23.05.1957
Neðri deild: 104. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (1421)

160. mál, húsnæðismálastofnun

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Hv. 8. þm. Reykv. (RH) hefur nýlokið við að gera mjög ýtarlega grein fyrir afstöðu sjálfstæðismanna til þessa frv. og alveg sérstaklega með ágætri og ýtarlegri ræðu gegnumlýst frv. það, sem hér um ræðir, og hefur þá berlega komið í ljós, hvað kjarninn er litill, þegar umbúðirnar eru af teknar, og hversu sárafá ný eða raunhæf úrræði til úrbóta í húsnæðismálunum felast í því frv., sem hér um ræðir. Þess vegna þarf í sjálfu sér litlu við það að bæta, og kann því að vera, að það, sem ég vík að hér, snerti eins mikið almenna hlið málsins, og er það þá einnig að hafa í huga, að með skyndingi var skrúfað fyrir framhald 1. umr. og beitt bolabrögðum til þess að hindra þm. í því að hafa eðlilegan ræðutíma til þess að fjalla um þetta mál við 1. umr.

Það er í raun og veru nýmæli í þessari löggjöf um tekjuöflun til húsnæðismálalána eða byggingarsjóðs ríkisins, eins og það er kallað nú, að lagt skuli 1% álag á allar hinar fyrri og miklu álögur hæstv. ríkisstj., sem fólust öðru fremur í jólagjöfinni miklu. Þetta 1% álag kemur að sjálfsögðu að einhverju liði þeim, sem lánanna njóta, en vissulega er það mjög miklum vafa undirorpið, hvort ekki hefðu fundizt aðrar og miklu heppilegri leiðir til fjáröflunar í þessu skyni heldur en að bæta nú 1% álagi ofan á allar eldri álögur. Þetta er hins vegar nýmæli — og ber að viðurkenna það — og stefnir að því, svo langt sem það nær, að auka nokkuð tekjuöflunina til íbúðalánanna, en er í eðli sínu mjög vafasamt ákvæði.

Annað nýmæli í löggjöfinni er ákvæðin um skyldusparnað, sem eiga að auka tekjuöflunina til íbúðarhúsalána og gert er ráð fyrir í grg. frv. og í ræðu hæstv. félmrh. að eigi að geta skilað einum 15 millj. kr. á ári. Í fyrsta lagi hefur verið mjög dregið í efa, að af þessu ákvæði leiði svo mikla tekjuöflun, og ég hef áður gert grein fyrir því, að mér sýnist, að það sé með öllu útilokað, að þetta fái staðizt. En það er einnig annað, sem er verra við þetta ákvæði, og það er sú blekking, sem í ákvæðinu felst, þegar ungu fólki er heitið fyrir það, að á það er lagður lögþvingaður sparnaður, forgangsrétti til íbúðalána. Hv. 8. þm. Reykv. sýndi mjög greinilega fram á, hversu ákvæðin um forgangsrétt eru óraunhæf og hversu mikil blekking í þeim er fólgin, þar sem telja verður mjög vafasamt, að nema lítill hluti þeirra, sem skyldaðir verða til sparnaðar, geti, eins og högum er háttað í okkar þjóðfélagi, öðlazt þennan lofaða forgangsrétt, sem miðaður er við að hafa á tilteknu árabili, frá 16 ára og til 25 ára aldurs, a.m.k. sparað 25 þús. kr. Það getur borið nauðsyn til að leggja þvinganir á landsfólkíð, hvort sem það eru yngri eða eldri, en þær verða þá að vera vel rökstuddar og grundvallaðar, og ég held, að fátt sé verra en að grípa til lögþvingana gagnvart ungu fólki, sem byggðar eru á röngum forsendum og beinum blekkingum í garð þessa unga fólks. Unga fólkið sjálft hefur þegar áttað sig á þeim blekkingum, sem hér eru hafðar í frammi, og það er í raun og veru ósæmandi fyrir stjórnarliðið að hafa ekki gengið frá þeim breytingum á þessu frv. frá þeirra sjónarhóli, sem tryggi það, að svonefndur forgangsréttur sé annað og meira en orðið tómt, þessi forgangsréttur til þess að fá lán úr byggingarsjóði ríkisins.

