20.05.1957
Neðri deild: 101. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1461 í B-deild Alþingistíðinda. (1444)

159. mál, skattur á stóreignir

Frsm. minni hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil byrja mál mitt með því að víkja nokkuð að því, sem fram kom síðast í ræðu frsm. meiri hl. fjhn., að hann mótmælti því, sem kemur fram í nál. okkar minni hl. um meðferð þessa máls, að við teljum, að vegna hinnar óþinglegu meðferðar höfum við talið nokkur knúna til að gefa út framhaldsnál., sem nú liggur fyrir á þskj. 558.

Frsm. meiri hl. telur, að meðferð þessa máls sé á engan veginn óþingleg og ekki með öðrum hætti en mjög oft tíðkist, og mótmælir þess vegna því, sem um þetta er haldið fram. Ég verð að upplýsa það hér, að fyrir mér hef ég ekki minni mann í þessu efni en hæstv. forseta Sþ., sem á sæti í þessari n., í meiri hl., og þegar við vorum að ræða þessa meðferð, viðhafði þau orð, að hún væri a.m.k. óþingleg. En það, sem hér er um að ræða, er nánar tiltekið, að mjög veigamikið mál, eins og stóreignaskattsfrv., liggur fyrir í n., og það liggja fyrir í n. mjög margar brtt. og rökstuddar brtt. og athugasemdir frá minni hl., en meiri hl. fæst ekki til að taka afstöðu til þeirra innan n., áður en málið fer til 2. umr. Sjá menn af þessu, að slíkt er næsta óþingleg meðferð, þegar þannig háttar, að það liggja fyrir í n. margvíslegar brtt. og athugasemdir, sem ekki er hægt að ætlast til og var ekki ætlazt til út af fyrir sig að meiri hl. féllist á, en hann varð þó a.m.k. að gera minni hl. grein fyrir því, að hve miklu leyti eða að hve litlu leyti hann vildi fallast á þessar brtt., og við tókum það beinlínis fram, að afstaða okkar til málsins hlyti af þessu að mótast. Og við ræddum um það innan fjhn., að við fulltrúar Sjálfstfl. í n. teldum næsta óeðlilegt og óþinglegt að leggja fram okkar brtt., eins og málið var í pottinn búið við 2. umr., vegna þess að við vildum forðast að þurfa að taka upp deilur um málið eða einstakar brtt., sem ef til vill átti eftir að verða samkomulag um í n. Við höfðum rökstudda ástæðu til þess að ætla, að meiri hl. mundi að einhverju leyti verða okkur sammála um nauðsyn á breyt. á frv., enda varð líka sú raunin á, að þó að ekki væri beinlínis fallizt á okkar tillögur, hefur meiri hl. n. flutt brtt. á þskj. 552.

Þetta er auðvitað óþinglegt, eins og hæstv. forseti Sþ. tók fram í n., og í reyndinni leiðir það til þess, að einni umr. verður í raun og veru minna um slíkt mál en þingsköp að öðru leyti áskilja.

Ég skal að öðru leyti gera grein fyrir þeim breyt., sem við í minni hl. fjhn. leggjum til á þskj. 558 að gerðar verði á þessu máli. Fyrst vil ég minna á, að í nál. minni hl. á þskj. 488 er alvarlega varað við samþykkt þessa máls, bæði í því formi, sem það er, og einnig almennt, og um það fjallað, hversu óheillavænleg áhrif ætla má að samþykkt þessa máls nú geti haft á þróun efnahags- og atvinnulífs í landinu. Það hefur verið á það bent, hversu óeðlilegt það sé og óvarkárt að leggja á stóreignaskatta æ ofan í æ með stuttu millibili, og sé það nokkuð og allt annað en hitt, þó að bæði við og aðrar þjóðir grípum til þess eða teljum nauðsynlegt að grípa til þeirra ráðstafana að leggja á stóreignaskatta, þegar átt hafa sér stað verulegar umbyltingar og raskanir í efnahagslífi þjóðfélagsins eða þjóðfélaganna, eins og t.d. oft hefur átt sér stað í sambandi við styrjaldir og afleiðingar þeirra og skattamál í framhaldi af því, eða gagngerðar og róttækar breytingar á efnahagskerfi þjóðarinnar, eins og átti sér stað með setningu gengisbreytingarlaganna frá 1950, en í þeim voru einnig ákvæði um stóreignaskatt. En eins og við bendum á, er mjög ólíku saman að jafna, álagningu stóreignaskatts í sambandi við slíkar ráðstafanir, sem eru gerðar samhliða öðrum ráðstöfunum til að stuðla að stöðugu verðlagi og jafnvægi í þjóðarbúskapnum, verðuppbótum á sparifé, eins og þá var, og mörgum öðrum ráðstöfunum, eða nú, þegar ekki er með neinu móti hægt að réttlæta eða tengja þennan stóreignaskatt við þær aðrar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í efnahagsmálum þjóðarinnar. Það er næsta furðulegt, með hverjum hætti stóreignaskatturinn er réttlættur í grg. frv. af hálfu hæstv. ríkisstj.: „Nauðsyn ber til“, segir í grg., með leyfi hæstv. forseta, „að vinna gegn nýrri verðbólgumyndun, og einn þátturinn í því er álagning þess skatts á stóreignir, sem frv. þetta fjallar um.“ En siðan eru ákvæði í frv. um það, að einmitt skattheimtufénu á að verja til fjárfestingaraukningar í þjóðfélaginu, og verður þess vegna á engan hátt hægt að skilja þetta sem ráðstöfun til þess að vinna á móti verðbólgumyndun, heldur þvert á móti.

