12.04.1957
Neðri deild: 86. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1446 í B-deild Alþingistíðinda. (1431)

159. mál, skattur á stóreignir

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Þegar lagt var fram frv. um útflutningssjóð o.fl., þ.e.a.s. frv. um ráðstafanir ríkisstj. í málefnum framleiðslunnar og efnahagsmálum fyrir áramótin, var því lýst yfir, að ýmsar ráðstafanir yrðu gerðar í beinu sambandi við þær till., sem þá voru lögfestar. Eitt af því, sem þá var yfir lýst, var, að ríkisstj. mundi beita sér fyrir því, að sett yrði á hv. Alþ. löggjöf um stóreignaskatt eða löggjöf um skatt á stóreignir. Það ber því að líta á þetta frv., sem hér liggur fyrir, sem einn lið í þeim ráðstöfunum í efnahagsmálum, sem stjórnin beitir sér fyrir á þessum vetri, og ber að skoða það í samhengi við aðrar ráðstafanir í þeim efnum.

Á undanförnum árum hefur verðlag hækkað mikið hér á landi vegna vaxandi verðbólgu, og af þessari þróun hefur svo aftur leitt misskiptingu eigna, vaxandi ósamræmi í eignaskiptingunni milli þegna þjóðfélagsins. Af þessu hafa líka orðið margháttuð vandkvæði fyrir framleiðsluna, eins og hv. alþm. er kunnugt.

Eins og ég sagði áðan, voru með lögum um útflutningssjóð o.fl. gerðar verulegar ráðstafanir til þess að sinna þörfum framleiðslunnar og ráðstafanir, sem áttu og eiga að miða í þá átt að koma efnahagsmálunum í betra horf en þau voru s.l. haust. Er gert ráð fyrir því í þeim lögum að afla fjármuna til þess að jafna halla, sem orðinn var á útflutningsframleiðslunni. Til þess að ná þessu marki var óhjákvæmilegt að leggja verulegar fjárhagsbyrðar á þjóðfélagsþegnana, og þykir þá rétt, að þyngstu byrðarnar komi á þá, sem óneitanlega hafa hagnazt mest á verðbólgu undanfarinna ára, þ.e.a.s. þá, sem mestar eignirnar hafa átt og eiga. Þetta frv. miðar að þessu marki. Enn fremur er vonazt eftir því, að þetta frv. verði til þess að vinna gegn nýrri verðbólgumyndun, þar sem gert er ráð fyrir talsvert verulegri tekjuöflun, sem renni til þess að mæta ýmsu því, sem óhjákvæmilegt verður að framkvæma á næstunni og ég kem að aðeins síðar.

Þar sem þessi skattur er lagður á með sérstöku tilliti til þeirrar verðbólguþróunar, sem verið hefur undanfarið, þykir skynsamlegt að gera till. um það, að sparifjáreignir manna svo og eignir í ríkisskuldabréfum og skuldabréfum með ríkisábyrgð verði undanþegnar skattinum. Þetta er byggt á þeirri hugsun, að þessar eignir hafa rýrnað í verði undanfarið, á sama tíma sem aðrar eignir hafa hækkað svo að segja dag frá degi. Það er gert ráð fyrir því, að varðandi þessar undanþágur verði fylgt sömu reglum og þeim, sem gilda um skattfrelsi sparifjár, að svo miklu leyti sem þær eiga við, sbr. III. kafla laga nr. 46 1954, um tekjuskatt og eignarskatt.

Þessi skattur er byggður þannig upp, eins og segir í frv., að það skal miða við hið nýja fasteignamat, sem nú er að fara fram, en þó er ekki fasteignamat í venjulegri merkingu þess orðs, heldur aðeins tilraun til þess að samræma matið nokkuð frá því, sem verið hefur, en það er ekki fasteignamat á þann hátt, að það fari fram nýtt mat á hverri fasteign fyrir sig. Gert er ráð fyrir að byggja á þessu mati, en hækka það um 200% frá því, sem það verður í höndum nefndarinnar, sem hefur haft matið til meðferðar. Er það talið alveg öruggt, að þó að matið á fasteignunum sé þrefaldað frá því, sem nefndin gengur frá því, muni það samt vera undir gangverði, sé því alveg tryggt, að með þessu séu fasteignir sízt settar hærri en þær eiga að vera, samanborið við aðrar eignir. Þetta þýðir, eins og segir í grg. frv., að sums staðar verða fasteignir settar 15 sinnum hærri en gamla fasteignamatið var frá 1942, sums staðar 9 sinnum hærri og sums staðar 6 sinnum hærri, allt eftir því, hvað landsnefndinni, sem starfað hefur að því undanfarið að samræma matið, hefur fundizt skynsamlegt og rétt.