Þegar þessum tveimur atriðum sleppir, eru í raun og veru ekki — held ég — fleiri raunhæf nýmæli í þessum lögum. Það er öðrum orðum komizt að ýmsu sama efni og var í eldri lögum, í flestum tilfellum er það fært til verri vegar og hefur að öðru leyti ekki þýðingu, eins og bent hefur verið á, því að íbúðabyggjendurna skiptir það ekki máli, hvort þeir eiga að fá lán úr byggingarsjóði ríkisins eða varasjóði veðiánakerfisins o.s.frv. En það vekur hins vegar óneitanlega athygli, að allt það, sem fyrsti flutningsmaður þessa máls eða hæstv. félmrh. og flokksmenn hans töldu húsnæðislöggjöfinni frá 1955 til mestrar foráttu, er óbreytt í þessu nýja frv. lögin frá 1955 voru dæmd óalandi og óferjandi, ef ég mætti viðhafa það orðbragð, af fulltrúum Alþýðubandalagsins, sem nú kallar sig, og fulltrúum Alþfl., vegna þess að þau kæmu engum alþýðumanni að liði, sökum þess að lánsféð í senn væri allt of lítið út á hverja íbúð, til allt of fárra ára lánað og með allt of háum vöxtum. Þetta, sem notað var til að fordæma þá löggjöf, sem er grundvöllurinn að því frv., sem nú liggur fyrir, er allt saman óbreytt í löggjöfinni nú. Þessu hefur verið vakin athygli á og er ástæða til þess að vekja athygli á til þess að sýna fram á sýndarmennskuna hjá stjórnarliðinu í flutningi þessa máls. Það er tekið allt upp, sem áður var fordæmt. Það er nauðalitlu breytt efnislega úr löggjöf, sem fyrir hendi er. En það er á pappírnum látið heita, að hæstv. núverandi ríkisstj. sé að flytja nýja húsnæðismálalöggjöf, stórkostlega og glæsilega fyrir væntanlega húsbyggjendur, þegar efni málsins er í aðalatriðum eins og ég hef nú vikið að.

Fulltrúi Alþfl. í fjhn., sem fjallaði um húsnæðislöggjöfina frá 1955, sagði um hana m.a. í nál. sínu í Ed.:

„Ég lít svo á, að frv. þetta, þótt að l. verði, leysi ekki úr húsnæðisvandræðum almennings í kaupstöðum og kauptúnum. Til þess er það fjármagn, sem frv. gerir ráð fyrir, ónógt, lánstíminn of stuttur, vextir of háir og fyrirhuguð lánsupphæð til hverrar íbúðar ófullnægjandi fyrir aðra en þá, sem eru mjög vel efnum búnir.“

Varðandi atriði eins og þessi hafa núverandi stjórnarliðar rækilega rennt niður stóryrðunum frá 1955.

Minni hl. fjhn. í þessari hv. deild, sem var skipaður núverandi hæstv. menntmrh. og hv. formanni fjvn., Karli Guðjónssyni, viðhafði þau ummæli í sínu áliti, að höfuðeinkenni löggjafarinnar frá 1955 væru þau, með leyfi hæstv. forseta, eða frv., að í því væri ekkert stórátak gert til þess að útrýma heilsuspillandi húsnæði; og enn fremur: þessu húsnæði verður ekki útrýmt nema með myndarlegu átaki af hálfu ríkis og bæjarfélaga; og enn fremur: til þess þarf rausnarleg fjárframlög. — Það var miðað við í þessari löggjöf allt að 3 millj. kr. Ég man ekki, hvort það eru 4 eða 5 millj. kr., sem nú á að ætla í þessu skyni eftir þessari löggjöf, en við afgreiðslu fjárl. fluttum við hv. 6. þm. Reykv. (GTh) og ég till. um það, að ríkissjóður skyldi verja 10 millj. kr. á fjárl. 1957 til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði, m.ö.o. að nú skyldi tekið upp það, sem hv. stjórnarsinnar töldu að nauðsynlegt væri, nokkur rausnarleg fjárframlög í þessu skyni. Þetta var allt saman kolfellt. Það er von, að menn, sem svona í orði og æði ganga í sig sjálfa og éta ofan í sig fyrri svigurmæli, þurfi að reyna að búa til með orðagjálfri einhverja „gloríu“ í kringum sjálfa sig, þegar frv. eins og hér liggur fyrir er flutt inn í þingsalina.

