21.05.1957
Neðri deild: 102. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1415 í B-deild Alþingistíðinda. (1414)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Kjartan J. Jóhannsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. taldi óþarft af mér að ræða þetta mál hér, þar sem ég hefði aðstöðu til að ræðamálið í þeirri n., sem væntanlega fær það til afgreiðslu, og hef auk þess nú þegar haft aðstöðu til þess að taka þátt í þeirri afgreiðslu að nokkru leyti með hv. heilbr.- og félmn. Ed., sem þar fór fram, og átti m.a. nokkurn þátt í því að koma þeirri skipan á málið, sem nú er orðin á því. Ég get vel skilið, að honum hafi þótt miður, að ég lýsti því, að það var samróma allt allra nm., að eins og frv. var, er það kom frá hans hendi, væri það ófært og óhafandi og engin leið að samþykkja það óbreytt. Ég talaði ekkert um, að það væri af þynnku hæstv. ráðh., að svona var ástatt um það. Ég vissi, að fljótfærni og flumbruháttur er gömul venja hjá honum og hefur löngum viljað vera einkenni á verkum hans, og fannst alveg óþarfi að taka það fram. Ég reyndi áðan að ræða málið aðeins efnislega, drap á nokkur atriði, sem ekki hafði tekizt að fá fylgismenn og flokksmenn hæstv. ráðh. til þess að taka til greina, þegar rætt var um málið í nefndunum, og bið engrar afsökunar á því.

Það var eitt atriði, sem ég heyrði hæstv. ráðh. tala um, sem gaf mér nú eiginlega tilefni til þess að standa hér upp. Það var það: nú á ekki að byggja stórt. Hæstv. ráðh. ætlar e.t.v. ekki að byggja núna. Tveggja og þriggja herbergja íbúðir eiga að duga handa almenningi. Þetta er nú allur framfara- og stórhugurinn. Einu sinni var hann þó meiri. Það var þegar hann var að byggja fyrir sjálfan sig. Það var fyrir nokkrum árum, þá átti hann heima á Ísafirði, var þar skólastjóri, og það voru erfiðleikatímar. Þá var bannað að byggja nema fá leyfi hjá fjárhagsráði, og sumar byggingar voru algerlega bannaðar á þeim tíma. Það var t.d. algerlega bannað að byggja bílskúr, að maður tali nú ekki um girðingar og annað því um líkt. En hvernig haldið þið að hæstv. ráðherra hafi þá byggt, þegar hann var að byggja fyrir sjálfan sig? Hann byggði tveggja hæða hús, fimm eða sex herbergja íbúð, en auk þess var í húsinu rúm fyrir sölubúð og auðvitað bilskúr við húsið. En það var ekki nóg. Það var allt of líkt því, sem var hjá öllum almenningi, sem var að byggja á þeim tíma og hefur verið að leitast við að byggja yfir sig fyrr og síðar. Til þess að það væri svolítið öðruvísi og sæist, að það væri einhver annar þarna á ferðinni, þá var settur turn á húsið. Ekki var nú samt þessi turn til þess að auka íbúðina. Það kann að vera, að það hafi einhvern tíma verið hugmyndin, en það var aldrei sett neitt gólf í turninn og aldrei neinn stigi þangað upp, svo að til íbúðaraukningar var þetta ekki. Nei, það er nú svona, það er dálítið annað, sem menn telja sér nauðsynlegt, en öðrum ofrausn. Það eiga fleiri en hæstv. ráðh. líka sök og hann í þessu efni. Það er ekki óalgengt. Ég hef oft heyrt það núna undanfarið á þessum síðustu tímum heima hjá mér, vestur á Ísafirði, bæði hjá fyrrv. flokksbræðrum hans og einnig hjá sumum framsóknarmönnum þar, að óskapleg væri öll þessi fjárfesting, sem nú á sér stað í þjóðfélaginu, bæði í byggingum og öðru, að maður tali nú ekki um alla bílana, sem fluttir eru til landsins. En það er nú einhvern veginn svo með þessa menn, að þeim hefur láðst að spara við sjálfan sig að eignast bíl og annað slíkt.