20.05.1957
Neðri deild: 101. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1544 í B-deild Alþingistíðinda. (1455)

159. mál, skattur á stóreignir

Frsm. minni hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er næstum því orðið föst venja hér í þinginu, þegar rædd eru meiri háttar mál, að í sambandi við þau komi fram í einni eða annarri mynd framkoma stjórnarflokkanna fyrir síðustu kosningar og ýmis þau gylliloforð, sem þá voru gefin og á hvern hátt þau hafa verið svikin í framkvæmdinni. Þetta höfum við bent á sjálfstæðismenn æ ofan í æ á þingtímanum, og núna, þegar við erum að ræða stóreignaskattinn og þegar umr. eðlilega blandast inn í hina almennu lausn efnahagsmálanna, þá verður alveg sama upp á teningnum.

Hér kemur hv. þm. Hafnf. í dag og lýsir því yfir og alveg umbúðalaust, að það sé ekki hægt að komast hjá því að gripa til gengislækkunar, ef viss skilyrði séu ekki uppfyllt í efnahagsmálunum, og ef stjórninni ekki takist, að því er manni skilst, að halda jafnvægi í verðlagsmálunum, þá sé ekkert eftir nema gengislækkun. Fyrir suma eru þetta kannske ekki svo undarlegar yfirlýsingar og ekki torskildar, en fyrir þá, sem áttu orðastað við stjórnarliða fyrir síðustu alþingiskosningar, verður þetta nokkru óskiljanlegra. Þá er það Framsfl., sem rýfur stjórnarsamstarfið við sjálfstæðismenn, vegna þess að það sé ekki hægt að eiga samstarf við þá um lausn efnahagsmálanna á þeim grundvelli, sem unnið hafði verið, með hinni svokölluðu millifærsluleið eða álögum, sem lagðar voru á almenning og síðan varið til þess að halda framleiðslustarfseminni gangandi. Þá er það haft uppi af bandamanninum, Alþfl., í Hræðslubandalaginn, að að sjálfsögðu komi ekki til greina að fara þessar leiðir, þessar bráðabirgðaleiðir Sjálfstæðisflokksins, og undir það sama tók alveg óhikað þriðji aðilinn, sem nú er í þessari stjórn, eða Alþýðubandalagsmennirnir. Að vísu voru sumir, sem sögðu þá fyrir kosningar og höfðu sagt, þ. á m. hæstv. fjmrh., að það væru að vísu þrjár leiðir til úrlausnar í efnahagsmálunum: það væru álögurnar og millifærsluleiðin, uppbótaleiðin, í öðru lagi gengislækkunin og í þriðja lagi niðurfærsluleiðin. En ef þessir aðilar voru spurðir að því fyrir kosningar: Hvaða eina leið af þessum þremur ætlið þið að fara, ef þið hafið aðstöðu til að ráða leiðinni eftir kosningar? — þá var enginn þessara manna, sem hafði drengskap eða hreinskilni til að bera nægjanlega til þess að segja við kjósendurna: Ja, við ætlum fyrst að fara bráðabirgðaleiðir og í miklu ríkari mæli en farið hefur verið eftir fram að þessu, og ef okkur ekki tekst eftir þeim leiðum, þá ætlum við að fara gengislækkunarleiðina. — En nú koma hér hv. stuðningsmenn ríkisstj. og segja hiklaust: Við erum í dag á fallvaltri bráðabirgðaleið, sem er miklu meiri bráðabirgðaleið en nokkru sinni áður hefur verið farin. Það er ósýnt um, hvort okkur tekst að halda áfram á þessari leið, en ef okkur mistekst eitthvað í þessum efnum, þá er engin önnur leið en gengislækkunarleiðin í efnahagsmálunum. Fyrir kosningar var allt þetta dulbúið með því af Framsfl. og Alþfl., að það ætti að beita því, sem kallað var „varanleg úrræði í efnahagsmálunum“, en án þess að það væri nánar skilgreint. Nú veit almenningur í dag, hvernig þessi „varanlegu úrræði“ líta út og hvað fyrir þessum mönnum hefur vakað. Þessi tvískinnungur og þau óheilindi, sem höfð hafa verið í frammi í efnahagsmálunum, hafa opinberazt okkur áður hér undir meðferð annarra mála, en kannske aldrei jafnaugljóslega og í dag, þegar talað er jafnbert um þetta og undanbragðalaust eins og af hálfu hv. þm. Hafnf. og þegar jafnríkulega er nú látið skína í það, jafnvel af mörgum fleiri stuðningsmönnum ríkisstj., að í raun og veru verði kannske gengislækkunarleiðin eina úrræðið, áður en varir.

