23.05.1957
Neðri deild: 104. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1416 í B-deild Alþingistíðinda. (1417)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Forseti (EOl):

Út af tilmælum hv. 1. þm. Reykv. vil ég taka fram, að það er að vísu ætíð leitt að þurfa að hraða svo þingmálum, að ekki sé hægt að hafa hina ákveðnu fresti um útbýtingu skjala. En reynsla af þingstörfum, þegar dregur fram að síðustu dögum hvers þinghalds, er sú, að þá sé ekki annars kostur en að afgreiða málin með nokkrum afbrigðum. Forseti hafði fyrir sitt leyti, eftir að meiri hl. heilbr.- og félmn. hafði skilað áliti og því verið útbýtt á venjulegan hátt, sett sig í samband við minni hl. og gert raunverulega samkomulag um, að jafnvel þó að ekki næðist að útbýta nú nál. minni hl., þá yrði ekki byrjuð umr. frá hálfu minni hl. fyrr en kl. 5 í dag, á síðdegisfundi.

Ég get því miður ekki orðið við þeirri ósk að fresta að taka málið fyrir, því að af því mundi leiða, ef svipaðar óskir kæmu fram í sambandi við önnur mál, sem eftir eru á þinginu, að algerlega ókleift yrði að ljúka störfum þessa þings, sem þó er orðið alllangt, á þeim tíma sem verið er að keppast við nú. Ég mun þess vegna bera upp till. um, að veitt séu afbrigði, svo að þetta mál megi koma fyrir.