En af þessum sökum, að við teljum, að hér standi mjög ólíkt á og við álagningu stóreignaskattsins 1950, höfum við varað við þessari skattheimtu nú og af tveimur ástæðum augljóslega, að þessi skattheimta mun ekki í framkvæmdinni bitna verst á þeim, sem skatturinn er heimtur af, heldur á öllum almenningi í þessu landi, vegna þess að eins og lánsfjármálum er varið hjá okkur, þar sem flestar eða allar greinar atvinnulífsins berjast við lánsfjárskort, getur slík skattheimta eins og þessi ekki til annars leitt en að enn tilfinnanlegri verði þessi lánsfjárskortur, því að skatturinn verður ekki greiddur nema að einhverju verulegu leyti með nýjum lántökum frá lánastofnunum til þeirra, sem skattinn eiga að greiða, og það enda þótt skatturinn megi greiðast á 10 árum. En það væri auðvitað til stórra bóta að lengja greiðslutímann, eins og við m.a. leggjum til í okkar brtt.

En við þetta bætist svo hitt, að aftur á móti er skatturinn ekki veruleg fjáröflun í fjárhagskerfi þess opinbera, þegar hugsað er til þess, að áætlanir eru uppí, þó að þær séu allar á reiki, um ca. 80 millj. kr. skatt, sem eigi að greiðast á 10 árum. Hann verður því í sjálfu sér að hlutfallslega litlu gagni þeim, sem eiga að njóta hans, þ.e. byggingarsjóði og veðdeild Búnaðarbankans, miðað við aðrar ráðstafanir, sem líklegar hefðu verið til þess að efla þessa aðila, en bitnar hart á atvinnulífinu og efnahagsþróuninni almennt.

1. brtt. okkar við þetta frv. er sú, að ákvæðið í 1. tölulið 2. gr. um sérstakt mat á einstökum lóðum skuli fellt úr lögunum. Við teljum, að það sé með öllu ósæmandi lagaákvæði, að þriggja manna nefnd sé falið það vald að mega endurskoða eða geta endurskoðað einstakar eignir tiltekinna manna algerlega af handahófi í sambandi við skattlagningu eins og þá, sem hér er um að ræða. Minni hl. hefur því lagt til, að þetta ákvæði sé algerlega fellt niður og lóðirnar sæti hinu almenna mati eins og fasteignirnar. Sýnist einnig, að það sé nokkuð sæmilegt, þegar gert er ráð fyrir að fimmtánfalda fasteignamatið við mat á fasteignunum frá því, sem verið hefur.

Nú var það svo, að innan fjhn. virtist þegar í upphafi skilningur eða nokkrar undirtektir hjá meiri hl. um, að þetta væri ekki gott ákvæði og gæti leitt til handahófs í framkvæmd málsins, sem ómögulegt væri að sjá fyrir um, hversu mikið ranglæti gæti af stafað. Meiri hl. flytur þess vegna brtt. við þetta ákvæði 2. gr. á þskj. 552, og við í minni hl. teljum það nokkuð til bóta, heldur geðfelldara og áferðarfallegra en þessi vanskapnaður, sem í frv. var og er ósæmandi. En þó tel ég, að það gangi allt of skammt og það sé því miður þrátt fyrir þessa brtt. hætt við, að á verulegan hátt sé hægt að mismuna mönnum í sambandi við þetta lagaákvæði. Óttast ég, að öll kurl séu ekki komin til grafar í þeim efnum eða komi ekki fyrr en síðar til grafar í þeim efnum, og almennt má líka segja sem svo: Hvers vegna á að vera að taka hér sérstaklega út úr lóðirnar og tilskilja sérstakt mat á þeim umfram aðrar eignir? Í greinargerð frv. er reynt að réttlæta þetta, vegna þess að mjög miklar verðbreytingar hafi orðið á einstöku stöðum á landinu á lóðum, þar sem þéttbýlismyndun hefur átt sér stað, og á þetta fyrst og fremst kannske og nær eingöngu við um Reykjavík. Þetta má að vissu leyti til sanns vegar færa. En það sýnir einmitt, hvað við erum komnir út á hálan ís, að gera sér grein fyrir, hvernig einstaklingar hér í Reykjavík margir hverjir, sem eiga lóðir hér í miðbænum eða við miðbæinn og engar aðrar eignir og ekki lausafjármuni, eiga að greiða kannske hundruð þúsunda af verðmæti þessara lóða, þegar búið er umfram 15% margföldunina að skella á það sérstöku mati. Þessir menn mega ekki afhenda lóðirnar, eins og þær eru metnar, nema samþykkt verði brtt., sem við flytjum um það. Og það er mjög líklegt, að það sé fjöldi manna, sem slíkar lóðir kann að eiga, en eiga, eins og ég sagði áðan, ekki aðra fjármuni og a.m.k. ekki lausafjármuni og eiga því ekki annars úrskosta en að reyna þá að selja lóðirnar öðrum og fá út úr þeim nægjanlegt fjármagn til þess að standa ríkinu skil á þessum skatti. En ég hygg, að menn hljóti að vera sammála um, að slík eignayfirfærsla, knúin fram af jafnósanngjörnum skattalögum og hér er um að ræða, sé næsta óheilbrigð og óeðlileg í þjóðfélaginu.

Við leggjum því mjög mikla áherzlu á það í minni hl., að í. brtt. okkar, sem lýtur að því að fella niður öll ákvæði um mat á einstökum lóðum, verði samþykkt, og teljum, að brtt. meiri hl. gangi allt of skammt, þó að hún sé, eins og ég sagði áðan, nokkuð til bóta.

