar, nema með því móti að taka efni frv. og flytja það í brtt: formi við gildandi löggjöf um húsnæðismál. Þá var hægt að flytja nýmæli frv. í brtt.- formi af minni hl., og það gerði hann.

Hv. 5. þm. Reykv. sagðist vefengja þær tölur, sem ég hefði farið hér með í framsöguræðu minni, Ég hygg, að það verði nokkuð erfitt fyrir hann að vefengja þær, því að það fer ekkert á milli mála, að eftír því sem næst verður komizt, verða árlegar tekjur byggingarsjóðsins í kringum 23 millj., tekjurnar, sem tryggt verður að komi frá bönkum, sparisjóðum, tryggingastofnunum og tryggingafélögum, verða 44 millj., og af sparnaðinum er áætlunin um það, að tekjurnar verði að meðaltali á ári 15 millj., að undanteknu árinu í ár, þar sem aðeins er gert ráð fyrir 71/2 millj., þ.e.a.s. að skyldusparnaðurinn komist á á hálfnuðu þessu ári.

Þetta gerir það að verkum, að tölurnar liggja hér fyrir á þá lund, að tekjur byggingarsjóðs ag veðlánakerfis verði samtals á ári frá 85 til 90 millj. kr., í stað þess að skýrslur Landsbankans sýna, að tekjur húsnæðismálastjórnar tvö s.l. ár voru aðeins 76 millj., þ.e.a.s. 38 millj. kr. að meðaltall hvort árið um sig.

Hv. 5. þm. Reykv. sagðist mótmæla því, að fólkið hefði verið blekkt, þegar lögin um húsnæðismálastjórn, veðlánakerfi o.fl. voru sett fyrir tveimur árum.

Það er öllum kunnugt, að þegar þessi löggöf var borin hér fram, þá var það útbásúnað, það finnst líka í ræðum manna hér á Alþingi, að þá var gefið fyrirheit um það, að þeir, sem þá réðust í að byggja, skyldu fá 100 þús. kr. lán, hver sem byggði yfir sig. Þetta varð til þess, að mjög mikill fjöldi manna réðst í að byggja, og þá kom í ljós, að það var illa hægt að standa við þetta. Það komu ekki 100.5 millj. kr. inn í veðlánakerfið á hverju ári, eins og hv. þm. Ak. (JR) var að geipa hér um áðan. Það komu engar 100 millj. kr. á ári. Það var þetta 37–38 millj. kr. á ári. Það var lofað í grg. með frv. fyrir tveimur árum 100.5 millj. kr. hvort árið um sig, 201 millj. kr. áttu það að vera á tveimur árum, en það urðu 76 bæði árin.

Vitanlega eru þetta vanefndir. Það er þetta, sem olli vonbrigðum fólksins. Fólkið, sem hafði verið lokkað með gullnum loforðum í að hyggja, stóð uppi í vandræðum, og unnvörpum urðu menn meira að segja að gefast upp við að byggja í miðju kafi.

Þá var það auðvitað úrlausn flestra að leita til vandamanna sinna, vina og kunningja og fá að láni hjá þeim handbært fé til þess að geta haldið byggingunni áfram. Af þessari ástæðu sogaðist verulegur hluti af sparifjármyndun landsmanna beint í íbúðabyggingarnar án milligöngu banka og sparisjóða.

Hv. 5. þm. Reykv. hefur hér margoft talað um hina rýrnandi sparifjármyndun. Er ekki hér að finna nokkurn hluta skýringarinnar á þessu fyrirbæri? Ég fullyrði: Þetta er að verulegu leyti ástæðan til þess, að sparifjáraukning hefur ekki haldið áfram með sama hætti og áður var eftir þeim tölum, sem hann fer hér með. Það er engum nema kannske honum neitt dularfullt fyrirbæri, að það er beint samband milli sparifjárupphæðanna í bönkunum og byggingarstarfseminnar, sem skortir lánsfé. Það munu flestallir skilja það.