Það er fullt og ægir af brtt. og athugasemdum í nál. og þingræðum núverandi stjórnarstuðningsmanna frá 1955, sem hins vegar hefur algerlega verið gengið fram hjá af þessum háu herrum nú, þegar þeir flytja þetta frv. sitt, og hef ég nefnt nokkur dæmi, en mörg fleiri mætti nefna. T.d. lagði mínni hl. fjhn. í Nd., sem ég gerði grein fyrir áðan, til þá um úthlutun lánanna, að hún væri falin veðdeild Landsbanka Íslands, en ekki nefnd, sem skipuð væri eins og þá var gert ráð fyrir. Og það er kannske það, sem er broslegast í því, að þeir lögðu einmitt til, að framlög ríkissjóðs til útrýmingar heilsuspillandi íbúða yrðu aukin úr 3 millj. kr. árlega í 10 millj. kr., en það var einmitt till., sem við hv. 6. þm. Reykv. og ég fluttum við afgreiðslu fjárl. og þá bara fyrir þetta ár, að framlagið yrði hækkað upp í 10 millj. kr. En auðvitað greiddu báðir þessir hv. nefndarmenn, hæstv. menntmrh. og Karl Guðjónsson, hv. 2. landsk., atkv. á móti till. þá. Það er sítt hvað að tala um eða í að komast, og hafa þessir aðilar vissulega fengíð sig fullsadda á að reyna það.

Þegar stjórnarsinnar og hæstv. félmrh. ræða um það nýja fjármagn, sem með þessu frv. sé tryggt til íbúðalána, þá er það allt mjög á völtum kili og í sjálfu sér erfitt að átta sig á því. En eins og ég sagði við 1. umr. þessa máls, þá skipta í sjálfu sér ekki aðalatriði spádómar eða gylliloforð þessara manna nú í þessu efni, heldur þær efndir, sem fólkið á eftir að reyna við framkvæmd málsins, og vinnst þá nægur tími til að athuga þennan þátt málsins, þegar þar að kemur.

Hæstv. félmrh. segir t.d., að hæstv. ríkisstj. hafi skuldbundið sig til þess, að bankar landsins lánuðu síðar á árinu 44 millj. kr. til íbúðabygginga. Með þeirri bankalöggjöf, sem nú hafa verið lögð frv. að af hæstv. ríkisstj., er það að vísu tryggt, að ríkisstj. og lið hennar munu hafa í hendi sér valdið til þess í bönkunum að lána fé til þessara framkvæmda elns og annarra. En það þýðir bara ekki það sama og að hafa fjármagnið, til þess að úr vandkvæðum fólksins, sem þarf að byggja, verði bætt, svo að það er mikið alvöruleysi og ábyrgðarleysi af ráðh. þeirrar ríkisstj., sem hefur þurft að horfa upp á það, að dregið hefur stórlega úr sparifjármynduninni við tilkomu hennar, að taka svo mikið upp í sig að segja, að þeir hafi tryggt það eða hafi skuldbundið sig til að tryggja, að svo og svo margar millj. skuli veittar af peningastofnunum síðar á árinu, því að hvar standa þessir menn, ef þróunin heldur áfram í svipuðu formi og verið hefur? Ja, það er auðvitað hugsanleg sú leið með því að hafa fengið völdin að seðlapressu landsins að láta ekki upp á sig standa og prenta seðla til þess að standa við þessa skuldbindingu. En mér þykir vafasamt, að allt stjórnarliðið eða auk heldur öll ríkisstj. sé svo alvörulaus, að hún gefi slík fyrirheit eins og þessi með þá hugsun á bak við, að ef raunverulegur og fjárhagslegur grundvöllur undir þessum lánveitingum, eðlilegur fjárhagslegur grundvöllur, verði ekki fyrir hendi, þá skuli samt sem áður seðlarnir verða prentaðir, seðlar, sem hljóta auðvitað að byggjast á óraunhæfum grundvelli og skapa óeðlilega verðbólgu í landinu til viðbótar því, sem áður hefur verið. En ef þetta ætti eftir að koma fyrir, þá sýnist mér, að skörin sé farin að færast upp í bekkinn, þegar haft er í huga, að þessir menn, sem standa að flutningi þessa frv. nú, núverandi hv. stjórnarsinnar ásaka sjálfstæðismenn, og hafa ásakað sjálfstæðismenn að langmestu leyti með röngu fyrir óhæfilega fjárfestingu og fyrst og fremst í íbúðabyggingum, ef þeirra hlutskipti ætti svo eftir að verða það að stuðla að áframhaldandi fjárfestingu, sem ekki byggðist á samanspöruðu fé í þjóðfélaginu, heldur fölsku fjármagni, þ.e.a.s. útgáfu seðla, þegar hinn eðlilegi grundvöllur, sparnaður fólksins, sem þessar framkvæmdir verða að hvíla á, er brostinn. — Mér þætti vænt um, ef hæstv. félmrh. vildi skýra nokkru nánar fyrir þingheimi, hvað hann á við með því, þegar hann segir, að ríkisstj. hafi skuldbundið sig til að tryggja 44 millj. kr. frá bönkunum til íbúðabygginga síðari hluta ársins. Ég endurtek, að ég inni eftir því, að hæstv. ráðh. skýri fyrir þingheimi, hvað hann nánar á við með þessum orðum sínum og hvers eðlis sú skuldbinding er, sem hæstv. ríkisstj. hefur með þessum hætti á sig tekið.

