20.05.1957
Neðri deild: 101. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1512 í B-deild Alþingistíðinda. (1450)

159. mál, skattur á stóreignir

Jón Pálmason:

Herra forseti. Það hefur verið tekið fram hér, að það væri ekki að öllu leyti farið að þingsköpum með þessa umr., og er nokkuð mikið til í því. En það stafar af því, að við 2. umr. málsins hér í hv. d. fengust ekki nein úrslit um það í hv. fjhn., hvort tekið yrði tillit til þeirra brtt., sem minni hl. n. flutti, og þýddi það í sjálfu sér það að draga aðalumræðu málsins til 3. umr. Þess vegna er það, að í dag og í kvöld og væntanlega kannske áfram í nótt verða umr. ekki einasta um málið almennt, heldur og nokkuð um einstök atriði þess.

Það má segja, að það þurfi engum, hvorki alþm. né öðrum, að koma mjög á óvart, þó að þetta frv. hafi verið lagt hér fram á Alþingi, og í rauninni, að það hafi komið nokkru seinna en líkur stóðu til eftir allar þær umr., öll þau loforð, allan þann áróður í blöðum og á fundum, sem dundi yfir landslýðinn á s.l. sumri og fyrri hluta vetrar um það, hvílík nauðsyn á því væri og hvað það væri sjálfsagt að taka eignirnar af þeim ríku, einkum í Reykjavíkurbæ. Þetta er þess vegna eitt af þeim loforðum, sem hæstv. ríkisstj. gaf við kosningarnar síðustu, sem hún virðist ætla að efna. En mörg af hinum hafa nú þegar verið svikin.

Við getum byrjað á því að minna á það, að þetta mun vera í fjórða skiptið, sem aðalforsvarsmaður fjármálanna í þessari og fyrrverandi stjórn, hæstv. fjmrh., beitir sér fyrir því að vega að þessu leyti í sama knérunn, því að fyrsta sporið var tekið með eignakönnuninni og eignakönnunarskattinum, annað sporið með eignaraukaskattinum, þriðja sporið með stóreignaskattinum 1950 og svo er þetta fjórða sporið á sömu leið og í raun og veru í mörgum tilfellum í garð sömu stofnana og sömu aðila. Hverjir eru svo þessir ríku menn, sem alltaf er verið að útmála út um landið að þurfi að taka eignirnar af og telja fólkinu þar, sem er yfirleitt fátækt fólk, trú um, að því sé óhætt, því að þessi skattur lendi ekki á því, en það sé óhætt að gera upptækar eignir þessara ríku Reykvíkinga, sem eigi milljónir og aftur milljónir? Nú er það svo, að eins og gefur að skilja, þá er fjöldi manna víðs vegar um landsbyggðina og eins í kaupstöðum landsins mjög ókunnugur því, hvernig varið er öllum hinum stærri atvinnurekstri bæði hér í Reykjavíkurbæ og öðrum hinum stærri kaupstöðum. En eins og nú er komið, þá er það víst, að það er enginn stærri rekstur mögulegur nema með miklu kapítali, mikilli eign eða miklu lánsfé. Og þeir ríku aðilar, sem hér eiga hlut að máli, eru í fyrsta lagi stofnanir ríkisins, bankarnir og aðrar ríkisstofnanir. Það eru í öðru lagi Samband ísl. samvinnufélaga, Eimskipafélagið, flugfélögin o.s.frv., og svo eru hinir ríku aðilar þar næst, nokkur útgerðarfélög, verzlunarfélög, iðnfyrirtæki og aðallega verksmiðjureksturinn hér í höfuðstað landsins.