Inn í þessar almennu umr. um efnahagsmálin hefur jöfnum höndum verið rætt um efnahagsmálin almennt og um einstök atriði þess máls, sem hér fyrir liggur. Sérstaklega voru það nokkur efnisatriði frv. um stóreignaskatt, sem hv. þm. Hafnf. ræddi um hér fyrr í umr. Hann lagði á það áherzlu, að því er virtist, að stóreignaskattsfrv., sem nú er lagt fram, væri í rann og veru ekki annað en sams konar ráðagerðir og stóreignaskatturinn 1950 og þó væru þetta sennilega vægari álögur en þá. Ég vil nú minna á það, að þegar stóreignaskatturinn var á lagður 1950, verður einnig að hafa það í huga, að með þeirri löggjöf voru úr gildi felld ákvæðin um innheimtu eignaraukaskatts, sem sett höfðu verið með l. frá 1948, og þegar stóreignaskatturinn sem sagt er lögfestur 1950, þá gerist það um leið, að önnur skattheimta er niður felld. Þegar á það eitt er litið, verður náttúrlega sjálf skattheimtan allverulega miklu minni og ber að skoða í öðru ljósi en eila hefði verið.

Það er veigamikið atriði, sem fram hefur komið í sambandi við þennan skatt nú hjá mörgum ræðumanna, að þeir segja sem svo, að þeir, sem hafi safnað miklum auði á undanförnum árum, eigi að leggja eitthvað fram og það eigi þeim mun fremur að gera það, sem ríkisstj. hafi verið svo skelegg í því að leggja þungar álögur á almenning um áramótin. Hv. þm. Hafnf. orðaði það einhvern veginn á þá leið, að bæði fasteignir, hús og ýmiss konar tæki hefðu verið byggð og keypt á ódýrari tímum í atvinnurekstrinum. Nú hefði þetta stórhækkað í verði, og þessi arður er ekki eigendunum að þakka, segir þessi hv. þm., þessi arður, sem er sú verðhækkun, sem átt hefur sér stað. En hvers konar arður er þetta, sem hægt er að taka af aðilunum? Í vissum tilfelum hafa menu hagnazt á verðhækkunum, en í ákaflega mörgum tilfellum og í ríkum mæli eru verðhækkanirnar ekki þannig, að þær hafi skilað eigandanum neinum arði eða gert hann betur stæðan, heldur í mörgum tilfellum þvert á móti. Og það er rétt að minnast þess í þessu sambandi, að á sínum tíma, þegar var verið að leggja á eignaraukaskattinn 1947–48 undir forustu Alþfl., þá var beinlínis ákveðið í þeim l., að ef sama eign hafði verið óslitið í eigu manns frá þeim tíma, sem verðhækkunin var miðuð við, frá 1940 til 1947, þá bar að meta eignina með sama byrjunarverði og sama lokaverði, sem síðan var miðað við, vegna þess að í mörgum tilfellum var hér um að ræða, þótt eignin væri metin í krónutali meira nú, á engan hátt verðmeiri eða notadrýgri eign fyrir einstaklinginn eða félögin, sem áttu hér hlut að máli. Menn verða einnig að gera sér grein fyrir því, að enda þótt slíkar verðhækkanir eins og hér er um að ræða hafi átt sér stað og talað er um að einstaklingarnir og félögin hafi á þennan hátt orðið aðnjótandi einhvers arðs, eins og ég sagði áðan, að þegar á að taka af þessum arði, — og hér er um að ræða bæði fasteignir og húsbyggingar og annað í atvinnurekstrinum, — þá verða þessar eignir mönnunum ekki að fjármunum, nema þær verði seldar, og salan í flestum tilfellum, ef af henni gæti orðið, mundi leiða til þess, að samdráttur ætti sér stað í atvinnurekstrinum. Það er þess vegna grundvallarmisskilningur hjá hæstv. sjútvmrh., að við sjálfstæðismenn séum fyrst og fremst andvígir þessum skatti vegna þess, að við viljum ekki, að þeir ríku beri baggana eins og allur almenningur. Það er grundvallarmisskilningur. Við höfum beinlínis tekið það fram, að þrátt fyrir þennan skatt teljum við, að hann muni í langfæstum tilfellum koma þannig niður, að þeir aðilar, sem eiga að greiða hann, geti út af fyrir sig ekki auðveldlega borið hann og munu fullkomlega bera sitt barr, en í framkvæmdinni muni hann verða þyngstur ekki á þeim, sem hann er á lagður, heldur öllum almenningi, vegna þess að hann torveldar atvinnustarfsemina og efnahagsþróunina í því þjóðfélagi, þar sem lánsfjárskortur hefur verið mjög mikill, og þessar 80 millj. kr. verða auðvitað til aukinna vandræða hjá fyrirtækjum og atvinnurekstri, sem þegar er í miklum lánsfjárskorti, þó að menn vilji halda því fram, að það ætti að vera vandræðalitið að borga þessar 80 millj. kr. á tíu árum. Hæstv. fjmrh. sagði: Hvað er það, 8 millj. kr. á ári? — og eitthvað svipað sagði hv. þm. Hafnf. Það er þó svo, að sennilega verða nokkrir að borga um millj. kr. og kannske þaðan af meira í þennan stóreignaskatt, en hafa áður verið í miklum lánsfjárskorti, og hvernig á greiðsla þessa skatts að fara fram af hálfu þessara manna?

