20.05.1957
Neðri deild: 101. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1494 í B-deild Alþingistíðinda. (1447)

159. mál, skattur á stóreignir

Pétur Ottesen:

Herra forseti. Með þeim fáu orðum, sem ég hafði hugsað mér að segja hér við þessa 3. umr. þessa máls, ætlaði ég að hreyfa eða bera fram nokkra viðvörun í sambandi við suma þætti þessa frv. eða þó sérstaklega einn þátt þessa frv. En máske er það nú óþarfi að gera þetta, því að eftir þeirri ræðu, sem hv. þm. Siglf. (ÁkJ) hélt hér áðan, mætti máske líta svo á, að það væru orðin nokkur straumhvörf um afstöðuna til þessa máls. Hann er, eins og kunnugt er, stuðningsmaður þeirrar ríkisstj., sem nú fer með völd á Íslandi. Hann lýsti þeirri afstöðu sinni til þessa máls, að hann væri algerlega á móti þessu frv., og taldi upp á því mikla ágalla, sem hann mótaði þessa afstöðu sína út frá. Það var að heyra enn fremur, að hann stæði ekki einn í sínum flokki um þessa afstöðu til frv., því að hann talaði mikið um það, að Alþb. og Framsfl. féllust í faðma um það skattaæði, sem hann var að lýsa að fælist í þessu frv. og fleiri lögum um fjármál, sem afgreidd hafa verið frá þessu þingi. Nú hefur enginn úr flokki hv. þm. Alþfl. talað, síðan hann hélt þessa ræðu, og á meðan ekki koma andmæli fram gegn þessu, mundi mega líta svo á, að hann stæði ekki einn uppi um þá skoðun að telja á þessu frv. svo mikla ágalla, að það væri ekki gerlegt að fylgja því, að með frv. væri farið út á þjóðhættulega braut, eins og hann lét falla orð um, sem gæti haft skaðlegar og mundi hafa skaðlegar afleiðingar fyrir efnahagsafkomu þessarar þjóðar.

Þó að máske sé nú svona komið, að frv. í þeirri mynd, sem það liggur nú hér fyrir, verði ekki afgreitt frá Alþ., þá ætla ég samt sem áður að hreyfa því atriði, sem ég alveg sérstaklega vildi vekja athygli á, áður en þetta mál verður afgreitt hér frá d. Tilgangur þessa frv. um að afla tekna til ákveðinna hluta er í sjálfu sér góður, og nauðsyn ber til, að það verði gert. Tveir þriðju þess fjár, sem á að afla með þessu frv., eiga að ganga til byggingarsjóðs ríkisins og einn þriðji hluti til veðdeildar Búnaðarbanka Íslands. Fyrr á þessu þingi höfum við sjálfstæðismenn borið fram tillögur um að afla fjár til veðdeildar Búnaðarbankans. Er þess hin allra brýnasta þörf. Veðdeild Búnaðarbankans hefur því hlutverki að gegna fyrir landbúnaðinn, að mjög er mikilsvert, að hún ráði yfir fé. Hlutverk veðdeildarinnar er fyrst og fremst að stuðla að því með lánum, að ungir menn, sem vilja reisa bú í sveit, geti keypt jarðnæði til búrekstrarins. Í öðru lagi á hún að stuðla að því, að þeir geti fengið þar lán til þess að koma sér upp bústofni. En þetta hvort tveggja er undirstaða þess, að hægt sé að reisa búrekstur á þessu landi. Hér er því um mjög mikilsvert hlutverk að ræða.

Hitt er líka nauðsyn, að stuðla að því, að menn geti á öðrum stöðum á landinu reist hús og fengið þak yfir höfuðið. Það eru að sjálfsögðu þau frumskilyrði, sem fyrst verður að stuðla að. En hins vegar verður á það að lita í sambandi við skattaöflunina, að henni sé hagað þannig, að ekki sé með henni stefnt í hættu vissum þáttum atvinnulífsins í landinn, en það álít ég að á sumum sviðum geti jaðrað við, svo að eigi sé dýpra tekið í árinni en þörf er á, með þessu frv.