Það er nú svo, að það mun vera mjög rétt, sem hv. þm. Hafnf. tók fram hér áðan, að það eru ekki þessir menn, sem eiga spariféð í peningastofnunum landsins, því að þeirra ríkidæmi allra byggist á því, hvað þeir eiga skuldlaust af þeim húseignum, skipum, vörubirgðum o.s.frv., sem þeir þurfa á að halda í sínum atvinnurekstri, og það, hvað þeir eiga mikið skuldlaust, gerir það að verkum, hverjir eru möguleikarnir fyrir þessa aðila til þess að halda sínum atvinnurekstri áfram. Ég skal taka það fram, að mér þykja mjög undarlegar sumar þær rökvillur, sem haldið er fram í þessu sambandi og eru aðallega þær, að það sé engin hætta á því fyrir þjóðfélagið, fyrir atvinnulífið í heild sinni, þó að teknar séu eignir þessara aðila, þessara félaga og stofnana, sem standa fyrir atvinnurekstrinum, aðallega hér í Reykjavíkurbæ. Það hefur á þessu þingi verið ákveðið með samþykkt laga að kaupa á næstu árum hingað til lands 15 togara til viðbótar þeim, sem fyrir eru, og það er áætlað, að hver þessara togara kosti 15 millj. kr. Nú skulum við hugsa okkur það, að einhverjar stofnanir, einhverjir menn eigi nokkurt fé til þess að gera það mögulegt að kaupa eitthvert þetta skip. En þá er það fyrir fram ákveðið af núverandi ríkisstj. og hennar flokkum að taka mikinn hluta af þessari eign í skatt. Segjum það, að einhver maður eigi 3 millj. kr., sem gætu orðið til styrktar í útgerðarfélagi með væntanlegu nýju skipi. Þá á að taka af því 375 þús. kr. með þessum skatti. Þetta þýðir það, að maður eða fyrirtæki, sem ætti fé fyrir einum þessara nýju togara, 15 millj. kr., yrði að borga í þennan skatt 1375 þús. kr. Á svipaðan veg er þetta með verksmiðjuiðnaðinn hér í höfuðstaðnum, að það er engan stærri verksmiðjuiðnað hægt að reka hér nema með miklum höfuðstól, miklu fé, og það getur kippt fótunum undan þeim rekstri, ef á ofan á alla aðra ránskatta, sem búið er að leggja á í þessu landi, að gera upptækt nokkuð af eignum þessara fyrirtækja. Ég held þess vegna, að hæstv. ríkisstj. og hennar flokkar geri sér ekki nægilega grein fyrir því, sem mjög var greinilega fram tekið af hv. þm. Siglf. (ÁkJ) hér í dag, að með þessu frv., ef að lögum verður, er verið að kippa fótunum undan þeim atvinnurekstri, sem heldur uppi atvinnunni fyrir fólkið hér í höfuðstað landsins og kannske víðar um land.

Hæstv. fjmrh., sem ævinlega gengur á undan öllum öðrum mönnum í skattaæði, var að útmála það hér áðan, að þetta væru 8 millj. á ári og það væri ákaflega lítilfjörleg upphæð. En þetta er bara rangt hjá hæstv. ráðh. eins og margt annað, sem hann sagði og segir oft, því að það er áætlað, að þessi skattur verði 80 millj. á þessu yfirstandandi ári. En það á bara að vera sú linkind við þá, sem skattinn greiða, að þeir mega borga hann á 10 árum og borga vexti af sínum eigin eignum, sem er verið að gera upptækar. Þess vegna þurfa menn ekkert að vera að tala hér um 8 milljónir á ári, það eru 80 millj., sem hér er um að ræða, þó að þær eigi að borgast á 10 árum. Nú skal ég segja ykkur það, að mikið af þeim fyrri sköttum, sem hafa verið lagðir á á þessum grundvelli, eru ekki innheimtir enn, og m.a. voru í árslok 1954 óinnheimtar rúmlega 6 millj. af eignakönnunarskattinum, sem lagður var á fyrir mörgum árum. Og þá var óinnheimt af stóreignaskattinum frá 1950 rúmlega 41 millj. Þetta eru upphæðir, sem þeir aðilar skulda ríkinu, sem nú á að bæta þessum litla böggli ofan á til viðbótar við alla aðra skatta, sem búið er að leggja á.