Þá er 2. brtt. okkar, við 2. mgr. 1. töluliðar 2. gr., en það er ákvæði í frv. um, að frá matsverði frystihúsa, sláturhúsa og annarra húseigna, sem notaðar eru fyrir vinnslustöðvar sjávarafurða og landbúnaðarafurða, skuli draga 20%. Þegar slík upptalning er gerð eins og þarna á vissum eignum, sem megi draga frá matsverðinu 20%, verður eðlilegt, að menn spyrji sjálfa sig: Vegna hvers þessar eignir, sem þarna eru taldar upp, og vegna hvers ekki aðrar, a.m.k. þær aðrar eignir, sem að öllu leyti má telja sambærilegar við þær, sem hér eru upp taldar? Og ef við athugum lög um sérstakar fyrningarafskriftir frá 1946, nr. 59, er þar einmitt upptalning á vissum eignum og verðmætum, sem mega njóta hinna sérstöku fyrningarafskrifta, og þar eru taldar upp allar þessar eignir, sem í þessari mgr. 2. gr. eru taldar, en umfram það eru í þeirri upptalningu dráttarbrautir og síldarverksmiðjur. Nú má segja, að undir þetta mætti kannske færa síldarverksmiðjur og þyrfti ekki að taka það sérstaklega fram, því að þær verði taldar sem vinnslustöðvar sjávarafurða, og væntanlega yrði á það fallizt, ef á reyndi. En þá leggjum við til, að dráttarbrautum verði bætt þarna inn, og þegar litið er á upptalninguna sem slíka, sýndist okkur, að skammt væri til þess að veita sömu heimild öðru iðnaðarhúsnæði, þar sem hér er alls staðar um iðnaðarhúsnæði í sjávarútvegi eða landbúnaði að ræða, og leggjum þess vegna til, að sú viðbót komi einnig til greina. Þetta mundi leiða til þess, að verulega fleiri eignir en upp eru taldar þarna fengju að njóta 20% frádráttar við matið en einmitt þær eignir, sem eru í atvinnurekstri landsmanna og myndazt hafa af arði atvinnurekstrarins. Segja má, að við álagningu þessa stóreignaskatts væri mjög æskilegt, ef almennt væri hægt að koma inn ákvæði um það, að verðmætum, sem eru í atvinnurekstrinum og hafa skapazt fyrir arð af atvinnurekstrinum, væri meira og minna hlíft í þessum efnum eða undanþegin. En ég sé nú ekki, hvernig raunar væri bægt að gera það og þess vegna verði það ekki gert nema að einhverju leyti með ákvæðum eins og þessu, sem hér er um að ræða og stefnir í þessa átt, og öðrum ákvæðum t.d., sem ég kem síðar að, þar sem skip eru og flugvélar, við mat á þeim má draga frá tiltekinn hundraðshluta, þegar eignin er virt, og einnig í sambandi við ákvæðið um, að nýbyggingarsjóðir séu frádráttarbærir við mat á eignunum, eins og var í stóreignaskattsákvæðunum frá 1950 og við leggjum til að tekið verði upp í þessa löggjöf.

Ég vildi alvarlega biðja hv. þm. að athuga það, sem felst í þessari brtt., og á erfitt með að trúa því, að þegar þm. athuga þetta nánar, geti þeir ekki fallizt á, að það sé næsta eðlileg sú breyting, sem í þessu er fólgin, og sanngjörn og nokkuð mikils virði fyrir atvinnureksturinn og iðnaðinn í landinn, sem Alþ. með ýmsum öðrum ráðstöfunum, bæði nú og fyrr, hefur verið að reyna að styðja, eins og hv. þm. er kunnugt um.

Þá kem ég að 3. brtt. okkar, þar sem frv. kveður á um, að við matsverð fasteigna, eins og það er ákveðið samkvæmt framansögðu, skuli bæta 200% álagi. Við leggjum til, að í stað 200% álags komi 150% álag. Í þessu sambandi vil ég minna á, að með eldri ákvæðum frá 1950 um stóreignaskatt var fasteignamat margfaldað með tölunum frá 3 til 6, mismunandi eftir stöðum eða fólksfjölda kaupstaðanna. Nú er hins vegar ákveðið, að allt fasteignamatið skuli þrefalda fyrst, og síðan á að miða við 200% álag, sem leiðir til þess, að hér í Reykjavík verður miðað við fimmtánfalt fasteignamat frá því, sem verið hefur að undanförnu.

Landsnefndin, sem vann að þessum málum, hefur lagfært fasteignamatið, grundvöll þess, áður en þessi fimmtánföldun kemur til, eða við það nýja fasteignamat, sem í gildi gekk 1. maí s.l. Og við höfum í nál. okkar viljað vekja athygli á, hvað mikla hækkun hér er um að ræða frá fyrra mati til stóreignaskatts, ef samþ. verður 200% álagið óbreytt, og svo hins vegar, ef okkar brtt. um 150% álag yrði samþ. En samanburðurinn er sá, eins og kemur fram í nál. okkar, að í Reykjavík var eftir gömlu stóreignaskattslögunum miðað við sexfalt fasteignamat, eftir ákvæðum frv. fimmtánfalt, og það er m.ö.o. 150% hækkun frá fyrra mati til stóreignaskatts. Á Akureyri var áður fimmfalt, eftir frv. 9.6falt, 92% hækkun; í Hafnarfirði fimmfalt áður, eftir frv. 13.8-falt, eða 176% hækkun frá fyrra mati til stóreignaskatts. Á Akranesi, í Keflavík og Vestmannaeyjum var áður ferfalt, verður nú eftir frumvarpsákvæðinu 13.8-falt, eða 245% hækkun frá fyrra mati til stóreignaskatts. Í Gullbr.- og Kjósarsýslu var áður þrefalt, nú 10.8-falt, eða 260% hækkun; í Árnes- og Rangárvallasýslu ásamt fleiri stöðum áður þrefalt, eftir frv. 9.6-falt, eða 220% hækkun; og í Eyjafjarðarsýslu, Neskaupstað, á Sauðárkróki, í Ólafsfirði ásamt fleiri stöðum áður þrefalt, nú 7.8-falt, eða 160% hækkun; og loks í S. Múlasýslu, á Patreksfirði, í Stykkishólmi og á Seyðisfirði áður þrefalt, nú sexfalt, eða 100% hækkun.