Við þekkjum það, því að það hefur verið eitt af aðalviðfangsefnum — ekki þessa þings, heldur þinganna á undanförnum árum að gera ráðstafanir, sem stutt gætu að því, að hægt væri að halda áfram rekstri sjávarútvegs í þessu landi, að hlutfallið á milli kaupgjalds og afurðaverðs á erlendum markaði hefur verið það, að afurðaverðið hefur hvergi nærri hrokkið til þess að standa undir tilkostnaði framleiðslunnar. Það hefur verið verkefni undanfarinna þinga og þessa þings, sem nú situr, að brúa þetta bil, sem þarna hefur myndazt, með ýmiss konar ráðstöfunum. Það hefur verið gert með því að breyta genginu, og það hefur verið gert með því að leggja á skatta og veita beint fjárframlög inn í þennan atvinnuveg, til þess að hann gæti haldið áfram.

Nú er það svo um sjávarútveginn, að hann er að því leyti til ákaflega kostnaðarsamur, bæði að því er snertir stofnkostnað í sambandi við hann og rekstrarkostnað, og það liggur í því, að fiskinn verður að verka á mjög margvíslegan hátt til þess að geta gert hann að söluhæfri vöru á sem rýmstu sviði á erlendum markaði. Það verður að salta nokkuð af fiskinum, það verður að herða fiskinn, og það verður að hraðfrysta fiskinn, og hraðfrystingin út af fyrir sig krefst mikils húsrýmis, bæði við frystinguna, við geymslu á frosna fiskinum, og auk þess mjög mikils vélakostnaðar. Þess vegna er það, að þeir, sem að útgerðinni standa, verða að ráða yfir geysilega miklum húsakosti, miklum vélakosti, hafa yfir að ráða miklu landi, stórum lóðum og öðru þess háttar. Nú hefur farið fram nýtt mat á lóðum og öllum húsum í landinn, mat, sem nú er að taka gildi, og hefur hinni nýju fasteignamatsbók nýlega verið útbýtt, sem þó tekur ekki enn þá til kaupstaða landsins, heldur annarra landshluta.

Þegar ákveðið var á þinginu 1955, að nýtt fasteignamat skyldi fara fram, var sett það hámark inn í lögin um fasteignamatið, að það mætti ekki meira en fimmfalda matið, sem gilt hefur á fasteignum, þangað til hið nýja mat kemur til. Þetta var gert með tilliti til þess, að eigi þótti fært eða hyggilegt að leggja hærra mat til grundvallar fyrir sköttum á þessar fasteignir. Þess vegna var þetta hámark sett inn í lögin.

Nú í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er þetta fasteignamat, sem er nú yfirleitt fimmfaldað eða allt að því fimmfaldað, það er hámarkið samkv. hinum nýju lögum, þá er það fasteignamat allt að því fimmtánfaldað. Það er fimmtánfaldað í Reykjavík, það er nærri því fjórtánfaldað í Hafnarfirði, Akranesi, Keflavík og Vestmannaeyjum, og svo í Gullbr.- og Kjósarsýslu, þar er það nærrí ellefufaldað, og svo lækka tölurnar úr því. Og þetta er þá sá grundvöllur, sem skatturinn í þessu tilfelli er reistur á. Í öðru lagi á að miða þennan skatt við, að mat verði látið fara fram á vélum, áhöldum og öðru lausafé, en þetta nemur að sjálfsögðu mjög stórum upphæðum, miðað við okkar útgerðarrekstraraðstöðu.