Nú er það svo, að hæstv. fjmrh., sem er stærsti syndaselur, sem komið hefur nálægt stjórn fjármála í þessu landi, hefur venjulega fylgt þeirri blekkingartilraun, þegar hann er að leggja á nýja skatta, að taka einhver vinsæl mál, sem þessi upphæð eigi að fara í. Og þetta er gert einnig hér. Það eru tekin hér tvö vinsæl mál, þ.e. veðdeild Búnaðarbankans, sem er búið að berjast fyrir í allan vetur að fá einhverja peninga í, og það eru framlög til húsbygginga í kaupstöðum. Og svo er sagt: Jú, þessi upphæð á að fara í þetta. Það á að láta þetta í sérstakan vasa í ríkissjóðnum, og það á að fara í þetta, og þið, sem eruð á móti þessum skatti, þessari skattheimtu, þessari aðferð til skattheimtu, eruð náttúrlega á móti því að leggja fé í veðdeildina, og þið eruð á móti því að leggja fé fram til húsabygginga. — Þessi blekkingaraðferð hefur verið höfð mörgum sinnum áður af hæstv. ráðh. og blekkir fjöldamargt af fólki, sem lætur telja sér trú um, að þeir, sem ekki eru samþykkir því að taka skatt á þennan hátt, séu á móti þeim nytjamálum, sem hér er verið að afla fjármuna í.

Ég skal nú minnast ofur lítið á það, sem mér stendur hér næst, og það er framlag til veðdeildar Búnaðarbankans, sem allir sveitamenn hafa meiri áhuga fyrir að fá fé í heldur en flest annað, vegna þess að það er brýn þörf fyrir frumbýlinga sveitanna að geta fengið einhverja fjármuni, eitthvert lán til að kaupa jarðir, til að kaupa bústofn, verkfæri o.s.frv. Það er búið að berjast hér fyrir því yfirleitt á þessu þingi, sem var till. frá mþn., sem skipuð var af fyrrv. landbrh. og í voru bæði sjálfstæðismenn og framsóknarmenn, — það er búið að berjast fyrir að fá því framgengt, að það væru lagðar fram af ríkissjóði 5 millj. kr. á ári í þessa stofnun. En þó að hæstv. ríkisstj. sé búin skv. áætlun að hækka útgjöld ríkisins og útflutningssjóðs frá því, sem áætlað var fyrir árið 1956, um 400 millj. á þessu ári, þá hefur ekki fengizt samþykkt að leggja einn einasta eyri í þessa deild. Nú koma svo þessir herrar og segja: Ja, nú ætlum við að láta ykkur hafa peninga, nú ætlum við að láta ykkur hafa af þessum stóreignaskatti 1/3, sem mundi vera rúmlega 21/2 millj. á ári á næstu 10 árum, ef hæstv. ríkisstj. og fyrst og fremst hæstv. fjmrh. er ekki búinn að setja allt fjármálalíf landsins í rúst, áður en þessi skattur mundi innheimtast.

Nú er það svo, að ég tek þetta svona í meðallagi alvarlega, og ekki trútt um, að ég sé óviss um, að þessi fjárhæð komi veðdeild Búnaðarbankans og bændum landsins, þeim sem ætla að fara að byrja búskap, að því gagni, sem með þessu frv. er látið í veðrí vaka. Nú er það svo, að þegar búið er fjórum sinnum að fara inn á þessa eignaupptökuleið, þá höfum við, sem hér erum á þingi og erum eignarréttarmenn og viljum yfirleitt, að eignarréttur einstaklinga sé virtur, eins og stjórnarskrá okkar lands gerir ráð fyrir, fulla ástæðu til að hugsa sem svo: Hvar á að setja takmörkin, hvað verður næst, verður ekki haldið áfram á sömu brautinni, það eru teknar eignir af þessum mönnum nú, þær verða teknar af öðrum næst og svo áfram, þangað til allir eru orðnir eignalausir? Og nú er það svo, að samkv. þessu frv. er það engan veginn þannig, að það sé raunveruleg eign, sem hér er verið að reikna með, og það er vegna þess, að það er gert ráð fyrir því, að a.m.k. hér í höfuðstaðnum sé fasteignamatið gamla fimmtánfaldað á húseignum. Og það er algerlega víst, að ef ætti að fara að selja hér hundruð eða hver veit hvað af húsum, þá mundu þau ekki seljast fyrir þetta verð. Það er varðandi fasteignamat ekki á neinu viti byggt að miða við einstakar sölur, sem mögulegar eru á tímum eins og undanfarið hafa verið, þegar hefur verið mikið aðstreymi af fólki utan af landinu, vegna þess að það hefur verið betri aðstaða fyrir það hér í höfuðstaðnum en annars staðar.