Það er m.ö.o. lagt til í þessu frv. um stóreignaskatt, að matsverð fasteigna verði stórkostlega hækkað frá því matsverði, sem lagt var til grundvallar 1950, og vek ég alveg sérstaka athygli á því, að eins og búið er nú að lagfæra grundvöllinn í fasteignamatinu, verður hækkunin mjög misjöfn. Og það er eðlilegt, að menn spyrji þá eða finnist nokkuð órökstutt, að t.d. skuli hækkunin nú verða 245% og 260% á Akranesi, Keflavik, Vestmannaeyjum og Gullbr.- og Kjósarsýslu og á Selfossi, en ekki nema 100% annars staðar og t.d. 92% á Akureyri. Minnst er hækkunin á Ísafirði og Siglufirði, eða 50% frá matinu, sem lagt var til grundvallar við stóreignaskattinn 1950.

Þegar við fórum nánar að athuga þetta, reyndum við að gera okkur grein fyrir, hver eðlileg hækkun væri, miðað við breyttar aðstæður, frá því að stóreignaskatturinn var lagður á 1950, og taldist þá til, að skynsamlegast væri í þessu efni að miða við byggingarvísitöluna og hvað hún hefði hækkað á þessum tíma. Er nánar gerð grein fyrir því á bls. 2 í nál. okkar, en miðað við byggingarvísitöluna eða hækkunina á henni, ætti hækkunin að vera nokkuð nálægt því að vera frá 135% til 143 eða 144% hér í Reykjavík, og til samræmis við það gerðum við okkar tillögu um, að álagið yrði 150%, sem er nokkru hærra, en ekki 200%, eins og er í frv. Er þó, ef sú till. yrði samþ., veruleg hækkun frá fyrra mati til stóreignaskatts, eða 108.33% hækkun í Reykjavík, 60% hækkun á Akureyri, 130% hækkun í Hafnarfirði, 187.5% hækkun á Akranesi, Keflavík og Vestmannaeyjum, 25% hækkun á Ísafirði, 200% hækkun í Gullbr.- og Kjósarsýslu og Selfossi, 166.67% hækkun í Árnessýslu, 116.67% hækkun í Eyjafjarðarsýslu, Neskaupstað, Sauðárkróki, Ólafsfirði ásamt fleiri stöðum, og 66.67% hækkun í S.-Múlasýslu, Patreksfirði, Stykkishólmi og Seyðisfirði.

Hér er sem sagt, jafnvel þó að okkar till. verði samþ., um verulega mikla hækkun frá matsverðinu, sem lagt var til grundvallar við álagningu síðasta stóreignaskatts, að ræða, og sýnist eftir atvikum vera nokkurt samræmi hins vegar í hækkuninni, ef grundvöllurinn, eins og ég gerði grein fyrir, er miðaður við hækkaða byggingarvísitölu á þessum tíma.

Þá er 4. brtt. okkar, þ.e. í sambandi við frádráttinn, sem heimilaður er frá vátryggingarverði skipa og flugvéla, þegar matsverð þeirra er ákveðið til stóreignaskatts. Í frv. er gert ráð fyrir, að fiskiskip skuli reiknuð með vátryggingarverði að frádregnum 33 1/3% og önnur skip talin með vátryggingarverði að frádregnum 20%. Meiri hl. leggur til, að frádráttarheimildin hækki á fiskiskipum úr 331/3% upp í 40% og önnur skip og flugvélar úr 20% upp í 25%. Við leggjum til, minni hl. í fjhn., að öll skip skuli reiknuð, hvort sem það eru fiskiskip eða önnur, með vátryggingarverði að frádregnum 40%. Ég held, að það sé tæplega hægt að rökstyðja ástæður fyrir því, að það sé ekki heimilt að draga frá vátryggingarverði jafnháa tölu á öðrum skipum en fiskiskipum. Það er að vísu svo, að sum fiskiskip hafa barizt í bökkum og búið við mjög erfiðan rekstur á undauförnum árum og kannske almennt erfiðari en önnur skip, verzlunarskip og flutningaskip. En á það er þá einnig að líta, að þeir aðilar, fiskiskipin, hafa notið margvislegra styrkja og hlunninda frá því opinbera, sem hinum aðilunum hefur ekki verið látið í té, enda er langsamlega stærstur hluti annarra skipa, sem hér væri um að ræða, þ.e.a.s. verzlunarskip og flutningaskip, meira og minna í eign almenningssamtaka hjá okkur, þar sem er annars vegar skipafloti Eimskipafélags Íslands og hins vegar Sambands ísl. samvinnufélaga. Vildi ég mega ætla, að hv. þm. gætu fallizt á þessi sjónarmið að draga frá vátryggingarverði allra skipa 40%, eins og við leggjum til.