Þannig er það, að á vegum útgerðarmannanna samkv. þessu tilbúna mati koma fram geysilegar fjárhæðir. Þetta er tilbúið mat, sem hér er um að ræða, og ég efast um það, a.m.k. á sumum stöðum, þar sem illa gekk á vertíðinni í vetur, að þá mundi þess vera nokkur kostur að selja fasteignirnar fyrir það verð, sem á að leggja til grundvallar fyrir þessum skatti. Fiskiskipin á svo að reikna eftir vátryggingarverði þeirra, en í því efni eru útgerðarmenn bundnir í báða skó um það að hafa þetta vátryggingarverð hátt, bæði af því, að í sambandi við lán, sem á skipunum hvílir, verður að tryggja þau, og auk þess er það svo, að ef óhöpp ber að höndum og þarf að endurnýja skipin, þá verður vitanlega að tefla á fremsta hlunn um það að tryggja möguleikann með því að vátryggja skipin hátt. Þess vegna er það, að útgerðarmenn eru bundnir af því að hafa hátt vátryggingarverð á þessum skipum, og þetta vátryggingarverð á svo að leggja til grundvallar fyrir þessum skatti. Að vísu er gerð sú undantekning frá reglunni, að það má samkv. frv. draga frá vátryggingarverði á fiskiskipum 331/2%. Nú liggja fyrir till. frá tveimur aðilum um að hækka þetta upp í 40%. Frá vátryggingarverði þeirra húsa, sem notuð eru í þágu útgerðarinnar, og það tekur einnig til frystihúsa og annars, sem notað er í sambandi við verkun á kjöti, má draga 20%, en fyrir liggja hér till. um að hækka þetta upp í 25%, ætla ég að sé, á þskj. 558.

Ég held þess vegna, að allar aðstæður séu þannig að því er sjávarútveginn snertir, að hættulega langt sé gengið með þeirri skattaálagningu, sem hér er um að ræða, þrátt fyrir þennan frádrátt, sem heimilaður er að því er snertir fiskiskipin og einnig þau hús, sem notuð eru í sambandi við verkun aflans. Og ég tala nú ekki um það, af því að útgerðin krefst mikils landrýmis, að ef þau ákvæði þessa frv. verða notuð að fara nú enn að hækka lóðaverðið frá því, sem gert er ráð fyrir, þá getur það náttúrlega aukið enn á um þá skatta, sem fyrir liggur um hverjir geta orðið samkvæmt þessu frv. Og ég tel þetta mjög varasamt.

Með tilliti til þessara aðstæðna held ég, að það væri fullkomin ástæða til að athuga að nýju, áður en gengið er frá þessu frv., hvort fært er að leggja svo þungar byrðar eins og hér er gert á þá menn, sem að útgerðinni standa á Íslandi núna. Eins og kunnugt er, verður að borga nú bæði með togurunum 5000 kr. á hverjum einasta degi ársins og auk þess margs konar framlög í sambandi við bátaútveginn, sem skipta nokkrum hundruðum milljóna.

Það er þess vegna mjög varhugavert með atvinnurekstur, sem þannig er á vegi staddur hér hjá okkur, að fara að leggja á hann gjöld, sem gætu orðið til þess að þrengja mjög kosti þeirra manna, sem að útgerðinni standa, og máske verða þess valdandi, að þeir yrðu af þeim sökum að draga saman seglin. Það mundi að sjálfsögðu valda útvegsmönnunum sjálfum erfiðleikum, en umfram allt mundi leiða af þessu tjón fyrir atvinnulífið í landinu, því að eins og kunnugt er, þá er mikill og stór hópur landsmanna, sem beint og óbeint vinnur hjá útgerðinni og hefur laun sín af þeim afrakstri, sem af útgerðinni flýtur.

Ég held þess vegna, að aðstaða útvegsins í þessu efni, þegar ákvæðin um þetta voru sett, hafi engan veginn verið athuguð til hlítar og af þjóðhagslegum ástæðum sé það nauðsynlegt, áður en lengra er gengið, að gera á þessu enn nákvæmari athugun en fram hefur farið. Og undir öllum kringumstæðum mundi ekki af veita, að því er útveginn snertir, þó að hann fengi þá linkind, sem felst í brtt. þeim, fyrst og fremst sem meiri hl. n. flytur, og auk þess í brtt. þeim, sem eru á þskj. 558 og allar stefna að því að draga úr bæði á því sviði og máske öðrum.