Nú skulum við segja, að rekstur atvinnuveganna yrði með þeim hætti, að það yrði mikill afrakstur og mikill gróði. Þá vitum við það um leið, að önnur skattalöggjöf hér á landi er með þeim bætti, að það yrði mjög lítið eftir skilið hjá viðkomandi aðilum, þegar þeir væru búnir að greiða alla skatta og skyldur, bæði til ríkisins, í tekjuskatt, stríðsgróðaskatt, eignarskatt og útsvör til bæjarfélaganna, til þess, þó að þeir hefðu mikinn tekjuafgang, að greiða kannske nokkur hundruð þús. kr. á ári í vexti og afborganir af þessum stóreignaskatti. Langsennilegast er því, að jafnóðum og borgast skuldabréfin til ríkissjóðs í stóreignaskattinum, hlaðist upp hjá þessum aðilum nýjar skuldir hjá peningastofnunum, sem þeir þurfa að stofna til, til þess að geta staðið í skilum með þessar greiðslur, og endirinn verður þá vafalaust í mjög mörgum tilfellum sá, að að 10 árum liðnum er skuldin ekki lengur við ríkið, heldur við einhverja af peningastofnunum landsins að meira eða minna leyti. Og þá er komið að því, sem við sjálfstæðismenn höfum bent á, að þá verður þetta aukið og nýtt álag á peningastofnanirnar, sem takmarkar getu þeirra til annarra útlána, sem menn hafa þó mjög borið sig upp undan að væru ekki nægjanlega mikil. Allt þetta leiðir til þess að valda samdrætti í atvinnulífinu og bitna þess vegna, eins og ég sagði áðan, ekki á þeim, sem skattur er raunverulega lagður á, heldur almenningi, sem á að njóta ávaxtanna af atvinnurekstrinum og njóta stöðugrar vinnu, og alvarlegast af öllu er það, ef samdrátturinn verður í svo ríkum mæli, að vinnumarkaðurinn dregst saman og atvinnuleysi skapast.