En svikamylla Sjálfstfl. í þessu máli er í stuttumáli á þessa leið: Fyrst var lofað stórfé til íbúðarhúsabygginga. Síðan réðust þúsundir manna í framkvæmdir í trausti þeirra loforða. Því næst voru loforðin svikin á hinn herfilegasta hátt. Þá reyndu húsbyggjendur að bjarga sér með því að fá lán hjá vinum og kunningjum. Við það minnkuðu að sjálfsögðu sparifjárinnlög í banka og sparisjóði og síðan notuðu bankastjórar íhaldsins minnkandi sparifjármyndun í bönkunum sem röksemd fyrir því, að það yrði að neita að lána nokkurn eyri til íbúðahúsabygginga. Þá er kominn hringurinn.

Þegar svo var leitað til bankanna núna á þessu vori um að leggja fram svipað fé í ár og þeir höfðu gert s.l. tvö ár til húsnæðismálanna, þá sögðu þeir nei og undirskrifuðu allir, og í bréfinu stóð: Við skulum byrja að tala aftur um málið í júlímánuði. (JóhH: Undirskrifuðu allir?) Þeir undirskrifuðu það allir bankastjórarnir, já. (MJ: Eru það tómir íhaldsmenn?) Pétur Benediktsson var auðvitað gerður að höfuðsmanninum. Hann var látinn semja bréfið, og hann var fyrsti maðurinn, sem skrifaði undir það, og hinir skrifuðu svo undir með honum.

Þetta var þjónusta bankanna núna í byrjun þessa árs við þetta mikla áhugamál Sjálfstfl., sem 5 ræðumenn hans hafa nú verið að lýsa áhuga sínum á.

Annars verð ég nú að segja það, að ég er ekki alveg sannfærður um, að niðurstöður hv. 5. þm. Reykv. séu hárnákvæmar, þegar hann talar um sparifjármyndunina. Ég er hér með marzhefti Hagtíðindanna. Þar kemur í ljós, að spariinnlán í desember 1955 í sparisjóðum voru upp á 254.6 millj. Sparifjárinnián í sparisjóðum í desembermánuði 1956, nú fyrir áramótin, voru aftur 317.1 millj. kr. Vöxturinn er þarna á þessu ári úr 254 millj. í 317 hjá sparisjóðunum. Að því er snertir spariinnián í bönkum, þá segja Hagtíðindin, að í janúar 1956 voru það 928 millj. 697 þús., en í janúar 1957 1 milljarður 1 milljón 218 þús. M.ö.o.: þarna er um að ræða 72 millj. kr. aukningu á spariinniánum í bönkunum, miðað við eitt ár, fram að áramótunum núna. Þegar þar við bætist svo það samhengi, sem ég áðan benti á milli húsbyggjendanna í lánahungri og talnanna í bönkum og sparisjóðum, þá held ég, að þarna sé nokkurn veginn fengin upplýsing um það, að sparifjáraukningin í landinu hafi sannarlega ekki gengið til þurrðar fyrir það, þó að Sjálfstfl. hætti að hafa forustu í ríkisstj.

Hv. 5. þm. Reykv. taldi, að aðgerðir stjórnarinnar í húsnæðismálunum mundu miðast við bæjarstjórnarkosningarnar hér í Reykjavík. Það er hinn mesti misskilningur og herfilegasta fjarstæða að bera slíkt fram. Það var með frv. um veðlánakerfi fyrir tveimur árum miðað við, að þar væri byggt upp kerfi til tveggja ára. Hér er gengið út frá því, að 10 ára tímabil móti þær aðgerðir, sem hér er um að ræða í frv., og þess vegna algerlega hugarórar, að nokkuð sé verið að taka tillit til bæjarstjórnarkosninga, sem standi fyrir dyrum upp úr næstu áramótum.

Þá fór hv. 5. þm. Reykv. mjög fjarstæðukenndum orðum um það, að allar íbúðir væru að mínu áluti og núverandi ríkisstj. taldar lúxusíbúðir, ef þær væru fjögurra herbergja eða stærri. Það er hvorki stafur né stafkrókur, sem bendi í þessa átt, í þessu frv. Það er einmitt talað um það, að íbúðastærðirnar skuli húsnæðismálastjórnin fyrst og fremst miða við fjölskyldustærð.

Annars er það mikil spurning auðvitað, hve stórt á að byggja, og þar verður nokkurt tillit, að minni hyggju, að taka til þess, hversu brýn húsnæðisþörfin er. Ef hún er mjög brýn og mikið af því viðfangsefni óleyst, þá skilst mér, að það sé eðlilegt, að það sé reynt að fara af eins mikilli hagsýni bæði með lánsfjármagn og byggingarefni og unnt sé til þess að geta fullnægt þörf sem allra flestra.

