31.05.1957
Sameinað þing: 65. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2339 í B-deild Alþingistíðinda. (142)

Afgreiðsla mála úr nefndum o. fl.

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég játa, að mér er ekki ljóst, hvort hv. 1. þm. Skagf. var kominn hér á þing, sá sem nú er, eða hinn eiginlegi þm. var hér, þegar ég hreyfði því fyrir nokkru í Sþ., að þessi undirnefnd hefði ekki verið kosin. En þá gafst fyllilega tilefni til þess, hver sem formaðurinn er, að nefndin yrði kölluð saman. Það er nokkuð einkennandi um störf þessa þings, að manni er ekki ljóst einu sinni, hver er formaður í utanrmn., það virðist vera nokkur óvissa um það. Nefndin hefur aðeins einu sinni komið saman, og það var til þess að kjósa formann. Þá var það látið undan fallast, sem er hennar skylda, — það fer ekki eftir neinni hentisemi, það er skylda að kjósa þessa undirnefnd, og það er ekki hægt að slíta þingi, án þess að vakin sé athygli á því, að nefndin hefur ekki einu sinni lokið því starfi, hvað þá heldur að hún hafi gert annað. Það er ekki á ábyrgð okkar í stjórnarandstöðunni, að þetta hefur verið látið undan fallast, heldur er það þeirra, sem hafa hér meiri hlutann. En ég vildi láta það koma alveg skýrt fram, að einnig þetta hefur verið vanrækt, að kjósa undirnefndina.