23.05.1957
Neðri deild: 104. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (1416)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég vil eindregið mælast til þess, að þetta mál verði ekki tekið til 2. umr. nú, og neyðist til þess að greiða atkv. á móti afbrigðum. Málið var afgreitt af nokkurri skyndingu út úr d. við 1. umr., og ég tel, að það fari ekki vel á því, að haldið sé áfram slíkri aðferð að knýja málið fram með óvenjulegum hætti. Hér er um að ræða eitt mesta vandamál, sem fyrir liggur, og slíkt úrlausnarefni, að ekki sýnist af veita, að lögskilinn frestur sé ætlaður þingmönnum, til þess að þeir geti áttað sig á því.

Mér virðist þar að auki, að það sé nægur tími fyrir hv. meiri hl. til að koma málinu fram fyrir þann tíma, sem hann nú hefur ráðgert þinglausnir, þó að lögákveðinn tími sé látinn líða frá því að nál. er útbýtt. Enn hef ég a.m.k. ekki séð nál. eða brtt. minni bl. Það kann að vera, að það sé búið að útbýta þeim, en ég hef ekki séð þær. Og ég vildi eindregið fara þess á leit, að málinu yrði frestað, í fyrsta lagi þangað til þær lægju fyrir og í öðru lagi þangað til lögákveðinn tími hefur liðið frá því, að útbýting þessara þskj. hefur farið fram.