Það má vel vera, að Sjálfstfl. vilji gerast talsmaður fyrir hinni stefnunni, að í miklum húsnæðisskorti beri að byggja stórt, beri að byggja fimm og sex herbergja íbúðir yfirleitt. Það má vel vera, að það sé hans stefna. Ég get samt ekki aðhyllzt hana, af því að mér er það ljóst, að fjögurra, fimm og sex herbergja íbúðir, sem byggðar eru nú, kosta mörg hundruð þúsundir króna, og það er ekkert af fólkinu í bröggunum, ekkert af fólkinu í kjallaraíbúðunum, ekkert af fólkinu í skúrunum, ekkert af fólkinu í hanabjálkaíbúðunum, sem hefur efni á því að byggja sér og notfæra sér slíkar íbúðir. Það verður því ekki það fólk, sem verður byggt fyrir með þeim byggingarhætti. Það verður efnaða fólkið, ríka fólkið, sem getur farið í þær íbúðir, og svo er meiningin að smokka hinu fólkinu aftur inn í annað lélegra húsnæði borgarinnar. Það væri miklu nær að minni hyggju, ef byggingastarfsemin miðast við að leysa húsnæðisskort þeirra, sem verst eru settir í þeim efnum, að byggja 3 herbergja og nokkuð af 2 herbergja íbúðum líka, eins og Danir, Svíar og Norðmenn hafa gert, til þess að fullnægja þörf unga fólksins, eldra fólks og fámennari fjölskyldna hjá efnaminna fólki. Og ég er alveg viss um það, að ef með þeim hætti væri hægt að bæta úr neyðarástandi fleira fólks en ella, þá væri það ekki illa séð og það væri heldur ekki ranglát stefna og ekki tekið illa af því fólki, sem annars verður að hírast um ófyrirsjáanlegan tíma í óviðunandi húsnæði.

Í frv. er hins vegar sagt, að húsnæðismálastjórnin skuli taka tillit til fjölskyldustærðar, og þegar um stórar fjölskyldur er að ræða, þá ber henni auðvitað að samþykkja allstóra íbúð. Það er ekkert bann við, að byggja megi stærra en 4 herbergja íbúð.

Þetta var nú það helzta, sem hv. 5. þm. Reykv. talaði um. Auk þess spurðist hann svo fyrir um, hvort það slys hefði átt sér stað, að það hefði verið byrjað að útbýta hér húsaleigufrv. og síðan hefði það verið lokað inni í skáp. Mér er ekki kunnugt um, að neitt slys hafi átt sér stað. Ég held, að hér hafi ekki verið útbýtt neinu húsaleigufrv. á Alþingi og menn þurfi engar áhyggjur að hafa af því.

Þá vitnaði hann mjög í, hvernig væri ástatt í húsnæðismálunum í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Það eru mjög ýtarlegar upplýsingar með frv., eins og það var lagt fram, um aðgerðir hins opinbera í byggingarmálum Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur. En ég vil segja það, að það eru aðeins fyrstu skrefin, sem við erum að stíga í þá átt, sem Norðmenn, Danir og Svíar hafa fyrir löngu stigið. Við erum þar miklir eftirbátar, og öll sú aðstoð, sem bæjarfélög og ríki veita einstaklingunum til þess að eignast skýli yfir höfuðið í nágrannalöndum okkar, er svo óralangt á undan okkur, að við erum þar aðeins byrjendur.

Þá tók hér næst til máls hv. 2. þm. Eyf., og hann þóttist lítið vita um þessi mál og spurði og spurði í þaula, spurði um flest það, sem hann hefði getað fengið svör við, ef hann hefði gefið sér tóm til að lesa frv. eins og það var lagt fram með þeim fylgiskjölum, sem því fylgdu. Hann byrjaði á því að ræða um till., sem hér höfðu verið bornar fram um húsnæðismál fyrir 2 árum, og það var frv., sem Einar Olgeirsson mun hafa flutt, og inn í þær till. tók hann eitt efni verkamannabústaðalaganna. Ég tók eftir því, að hv. 2. þm. Eyf. sagði: Þar var till. um, að það skyldi veita allt að 90% lán af byggingarkostnaði; mikill stórhugur, en nú örlar ekkert á slíku. — Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að þetta ákvæði hefur verið í mörg ár og er enn í l. um verkamannabústaði og var ekkert nýmæli þarna í þessum till., ekkert sem sýndi sérstakan stórhug stjórnarandstöðumannsins þá. Þetta er í l. um verkamannabústaði enn í dag, þótt hv. 2. þm. Eyf. viti ekki um það.