Hæstv. fjmrh. sagði í ræðu sinni áðan og herti mjög mikið á sínum fullyrðingum: Sjálfstæðismenn voru með því að leggja á stóreignaskatt 1950, af því að þeir voru þá í stjórn, en þeir eru á móti því núna, af því að þeir eru ekki í stjórn.

Við skulum bera saman ofur lítið aðstöðuna 1950 og aftur nú. Það er rétt, að sjálfstæðismenn voru með framsóknarmönnum í stjórn 1950, þegar stóreignaskatturinn var lagður á þá. En hvernig var aðstaðan þá? Það var verið að fella gengi íslenzku krónunnar um hvorki meira né minna en 74%. Og um leið og fellt var gengi krónunnar, þýddi það, að verið var að hækka sem því svaraði verð á fasteignum, bæði hér og annars staðar. Ég kannske segi of mikið, að það hafi verið sem því svaraði, en hækkaði stórkostlega frá því, sem áður var, því að hvert gengisfall miðar að því helzt að hækka verð á fasteignum, en lækka peninga og allt lausafé. En hvernig er það núna? Núna er ástandið þannig, að þær ráðstafanir, sem ríkisstj. hefur verið að gera, hafa miðað að því að lækka verðið á fasteignum. Við höfum aldrei séð það á undanförnum árum eins og í vetur, að það eru tugir, jafnvel hundruð af húseignum og íbúðum auglýstar í blöðunum viku eftir viku og mánuð eftir mánuð, og mikill hluti af þessum húseignum gengur ekki út. Undanfarin ár hefur það verið svo, að það hefur verið meiri eftirspurn eftir húseignum en hægt hefur verið að fullnægja.

Þetta er af því, að hvorki geta einstaklingarnir keypt, vegna þess að bankarnir mega heita peningalausir, og svo annað hitt, að fólkið þorir ekki að gera neitt vegna hræðslu við þá hallæris- og vandræðastefnu, sem núverandi ríkisstj. hefur tekið upp.

Mig undraði það mjög áðan, þegar svo greindur maður sem hv. þm. Hafnf. var að tala um það, sem fjmrh. svo endurtók, að starf og stefna núverandi ríkisstj. hefði miðað að því að koma í veg fyrir gengislækkun. Frá mínu sjónarmiði er þetta þvert á móti, því að allt starf ríkisstj., síðan hún tók við, hefur miðað að því að gera líkurnar fyrir óhjákvæmilegu gengisfalli miklu alvarlegri en nokkurn tíma hefur áður verið, því að hver getur trúað því, að það að leggja á skatta, svo að skiptir hundruðum milljóna, sem hefur það í för með sér að hækka allt vöruverð í landinu og þar á ofan leiðir af sér hækkuð laun og hækkað kaupgjald, — hver getur trúað því, að það miði að því að koma í veg fyrir gengisfall?

