21.05.1957
Neðri deild: 102. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1409 í B-deild Alþingistíðinda. (1413)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst það nú harla einkennilegt, að hæstv. félmrh. skuli nánast vera með ákúrur hér bæði til mín og nokkurra annarra hv. þm., sem tekið hafa til máls í þessu máli, fyrir að vera að ræða málið. Ég hef satt að segja haldið, að það væri ekki óeðlilegt á þingi, að mál væru rædd og þá mest þau mál, sem talin eru þýðingarmest, og ég hefði haldið, að þetta mál, sem hér um ræðir, væri harla þýðingarmikið. Það kann hins vegar vel að vera skiljanlegt, að hæstv. ráðh. óski ekki eftir miklum umr. um málið, þegar þess er gætt, hvernig frá því hefur verið gengið frá hans hendi, og þess vegna muni fara bezt á því að leiða sem minnst fram í dagsljósið af hinu raunverulega efni málsins og láta sér nægja þær skrumfrásagnir, sem birtar hafa verið í málgagni ráðh. um málið sjálft. Hins vegar, meðan menn hafa málfrelsi hér á þingi, verður hæstv. ráðh. að una því, að menn leyfi sér að gera athugasemdir við þetta mál og önnur, hvort sem honum líkar það vel eða ekki.

Mér finnst sannast sagna ráðh. vera um of ánægður með sjálfan sig og sín afrek, þegar hann talar um, að það sé nú svo sem ekki mikið, þó að það hafi verið bornar fram 16 brtt. í annarri deildinni við þetta frv. Að vísu voru brtt. 30, en það skiptir ekki öllu máli, hitt verður að segja, sem er staðreynd, að ég held, að það sé mjög fátítt, að stjórnarfrv. séu undirbúin svo illa, að það þurfi í þingnefndum að bera fram við þau tugi brtt., vegna þess að það verður að ætla, að a.m.k. þetta mál, sem hefur verið í deiglunni mánuðum saman, hafi verið það hugsað af þeim mönnum, sem við það hafa fengizt, að þess sé lítil von, að þingnefndir, sem hafa með málin að gera aðeins nokkra daga, sjái þegar í hendi sinni, að þau séu svo illa samin, að það þurfi að gera á þeim grundvallarbreytingar. Það er sannast sagna meira en lítil breyting, þegar meira að segja kemur í ljós, að það hefur gleymzt að taka inn í frv. vissa tekjuliði, sem þó er gert ráð fyrir í öðrum greinum frv. og vísað til, en það hefur ekki verið tekið inn í frv. á sínum stað, að heimilað væri að leggja á þau gjöld, sem þar um ræðir. Sannleikur málsins er sá, að því miður er það litt skiljanlegt, hvernig frá þessu máli er gengið og hversu það er ólögformlega útbúið í mörgum greinum, þannig að það er naumast sýnilegt, að það hafi komið nálægt því neinn, sem þekkingu hafði á þeim málum, hvernig ætti að gera frv. úr garði.

Hæstv. ráðh. gerði tilraun til að svara nokkrum fyrirspurnum, sem ég kom hér fram með. Að vísu sagði hann, að þetta væru atriði, sem ég hefði getað lesið í frv., því að í greinargerð frv. væri skýrt og ákveðið tekið fram, hvað hér væri um að ræða, þannig að það væri enginn vandi að sjá það. Ég verð nú hins vegar að játa það, ég er kannske ákaflega og óvenjulega tornæmur, en ég gat ekki fundið út úr upplýsingum hæstv. ráðh. raunverulega neina niðurstöðu um það, sem ég var að spyrja um. Og sannast sagna fann ég ekki heldur samræmi í því innbyrðis, sem ráðh. var að segja. T.d. varðandi þær árlegu tekjur, sem væru til ráðstöfunar, þá taldi hann þær í þremur liðum í upphafi síns máls, það væru árlegar tekjur byggingarsjóðs, sem mundu verða um 23 millj., frá bönkum og fleiri aðilum 44 millj. og sparnaður 15 millj. Þetta sagði hann að gerði 85–90 millj. Ég fæ nú ekki út úr því nema 82. En það kann að vera, að það séu einhverjir aðrir liðir sem hann hafi reiknað með til þess að fá út þessa niðurstöðu, en það hefði þá verið fyrir þann, sem á hlustar, skemmtílegra, að það hefði verið fært upp á þann veg, að hægt væri að fá þá niðurstöðu, sem ráðherrann fékk.