En þá kem ég að flugvélunum, þar sem í frv. er lagt til að megi draga 20% frá vátryggingarverði, þegar matsverð er ákveðið, en meiri hl. leggur til, að hækkað verði upp í 25%. Þegar stóreignaskatturinn var á lagður 1950, voru flugvélarnar metnar eins og lausafé, og í l. sjálfum voru því miður ekki nein ákvæði um það. En við framkvæmdina var stillt upp sérstökum skala, sem farið var eftir við mat á lausafé, og þegar sá skali er hafður í huga núna, ef t.d. matið á lausafénu væri eitthvað hliðstætt og þá, fá flugvélarnar hér miklu verri hlut en áður og það engu síður, þó að heimilt sé að hækka upp í 25% það, sem draga megi frá matsverðinu, og töluvert miklu verri aðstöðu en við stóreignaskattinn síðast, enda þótt till. okkar um heimild til að draga 50% frá vátryggingarverðinu verði samþ. Ég hygg, að það muni ekki vera fjarri lagi, að flugvélaeign Flugfélags Íslands verði með ákvæðum þessa frv. metin helmingi hærri en samkv. l. um stóreignaskatt frá 1950 og þeirri framkvæmd, sem fylgt var þar um mat á lausafé. Ég held, að það hljóti að vera af yfirsjón og misskilningi, sem þetta er sett í þessu marki inn í frv., og ég held einnig, að hv. meiri hl. n. hafi ekki áttað sig nægjanlega á nauðsyn þess að auka stórlega frádráttinn við matsverðið á flugvélum, því að hvaða ástæða er líka í raun og veru til þess? Alþ. er öðrum þræði að taka á ríkissjóð stórkostlegar ábyrgðir fyrir tugi eða hundruð milljóna króna fyrir þennan atvinnurekstur landsmanna, sem svo blessunarlega hefur blómgazt á undanförnum árum, að hann hefur þó ekki þurft að njóta styrkja frá hinu opinbera, enda þótt hann hafi aldrei skilað neinum arði, svo að heitið geti, til þeirra aðila, sem til hans hafa stofnað.

Ég vil því alvarlega mega vænta þess, að á þetta verði litið og fallizt á till. okkar um, að heimilt sé að draga 50% frá vátryggingarverði flugvélanna, þegar matsverð þeirra er ákveðið.

Þá kem ég að brtt. okkar við 3. málsgr. 2. tölul. 2. gr., þ.e.a.s. um matsverðið á lausafénu. Þar stendur í frv., með leyfi hæstv. forseta: „Um matsverð á vélum, áhöldum og öðru lausafé, sbr. e-lið 19. gr. laga nr. 46/1954, skulu settar sérstakar reglur.“ Það eru m. ö. o. engin föst ákvæði í frv. sjálfu um það, hvernig matsverðið á lausafé skuli ákveðið, en um það skuli settar sérstakar reglur. Það verður samkvæmt þessu algerlega á valdi þess ráðh., sem fer með framkvæmd þessara mála, að ákveða, hvernig lausaféð skuli metið. Nú skal ég viðurkenna, að það eru ákvæði þessu hliðstæð í eldri skattalögum og það var ekki heldur tekið ákveðið fram í l. um stóreignaskatt frá 1950, hvernig matið skyldi framkvæmt. En á þessu eru stórir gallar, og það er í sjálfu sér, þegar menn íhuga það betur, lítt viðunandi að ganga þannig frá löggjöf, að það er útilokað að gera sér grein fyrir, hversu álagið verður mikið á lausafjáreign manna. Við gerum ekki neinar getsakir um, að óhóflega mundi verða í þetta farið, en það, sem við leggjum áherzlu á, er þetta, að borgarinn er í raun og veru þarna varnarlaus og löggjafinn gefur með slíku ákvæði framkvæmdavaldinu heimild til þess að leggja skatta á eftir mati framkvæmdavaldsins sjálfs.

Þess vegna er okkar till., að það sé ákveðið í löggjöfinni sjálfri, hvernig ákveða beri matsverðið á lausafjármunum, alveg að sínu leyti á sama hátt og frv. felur í sér ákvæði um það, hvernig meta beri fasteignirnar, skipin og flugvélarnar, eins og ég hef verið að tala um, og leggjum við því til, að um þetta verði sett þannig ákvæði, að matsverð á vélum, áhöldum og öðru lausafé skuli vera kostnaðarverð að frádregnum löglegum afskriftum. Nú kann að vera, að einhverjum finnist, að við höfum ekki hitt þann rétta mælikvarða í þessu sambandi, og þá mundum við auðvitað vera viðmælanlegir um að rökræða það og taka tillit til annarra sjónarmiða, sem kynnu að verða fram sett. En þó teljum við sjálfir, að það sé mjög eðlilegur mælikvarði, sem hér er á lagður, en veigamest atriðið hitt, að frá löggjöfinni sjálfri sé þannig gengið, að hún feli í sér rammann um það, hvernig matsverð eignanna er fundið, en það sé ekki algerlega og óbundið látið á vald ráðh. eða þeirra, sem fara með framkvæmd málanna.