Ég segi fyrir mitt leyti, að ég er ekki nærri eins viðkvæmur fyrir því, þó að þungur skattur sem þessi lendi á mönnum, sem safnað hafa miklu fé, en sjálfir standa ekki eða eru ekki í fararbroddi fyrir atvinnurekstri í landinu og eru þannig ekki virkir þátttakendur í því mikla nauðsynjastarfi. Ég er ekki nærri eins viðkvæmur fyrir því. Það má segja það, að náttúrlega er hægt að ganga einnig of langt gagnvart slíkum mönnum, eins og hv. þm. Siglf. (ÁkJ) lagði hér á mjög mikla áherzlu í ræðu sinni. En hættulegast er að gera þetta gagnvart þeim, sem bera uppi atvinnulífið í landinu, ef þetta mundi verða þess valdandi, að þeir yrðu þar að draga saman seglin. Það er þjóðfélagslegt tjón, sem af slíkum ráðstöfunum mundi leiða.

Mér er kunnugt um það heima í mínu byggðarlagi, uppi á Akranesi, að þar eru það aðallega þrjú útgerðarfyrirtæki, sem standa undir atvinnulífinu í kaupstaðnum, þegar frá er tekin sú útgerð, sem bæjarfélagið stendur fyrir með útgerð tveggja togara. Þessi fyrirtæki hafa byggt mikið af húsum, keypt mikið af vélum og eru yfirleitt og hafa verið í fararbroddi um alla nýbreytni í verkun aflans, bæði að því er snertir frystingu, söltun og herzlu á fiski. Þessi atvinnutæki, sem eru á Akranesi og búið var að koma upp fyrir nokkru, því að þeir voru framarla í því að bæta aðstöðuna að þessu leyti og geta mætt þeim kröfum, sem breyttir markaðir erlendis höfðu í för með sér, eru miklu stærri en þörf er fyrir fyrir þann flota, sem nú er heima á Akranesi. Þau gátu til dæmis að taka tekið á móti fiski úr allt að a.m.k. 1/3 af öllum togaraflota landsins á tímabili til viðbótar þeim afla, sem barst á land heima á Akranesi.

Nú hafa þau útgerðarfyrirtæki, sem standa að togurunum, komið sér upp vinnslutækjum og þurfa þess vegna ekki að leita á náðir annarra með þetta, og það er þannig ástatt á Akranesi nú eða var á s.l. vertíð, sem var alveg sérstaklega misbrestasöm að því er aflann snertir, þar sem aflinn var ekki meiri en í hæsta lagi 2/3 af því, sem var á vertíðinni 1956, sem var þó allléleg, að það notast ekki fyrir þennan flota heima af nema nokkrum hluta af þeim húsum og vélum, sem þarna eru til vinnslunnar, og þess vegna er það náttúrlega því tilfinnanlegra fyrir þá menn, sem kæmu til með að verða fyrir þungum skatti eins og þeim, sem hér um ræðir, að standa undir slíkum greiðslum, þar sem svo hagar til, að þeir geta hvergi nærri fullnýtt þessi tæki og þann mikla tilkostnað, sem þeir eru búnir að leggja í þar heima í sambandi við þennan rekstur. Ég hef náttúrlega ekki neinar tölur um það, hvernig þessi skattur mundi koma út þarna heima. Það hvíla náttúrlega miklar skuldir á þessum eignum, en þó býst ég við, að með þessu tilbúna verði, sem hér er um að ræða, gæti þessi skattur a.m.k. fyrir sum af þessum fyrirtækjum komið til með að verka þannig, að þau yrðu að draga saman seglin, og það er vitanlega ástand, sem Alþ. má ekki undir neinum kringumstæðum standa að í nokkurri mynd, að í ljós geti komið eða leitt til framkvæmda.

Þeir greiðsluskilmálar, sem hér er um að ræða, eru þess eðlis, að ég býst við, að þeir yrðu líka þungir í skauti. Þetta á að vísu að greiða á 10 árum, en það er allhá vaxtagreiðsla, sem bætist við upphæðina, þar sem á að borga af eftirstöðvunum eftir fyrstu greiðslu 6% vöxtu, svo að þegar allt kemur til alls, þá er ég mjög hræddur um, að hér sé mjög óvarlega farið, og það var alveg sérstaklega með tilliti til þessa atriðis, sem ég stóð hér upp og tek þátt í þessum umr., að ég vildi á þetta benda.