Varðandi þetta atriði er svo því til að svara, að ef hann á við með þessu, að þetta verði það, sem verði til ráðstöfunar næstu árin, þá sýnist mér, að það sé ljóst af því yfirliti, sem er varðandi skyldusparnaðinn, að það muni þegar á næsta ári fara að koma til endurgreiðslu á skyldusparnaðarframlögum og nettótekjur af þeim fari því minnkandi með árunum. Enn fremur varðandi þennan fyrsta lið, 23 millj. kr. tekjur byggingarsjóðs, þá skildist mér á honum, að þetta væri fundið þann veg út, þessi upphæð, og það er í rauninni eina skýringin á því, hvernig fást út þessar 23 milljónir sem arður af 118 millj. kr. höfuðstól, að þar væri reiknað með 15.3 millj. kr. framlagi af stóreignaskatti á næsta ári. Nú er það auðvitað vitanlegt, og ég býst við, að hæstv. fjmrh. fari næst manna um það, hvað sé raunverulegt í þessu efni, að hann treysti sér ekki til að áætla þetta einu sinni í milljónum, hvað þá í hundruðum þúsunda, þannig að það er vitanlega algerlega óvíst enn, hvort hér verður um að ræða 10 millj., 15 millj. eða eitthvað þar á milli eða meira eða minna. Auðvitað verður að ganga út frá einhverri tölu í áætlun, en það er ekki hægt að ganga út frá þessu sem raunverulegri tölu. Og þá kemur einnig til greina, að það er auðvitað aðeins á næsta ári, sem tekjurnar verða þessar, því að eftir það verður það aðeins 1/10 hluti af því, sem þá verður eftir. Þess vegna hlýtur að vera til ráðstöfunar mun minna fé eftir þessum þremur liðum, sem tilgreindir voru. Við þetta allt saman bætist svo það, að það veit auðvitað enginn maður í dag, og hæstv. fjmrh. tók það fram í gærkvöld, hvað stóreignaskatturinn yfirleitt gefur. Reyndin varð sú, að síðasti stóreignaskattur, 1950, gaf um 45 millj., að ég held. Nú er ætlunin að ná inn um 80 millj. kr. Það var hins vegar tekið fram hér í gær, að lágmark þeirrar nettófjárhæðar í eign, sem lagt er á, hefði verið hækkað, og því var haldið fram af stjórnarliðinu, að með þessum skatti væri í rauninni síður en svo nær mönnum gengið en með hinum eldri, og ég er þess vegna ákaflega hræddur um, ef það er rétt, að þá verði það engar 80 millj., sem inn koma. En það er önnur saga. Þetta er sem sagt áætlun eins og annað.

En það var eitt, sem ég saknaði algerlega í upplýsingum hæstv. ráðh., og það var um það atriði, hvað yrði til ráðstöfunar á þessu ári. Ég er hræddur um, að almenningur vaði nokkuð í villu um það vegna þessara stóru talna, sem blöðin eru látin fara með, hvað sé verið að leggja fram með þessu nýja frv. eða þessum nýju lögum, og að menn hafi alls ekki áttað sig á því, hvað raunverulega verður hér til ráðstöfunar. Mér skilst sannast sagna, — ég spyr nú hæstv. ráðh. að því, hvort það sé rangt skilið, — að það verði ekki nema 16 millj. eða kringum það, sem verði nýtt fé á þessu ári, ef ríkisstj. fær þær 44 millj., sem hún gat um. Það skal að vísu fram tekið í því sambandi, að þá mun ekki vera reiknað með framlögunum til verkamannabústaða, sem hæstv, ráðh. upplýsti í sinni ræðu að væru þannig til komin, að ríkissjóður ætlaði að leggja þeim til alveg sérstaka fjárveitingu á þessu ári, og er það vissulega vel, ef svo er. En það var auðvitað ekki að ástæðulausu, að um þetta var spurt, vegna þess að í grg. er ekki hægt að finna neina skýringu á, hvernig þetta er til komið. Þar segir aðeins: „Og auk þess greiðir ríkissjóður 8 millj. kr. til verkamannabústaða.“ En eftir hvaða leiðum það er gert, sést ekki af þessari skilgreiningu.

