12.04.1957
Neðri deild: 86. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1449 í B-deild Alþingistíðinda. (1432)

159. mál, skattur á stóreignir

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Frv. því, er hér er til umræðu, var sem kunnugt er fyrst útbýtt í gær, og höfum við þm. stjórnarandstöðunnar því haft skamman tíma til þess að átta okkur á einstökum atriðum þess. En þar sem hér er vitanlega um stórmál að ræða, munum við að sjálfsögðu taka það til vandlegrar athugunar, þegar er til þess gefst tóm, og taka að því búnu afstöðu til málsins, bæði í heild og til einstakra atriða þess. En ég vil þó þegar á þessu stigi málsins leyfa mér að drepa á nokkur atriði almenns eðlis, að því er snertir væntanleg áhrif skattaálagningar þessarar á fjármálakerfið í heild og þar með hagsmuni almennings.

Í grg. hæstv. ríkisstj. fyrir frv. er sagt, að skattur þessi sé á lagður til þess, að þeir, sem hann eiga að greiða, taki þannig á sig réttmætan hluta þeirra byrða, sem orðið hafi að leggja á þjóðina um s.l. áramót til þess að stöðva verðbólguna, eins og það er orðað. Það getur nú að vísu ekki verið álitamál, að með þeim ráðstöfunum voru lagðar allþungar byrðar á almenning, en hitt er umdeilt, hvort með þeim ráðstöfunum hafi tekizt að stöðva verðbólguna, en ekki skal ég þó ræða það mál að svo stöddu. En hvað sem því liður, þá er vist, að skattur sá, sem hér er um að ræða, getur ekki verið liður í ráðstöfunum til þess að stemma stigu við verðbólgunni, því að það er einmitt gert ráð fyrir, að öllu því fé, sem innheimta á á þennan hátt, skuli varið til fjárfestingar. Það verður einnig að teljast mjög hæpið, þegar því er haldið fram í grg. hæstv. ríkisstj. fyrir frv., að hér sé um skatt á verðbólgugróða að ræða. Grundvöllur þessa skatts er í rauninni verðhækkun á fasteignum, en þó að verðhækkun á fasteignum eigi sér stað, þýðir það ekki, að eigendur fasteignanna séu orðnir þeim mun ríkari. Þeir verða að vísu ríkari að krónutali, ef fasteignin hækkar í verði, en á móti því kemur auðvitað það, að hver króna verður minna virði. Það er aðeins í því tilfelli, að fasteignirnar hækki meira en hið almenna verðlag, að hægt er að segja, að fasteignaeigendur græði á verðbólgunni. Í öðrum tilfellum verður það ekki, og ætti það að vera jafnaugljóst og það, að vegarlengdin til Hafnarfjarðar hlýtur að verða sú sama, hvort sem hún er mæld í kílómetrum eða metrum. Á sama hátt breytir það í rauninni engu um verðmæti fasteignanna, þó að þær hækki í verði að krónutölu, ef verðgildi peninganna hefur minnkað að sama skapi. Þær eru aðeins metnar á annan mælikvarða en áður.

En hvað sem þessum atriðum líður, þá er með þessu ekki sagt, að slíkur skattur gæti ekki af öðrum ástæðum átt rétt á sér, en að því mun ég víkja örlítið hér á eftir.