Ég er einnig ákaflega hræddur um það, að þessi skattur geti orðið þungur í skauti flugfélögunum okkar. Hér eru tvö flugfélög, sem rekin eru af miklum myndarbrag, og það er næstum furðulegt, hve mikil og ör þróun hefur verið í fluginu hér hjá okkur á Íslandi, bæði hin almenna þátttaka í heimsfluginu og svo það mikla flug, sem fer hér fram innanlands á hverju ári og það, eins og nú er komið, óslitið allt árið nema allra verstu óveðursdaga. Og það er annað, sem er merkilegt við þessa starfsemi á Íslandi, og það er það, að hún hefur frá upphafi verið rekin án nokkurra styrkja. Á sama tíma sem hliðstæð flugfélög í nágrannalöndum okkar á Norðurlöndum hafa notið stórra fjárframlaga við sína þjónustu, hefur þessari starfsemi verið haldið uppi hér alveg gersamlega styrklaust. Þau einu fríðindi, sem félögin hafa notið, er það, að þau hafa fengið nokkra ríkisábyrgð fyrir lánum til þess að flýta fyrir þróuninni, bæði að því að fjölga flugvélunum og að kaupa nýjustu gerðir flugvéla til nota fyrir félögin.

Það er vitað, að flugvélarnar eru ákaflega dýrar, og grundvöllurinn fyrir mati á þeim er vátryggingarverðið, að vísu að frádregnum 20%, eins og er með húsakostinn í sambandi við atvinnustarfsemina við sjó og í sveit. Mér er sagt, að flugvélarnar, sem keyptar voru núna, þessar tvær nýju flugvélar, hafi kostað upp undir 20 millj. hvor þeirra. Þær vitanlega koma ekki undir þessa skattgreiðslu nú, af því að þær voru ekki keyptar fyrr en nokkuð var komið fram á þetta ár. En félögin eiga fjölda flugvéla fyrir, sem einnig eru mjög dýrar, og það stendur í þeim mikið fé, og að sjálfsögðu verða flugfélögin, bæði í sambandi við lán, sem þau hafa orðið að taka, og í sambandi við möguleikana á því að geta endurnýjað þessar vélar, að hafa vátryggingarverðið á þeim mjög hátt.

Það er þess vegna fullkomlega athugunarvert, og ég veit engan veginn, hvort það hefur verið skoðað niður í kjölinn svo sem skyldi, hvað slík skattaálagning á flugfélögin gelur haft í för með sér, því að illt er vissulega að leggja með slíkum hætti stein í götu þessarar þróunar hér á landi, svo mjög erfitt sem er hér um samgöngur á ýmsan hátt innanlands, og ég tala nú ekki um, hve mikils virði það er fyrir Íslendinga að geta verið virkir þátttakendur í heimsfluginu. Þá er það vitanlega mál, sem verður að skoða rækilega niður í kjölinn, hvort ekki sé með þessari skattaálagningu gengið það langt, að þetta geti orðið þrándur í götu þessa rekstrar, sem segja má að sé eini reksturinn á Íslandi, þegar hvalveiðarnar eru teknar frá, sem hefur siglt sinn sjó og borið uppi sína starfsemi með öflun eigin fjár. Ég vil vekja athygli á þessu.

Ég viðurkenni alveg fullkomlega nauðsyn á því að afla þess fjár, sem hér er stefnt að að aflað verði. En það verður að gæta alls öryggis í því, að eigi sé svo langt gengið í þessari skattheimtu, að því er snertir fyrst og fremst atvinnufyrirtæki landsmanna, að þeim sé lagður steinn í götuna, sem gæti orðið til þess að gera þeim alveg sérstaklega örðugt fyrir í sambandi við reksturinn.

Það verður að hafa hér í huga það hyggilega spakmæli að slátra ekki mjólkurkúnni fyrr en í síðustu lög, og mjólkurkýr Íslendinga í víðari merkingu eru að sjálfsögðu fyrst og fremst atvinnuvegir landsmanna, bæði til lands og sjávar. Þar er sá grundvöllur, sem við stöndum á bæði efnalega og menningarlega.