Mér sýnist því eftir þessum upplýsingum hæstv. ráðh. að dæma, að allt sé meira og minna í lausu lofti, hvað þarna verður um að ræða, og styðji þá skoðun, að þetta sé ekki allt eins traust undirbyggt og látið er í veðri vaka í greinargerðum hæstv. ráðh. og ræðum hans, einkum þeirri, sem hann flutti í hv. Ed. um þetta mál á sínum tíma.

Hins vegar var annað atriði, sem kom fram í ræðu hæstv. ráðh. og mér fannst mjög merkilegt og ég vildi spyrja hann nánar um. Hann sagði í sinni ræðu, og ég held, að ég hafi alveg rétt tekið eftir því, að ríkisstj. hefði lofað að skylda bankana til þess að leggja fram þessar 44 millj. kr., ef þeir vildu ekki góðfúslega gera það. Mér þætti fróðlegt að vita, hvort þetta er rétt, að ríkisstj. hafi ákveðið að skylda bankana til þessa, hvað sem þeir hafa annars um það að segja og án þess að hlýða á þær röksemdir, sem fram hafa verið færðar frá þeirra hendi um þetta efni.

Hæstv. félmrh. hefur talað mjög digurbarkalega um, að það ætti að skylda bankana. Það er ekkert í þessu frv., sem bendir til þess, að þetta eigi að gera. En það væri mjög fróðlegt að vita, hvort það hefur verið samið um það af ríkisstj. á bak við, að hún ætlaði sér að fara þá leið að skylda bankana með lögum til að leggja fram þetta fé, ef þeir vilja ekki gera það, eða ríkisstj. hugsar sér kannske, að hún geti náð frekar fram þeim árangri með þeirri nýskipan, sem hún er að framkvæma í þessu efni.

Í því sambandi talaði hæstv. ráðh. mjög fyrirlitlega um greinargerð bankanna um peningamálin og sagði, að íhaldið hefði staðið að þeirri greinargerð. Það er öllum vitanlegt og ómótmælt, að hver einasti bankastjóri, sem um þetta mál hafði að ræða, og ekkert síður bankastjórar Framsfl. voru á einu máli um það, að eins og sakir stæðu væri ekki hægt að leggja fram þetta fé, — ekki af neinum fjandskap til málsins, heldur vegna þess eins, að það væri þannig ástatt um sparifjármyndun, að það væru engin tök á að leggja féð fram. Og það er náttúrlega í alla staði ómaklegt að ráðast að þessum mönnum á þann veg, að þeir hafi verið að selja fótinn fyrir þessar framkvæmdir, sem hér er um að ræða.

Hæstv. ráðh. fór mjög skakkt með mín orð. Hann hélt því fram, að ég hefði verið á móti því, að lagt væri á þetta 1% gjald. Það sagði ég aldrei, að ég væri því andvígur. Hins vegar sagðist ég vilja beina því til hæstv. ríkisstj., hvort henni fyndist ekki vera orðin nokkuð flókin skattheimtan, þegar hvert prósentið væri lagt ofan á annað með nýjum og nýjum viðaukum við þessi gjöld, — hvort ekki væri nauðsynlegt og skynsamlegt að taka það til athugunar, hvort hægt væri að koma þessu fyrir á einfaldari hátt.

Þá vildi ráðh. halda því fram, að það hafi verið misskilningur hjá mér, hvað væri lítið af nýju fé, sem kæmi í þennan sjóð, og ræddi um það, að m.a. kæmi nú þangað stofnfé lánadeildar smáíbúða. Vitanlega er þar ekki um neitt nýtt fé að ræða. Þetta fé er allt í útlánum, og ég held, að engum heilvita manni hafi dottið í hug, þó að formlega hafi ekki verið frá því gengið, að það ætti að fara að draga þetta fé aftur út úr húslánakerfinu, þannig að það er vitanlega ekkert afrek á neinn minnsta máta, þó að það sé lögfest, að þetta fé skuli áfram vera í umferð til útlána til íbúða.