Hann sagði, að eina tekjuöflunin, sem væri ný í þessu frv., væri 1% gjaldið, sem á að innheimta af tolltekjum ríkisins. Það fannst honum of lítið, að það , skyldi aðeins vera þetta. En hann sagði, að það væri alveg ótækt að vera að leggja svona á nýjan skatt. Hann vildi í burt þessa tekjuöflun. Þó er þetta alrangt. Meðal stofnfjárliða byggingarsjóðs ríkisins er t.d. lán ríkisins til lánadeildar smáíbúða. Þetta fé lánaði ríkissjóður á sínum tíma til útlánanna vegna smáíbúðakerfisins, og ríkissjóður hafði aldrei afsalað sér þessu fé. Þetta er nú um 33 millj. kr., en nú hefur ríkisstj. ákveðið, að þetta fé, jafnóðum og það kemur aftur, vextirnir og lánsupphæðirnar, skuli renna í byggingarsjóð ríkisins. Það eru þess vegna 33 millj. kr., sem þarna eru víst fé, sem rennur inn í byggingarsjóðinn. Annars hefur hv. þm. þetta á bls. 18, hvernig stóð með eignirnar í varasjóði hins almenna veðiánakerfis. Hér er það gert upp í töflunni, sem hagfræðideild Landsbankans gekk frá sem fylgiskjall með frv. Árið 1956 eru engar tekjur hjá byggingarsjóði eða framlög vegna stóreignaskatts eða neins slíks, en eign í árslok 1956 er 69 millj. 350 þús. kr. Nú verður eign stofnsjóðsins 118.3 millj. kr. Það þýðir, að nærri 49 millj. kr. verða viðbótareign stofnsjóðsins nú.

Þá spurði hv. þm.: eru samningar við bankana búnir? — Nei, samningar voru teknir upp við bankana. Við fengum þetta langa og mikla bréf frá Pétri Benediktssyni og hans félögum, sem var það lengsta nei, sem ég hef nokkurn tíma augum litið, það var upp á margar þétt vélritaðar síður og loforðið svo um það, að við skyldum byrja að tala aftur um málið í júlí. En ríkisstj. hefur gefið skuldbindingu um það, að bankar, sparisjóðir, tryggingafélög og tryggingastofnanir skuli leggja sömu upphæð og þessar stofnanir tóku að sér að greiða til húsnæðislána á undanförnum tveimur árum, þ.e.a.s. 44 millj. kr., og ég er alveg sannfærður um, að við það verður staðið.

Þá var spurt: Hvaða 8 millj. eru það, sem eiga að fara til verkamannabústaða í viðbót við þær 4 millj. kr., sem eru á fjárl.? Þessu er ljúft að svara. 4 millj. eru á fjárl., og á móti því koma allt að 4 millj. kr. frá sveitarfélögum samkvæmt lögunum um verkamannabústaði, en ríkisstj. hefur þegar útvegað 8 millj. kr. til afhendingar byggingarsjóði verkamanna til starfsemi á þessu ári, þannig að ef sveitarfélögin greiða fullt á móti því, sem á fjárl. er, þá eru það 8 millj. og 8 millj. kr., sem ríkissjóður hefur þegar útvegað sem handbært fé til byggingarsjóðs verkamanna. Byggingarsjóður verkamanna getur því á þessu ári byggt fyrir allt að 16 millj. kr., í stað þess að hann hafði 4 millj. kr. s.l. ár.