Þá er næsta till. okkar sú, til viðbótar því, sem segir í frv., að ógreiddur söluskattur vegna viðskipta 1956 og ógreidd slysatrygginga- og atvinnurekendaiðgjöld vegna ársins 1956, samkv. lögum um almannatryggingar, teljast með skuldum til frádráttar eignum, sömuleiðis ógreidd gjöld til atvinnuleysistryggingasjóðs, að við þetta bætist einnig tekjuskattur, stríðsgróðaskattur og útsvar reiknað af tekjum ársins 1956. Hér er um að ræða eignauppgjör miðað við tiltekinn dag, 31. des. 1956, og þá skilst okkur, að rétt sé, að frá eignum, sem þá eru fyrir hendi, megi draga ekki aðeins tilteknar skuldir, eins og þarna eru upp taldar, heldur allar skuldir. Eðli málsins samkvæmt skulda borgararnir tekjuskatt, eignarskatt og útsvar af tekjum ársins 1956, enda þótt ekki sé búið að ákvarða, hvað sú skuld er há, um áramótin og sé ekki af skattayfirvöldum gert fyrr en síðar. Hins vegar má telja víst, að þessar ákvarðanir verði búið að taka, þegar stóreignaskatturinn, sem hér um ræðir, kemur til innheimtu, og sé því auðvelt að framkvæma þetta atriði þeirra hluta vegna. Við sýnum fram á það með dæmi á bls. 3 í nál. okkar, hversu óréttlátt er að leggja stóreignaskatt á eignina án þess að draga frá tekju- og eignarskattinn, og ef miðað er við tiltekið dæmi, kemur fram, að af 700 þús. kr. nettótekjum, sem tiltekið félag, sem þarna er tekið, hefur í tekjur 1956 og hækkað hefur þá nettóeign þess um þá upphæð, mun félagið hafa greitt 600 þús. kr. í skatta og útsvör á árinu 1957, þegar stóreignaskatturinn verður á lagður. Þess vegna teljum við, að þegar stóreignaskatturinn er lagður á, beri að draga frá þessa upphæð, sem langflestir munu einmitt á þeim tíma vera búnir að greiða ríkinu, sem skuld við það, áður en skatturinn er reiknaður út. Þetta sýnist mjög eðlilegt og sanngjarnt og ég vil segja alveg hliðstætt við þær aðrar greiðslur, sem heimilað er að draga þarna frá eignum, eins og ógreidd slysatrygginga- og atvinnurekendaiðgjöld, gjöld í atvinnuleysistryggingasjóð o.fl., sem upp er talið í frv.

Þá er næsta brtt. okkar, þ.e. 2. brtt., en þær brtt., sem ég hef nú talið og eru 7 talsins, eru allar við 2. gr. Næsta brtt. okkar er við 4. gr., og efni hennar er, að draga megi frá, þegar verið er að meta eignir aðila, allt það fé, sem lagt hefur verið í nýbyggingarsjóði skv. lögum nr. 20 1942 og lögum nr. 46 1954, hvort sem búið er að verja því til kaupa á framleiðslutækjum eða ekki, enn fremur að með eignum félaga teljist eigi heldur innistæður þeirra í sparisjóði. Þegar stóreignaskatturinn var á lagður 1950, var heimilað að draga frá matsverði eignanna það fé, sem lagt hafði verið í nýbyggingarsjóði, hvort sem var búið að verja því til kaupa á framleiðslutækjum eða ekki, og þetta varð einmitt sérstaklega útgerðarfyrirtækjunum veigamikið atriði. Annars hefðu þau átt mjög erfitt með að standa undir þessum skatti. Nú er að vísu heimilt að draga frá matsverði skipanna og ýmissa eigna 20 og 25%, ef brtt. meiri hl. verður samþ., og 33 og 40% af fiskiskipunum, sem voru ekki hliðstæð ákvæði um þá, og mun gefa hlunnindi sem ég hef ekki getað reiknað út, hvort eru meiri eða minni en þau hlunnindi, sem veitt voru varðandi ákvæðin um frádrátt nýbyggingarsjóðanna. En við teljum engu að síður, að það sé rétt að taka upp að nýju eldra ákvæðið um það, að fé, sem í þá hefur verið varið á þessu tímabili, megi draga frá matsverði eignanna. Svo höfum við lagt til, að ef félögin, sem ég efast nú um að sé mikið um, eigi innistæður eða hafi átt innistæður í sparisjóði, þá séu þær ekki taldar með við eignauppgjörið, heldur dregnar frá, og er það til samræmis við ákvæði 3. gr. um sparifé einstaklinga.

Þá kem ég næst að brtt. við 6. gr., en eftir frv. er lagt til, að ef skatturinn er hærri en 10 þús. kr., sé gjaldanda heimilt að greiða allt að 90% af því, sem þar er fram yfir, með skuldabréfum, er hann gefur út, en ríkisstj. ákveður form og texta skuldabréfanna, og andvirði bréfanna greiðist með jöfnum afborgunum á eigi lengri tíma en 10 árum og séu vextir af þeim 6%.

Við teljum, að hér sé allt of skammt gengið, það beri að lengja greiðslufrestinn, og leggjum til, að hann sé færður upp í 15 ár. Ég minni á það, að með ákvæðunum um stóreignaskatt í lögunum frá 1950 var heimilt að greiða stóreignaskattinn á 20 árum, og það verður einnig að hafa hér í huga, að mjög margir þeirra, sem nú verða fyrir því, að á þá verður lagður þessi stóreignaskattur, ef að lögum verður, eiga enn ógreiddan mikinn hluta af fyrri stóreignaskatti, sem á hefur verið lagður fyrir 7 árum. Ég held, að það mundi verða til mikilla bóta fyrir einmitt atvinnureksturinn og atvinnustarfsemina að lengja lánstímann úr 10 árum upp í 15 ár, en hitt verði það erfitt, að félög og einstaklingar eigi erfitt undir því að standa. Og þótt ekki væri nema vegna annarra ákvæða í okkar skattalöggjöf, þá held ég, að enginn aðili geti skilað þeim arði af sínum atvinnurekstri, að hann eigi eftir það, sem síðan á að greiða í þennan stóreignaskatt, enda þótt það megi deila því á 10 ár, því að það er rösklega gengið samkvæmt öðrum lögum fram í því að taka í ríkissjóð og sveitarsjóði af tekjum manna, sérstaklega þegar um hátekjur er að ræða.

Á hinn bóginn skiptir þetta ekki verulega miklu máli fyrir þá aðila, sem eiga að njóta skattsins, eins og ég sagði áðan. Þó að gert væri ráð fyrir, að áætlanir stæðust um 80 millj. kr. á 10 árum, 8 millj. kr. á ári, þá er þetta ekki það, sem veldur neinum straumhvörfum til stuðnings byggingarsjóði ríkisins annars vegar og veðdeild Búnaðarbankans, og mundi ekki miklu muna þessa aðila, þótt þeir fengju þetta á 15 árum í staðinn fyrir á 10 árum og þá einar 6 millj. kr. í staðinn fyrir 8 millj. kr. En veigamikið atriði er þetta bæði fyrir einstaklingana og atvinnureksturinn, og þess vegna tel ég mjög mikið atriði, að hv. þm. skoði hug sinn vel um það, áður en þeir hafna því að gera þessa breytingu.