Þá hélt ráðh. því fram, að ég hefði farið með rangt mál varðandi brtt., sem fram kom á sínum tíma frá þáverandi hv. 2. þm. Reykv. við húsnæðismálafrv., og vitnaði til þess, að ég hefði sagt, að hann hefði lagt til, að það yrði lánað 90%, og sagði, að þetta væri nú í lögum, þannig að það hafi ekki verið neinn sérstakur stórhugur í því. — Ég mun hafa orðað það þannig, að þar væri lagt til að lána allt að 90%. Það er alveg rétt. Ég tók ekkert fram um það, hvort það í einstökum atriðum væri í lögum eða ekki. Þessar till. voru í 3 eða 4 liðum, það voru verkamannabústaðirnir út af fyrir sig, það var útrýming heilsuspillandi íbúða, og það var híð almenna veðlánakerfi, sem þar var einnig lagt til að taka upp. Það er alveg rétt, að þar var gert ráð fyrir minni hlutfallslegum framlögum, mig minnir 67%. En ég hygg satt að segja, að þrátt fyrir það, þó að það væri ekki meira, þá mundu menn telja það mikla búbót, ef hæstv. félmrh. vildi fara eftir því að lána til þeirra hluta 67%, eins og þar var gert ráð fyrir.

Hæstv. ráðh. taldi, að það væri undarlegt, að það væri verið að finna að því, hvaða skipan væri höfð á þessum málum nú. Það væri verið að ákveða að kjósa hér sérstaka húsnæðismálastjórn. Áður hefði þetta verið pólitískt mál. Það hefði verið settur í það á sínum tíma formaður Varðarfélagsins og Framsóknarfélags Reykjavíkur, að mig minnir að hann segði. Að vísu byrjaði hann sjálfur á því að setja framkvæmdastjóra sins flokks í þetta. Það hefur kannske verið til að vera í stil við annað, því að það einkennilega í þessu öllu saman er og kynduga við framferði þessarar hæstv. ríkisstj., að hún virðist aðallega hafa þá málsvörn til að bera, að þegar borið er á hana, að hún hafi ekki starfað í samræmi við það, sem hún hefur lofað, að hún hafi bara gert nákvæmlega eins og fyrrv. stjórn. Nú er það orðin aðaluppistaðan í svörum hæstvirtra ráðh., að þetta sé ekki annað en fyrrv. stjórn hafi gert og þá hljóti þetta að vera harla gott. Hann segir: Ja, landsbankafulltrúinn er atkvæðislaus eins og áður. — En ég segi bara það, úr því að það var alveg fráleitt að dómi þessara manna, þegar lögin um húsnæðismálastjórn voru á sínum tíma sett, og fráleitt að dómi hæstv. núverandi félmrh. að hafa þessa skipun á um þann manninn, sem helzt hefði vit á þessu, eins og hann orðaði það þá, hvernig í ósköpunum stendur þá á, að það er alls ekki hægt að breyta út af þessu? Það verður að vera eins og það var hjá þessari vondu stjórn, sem viðhafði þessar ólýðræðislegu og fráleitu aðferðir. Það er það, sem er ákaflega erfitt að skýra. Og nákvæmlega sama kemur upp á teningnum, þegar ráðherrann er að svara því með þjósti miklum, hvernig okkur detti í hug að vera að finna að því, að það séu hafðir sömu vextir á lánum úr veðlánakerfinu og hafi verið, þegar fráfarandi stjórn var við völd og réð þessum málum. — Þetta er bara alger misskilningur á því, sem sagt hefur verið. Við höfum ekkert út af fyrir sig verið að finna að því, við höfum aðeins bent á, að þessir menn hafa neyðzt til þess að kyngja öllum sínum fullyrðingum og fordæmingum um þessar reglur með því að lögfesta þær óbreyttar frá orði til orðs. Við höfum alls ekkert verið að finna að því, að þessar reglur hafi verið settar á sínum tíma. Það var talið þá, að það væri óumflýjanlegt að hafa þennan vaxtafót, og það er vafalaust alveg eins rétt í dag. En það er bara kyndugt, þegar þessir herrar eru farnir að taka það upp sem málsvörn, að þetta hafi fyrrv. stjórn gert og þess vegna sé alveg sjálfsagt, að þeir geri það sama. Ja, betur að þeir hefðu þá stjórn til fyrirmyndar um alla hluti.