Hæstv. fjmrh. benti á það, að við stóreignaskattinn 1950 hefði ekki verið leyft að draga frá vátryggingaverði skipanna, eins og nú væru till. uppi um, fiskiskipanna 40% og annarra skipa 331/3%. Það er rétt. En ég vek athygli á því, hæstv. fjmrh., að þá var hins vegar heimild til þess að draga nýbyggingarsjóðina frá, þegar eignirnar voru metnar, hvort sem þeim hafði verið varið til kaupa á framleiðslutækjum eða ekki, og er vafalaust, að í því ákvæði einu eru ekki minni hlunnindi en í þeim frádráttarheimildum, sem hér er um að ræða í frv. og brtt. frá meiri hl. fjhn. En við í minni hl. leggjum til, að til viðbótar við þennan frádrátt, þegar metin eru til verðs skipin, komi einnig á ný ákvæðin um nýbyggingarsjóðina, og þá gæti kannske eitthvað farið að nálgast það, að þessi skattur bitnaði ekki þungt á sjávarútveginum. En þegar hæstv. sjútvmrh. sjálfur kemur hér og segir áðan: Það er ótrúlegt, að nokkur, sem stundar sjávarútveg, komi til með að þurfa að greiða þennan skatt, — og eins og hann orðaði það: milljónerarnir eru ekki í framleiðslustarfseminni, — þá er tvennt, sem mér finnst að komi til álita. Í fyrsta lagi hygg ég, að það sé rétt, sem hv. 1. þm. Reykv. (BBen) benti á, að í þessu kemur fram, að hæstv. ráðh. hefur engan veginu nægilega kynnt sér efni þess máls, sem um er að ræða. En látum það vera. — Ef þessi ráðh. meinar það, að þessi skattur eigi ekki að bitna á þeim, sem hafa byggt upp eignir sínar í framleiðslustarfseminni, og er að því leyti samþykkur þeim sjónarmiðum, sem ég settí fram hér í fyrstu ræðu minni og mjög greinilega komu fram hjá hv. þm. Borgf. (PO), þá ætti hæstv. sjútvmrh. að vera fáanlegur til þess, að gerð yrði sú breyting á þessu frv., að undanþegnar mati til stóreignaskatts skyldu vera allar eignir, sem hagnýttar eru í framleiðslustarfsemi sjávarútvegsins. Til þess að flytja slíka brtt. við frv. þarf að gera allverulegar breytingar, og ég er þess vegna ekki á þessu stigi tilbúinn til þess að flytja slíka brtt., en það getur enn unnizt tími til þess, og málið á a.m.k. eftir að fara til síðari deildar. En mér þætti mjög vænt um að heyra afstöðu hæstv. sjútvmrh. til þess, hvort hann er tilleiðanlegur til þess að vinna að þeirri breytingu á þessu frv., að undanþegnar mati til stóreignaskatts séu allar eignir, sem hagnýttar eru í framleiðslustarfsemi sjávarútvegsins. Þá þarf engum blöðum um það að fletta, hver hugur fylgir máli, og ef það er svo, að þessi ráðh. sjávarútvegsins vilji stuðla að því, að skatturinn leggist ekki sem sérstakar byrðar á þá, sem sjávarútveginn stunda, þá hefur hann sannarlega tækifæri til þess að koma þessum vilja sínum fram, og hann mundi njóta góðs stuðnings sjálfstæðismanna í því efni.

Hv. þm. V-Húnv., frsm. meiri hl. fjhn., talaði hér áðan og heldur fram þeirri staðhæfingu, sem fram kemur í grg. fyrir þessu frv., að þessum skatti sé ætlað það hlutverk að vinna gegn verðbólgu í landinu og hann fái ekki betur séð en eðli málsins samkvæmt muni þessi skattur gera það; það sé eðlilegt, eins og hann sagði, að byrðarnar komi á þá, sem mest hafa aukið eignir sínar á verðbólgunni. Ég hef í fyrri ræðu minni vikið að því, að í raun og veru er líklegt, að þetta verði í mörgum tilfellum algerlega óraunhæft, að byrðarnar leggist á þá, sem hafa aukið eignir sínar á verðbólgunni, því að við megum ekki gleyma því, hvernig það eignamat er fundið, sem hér er um að ræða Það er fundið með þeim hætti að fimmtánfalda fasteignamatið frá því, sem áður var, þegar um fasteignir er að ræða. Og ef þetta eignamat er borið saman við það, sem var í stóreignaskattinum 1950, þá benti ég á það í fyrri ræðu minni, að hér væri um stórkostlegar hækkanir að ræða, allt frá 60% og upp í 260% hækkanir frá fyrra mati við stóreignaskattinn. Þetta kemur greinilega í ljós, þegar ákveðin dæmi eru tekin, eins og ég vék að í dag, að tiltekinn maður á eina fasteign og hefur átt hana allan þennan verðbólgutíma, íþróttakennari í bænum, og hefur atvinnu sína af því að kenna í þessu húsi, og hverjum dettur svo í hug, að hann sé milljónunum ríkari fyrir það, þótt þessi fasteign sé núna með þessu mati, sem tilbúið er, virt á 3 millj. kr., í staðinn fyrir gamla fasteignamatið á fasteign og lóð, sem mun vera nálægt 200 þús. kr.? En þessi tiltekni maður á að borga nálægt 375 þús. kr. í stóreignaskatt af eign, sem áður var metin á 200 þús. kr.; fyrir það á þessi tiltekni maður að borga 375 þús. kr., og hvað er eignaupptaka, ef þetta er það ekki í því tilfeili, sem hér um ræðir? Ég veit, að margir hafa aðra aðstöðu og hafa raunverulega hagnazt á verðbólgutímunum, en það er í senn fjöldi einstaklinga, sem svipað mun standa á um og þennan aðila, og einnig í mjög ríkum mæli mun skatturinn, eins og við höfum margtekið fram, koma þannig niður á atvinnurekstrinum, að hann verður þeim verstur, sem sízt skyldi, þ.e.a.s. launþegum og almenningi í landinu. Hvort skatturinn getur með nokkru móti unnið gegn verðbólguþróuninni í þessu þjóðfélagi, það fæ ég ekki séð, nema með þeim hætti, að menn fara smátt og smátt að hætta að setja fjármuni sína og hætta fjármunum sínum í atvinnutæki og uppbyggingu atvinnulífsins, sem innan tíðar mundi að sjálfsögðu stefna til atvinnuleysis í þessu landi. Það gæti vel verið, að þá færi eitthvað að slá á verðbólguna í þjóðfélaginu, en ég er ekki viss um, að það sé á þennan hátt, sem hv. þm. V-Húnv. eða aðrir þeir sem hafa talað hér fyrir þessu máli, óska eftir að þessi skattlagning vinni gegn verðbólgunni.