Ef hér væri aðeins um það að ræða, hvernig eigi að skipta þeim byrðum, sem nauðsynlegt kann að vera að leggja á þjóðfélagsþegnana við og við, mundi slík skattaálagning varla verða mikið ágreiningsefni. Það er enginn ágreiningur um það, að þeim aðilum, sem hér eiga hlut að máli, ber auðvitað að taka sinn þátt í slíkum nauðsynlegum byrðum, því að til þess hafa þeir öðrum meira fjárhagslegt bolmagn. En það er nú einu sinni þannig, að hagsmunir stétta og einstaklinga eru svo samtvinnaðir í okkar þjóðfélagi sem öðrum nútíma þjóðfélögum, að mál þetta er engan veginn svo einfalt, að það sé hægt að gera ráð fyrir því, að skattar, hvort sem um er að ræða stóreignaskatta eða aðra skatta, séu ávallt bornir af þeim, sem skattarnir eru lagðir á, þannig að skattaálagningin snerti enga aðra en þá. Slíkur hugsunarháttur væri í rauninni álíka raunsær og karlsins, sem sagði forðum: „Ekki ber Skjóna það, sem ég ber.“ En til eru þeir, sem virðast hugsa sem svo, að eignir séu fyrst og fremst peningafúlga, sem menn hafi handbæra, og eignarskattur hafi því það eitt í för með sér, að þeim, sem slíka skatta greiða, sé gert að afhenda vissan hluta af fúlgunni. En við þekkjum þó það mikið allir til fjármála, sem hér erum staddir, að við vitum, að þetta er ekki rétt. Eignir manna eru að jafnaði ekki nema að litlu leyti handbærar, heldur eru þær að mestu fólgnar í raunverulegum verðmætum, svo sem húsum, skipum, vélum o.s.frv. eða þá lánum, bundnum til langs tíma.

Ef þeim, sem slíkir skattar eru lagðir á, er gert að greiða þá í handbæru fé, verður það því meginatriði í sambandi við áhrif slíks skatts á fjármálakerfið, hvernig fjárins er aflað. Fjórar leiðir koma til greina fyrir skattgreiðendur í þessu sambandi. Þeir geta í fyrsta lagi greitt bann af þeim hluta tekna sinna, sem þeir verja til persónulegrar neyzlu, í öðru lagi af þeim hluta teknanna, sem þeir ella mundu spara, í þriðja lagi geta þeir ráðstafað sparifé, sem þeir kunna að eiga, til greiðslu skattanna, og í fjórða lagi geta þeir selt af hinum skattlögðu eignum. En þar sem hér er eingöngu um vel efnum búna einstaklinga að ræða, eru engar líkur á því, að þeir takmarki neyzlu sína vegna skattgreiðslunnar, þannig að skatturinn mun verða greiddur nær eingöngu af sparnaði eða sparifé eða þá á þann hátt, að skattgreiðendur selja af eignum sínum. En að því leyti, sem sú leið yrði farin, yrði skatturinn greiddur að mestu eða öllu leyti af sparnaði eða sparifé kaupendanna. Niðurstaðan af þessu hlýtur því að verða sú, að skattur þessi verður að langmestu, ef ekki að öllu leyti greiddur af sparifé. Löggjöf þessi þýðir því í raun og veru, að Alþingi ráðstafar á þennan hátt þeim hluta af sparifé landsmanna, sem nemur upphæð skattsins. Alþingi ráðstafar þessum hluta til þeirra framkvæmda, sem lögin gera ráð fyrir. Þar er vissulega um þarflegar framkvæmdir að ræða, en það ber að vara við þeim misskilningi, að hér geti verið um að ræða spor í þá átt að bæta úr lánsfjárskortinum. Það verður ekki um neina aukningu sparifjármyndunar að ræða. Fé það, sem bankar og aðrar lánastofnanir hafa til ráðstöfunar, hvort sem er í þágu þeirra framkvæmda, er verja á skattinum til, eða annars, hlýtur að minnka nokkurn veginn sem skattinum nemur. Lánsfjárvandamálið verður því í heild óleyst eftir sem áður. Jafnframt þessu munu verða eigendaskipti að nokkrum hluta hinna skattlögðu eigna, en ekki verður auga komið á rök fyrir því, að slíkt verði þjóðarheildinni til hagsbóta, því að ósannað verður auðvitað, hvort hinir nýju eigendur eru líklegir til þess að ráðstafa eignum þessum betur en hinir fyrri eigendur.