Þá leggjum við einnig til, að við þessa gr.

bætist eftirfarandi ákvæði: „Til greiðslu á skattinum er heimilt að afhenda eignir með því matsverði, sem ákveðið er samkvæmt lögum þessum.“ Eftir stóreignaskattsákvæðunum eða lögunum frá 1950 var heimilt að afhenda eignirnar með því matsverði, sem ákveðið var í lögunum, til greiðslu á skattinum, og ég hygg, að það hafi ekki nema í til þess að gera fáum tilfellum verið gert. En það er rökstuðningur fyrir slíku ákvæði eins og þessu, að stundum getur viðkomandi aðila verið algerlega ókleift að inna af höndum þennan stóreignaskatt, ef hann má ekki afhenda eignina upp í skattinn, og í öðru lagi er slíkt ákvæði mikilsverður öryggisventill fyrir borgarana, að matið á eignunum verði hóflegt, og það hefur þeim mun meiri þýðingu nú en áður, ef ekki verður samþ. brtt. okkar um að fella niður sérstaka matið á lóðunum, jafnvel þó að samþ. verði brtt. meiri hl. fjhn. um það atriði. Þessi brtt. er þess vegna í senn sanngirniskrafa og mikilsvert öryggi fyrir skattþegnana.

Loks leggjum við til, að fellt verði niður ákvæði um það, að félög hafi rétt til þess að endurkrefja félagsmenn eða hluthafa um þær skattupphæðir, er þau þurfa að greiða vegna eigna þeirra í félögunum.

Meiri hl. hefur fallizt á nokkra brtt. við þetta ákvæði, þó að hann fallist ekki á okkar sjónarmið að fella þetta alveg niður. Teljum við í minni hl. það til bóta, þó að það gangi of skammt, en það er bæði til bóta, að ákvæði eru sett um, að aðalfundir þurfi að taka ákvarðanir um þetta í hlutafélögunum, og þar kemur inn viðurkenningin á réttmæti þess, að aðili megi þó greiða skattinn með þeirri eign, sem hann á, og eftir því mati, sem á hana hefur verið lagt, eða m.ö.o. að hann megi greiða eignina með hlutabréfum sínum, sem þá verða metin í hlutfalli við eignir viðkomandi hlutafélaga. Þetta verður þannig með till. meiri hl. viðurkennt í þessu einstaka tilfelli, en ætti að sjálfsögðu að vera sú almenna regla, sem við einnig leggjum til að verði með breytingunni á 6. gr.

Ég hef nú rakið þessar einstöku brtt., sem við í minni hl. flytjum á þskj. 558, og ég vil fastlega mega vænta þess, áður en málið verður afgr. hér í d., að þm. geri sér fulla grein fyrir því, hvort ekki sé bæði réttmætt og skylt að taka að verulegu eða miklu leyti til greina það, sem við höfum lagt til, enda þótt samkomulag hafi ekki orðið um það innan fjhn.

Ég hygg, að þetta mál í heild mundi fá töluverða lagfæringu, ef allar okkar brtt. verða samþ. Þó yrði málið aldrei glæsilegt, og ég hygg, að það verði seint til sóma þeim, sem nú standa að flutningi þess, og eigi eftir að hafa í för með sér eða leiða í ljós margháttuð tilfelli, sem sýna, hversu ógeðfelldur og óeðlilegur þessi skattur er, eins og hann nú ber að. Það er ekki aðeins, að það verkar almennt lamandi á uppbyggingu í efnahagsog atvinnulífi þjóðar, þegar menn mega búa við það æ ofan í æ, að án tilefnis eða annarra orsaka í þjóðfélaginu sé verið eftir á að taka af þeim þær eignir, sem myndazt hafa, og þetta lamar efnahagslífið, því að eignasöfnunin hjá einstaklingum og félögum er grundvöllurinn undir blómlegu efnahagslífi og atvinnulífi í landinu, en verður lítils virði, þegar því er hins vegar kippt af hinum einstöku og safnað í sameiginlegan sjóð, eins og hér er um að ræða og greinilega kemur nú fram varðandi þetta mál, eins og ég sagði áðan, vegna þess að það ræður engu verulegu til hagsbóta fyrir þá, sem skattsins eiga að njóta, miðað við það, sem hægt væri að áskilja þessum aðilum á annan hátt. T.d. er hér verið að tala um, að veðdeild Búnaðarbankans eigi að fá eitthvert brot af þessum skatti á næstu árum, en á sama tíma er beinlínis í fjárl. tugum og hundruðum millj. varið til ýmissa þarfa landbúnaðarins á undanförnum árum og nýjar skattheimtur til stuðnings atvinnurekstrinum um s.l. áramót um hundruð millj. kr., og einhvers staðar hefði sennilega mátt finna holu, þar sem hægt hefði verið að hliðra til einum 8 millj. kr. í öllum þeim ósköpum, þó að ekki væri farin sú leið, sem hér er um að ræða. En ég veit, að hv. stjórnarstuðningsmenn skilja þessar röksemdir, sem ég hef verið að fjalla um hér, og er ljóst, að málið er að verulegu leyti sýndarmál og blekking, ætlað það gagn í hinum pólitíska áróðri, að það hafi ekki aðeins verið lagðar hundruð millj. kr. álögur á almenning í þessu landi, heldur hafi stjórn hinna vinnandi stétta eða vinstri stjórnin ekki hlífzt við að láta hina ríku borga.