Hvernig eru svo fundnar tekjurnar 1958? spurði hv. 2. þm. Eyf. Þær eru fundnar á þann hátt, að gengið er út frá, að bankar, sparisjóðir, tryggingafélög og stofnanir sjái um 44 millj. kr. Þá segir hér í töflu hagfræðideildar Landsbankans: Á árinu 1958 verða tekjur af byggingarsjóði ríkisins 7 millj. 840 þús., og tekjurnar, sem koma inn á árinu 1958 af stóreignaskattinum, verða 15 millj. 330 þús. Samtals 23 millj. 330 þús. Auk þess svo 4 millj. á fjárl. til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði, og að því meðtöldu 27 millj. 330 þús. Þá á því ári 103 millj. 700 þús. Nú get ég ímyndað mér, að menn hnjóti um þetta, að tekjurnar af stóreignaskattinum verði strax á árinu 1958 hvorki meira né minna en 15 millj. 330 þús. kr., en þetta stafar af því, að í frv. um stóreignaskattinn, sem við vorum að ræða hér í gær og í nótt, er ákveðið, að þeir skattgreiðendur, sem eiga að borga tiltölulega smáar upphæðir í skatt, skuli ljúka þeirri greiðslu á árinu 1958 í einu lagi. Aftur á móti skulu allir hinir stærri skattgreiðendur fá að skipta sinni skattgreiðsluupphæð á 10 árin. Þetta gerir það að verkum, þegar reiknað var út, að 2/3 hlutarnir af stóreignaskattinum, sem eiga að renna í byggingarsjóð ríkisins, eiga að skila sínum 15 millj. 330 þús. kr. á árinu 1958. Það er því nokkurn veginn gefinn hlutur, að byggingarsjóður ríkisins hefur þá að veðlánunum meðtöldum til húsnæðismálalána 7.8 millj. í viðbót og 15.3 millj. í viðbót, og að öllu samantöldu munu veðlánakerfið og byggingarsjóðurinn þá hafa milli 80 og 90 millj. kr. til umráða. En enn betur er hægt að sjá þetta, ef menn bera saman skýringargreinina við 9. og 10. gr. í grg., sem fylgdi frv., þegar það var lagt fram.

Þetta var um það, hvernig væru fundnar tekjurnar 1958. Það er hægt að lesa hér af töflunni á bls. 18 í frv., ef menn gefa sér tóm til þess. 118 millj. kr. stofnfé er upp sett hér í grein í frv. og algerlega fullnægjandi skýringar með því í grg.

Ég held, að það hafi verið hv. 2. þm. Eyf., sem talaði um það, að við hefðum sem stjórnarandstæðingar fyrir 2 árum talað um pólitíska hlutdrægni í sambandi við veitingu þessara íbúðarhúsnæðislána. Og var það nú að ófyrirsynju, að við töluðum um það. Hvernig var þá hagað þessum lánveitingum? Jú, þá hafði Sjálfstfl. tilnefnt formann flokksfélags síns, Ragnar Lárusson, til þess að annast úthlutunina fyrir hönd síns flokks, og hinn stjórnarflokkurinn, Framsfl., hafði þá svarað í sömu mynt og tilnefnt formann sins flokksfélags, Hannes Pálsson, til þess að annast lánveitingarnar fyrir hönd síns flokks. Þetta var fyrirkomulagið á þessum lánveitingum. Ég skal játa það fyllilega, að ég taldi, að þetta tryggði ekki, svo sem vera bæri, að ekki yrði um að ræða pólitíska hlutdrægni í sambandi við þessar lánveitingar, mér fannst þetta form vera næsta ólýðræðislegt, og ég mun hafa áreiðanlega gagnrýnt þetta hér á Alþingi.

Hvernig á að hafa þetta núna? Það á að kjósa í húsnæðismálastjórnina 4 menn á Alþingi, þ.e.a.s., það á að tryggja það, að jafnt stjórnarandstaða sem stjórnarflokkar fái hér kosinn sinn manninn hver, og síðan á að koma hinn sérfróði maður frá Landsbankanum til þess að fjalla um þessi mál líka, þessi fimmti maður í húsnæðismálastjórninni. Hann er atkvæðislaus nú, eins og hv. fyrrv. stjórnarflokkum þóknaðist að hafa. Honum er ætlað að vera þarna sem ráðgefandi fræðimaður, en hans atkv. á ekki að skera úr. Hér er um að ræða fulltrúa frá öllum stjórnmálaflokkum þingsins samkvæmt frv., en áður voru það stjórnarflokkarnir tveir, sem settu sinn manninn hvor í þetta, sérstaka flokksmenn og trúnaðarmenn, og engan frá stjórnarandstöðunni. Ég bygg því, að þetta atriði núverandi frv. geti ekki sætt gagnrýni frá þeim, sem hlutdrægnina frömdu, þegar fyrri löggjöf var sett.