Í framhaldi af því leyfi ég mér að minna á, að við sjálfstæðismenn höfum flutt till. til þál. um lán til íbúðabygginga, þar sem Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir því, að veðdeild Landsbanka Íslands taki allt að 100 millj. kr. erlend lán, er varið verði til útlána á vegum hins almenna veðlánakerfis til íbúðabygginga. Þessi till. hefur ekki fengizt afgreidd. Því spyr ég um það nú, þegar ríkisstj. talar um skuldbindingar til þess að útvega frá bönkunum svo og svo margar millj. til íbúðabygginga, felst þá í því, ef sú forsenda brestur, að hægt sé að byggja þessar lánveitingar á aukinni sparifjármyndun, sú hugsun ríkisstj. að taka erlent lánsfé, sem vissulega mætti réttlæta, til þessara framkvæmda, ef það væri fáanlegt við hagstæðum kjörum? Ég spyr: Hver er afstaða hæstv. ríkisstj. til þessarar þáltill.? Hefur hún leitað eftir erlendu lánsfé til íbúðabygginga? Í fyrsta lagi: hefur hæstv. ríkisstj. leitað eftir erlendu lánsfé til íbúðabygginga? — og í öðru lagi: mundi hún taka erlent lánsfé til íhúðabygginga, ef það væri fyrir hendi, eða leyfa öðrum aðilum, sem ættu þess kost að fá erlent lánsfé til íbúðabygginga, að gerast að því lántakendur? Þessar spurningar, sem ég hef hér lagt fyrir hæstv. félmrh. fyrst og fremst, eru þess eðlis, að það er mjög veigamikið, að þeim fáist svarað afdráttarlaust, og það er að mínum dómi skylt, að hæstv. ríkisstj. geri hv. þingheimi grein fyrir viðhorfi sinn í jafnþýðingarmiklum atriðum og þessu varðandi lánsfjáröflunina til íbúðabygginga.

Í till. sjálfstæðismanna eða minni hl. heilbr.- og félmn. eru gerðar nýjar till. um húsinnlán, sem vissulega eru þannig úr garði gerðar, að ætla má, að ef þær yrðu að l., þá mundu þær afla verulega mikils lánsfjár til íbúðabygginga og í ólíkt ríkulegri mæli en þær aðrar ráðstafanir til fjáröflunar, sem í þessu frv. felast frá hálfu stjórnarliðsins. Mig undrar á því, að þessar till., sem fram komu í hv. Ed., skulu ekki hafa þótt þess verðar að íhugast nánar af stjórnarliðinu og að þeir, án þess að ég hafi orðið var við, að þeir færðu fyrir því nein rök, sem að haldi komi, skuli ganga fram hjá þeim, án þess að færa fyrir því nein rök, sem mark er á takandi, að till. væru ekki reistar á heilbrigðum grundvelli, en mundu geta náð ótrúlega miklum árangri til lánsfjáröflunar til íbúðabygginga, ef þeim yrði framfylgt.