Ég hef þá gert nokkra grein fyrir þeim áhrifum, er mér í fljótu bragði virðist skattaálagning þessi muni fyrst í stað hafa á fjármálakerfið. Verður það svo auðvitað álitamál, hvort árangur sá, er af þessu má vænta, sé líklegur til að svara þeim kostnaði, sem skattheimtan hlýtur að hafa í för með sér og hlýtur að verða verulegur. En með þessu er þó að mínu áliti ekki sögð öll saga þessa máls. Þetta er í þriðja sinn á áratug, sem skattur af þessu tagi er lagður á. Þær aðstæður geta vissulega verið fyrir hendi, að slík skattaálagning sé skynsamleg, og í þau tvö skipti, sem slíkur skattur hefur verið lagður á áður, hefur Sjálfstfl. staðið að því. En fyrir því má ekki loka augnnum, að stóreignaskattar, sem lagðir eru þannig á með stuttu millibili, geta haft mjög varhugaverð áhrif á efnaaukninguna í þjóðfélaginu, sem allar framfarir byggjast á.

Kunnur hagfræðingur og jafnaðarmannaforingi á Norðurlöndum komst eitt sinn svo að orði, að stóreignaskattur gæti verið skynsamleg ráðstöfun einu sinni á hálfri öld, en ætti að framkvæma hann öllu oftar, gæti það haft hin óheppilegustu áhrif á fjárhagskerfið.

Sú ákvörðun hæstv. ríkisstj. að undanþiggja sparifé skatti þessum er vissulega lofsverð, og dregur hún nokkuð úr óheppilegum áhrifum slíkra skatta á sparifjármyndunina. Engu að síður tel ég á því mikla hættu, að hinir síendurteknu stóreignaskattar hafi óheppileg áhrif á sparifjármyndunina í landinu. Menn verða nefnilega að hafa það hugfast, að sparifjársöfnun einstaklinga er sjaldnast markmið í sjálfu sér, heldur spara menn að jafnaði í einhverjum ákveðnum tilgangi. Sá tilgangur er venjulega fjárfesting í einni eða annarri mynd, svo sem kaup fasteigna eða atvinnutækja. Ef þeir, sem helzt hafa aflögu til að spara, fara að reikna með því sem vissum hlut, að festi þeir fé sitt í slíkum eignum, þá verði það allt tekið af þeim á skömmum tíma í eignarskatta, þá er hætt við, að sá hugsunarháttur verði ríkjandi, að peningum þeim, sem afgangs eru nauðsynjum, sé þá betur varið til skemmtiferðalaga, veizluhalda og annars persónulegs munaðar en til eignaaukningar. En eins og uppbyggingu okkar þjóðfélags er háttað, verður öll efnaaukning og framfarir í þjóðfélaginu mjög háð eignamyndun hjá einstaklingum, þannig að dragi úr henni, hlýtur það að skapa kyrrstöðu, og mundi slíkt í miklu ríkara mæli bitna á öðrum en þeim, sem skattur þessi er nú lagður á.

Þá verður það og að mínu áliti að teljast varhugavert, að skuldabyrðar þær, sem með hinum síendurteknu stóreignasköttum eru lagðar á atvinnufyrirtækin, gera áframhaldandi verðbólguþróun að hagsmunamáli atvinnurekenda, og getur það torveldað mjög baráttuna gegn verðbólgunni. Ætti það atriði ekki að þurfa nánari skýringa við, og ætti einnig að vera ljóst, að óheppilegar afleiðingar þessa bitna í ríkara mæli á öðrum en þeim, sem gert er að greiða skatt þennan.

Stóreignaskattur sem þessi og þeir, er á hafa verið lagðir á undanförnum árum, getur átt rétt á sér sem liður í gagngerðum ráðstöfunum til þess að skapa varanlegt jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar. En sé farið að endurtaka slíka ráðstöfun í sífellu og beita slíkum aðgerðum í sambandi við efnahagsráðstafanir, sem engum dettur í hug að geti verið annað en bráðabirgðalausn, svo sem lögin um útflutningssjóð o.fl. frá síðastliðnum áramótum, þá fer ekki hjá því, að þeirra óheppilegu áhrifa gæti, er hér hefur verið gert grein fyrir, og ber við því að vara, ekki sökum hagsmuna þeirra, er skattana eiga að greiða, en þeir eru að mínu áliti hér aukaatriði, heldur vegna hagsmuna almennings.