Hann svaraði því til, að það væri ekki hægt að lækka vextina núna, vegna þess að það biðu svo margir eftir lánum, það væri ekki hægt að fullnægja öllum þörfum. Það vissu auðvitað allir, þegar þetta kerfi komst á, að það mundi taka langan tíma að þróast þannig, að það yrðu fullnægjandi lán handa öllum, þannig að það voru auðvitað þá ekki síður þær röksemdir fyrir hendi, að það væri ekki hægt að láta þetta kerfi verða fyrir miklum vaxtahalla, þannig að það þyrfti að borga með sér vexti og eyða þannig sínu starfsfé á þann hátt. Ég efast ekkert um, að það er rétt hjá hæstv. ráðh., að það sama gildir einnig nú.

Ég held, að það sé ekki þörf á því, að ég ræði þetta mál nánar. Ég hef minnzt á þau atriði, sem fram komu í ræðu hæstv. ráðh. og gefa tilefni til andsvara. Ég tel, að það sé alltaf gleðiefni, þegar hægt er að fá aukið fé til þessara mikilvægu mála, sem hér er um að ræða, en að það fari bezt á því, þegar þeir menn, sem málin flytja, verða að ganga í öllum verulegum atriðum troðnar slóðir, að þeir séu ekki með allt of mikið yfirlæti og mikillæti um sin eigin afrek og telji, að þeir hafi leyst einhvern Gordionshnút, sem ekki hafi áður tekizt að leysa.

Hæstv. ráðh. sagði, að það væri undarlegt, að við sjálfstæðismenn hefðum borið fram tillögur um, að þetta yrði afgr. sem breytingartillögur við lögin um hið almenna veðlánakerfi. Þetta er vitanlega ekkert einkennilegt, vegna þess að að undanskildum örfáum atriðum í þessu frv. er ekki um annað að ræða í þessu en nákvæmlega það sama og er í l. um hið almenna veðlánakerfi, og það hefði verið miklu einfaldara og eðlilegra, þar sem ekki er um neina gerbyltingu þeirrar skipunar að ræða, sem þar er rætt um, að það hefði verið afgreitt sem breytingar á þeim lögum, þannig að skýrt kæmi fram, hverju er verið að breyta og hvað er óbreytt, heldur en að flytja þetta á þennan máta og ætla fólki að álíta, að hér sé um einhverja nýskipan mála að ræða.

Því miður hefur farið svo, sem raunar máttí vita fyrir, að allar fullyrðingarnar um, að það væri hægt að fá eitthvert óhemjufé til þess að leggja í þessa starfsemi, hafa reynzt á sandi reistar, eins og svo margt, sem þessir ágætu menn hafa sagt, bæði í þessu máli sem öðrum. Þeir hafa orðið að beygja sig fyrir þeirri staðreynd, þegar þeir komast í valdastól, að það er hægara um að tala en í að komast. Það ber vissulega að virða sérhverja viðleitni þeirra, sem gengur í þá átt að bæta aðstöðu fólksins, hvort sem það er í þessu efni eða öðrum. En það fer jafnframt vel á því, að menn hafi það þá í huga og dragi af því sinn lærdóm fyrir seinni tímann, að það er betra og heppilegra alltaf að stilla orðum sínum í hóf, vegna þess að það getur komið fyrir, eins og hefur komið fyrir þessa ágætu menn, að þeir komist í þá aðstöðu að verða krafðir reikningsskapar um að standa við allt, sem þeir hafa sagt.