Nú má gera ráð fyrir, að vegna þess, hversu langt er síðan fasteignamatið fór fram og hver eign út af fyrir sig var metin, sé orðið nokkurt ósamræmi, sérstaklega á mati lóða á þéttbýlustu stöðunum og mati annarra fasteigna. Hefur því þótt óhjákvæmilegt til þess að reyna að leita að sem beztu samræmi, án þess þó að það tefði framkvæmd þessa máls um of, að gera ráð fyrir því, að fram fari, þar sem ástæða þykir til, sérstakt nýtt mat á lóðum í þéttbýlinu, og er fyrir þessu gert ráð í frv. og þetta lagt á vald landsnefndar þeirrar, sem nú hefur með höndum samræmingu á fasteignamatinu. Er þar gert ráð fyrir því, að eitt hið fyrsta skref í sambandi við framkvæmd þessa máls verði, að landsnefndin geri upp við sig, hvar slíkt mat þurfi að fara fram, og framkvæmi það.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara út í einstök ákvæði varðandi matið á eignunum til skattsins, en ég vil aðeins benda á það til viðbótar þessu, að það er gert ráð fyrir því að byggja á vátryggingarverði skipa að verulegu leyti og flugvéla, en draga þó frá 20%, en 33%, þegar um fiskiskip er að ræða. Enn fremur vil ég benda á, að gert er ráð fyrir því, þegar um er að ræða vinnslustöðvar fyrir landbúnað og sjávarútveg, að nokkur frádráttur eigi sér stað frá mati þessara eigna, eða um 20%.

Þá kem ég að því, hversu hár skatturinn er hugsaður. Er lagt til, að enginn skattur sé greiddur af fyrstu milljóninni, en síðan séu greidd 15% af því, sem er fram yfir eina milljón og upp að 11/2 milljón, þá 20% og loks 25% af því, sem er yfir 3 millj. króna.

Auðvitað verður að greiða skatt eins og þennan í áföngum, og er gert ráð fyrir, að fyrst greiðist 1% og allur skatturinn, sé hann lægri en 10 þús., en það, sem eftir er, á 10 árum og vextir séu greiddir þá, sex % árlega.

Gert er ráð fyrir, að eignir séu taldar hjá þeim, sem raunverulega á þær, þ.e.a.s., að eignum félaga sé við útreikning skattsins skipt á eigendurna. Er þetta gert vegna þess, að þetta er eina leiðin til þess að finna, hversu mikið hver einstaklingur í landinu raunverulega á, en auðvitað er eðlilegt, að þessi skattur sé lagður á eftir því. Ef önnur aðferð væri viðhöfð, sem sé sú að skattleggja ekki á þennan hátt, heldur félögin hvert út af fyrir sig, þá mundi alls ekki vera hægt að koma því við, að hver einstaklingur greiddi eftir því, sem hann á rannverulega, heldur færi. þá allt eftir því, hversu einstaklingurinn hefði dreift eignum sínum með þátttöku í félögum o.s.frv. Það eina skynsamlega og rétta í þessu er auðvitað að reyna að finna út, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., hvað hver einstakur raunverulega á, og mæla skatt hans eftir því.

Ég skal geta þess, að ætlunin hefur verið sú og ætlunin er sú, að með þessu móti verði lagt á ekki minna en 80 millj. kr. En það er ekki hugsanlegt að gera neina ábyggilega áætlun um það, hvað svona skattur gefur. Þess er enginn kostur. En við, sem að þessu frv. stöndum, vonum, að þessu marki geti orðið náð með frv.

Nú er sjálfsagt, þegar svona skattur er á lagður, að haga notkun fjárins þannig, að þetta fé verði ekki að eyðslueyri í þjóðarbúinu. Þess vegna er lagt til í 9. gr. frv., að þessum skatti verði ráðstafað þannig, að 2/3 hlutar hans renni til byggingarsjóðs ríkisins, en 1/3 hluti til veðdeildar Búnaðarbanka Íslands. Með þessu móti er alveg tryggt, að þetta fé verður ekki að neins konar eyðslueyri, heldur hjálpar til þess að byggja upp þýðingarmikla lánastarfsemi í landinn, og þar með verður það framvegis til hjálpar við nauðsynlega uppbyggingu.

