12.04.1957
Neðri deild: 86. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1452 í B-deild Alþingistíðinda. (1433)

159. mál, skattur á stóreignir

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Þetta frv. er að mestu leyti sniðið eftir þeim l. um stóreignaskatt, sem samþ. voru 1950 og settur var á um leið og gengisbreytingin var framkvæmd það ár. Þegar gengisbreytingin var gerð í byrjun árs 1950, var tekið afleiðingunum af þeirri miklu byltingu, sem orðið hafði í efnahagskerfi landsins í stríðinu og eftir stríðið, og þeirri miklu verðlækkun krónunnar, sem þá var orðin. Undir þeim kringumstæðum og eftir peningaflóð stríðsáranna mátti að mörgu leyti teljast eðillegt, að ráðstöfun eins og stóreignaskatturinn þá væri gerð, þótt hins vegar síðari reynsla í sambandi við framkvæmdina gerði það vafasamt, hversu hyggileg ráðstöfunin hafi verið, þegar öll kurl voru komin til grafar. En eins og á stóð, mælti margt með því, að þessi leið væri farin. Nokkrar aðrar þjóðir, þ. á m. Danir, fóru eftir stríðið út í eignakönnun og lögðu á stóreignaskatt, en þar reyndist það svo, að þessar ráðstafanir höfðu að mörgu leyti í för með sér mjög óþægileg áhrif á efnahagskerfið, svo að því var jafnvel haldið fram af fræðimönnum, að eignakönnunin og stóreignaskatturinn hefði reynzt Dönum þyngri í skauti en hernám Þjóðverja.

Nú er lagt til með frv. þessu, að nýr eignarskattur verði lagður á 7 árum eftir þann fyrri. Er þessi skattur að mestu leyti lagður á sömu eignir og fyrri skatturinn, því að fasteignirnar eru aðalgrundvöllurinn undir skattlagningunni, en þær eru hækkaðar mjög í verði, eða frá því að vera metnar á sexfalt fasteignamat við fyrri stóreignaskatt upp í fimmtánfalt fasteignamat af húseignum í Reykjavík. En þegar hinn nýi væntanlegi fasteignaskattur verður gjaldkræfur, má segja, að meginhluti gjaldenda fyrri fasteignaskatts, sem að sjálfsögðu eru í verulegum atriðum þeir sömu og einnig borga þennan skatt, eigi enn ógreitt allt að því 2/3 hlutum af þeim skatti, sem lagður var á 1950.

Ég þekki ekki til, að endurtekning á slíkum ráðstöfunum hafi átt sér stað í öðrum löndum, þar sem stóreignaskattur var lagður á eftir stríð.

Í frv. er greind sú meginástæða fyrir þessum nýja skatti, að það sé nauðsynlegt í því skyni að stöðva verðbólguna og koma efnahagsmálunum á traustari grundvöll. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Til þess að ná þessu marki er óhjákvæmilegt að leggja verulegar fjárhagsbyrðar á þjóðfélagsþegnana, og þykir rétt, að þyngstu byrðarnar komi á þá, sem mest hafa hagnazt af verðbólgu undanfarinna ára, þá, sem mestar eignirnar eiga.“

Ég er sammála um það, að þyngstu byrðarnar eiga að koma á þá, sem hafa breiðust bökin. Ég er ekki að telja þá undan, sem ríkir eru, að bera sinn hluta byrðanna, þegar nauðsyn þjóðfélagsins kallar. En hér virðist vera meginröksemdafærslan sú, að þeir, sem hafa hagnazt á verðbólgunni, skuli skila nokkru aftur af því, sem þeir hafa grætt á þennan hátt. Ég er líka sammála þessu. En spurningin er aðeins þessi að minni hyggju: Á hvaða hátt verður þetta réttlátlega gert, og hverjir hafa grætt á verðbólgunni? Við skulum taka dæmi. Maður, sem átti skuldlausa eign fyrir stríð, sem virt var að fasteignamati á 80 þús., gat naumast á þeim tíma kallazt stóreignamaður. Við getum kallað manninn bjargálna. Nú verður svo gert samkvæmt frv., að þessi eign hans er fimmtánfölduð að fasteignamati og honum er sagt að greiða nokkurn stóreignaskatt af þessari eign, sem að vísu er ekki mikill, um 30 þús. kr. Þessi sami maður þurfti líka að borga nokkurn stóreignaskatt fyrra skiptið. Þessi maður er nú engu ríkari en hann var 1939. Í bezta lagi stendur hann alveg í sömu sporum. En það, sem hefur gerzt, er, að krónan hefur lækkað, en eignin hefur staðið í stað, maðurinn hefur m.ö.o. komizt hjá því að tapa á krónulækkuninni, en hann hefur ekkert grætt á henni. Það sama gildir um vélar, tæki og annað því um líkt. Verðbólgan eykur ekki raunverulegt gildi þeirra hluta, sem menn hafa átt, áður en verðbólgan hófst. Hins vegar má segja, hafi menn stofnað til mikilla skulda til þess að eignast þessi tæki og hafi borgað skuldirnar, meðan verðbólgan var hraðvaxandi, að slíkir aðilar hafi grætt á verðbólgunni.