Ég var þeirrar skoðunar árið 1955 eða fyrri hluta síðasta þings, þegar var verið að knýja í gegn launalögin nýju, sem hæstv. fjmrh. beitti sér ákaflega fast fyrir, að það væri eitt hið versta verk, sem þá væri hægt að gera, vegna þess að til þess að tryggja gengi okkar krónu er nauðsynlegt að halda kostnaðinum, sköttunum, laununum, kaupgjaldinu sem mest niðri, að mögulegt er. Og þegar það var gert að hækka laun embættismanna ríkisins með opinberum ráðstöfunum um 65 millj. kr. á einu ári, þá er það háskaleg leið, og sú leið var farin á þann hátt, að það var hækkað hjá þeim lægst launuðu um 10%, en hjá þeim hæst launuðu upp í 40%. Og það hefur komið í ljós, eins og ég spáði þá, að þessu hlyti að fylgja samsvarandi hækkun á launum allra annarra fastlaunaðra manna í þessu landi, hjá bæjarfélögunum, hjá verzluninni, hjá iðnaðinum, hjá bönkunum, tryggingastofnuninni og yfirleitt alls staðar. Þetta hefur orðið reynslan, og afleiðingin af þessum glannaskap, því að það var ekkert annað en glannaskapur, sem þarna var um að ræða, og fjármálavitleysa, — afleiðingin af því hefur orðið meiri líkur fyrir því, að gengið yrði að fella fyrr eða síðar. Eftir öllum horfum, sem fyrir liggja, þá eru þær frá mínu sjónarmiði þannig, að það séu ekki sterkar líkur fyrir, að það sé hægt að balda genginu eins og það er nú, heldur sé miklu meiri hætta á því, ef haldið er áfram á sömu braut, að það verði ekki gengisfall, heldur gengishrun. Og hin skynsamlega ræða, sem hér var flutt um þetta efni af hv. þm. Siglf. í dag, var byggð á rökréttri hugsun, og undarlegt er, ef það er í raun og veru svo, að enginn annar maður í flokkum stjórnarinnar er á sömu hugsun og þessi hv. þm., sem talaði um þessa hluti mjög skynsamlega.

Þegar verið var að afgreiða skattafrumvörpin í vetur, var vísitölunni aftur sleppt lausri, og það er komið nú þegar í ljós, að hún hefur hækkað, sem er afleiðing af þeirri verðhækkun, sem þá var undirbúin með skattahækkunum. Hún hefur hækkað nú þegar um 4%. Það þýðir annaðhvort hækkað kaupgjald hjá öllum atvinnurekstrinum eða þá hækkaðar niðurgreiðslur, sem mundu kosta 24 millj. kr. fyrir ríkissjóðinn. Samkv. upplýsingum fyrrv. hæstv. viðskmrh. var komið svo í lok síðasta árs eða um næstsíðustu áramót, að það mundi kosta 6 millj. kr. að borga niður hvert einasta vísitölustig. Hér er þess vegna ekki um neina smámuni að ræða og vitaður hlutur, sem ég hef alltaf sýnt fram á alla tíð síðan 1940, að vísitöluskrúfan er fyrirbæri, sem getur ekki leitt til annars en ófarnaðar í öllu okkar fjármálalífi.

Hv. þm. Hafnf. upplýsti það hér, sem undarlegt má heita, að hv. þm. Siglf. stæði einn uppi í sínum flokki með þá skoðun, sem hann lýsti hér í dag. Ég verð að segja, að þetta er sönnun þess, að sá flokkur, eins og raunar hinir, virðist ekki hafa gert sér grein fyrir því, á hvaða glæfrabraut í fjármálum við erum og höfum verið fyrst og fremst og aldrei elns og síðan þessi hæstv. ríkisstj. tók við völdum. Þessi sami hv. þm. var að tala um, að það væri einhver jafnvægisstefna, sem ríkisstj. berðist fyrir. Ja, sér er nú hver jafnvægisstefnan að hækka útgjöld hins opinbera bara hjá ríkinu og útflutningssjóði um 400 millj. kr. á einu ári og ætla svo að bæta með þessu frv., sem hér er, 80 millj. ofan á.