Þá lét hv. 2. þm. Eyf. í ljós undrun sína yfir því, að í frv. væri gert ráð fyrir sömu vöxtum og sama lánstíma og væri í núgildandi lögum um hið almenna veðiánakerfi. Ég skal fyllilega játa, að ég hefði talið mjög æskilegt að geta lækkað vextina og jafnvel líka að lengja lánstímann. En nú horfumst við í augu við það, að þótt fjárframlögin verði nú rúmlega tvöfölduð til húsnæðismálanna, þá er okkur alveg ljóst, að þegar það bíða milli tvö og þrjú þúsund lánbeiðendur, sem ekki hafa fengið neitt lán og eru með hús sín sundurflakandi í smíðum, þá er meiri eftirspurn eftir þessum lánum en svo, að hægt sé að fullnægja eins og stendur þrátt fyrir þessa gífurlega háu vexti og þrátt fyrir það að lánstíminn sé ekki hagfelldari en þetta. En með því að lánstíminn sé ekki hafður lengri, er þó bægt að láta þetta fé, sem fyrir hendi er, „sirkúlera“ örara. Það er neyðarbrauð að þurfa að hafa hér byggingarlánavexti upp á 7%, þegar nágrannalöndin hafa þetta yfirleitt 31/2–4%, og það er líka mikill munur á þessum kjörum, sem hér eru veitt, og þeim hinum, sem veitt eru samkvæmt lögunum um verkamannabústaði, að þar eru lánsvextirnir 31/2 % og lánstíminn 42 ár hið stytzta. Það er alveg gefinn hlutur, að ef efnalítill maður ræðst í að byggja fjögurra herbergja íbúð, og að því stefnir stórhugur Sjálfstfl., að menn geri það, þá er alveg víst, að sú íbúð er ekki undir 300 þús. Með 7% vöxtum eru það 21 þús. kr. í vextina. Sé svo meðaltalslánstími um 20 ár, þá eru þarna a.m.k. 15 þús. kr. í afborgun, þ.e. 36 þús. kr. í beina vexti og afborgun, 3 þús. kr. á mánuði, og þá eru eftir samt öll opinber gjöld af íbúðinni. Það er neyðarbrauð að þurfa að horfast í augu við þetta. Það eina, sem bjargar í þessu efni, er það, að íslenzka fólkíð, sem er að berjast við að eignast þak yfir höfuðið, ver öllum sínum tómstundum og allri sinni líkamsorku í það að vinna sjálft að byggingu þessa húsnæðis og sparar sér með því lánsupphæðir, enda eru þær heldur ekki fáanlegar, og það fé er auðvitað það, sem í raun og veru lækkar vaxtabyrðina af heildarkostnaði íbúðarinnar. Þannig hefur þessu fólki tekizt hér í bæ og alls staðar á landinu að bjargast með þetta einhvern veginn, 70 þús. kr. hámarkslán með 7% vöxtum frá 15–25 ára, en það, sem stendur á, er bara, að þjóðfélagið geti lagt fram meira fé, til þess að menn eigi þess kost að notfæra sér þennan lánstíma og þessi óaðgengilegu lánakjör.

Ég verð nú að segja það, að mér finnst eins og slái í baksegl hjá hv. stjórnarandstöðu. Það var Sjálfstfl., sem stóð fyrir því að hækka lánsvexti til byggingar íbúðarhúsnæðis fyrir tveimur árum, þegar lögin voru sett, að hækka þá úr því, sem var. Það væri því anzi gott og ánægjulegt spor, ef nú væri hægt að lækka þá úr því, sem þeir voru ákveðnir af fyrrv. stjórnarflokkum. Til þess er þó heimild í þessum lögum, og sú heimild vænti ég að verði notuð, undireins og byggingarsjóði ríkisins hefur vaxið fiskur nm hrygg og e.t.v. verkefnið orðið eitthvað viðráðanlegra.