En þegar leitað er réttlætis í máli eins og þessu, verður að mínu viti fyrst deilt um það, hvað nettóeign manna má vera mikil, áður en þeir komast í stóreignaskatt og er skipað á bekk með milljónamæringum. Flestum mun nú finnast, að það sé sanngjarnt, að menn megi eiga þak yfir höfuðið og kannske eitthvað örlítið meira, áður en þeim er skipað á bekk með þeim ríku.

Ég álít, að það eigi að athugast mjög gaumgæfilega, hvar þessa linn á að draga og á hvaða eign skatturinn eigi að byrja, ekki sízt með tilliti til þess, að flestir þeirra, sem undir þennan nýja skatt koma, hafa þegar greitt stóreignaskatt af þessum sömu eignum.

Við þessa umr. málsins og með þeim stutta tíma, sem menn hafa haft til íhugunar um málið, frá því að það var lagt fram hér í deildinni í gær, er ekki við að búast, að hægt sé að ræða það nú á þessari stundu ýtarlega, og hljóta því þessar umr. að vera aðeins lauslegar athuganir. Ég vil þó í þessu sambandi benda á nokkur atriði, sem ég tel að verulegu máli skipti.

Í l. um stóreignaskatt 1950 var félögum gert að greiða skatt fyrir hluthafa sína eða félagsmenn, að því leyti sem tilheyrði eign einstaklinganna í viðkomandi félagi. Þessi greiðsla var þá ekki afturkræf. Nú er gerð sú breyting, að félögin geti krafizt endurgreiðslu frá félagsmönnum sínum. Ég álít, að með þessu komist félögin algerlega frá því að greiða nokkurn skatt af eignum sínum, hversu rík sem þau kynnu að vera, en einstaklingarnir verða að borga af eignarhlut sínum í félögunum, þótt þeir hafi engin tök á að ná út nokkru af eign sinni í félögunum til þess að standa straum af greiðslu skattsins. Á þetta sérstaklega við um hlutafélög, sem bundin eru mjög ströngum lagaákvæðum um sjóði og úthlutun arðs. Ég tel, að það sé engin sanngirni, að svo sjálfstæðir fjárhagsaðilar sem hlutafélögin eru sleppi við skattinn, en einstaklingarnir látnir bera hann, án þess að þeir geti á nokkurn hátt notfært sér þau verðmæti, sem þeir samkvæmt virðingu skattayfirvalda eru taldir eiga í viðkomandi félagi. Ég er hræddur um, ef þessu atriði verður ekki breytt, að fyrirsjáanlegt sé, að mjög miklar deilur muni risa í félögunum um þetta efni.

Fyrri stóreignaskattur átti að greiðast á 20 árum, og var hann þó ekki talinn, að mig minnir, bærri en um 50 millj. kr. Nú á að innheimta 80 millj. kr. á 10 árum. Þótt aldrei geti farið hjá því, að slíkur skattur hafi mikil áhrif á efnahagskerfið, er þó dregið úr hinum truflandi áhrifum hans því meira, sem hann er greiddur á lengri tíma. 10 ára greiðslufrestur er of skammur. Svo stuttur tími getur haft hættulegar afleiðingar. Eina skynsamlega leiðin til að forðast slíkt er að hafa gjaldfrestinn svo langan, að efnahagskerfið verði fyrir sem minnstri truflun við innheimtuna.

Vextir af fyrri stóreignaskatti voru 4%. Nú er gert ráð fyrir, að greitt verði 6% af því, sem eftir stendur af skattinum. Að vísu hafa vextir hækkað síðan 1950, en ég tel, að 5% séu sanngjarnir vextir, eins og aðstæður eru.

Eins og ég sagði áðan, er áætlað, að allur skatturinn sé um 80 millj. kr. Þessa fjárhæð á að taka með 8 millj. kr. afborgun á ári auk vaxta, sem í byrjun geta verið um 4 millj. Hér eru því raunverulega teknar 10–12 millj. kr. fyrstu árin af veltufé atvinnuveganna og á einn eða annan hátt settar í nýja fjárfestingu, þar sem skatturinn á allur að renna til íbúðabygginga.

Þetta álít ég að sé talsvert íhugunarefni. Ég skal ekki lasta fjárfestingu í þessu skyni, en okkur er þá jafnframt nauðsynlegt að gæta þess að reisa okkur ekki í þessu efni frekar en öðrum hurðarás um öxl, m.a. með því að draga svo mikið fé frá atvinnuvegunum og almennum rekstri í landinu, að það gæti valdið samdrætti eða jafnvel kreppu, — eða það gæti valdið enn meiri þenslu verðbólgunnar, sem þjóðin nú er að reyna að spyrna fótum gegn.