Hæstv. félmrh. sagði hér við 1. umr. málsins, þegar hann vék að viðskiptum núverandi ríkisstj. og bankanna varðandi íbúðalánin, að bankarnir hefðu sent frá sér íhaldsgreinargerð um þessi mál. Ég vil nú taka það fram, að hér fer svipað og um allt annað, sem á þessu þingi og í málgögnum þessara flokka er talað um varðandi bankana og afstöðu sjálfstæðismanna eða íhaldsmanna í þeim efnum. Í öllum þeim viðræðum, sem hæstv. ríkisstj. átti við bankana og fulltrúi hjá Útvegsbankanum mætti á í sambandi við íbúðalánin, þá var það sá bankastjórinn, sem tilheyrir Framsfl., sem mætti á öllum þeim viðræðufundum ásamt með öðrum Framsóknarbankastjóra, þ.e.a.s. bankastjóra Búnaðarbankans. Þriðji bankastjórinn mun hafa verið sjálfstæðismaður frá Landsbankanum. En það er vitað, að enginn ágreiningur var á milli þessara bankastjóra á þeim viðræðufundum, sem fram fóru, og að sú grg., sem hæstv. ríkisstj. var send frá bönkunum síðar, var samin og send með einróma samþykki bankastjóra viðkomandi banka. Það liggur því fyrir, að í fyrsta lagi höfðu bankastjórar Framsfl. þau beinu og nánu sambönd við hæstv. ríkisstj. um þessi lánamál og stóðu að engu leyti öðruvísi að þessu máli heldur en aðrir bankastjórar, hvort sem þeir tilheyrðu Sjálfstfl. eða öðrum flokkum. En þetta er eins og annað; svo er komið hér í þingið og mér liggur við að segja gasprað um það af hæstv. félmrh., að sú grg., sem frá bönkunum hafi komið, hafi verið íhaldsgreinargerð, og á það að skiljast svo, að það séu fyrst og fremst sjálfstæðismennirnir, sem með ofurvaldi sínu og meirihlutaaðstöðu í bönkunum hafi ráðið því, hvernig hún var úr garði gerð. Þó veit hæstv. félmrh., þegar þetta er látið klingja hér í þingsölunum og þessi boðskapur hefur áður verið birtur í stjórnarblöðunum, að þetta er allt saman helber ósannindi.

Hitt vil ég taka fram, af því að það er full ástæða til þess og í beinu sambandi við það mál, sem við ræðum hér, að þegar fyrrv. hæstv. ríkisstj. ræddi við bankana á sínum tíma á árinu 1954 um það, að þeir tækju á sig skuldbindingar til þess að lána fjárfestingarlán annars vegar til raforkuframkvæmda og hins vegar til íbúðabygginga, þá var það fyllilega ljóst á milli fulltrúa ríkisstj., sem áttu viðræður við bankastjórana, að grundvöllurinn undir öllum þessum lánveitingum og skuldbindingum, sem bankarnir tækjust á hendur, væri áframhaldandi sparifjársöfnun landsmanna, og þeir hæstv. ráðh., þáverandi hæstv. félmrh. og bankamálaráðh., sem áttu viðræður við bankastjóra Útvegsbankans um þessi efni, létu þá í ljós, að þeir væntu þess, að þótt bankinn yrði við óskum ríkisstj., þyrfti ekki að gæta samdráttar í útlánum hans og þá fyrst og fremst til atvinnuveganna, þar sem vonir stæðu til áframhaldandi sparifjáraukningar og þeim mun fremur sem Alþ. væri nú að ganga frá nýrri skattalöggjöf, þar sem sparifé væri með vissum skilyrðum gert skattfrjálst og undanþegið framtalsskyldu. Þessi hugsunarháttur lá til grundvallar því samkomulagi, sem á þeim tíma varð á milli hæstv. þáverandi ríkisstj. og stjórnenda bankanna. Og það var eingöngu í trausti þess, að sparifjárinnlögin héldu áfram að vaxa, að bankastjórarnir treystu sér þá til þess að svara tilmælum hæstv. ríkisstj. játandi. Og varðandi Útvegsbankann taldi hann óhjákvæmilegt að hafa þann fyrirvara fyrir sínum skuldbindingum, að þessi forsenda brysti ekki. Hinu vil ég vekja athygli á, að það var fullkomlega ríkjandi sá skilningur stjórna bankanna þá, eins og fram hefur komið nú í hinni svokölluðu íhaldsgrg., sem hæstv. félmrh. kallar, að tiltekinn og verulegur hluti af sparifjáraukningu landsmanna væri þess eðlis, að það væri skynsamlegt og ráðlegt að verja honum til íbúðabygginga í landi, sem byggi við húsnæðisskort. Og á þeim grundvelli var reist löggjöfin um veðlánakerfi til íbúðabygginga nr. 55 frá 1955, og kemur það fyrst og greinilega fram í nál. þeirrar undirbúningsnefndar, sem þáverandi ríkisstj. skipaði til þess að leggja grundvöllinn að þeirri löggjöf og kvaddi til þess fulltrúa frá bönkum landsins og hagfræðinga bæði frá Reykjavíkurbæ og Landsbankanum. Með leyfi hæstv. forseta, vil ég leyfa mér að vitna í einmitt ummæli þessarar n. um húsnæðislánin, þar sem segir m.a. svo:

„Nefndin álítur, að sökum þess, hve húsnæðismálið er þýðingarmikið frá félagslegu sjónarmiði, og jafnframt, hve íbúðir eru fjárhagslega trygg eign, þá eigi lánveitingar til íbúðabygginga að sitja fyrir um notkun á talsverðum hluta þess sparifjár, sem myndast í landinu.“

Það varð því einnig að samkomulagi milli bankanna í framhaldi af þessum grundvallarsjónarmiðum, sem ég nú hef reifað, að þau framlög, sem þeir legðu til íbúðabygginga á árunum 1955 og 1956, eða þær fjárhæðir skyldu skiptast á milli bankanna, þegar endanlegt uppgjör væri gert í hlutfalli við sparifjáraukningu þeirra innbyrðis á tímabilinu. Það hefur þess vegna ekki skort á frá öndverðu við undirbúning laganna um hið almenna veðlánakerfi frá 1955, að fullur skilningur væri ríkjandi á nauðsyn þess, að tiltekinn hluti sparifjármyndunarinnar í landinu gengi til íbúðabygginga, og ekki heldur hefur skort á þann skilning hjá stjórnum bankanna, sem síðan hafa lagt allverulegt fé af mörkum í þessu skyni.

Vegna þess, hvað hv. frsm. minni hl. heilbr.-og félmn. hefur reifað þetta mál ýtarlega í sinni ágætu ræðu, þarf ég ekki á þessu stigi að hafa mörg orð um þetta fleiri. Aðalatriðið í afstöðu sjálfstæðismanna er það, að þeir leggja til, eins og hver hógvær og skynsamur maður hefði gert, að því, sem telst til nýmæla í þessari löggjöf, verði breytt í það form, að það verði breytingar við gildandi lög um hið almenna veðlánakerfi, og felst í brtt. minni hl., hvernig fulltrúar Sjálfstfl. í heilbr.- og félmn. hugsa sér að þetta megi verða. Þegar fyrir liggur afstaða þessarar hv.d. til þessara till., þá munum við sjálfstæðismenn áskilja okkur enn, sem væntanlega yrði við 3. umr. málsins, að freista þess að flytja brtt. við frv. eins og það kemur þá út úr 2. umr., ef ekki verður fallizt á brtt. okkar.

Ég vil svo ljúka máli mínu með því að vekja athygli hér á einni veigamikilli staðreynd. Því hefur verið haldið fram, að hæstv. fyrrv. ríkisstj. hafi skilið illa við húsnæðismálin, hún hafi í fyrsta lagi blekkt einstaklingana og skilið þá svo eftir á vonarvöl um það, með hverjum hætti þeir fengju lokið sínum íbúðum, og það hefur jafnvel verið tekið svo til orða, að þessi mál hafi verið í gjaldþrotaástandi, eins og það sí og æ hefur verið endurtekið, eftir að hæstv. fyrrverandi ríkisstj. fór frá völdum.

Ég vil nú bregða upp einni mynd af viðskilnaði íhaldsins í húsnæðismálunum, sem lýsir miklu betur hinu raunhæfa ástandi málanna heldur en öll stóryrði og slagorð stjórnarsinna, hvort sem þau hafa verið viðhöfð hér í hv. d. eða á öðrum vettvangi.