Þá er eitt atriði, sem ég vildi víkja aðeins að, og það er matið á lóðunum. Við, sem erum í landsnefnd fasteignamatsins, erum nú búnir að ganga frá matinu, eins og ætlazt var til að það væri skv. lögum, sem um það fjalla. Ef það er ætlun meiri hl. Alþ. að fara svo að fyrirskipa það, sem alls ekki hefur verið talað um, ég held ekki við neinn okkar, a.m.k. ekki við formann n., Hannes Pálsson, ekki heldur við mig, að hér eigi að fara að gera breytingu á þann hátt að fara að meta upp lóðir sérstaklega í mati, sem nýbúið er að ganga frá, ef það eru líkur til, að þær lóðir verði til þess að koma einhverjum manni, sem á slíkar lóðir, í stóreignaskatt, þá er sú aðferð furðuleg. Og mig undrar það, ef það eru 32 menn til hér á Alþingi, sem fallast á slíka vitleysu, því að það er ekkert annað en vitleysa, þegar nýbúið er að ganga frá fasteignamati, að ætla sér þá að fara að fyrirskipa að setja sérstakt mat og hærra mat á einstakar lóðir. Ég veit ekki, hvort það á að vera eingöngu hér í Reykjavík, hvort það á að vera líka á Akureyri, Hafnarfirði, Akranesi og fleiri kaupstöðum.

Þá skal ég taka það fram, að ég ætla ekkert að fara að svara árásum hæstv. fjmrh. á hv. 1. þm. Reykv., því að ég býst við, að hann sé fullkomlega maður til þess miklu fremur en ég að svara þeim árásum. En vissulega er heimskulegt og furðulegt að hafa séð það í blöðum dag eftir dag og heyra það í ræðum hér á þingi, að það þýði sama og að egna fólkið til kauphækkana að segja frá því, hvað það er, sem er að gerast, og hvað það er, sem sýnir máttleysi og ræfildóm þeirrar ríkisstj., sem hefur gefið loforð um að laga allt okkar fjármálalíf með varanlegum ráðstöfunum, ef það má ekki segja frá þessu í blöðum, þá á það að heita, að það sé verið að egna fólkið til verkfalla og kaupskrúfu. Það hefði einhvern tíma ekki þótt mikið að segja frá því, þegar verkalýðsforingjarnir sjálfir, sem hafa verið í stjórnarandstöðu á undanförnum árum, hafa verið að hópa saman fundum til þess að spana til verkfalla og kaupskrúfu. En það, sem hér er gert, er eingöngu það, eftir því sem ég veit bezt, að hv. 1. þm. Reykv. hefur sagt frá því í blaði sínu, hvað það er, sem hefur verið að gerast, þegar hefur komið ný kauphækkun, ný launahækkun, jafnvel hjá hæstlaunuðu stéttum landsins, og sýnt fram á, hvað þetta er gagnstætt öllum þeim miklu loforðum, sem hæstv. ríkisstj. og hennar flokkar gáfu í síðustu kosningum og gáfu, þegar þeir tóku við.

Nú má segja, að það sé eitt undarlegt fyrirbrigði í hæstv. ríkisstj., sem er undarlegra en öll önnur, og það er hæstv. fjmrh., maðurinn, sem var í fyrrverandi stjórn og er í þessari og gengur fram fyrir skjöldu í blaði sínu og lætur aðra sína flokksmenn gera hið sama til þess að halda því fram, að allt, sem hér fer aflaga, hafi verið að kenna þeirri fyrrverandi stjórn, sem hann var sjálfur í og réð mestu um fjármálastefnuna hjá. Það var ein skrýtla sögð í blaði hér einu sinni í vetur, sem er mjög sláandi dæmi um aðferð þessa hæstv. ráðh., og hún var á þá leið, að hann hefði gengið út og lokað sinni stjórnarskrifstofu í sumar og ætlað að fara út á götuna, en snúið við á þröskuldinum, farið aftur inn á sína skrifstofu, opnað hurðina og hrópað upp: Hér er ljót aðkoma. — Þetta er aðferð þessa manns, sem hefur verið í öllum stjórnum nú að undanförnu, hrópar hæst um það, að hann sé að koma í veg fyrir gengislækkun, hann sé að koma á heilbrigðu fjármálalífi, en hefur gengið allra manna lengst í því að æða fram með sífelldar skattahækkanir og ganga þannig frá fjármálastjórninni, að það eru ekki neinar líkur til annars en að hún stefni beint til hruns.