Það verður nú margur maðurinn, sem verður fyrir barðinu á þessum skatti, sem ekki telst ríkur maður í okkar skilningi og ómögulegt er annað en að segja um að muni verða fyrir fyllsta ranglæti. Ég hef t.d. í huga mann, sem hefur haft lífsuppeldi sitt af því að kenna hér íþróttir í höfuðstað landsins og byggt sér hús til þess og ég held að megi segjast að hafi verið bjargálna maður, en enginn ríkisbubbi. Hann kemst sennilega svipað af í þessari atvinnu sinni með þeim arði, sem hann hefur af þessari eign, eins og ýmsir hv. þm. í þeim störfum, sem þeir vinna í þjóðfélaginu, en þessi stóreignaskattur leggst nú samt á þennan stóreignamann með þeim hætti, að hann mun sennilega þurfa að greiða um 378 þús. kr. í slíkan stóreignaskatt, þó að enginn stóreignamaður eða ríkisbubbi sé.

Ég hygg, að í mörgum fleiri tilfellum verði þetta svipað og auk þess muni koma fram á öðrum sviðum, að erfitt verður um skattinnheimtuna, þar sem ekki má láta eignirnar eða hluta af þeim upp í skattinn, sem mun þá koma af stað ýmiss konar óheilbrigðum, óeðlilegum og ósanngjörnum eignayfirfærslum í þjóðfélaginn.

Ég lýk því máli mínu með því að ítreka þá almennu skoðun, sem fram kom í áliti minni hl. fjhn. á þskj. 488, að hér væri um mjög varhugavert mál að ræða, og grundvöllur til álagningar þessa stóreignaskatts verður á engan hátt réttlættur í sambandi við aðrar aðgerðir þings og stjórnar í efnahagsmálunum og engan veginn með því, að þetta sé ráðstöfun til þess að draga úr verðbólgu í þjóðfélaginn.

Þessi skattur er í dag að ófyrirsynju á lagður og mun ekki verða að miklu liði, en bitna almennt harðast á launþegum og öðrum í þessu landi, sem hafa lífsafkomu sína af því, að atvinnureksturinn geti blómgazt og dafnað í þjóðfélaginu, og það er hætta á því, eins og á stendur í dag, yfirvofandi hætta og augljós hætta á því, að álagning þessa skatts verði til þess að lama atvinnulífið í landinu og stöðva á vissum sviðum rekstur atvinnulífsins, og sjá þá allir, að miklu verr er af stað farið en heima setið. En þessi almennu sjónarmið okkar eru einnig staðfest í bréfi frá Vinnuveitendasambandi Íslands og Félagi íslenzkra iðnrekenda, sem gerð er grein fyrir í nál. okkar, en þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Er einróma álit samtakanna, að afleiðingar af álagningu skattsins verði ekki aðeins til stórkostlegs tjóns öllum þeim atvinnufyrirtækjum, sem skattinn þyrftu að greiða, heldur einnig launþegum þessara fyrirtækja og þá um leið beint eða óbeint öllum almenningi í landinu, þar sem samþykkt frv. felur í sér slíka árás á flest atvinnurekstrarform, að atvinnureksturinn mundi torveldast eða dragast saman að meira eða minna leyti. Verður þó ekki að óreyndu trúað, að slíkt vaki fyrir hinu háa Alþingi:“

Enn fremur segir þar, með leyfi hæstvirts forseta:

„Á þessu stigi málsins er ekki hægt að gera sér fulla grein fyrir, hve stóreignaskattsálagningin verður þungbær. Þó er sýnt, að flest hinna stærri útgerðar-, iðnaðar- og verzlunarfyrirtækja, sem frv. tekur til, hljóta annaðhvort að draga saman rekstur sinn og selja fasteignir sínar eða tæki eða að bankarnir verða að auka lán til þeirra sem nemur greiðslum afborgana og vaxta af stóreignaskattinum.“

Þetta er upp tekið úr bréfi Vinnuveitendasambandsins og Félags ísl. iðnrekenda, sem þeir sameiginlega skrifuðu n., en þessir aðilar benda réttilega á, að atvinnufyrirtæki hér og einstaklingar, sem búa við sáran rekstrarfjárskort í landinu, geta ekki greitt stóreignaskattinn nema með þrennu móti, að bankarnir auki lán til fyrirtækisins, sem svarar greiðslu á stóreignaskattinum, og kemur það þá niður á því lánsfé eða lánsfjármöguleikum, sem ella hefðu verið til annarra þarfa hjá bönkunum, í öðru lagi, að fyrirtækin selji hluta af eignum sínum til greiðslu skattsins, eða í þriðja lagi, að fyrirtækin afbendi eignir upp í skattinn á matsverði, ef slíkt yrði leyft.

Fyrirsvarsmenn þessara heildarsamtaka, Vinnuveitendasambands Íslands og Félags íslenzkra iðnrekenda, sátu fund með fjhn. og gerðu grein fyrir sínum sjónarmiðum, sem að mestu leyti voru að árétta þau sjónarmið, sem fram komu í bréfi þeirra og minni hl. hefur komið hér á framfæri með því að birta í sínu nál. Innan n. varð ekki neitt samkomulag um að sinna þessum sjónarmiðum eða taka þau upp, en eins og menn sjá, er að verulegu leyti gengið til móts við þau og á margan hátt lengra en óskað er eftir í þeim till., sem minni hl. fjhn. flytur.

Ég legg svo áherzlu á, að það mundi verða til mikilla hóta, ef okkar brtt. yrðu samþ., en heilbrigðast að leyfa þessu máli í heild að hvíla sig og bíða betri tíma.