Í árslok 1955 voru í smíðum í Reykjavík — og tek ég þá höfuðstaðinn einan — 1800 íbúðir. Á árinu 1956 var lokið við byggingu um 700 íbúða í Reykjavík, en aukningin á þeim íbúðum, sem lokið hefur verið við árlega, hefur verið liðlega 100 hvort árið um sig 1955 og 1956. Það var lokið við um 600 nýjar íbúðir 1955, innan við 500 íbúðir 1954, en 708 íbúðir nákvæmlega 1956. Ég leyfi mér því að gera ráð fyrir, að sú þróun í þessum málum hefði haldið áfram, að á þessu ári mundi verða lokið við 700 íbúðir í Reykjavík, eða aðeins það sama og á árinu 1956, en engin aukning, eins og þó hefði átt sér stað á undanförnum árum, og enn fremur að það verði aðeins lokið við 700 íbúðir á árinu 1958 eða næsta ári og þá engin aukning, eins og á undanförnum árum hefur átt sér stað frá ári til árs. En það þýðir, að með eðlilegum gangi þessara mála og þó þannig, að úr allri vaxandi nýbyggingu dragi frá því, sem verið hefur, þá ætti að vera hægt auðveldlega, miðað við þær íbúðir, sem í byggingu eru, að ljúka 2100 íbúðum hér í Reykjavík á þessum þremur árum, 1956-1958 að báðum meðtöldum. Ef við miðum við, að í meðalfjölskyldu séu 4–5 manns, þá eru þetta íbúðir fyrir 9450 manns.

Fyrir liggur, að fólksfjölgunin í Reykjavík frá árunum 1950–1954 var um 1300 manns á ári. Á þremur árum með sömu fólksfjölgun mundi hún nema á þessum árum, 1956–1958, 3900 manns. Þegar búið væri að fullnægja á þennan hátt íbúðabyggingu fyrir fólksfjölgunina, 3900 manns, þá er eftir, miðað við íbúðarbyggingar fyrir 9450 manns, til ráðstöfunar íbúðir fyrir 5550 manns af þeim, sem nú eru hér og búa við ófullnægjandi eða heilsuspillandi húsnæði. Og það mundi samsvara — með 4–5 manns að meðaltali á fjölskyldu — 1200 nýjum íbúðum til þess að útrýma herskálum og öðru lélegu húsnæði, en eins og kunnugt er, þá munu herskálaíbúðir nú vera eitthvað innan við 500 hér í höfuðstaðnum. En ef við þetta bætist, að 1957 verði lokið við 100 íbúðum fleira en 1956 til samræmis við þróun undanfarinna ára og 200 íbúðum fleira 1958 og það alveg sérstaklega vegna þeirrar stóru byggingaráætlunar, sem nú er í framkvæmd hjá Reykjavíkurbæ, og á þessu ári og næsta ári mun einmitt innlegg þessarar íbúðaráætlunar verða hvað mest, þá er þess vegna þessi viðbótaraukning engan veginn út í bláinn, að bæta 300 íbúðum við þær 1200 íbúðir, sem ég gat um áðan. Þá væri það ekki nema að halda í horfinu í húsnæðismálunum við það, sem var í tíð fyrrverandi ríkisstj., að hér yrðu á þessum 3 árum, 1956–1958, til ráðstöfunar 1500 íbúðir til útrýmingar herskálum og öðrum heilsuspillandi íbúðum, eða nýtt íbúðarhúsnæði fyrir 6750 manns.

Þetta er myndin af viðskilnaðinum í húsnæðismálunum, þegar stjórn Sjálfstfl. fór frá völdum á miðju ári 1956, að með þeim aðgerðum, sem stuðlað hafði verið að á undanförnum árum, hefur veríð stórátaki lyft í þessum málum, og við erum í miðjum klíðum að leysa úr húsnæðisskortinum hér í höfuðstað landsins og annars staðar á landinn. En ef misfellur verða á þessu og ef þessi áætlun kemur ekki til með að standast, þá veit almenningur í þessu landi, hverjir bera fyrst og fremst höfuðsökina í þeim efnum og hvert ber þá að stefna geiri sínum. Þeir hafa reynsluna frá fyrrverandi stjórn, hversu þessum málum þokaðist áfram. Fjöldinn mun áreiðanlega bera í brjósti von til þess, að takast megi að skila málunum í svipuðum mælí framvegis. En eins og ég sagði, ef það ekki tekst, þá er augljóst, að það er fyrst og fremst vegna þess, að núverandi hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa ekki verið þeim vanda vaxnir að standa undir því að halda áfram þeirri þróun í þessum málum sem öðrum, sem lagður var grundvöllur að undir forustu Sjálfstfl. í ríkisstj.