Ég vil taka það fram um byggingarsjóð ríkisins, að hann á að stofna skv. frv., sem í dag er til 1. umr. í hv. Ed. Þeim sjóði er, eins og hv. þm. er vafalaust kunnugt af því frv., sem útbýtt var í gær, ætlað að lána til íbúðabygginga í kaupstöðum og kauptúnum og einnig byggingarsjóði sveitanna. Í því frv. er gert ráð fyrir að safna mjög verulegum fjármunum á næstu árum til þess að byggja upp varanlegt lánakerfi fyrir íbúðabyggingarnar, en eins og við vitum öll, er höfuðnauðsyn að reyna að koma því svo fyrir, að fé til þeirra mála geti safnazt fyrir og síðan sé hægt að velta því aftur og aftur. Það er ekki hægt að fullyrða, eins og kemur fram af því, sem ég sagði um áætlun á heildarupphæð skattsins, hvað þetta muni gefa byggingarsjóðnum eða styðja hann mikið, en áætlanir hafa verið gerðar um það, miðað við, að skatturinn gæfi 80 milljónir. Er sú fjárhæð, sem byggingarsjóðurinn fær þá, innifalin í þeim fjárhæðum, sem í frv. um byggingarsjóðinn er gerð grein fyrir að hann muni eiga í vændum við þessar nýju ráðstafanir, og leyfi ég mér að vísa til þeirra áætlana, sem þar er að finna, um það atriði.

En varðandi veðdeild Búnaðarbankans, sem er hin stofnunin, sem á að njóta góðs af þessum skatti, vil ég taka eftirfarandi fram: Við vitum, að það er mikil þörf á því að efla veðdeildina, og ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það. Hún þarf að geta lánað til að hjálpa til við eigendaskipti á jörðum, og hún þyrfti að geta lánað til þess að hjálpa frumbýlingum til bústofnslánakaupa og áhaldakaupa, og mörg verkefni bíða hennar og þýðingarmikil.

Það er í rauninni ekki hægt að áætla, hvaða gagn veðdeildin muni hafa af þessum ákvæðum, né fullyrða, hvað til hennar fellur skv. tillögum ríkisstj. í þessu frv. og annars staðar um eflingu hennar. En minna vil ég á það, að í frv. um íbúðalánamálin, sem ég minntist á, er gert ráð fyrir skyldusparnaði, eins og hv. þm. vita, og á veðdeild Búnaðarbankans að fá skyldusparnaðinn úr sveitunum. Ég held, að það sé ekki óvarlegt að hugsa sér, að veðdeildin ætti að geta á næstu árum fengið a.m.k. 5–6 millj. af nýju fé árlega fyrir þessar ráðstafanir samanlagt, þ.e.a.s. hluta sinn af stóreignaskattinum og skyldusparnaðinn úr sveitunum. Ég býst við því, að það sé varlega til getið. En eins og gefur að skilja, er ómögulegt að áætla þetta með nokkurri nákvæmni.

Gert er ráð fyrir því, að á þessu ári verði veðdeild Búnaðarbankans séð fyrir 5 millj. kr. láni, vegna þess að hún fær ekkert af stóreignaskattinum á þessu ári. Það mun fara allt þetta ár í að leggja hann á og undirbúa hann undir innheimtuna, svo að það er ekki hægt að búast við, að veðdeildin fái neitt af honum á þessu ári eða byggingarsjóðurinn. En á næsta ári ættu að geta byrjað að koma inn tekjur af stóreignaskatti. Skyldusparnað fá þessar stofnanir síðari hluta þess árs, sem nú er að líða.

Ég hef þá í stuttu máli gert grein fyrir höfuðástæðunum fyrir þessu frv. og minnzt á nokkur aðalatriði þess og rifjað upp, hvernig hugsað er að verja því fé, sem inn kemur vegna ákvæða frv. Mun ég láta þessa framsögu nægja, en vísa um einstök atriði til grg., sem ég ætla að sé sæmilega ýtarlega gerð.

Ég vil svo loks leggja til, að þessu máli verði vísað til hv. fjhn. deildarinnar að lokinni þessari 1. umr.