Út af ræðu hv. 9. landsk. þm. (JR) tel ég ástæðulaust að fjölyrða. Hann gaf fyrst sögulegt yfirlit yfir ástand húsnæðismála og fullyrti síðan, að það væri ekki eitt einasta atriði í þessu frv., sem leysti vanda þeirra, sem væru að byggja. Síðan venti hann sér að því að lofprísa dugnað fyrrv. ríkisstj. um útvegun fjár, og sú útvegun fjár var upp á 38 millj. kr. á ári. Þegar liggur nú hér fyrir, að útvegaðar verði 80–90 millj. kr. á ári, þá þykir honum skömm til þess koma, en lofsyngur dugnað hinnar ríkisstj., sem útvegaði 38 millj. á ári til lausnar á húsnæðisvandræðunum. Verði honum að góðu með dugnað fyrrv. ríkisstj. og það fé, sem hún útvegaði. Það var góðra gjalda vert, svo langt sem það náði, en það er þó varla hægt að segja, að það sé einskisvert, þegar sú upphæð er meira en tvöfölduð.

Það, sem varð síðan uppistaðan í ræðu hans og hann fjölyrti allra mest um, var það, að stimpilgjöld hefðu nú hækkað frá því, sem áður var. Aldrei hafði mér nú dottið í hug að setja neitt ákvæði inn í þessa löggjöf um stimpilgjöld. Það heyrir annarri löggjöf til, og ég skil ekki, hvernig hann hugsar sem lögfræðingur, ef hann telur ekki nokkurn veginn eðlilegt, að þau stimpilgjöld, sem hafa verið lögfest og eru lögfest, — og ég veit ekki til, að það hafi orðið nein breyting á því, — séu miðuð við hið raunverulega söluverð húsa á hverjum tíma. Það hefði ég haldið að lögfræðingurinn teldi eðlilegt og veit ekki til þess, að það eigi að vera öðruvísi en að stimpilgjöldin verði reiknuð af söluverði, þegar kaup og sala á sér stað. Það skil ég því ekki, að lögfræðingurinn geti undrazt mjög, því að það tel ég vera það eðlilega.

Ég hef nú leitazt við að svara því helzta málefnalega, sem fram kom í ræðum þessara fjögurra ræðumanna Sjálfstfl. Ég geri mér alveg ljóst, að þessar löngu ræður þeirra stöfuðu ekki af því, að þeir hefðu svo mikið að segja um frv., enda voru ræður þeirra að minnstu leyti um það. Ræðurnar voru svona langar af því, að þeir ætluðu sér að halda uppi málþófi fram eftir deginum og kannske fram á kvöldið og nóttina, og það er guðvelkomið. Það er ekki nema sjálfsagt, að þeir verji sínum tíma eins og þeim lízt, og til þess eiga þeir rétt hér á hv. Alþingi. En ég lít á þetta svo, að það sé nokkuð satt í því, sem fyndinn sjálfstæðismaður sagði fyrir nokkru: Sjálfstfl. hefur hingað til í stjórnarandstöðunni hagað sér þannig eins og hann teldi sig vera spretthlaupara í 100 m spretthlaupi. — En núna er hann að gera sér það ljóst, að hann er og verður að þreyta maraþonhlaup, og nú eru maraþonhlaupin að hefjast hjá þeim í ræðuflutningnum í stjórnarandstöðunni. Þessi breyttu vinnubrögð eru núna að sýna sig. Þeir vita það nú, að spretthlauparar eru þeir ekki. Þeir ryðja ekki núverandi stjórn frá á 100 m spretthlaupi. Þeir verða að þreyta til þess maraþonhlaup, a.m.k. að reyna það, og það maraþonhlaup getur orðið langt, það vita þeir vel, og nú eru æfingarnar sem sé byrjaðar. Þær byrjuðu hér á stóreignaskattinum í gær og halda áfram í dag í sambandi við húsnæðismálin, og ef þolið er eins og garparnir byrja, þá mun verða svona haldið áfram fram á mánaðamótin. Og ég nýt þess að horfa á þá og finnst þeir fara bara vel á stað. En þeir mega gera sér það ljóst, að það er langt að marki, og það er eins gott að fara dálitið rólega í sakirnar fyrst, því að það er lokaspretturinn, sem allt er undir komið.