Ég vil svo aðeins að lokum segja það, að ég sakna þess nokkuð, að það er enginn úr stjórnarliðinu, sem tjáð hefur sig um neina af þeim brtt., sem við flytjum, og það er með þetta mál eins og mörg önnur, að stjórnarliðið virðist fyrir fram vera búið að gera það upp við sig, hvernig málið eigi að afgreiðast. Ég vil samt sem áður, áður en ég lýk máli mínu, taka eina till. út úr og vekja sérstaka athygli hæstv. fjmrh. á henni, og það er brtt., sem við flytjum varðandi flugvélarnar. Hann er sjálfur flugmálaráðh. og virðist hafa áhuga á þeim málum og hefur haft forgöngu um, að flugfélögunum væru veittar stórkostlegar ábyrgðir ríkissjóðs til að byggja upp sína starfsemi í þjóðfélaginu. En eins og frá þessu er gengið í frv. og með brtt. meiri bl. fjhn., þá beld ég, að það sé ómögulegt annað en ganga út frá því, að menn hafi ekki enn nægilega gert sér grein fyrir því, hversu mikil breyting er í þessu frá því, sem áður var í stóreignaskattslögunum, og að hér sé verið á óeðlilegan hátt að leggja byrðar á þessa ungu atvinnugrein í þjóðfélagi okkar. Seinast voru eignir flugfélaganna metnar eins og lausafé, og ég hygg, ef þetta mál er athugað nánar, að þá sjái menn, að eignir félaganna muni eftir ákvæðum frv. og jafnvel þótt samþ.brtt. meiri hl. verða metnar eftir því mati, sem hér er lagt til grundvallar, meira en helmingi hærra mati en þegar stóreignaskatturinn var síðast á lagður. Ég vil leyfa mér að mega vona, að þegar menn athuga þetta, þá sjái þeir, að þetta sé byggt á misskilningi, og fallist því á að samþ. brtt. okkar um, að frá vátryggingarverði flugvélanna megi dragast 50%. Enda þótt það væri samþ., mundi samt sem áður eignamat flugvélanna verða allverulega miklu hærra en það var árið 1950. En um þessa atvinnugrein verður það að segjast, eins og tekið var fram hér áður í kvöld, að hún hefur byggt sig upp á fáum árum og án nokkurra opinberra styrkja fyrir utan þær ábyrgðir, sem ríkissjóður hefur veitt fyrr og síðar, og þegar um það hefur verið að ræða hér á Alþingi, þá held ég, að þm. úr öllum flokkum hafi ævinlega verið um það sammála. Ég vil því ljúka máli mínu núna með því eindregið að mælast til þess, að þetta sé haft í huga í sambandi við brtt. okkar um eignamatið á flugvélunum.