22.05.1957
Efri deild: 105. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1550 í B-deild Alþingistíðinda. (1460)

159. mál, skattur á stóreignir

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þetta frv. til l. um skatt á stóreignir, sem hér liggur fyrir, er liður í þeim ráðstöfunum í efnahagsmálum, sem ríkisstj. beitir sér fyrir á þessu bv. Alþ. Það ber að skoða þetta frv. í sambandi við aðrar þær till. í þessum málum, sem frá ríkisstj. og þingmeirihlutanum hafa komið.

Á undanförnum árum hafa orðið geysilega miklar verðbreytingar í landinu, þannig að nær því má kalla það verðbyltingu, eins og við sjáum á því, hversu geysilega framfærslukostnaður hefur aukizt frá því að núverandi vísitölukerfi var tekið upp eða nánar tiltekið 1950. Sú vísitala, sem þá var 100, er nú rétt um 190. Þessi stórkostlega verðbreyting hefur haft í för með sér gífurlega röskun á eignaskiptingunni í þjóðfélaginu, og nú, þegar gera þurfti miklar ráðstafanir til þess að færa fjármagn yfir til framleiðslunnar og leggja á landsmenn þungar álögur í því skyni, þótti þeim, sem að þessum ráðstöfunum standa, alveg eðlilegt, að stóreignamenn landsins, þeir, sem óneitanlega hafa mjög grætt á þeirri verðbyltingu, sem orðið hefur á undanförnum árum, legðu fram nokkurn skerf til almenningsþarfa. Á þessum hugsunarhætti er frv. byggt.

Ég sagði áðan, að það hefði orðið mikil breyting á eignaskiptingu í landinu við þessa miklu verðbyltingu, og þessi verðbylting hefur einnig haft í för með sér mikið ósamræmi á milli eignamanna eftir því, hvort þeir hafa átt eignir sínar í föstu, sem kallað hefur verið, eða hvort þeir hafa átt peninga eða peningaverðmæti. Eignir þeirra, sem hafa átt og eiga fé sitt í föstu, hafa í raun og veru ætíð stigið stórkostlega í verði í hlutfalli við hinar eignirnar, sem þannig hafa lækkað í verði, þ.e.a.s. peningaverðmætin hafa lækkað stórkostlega í verði, samanborið við hinar föstu eignir.

Nú er það ákvæði í þessu frv., að þeir, sem eiga peningainnstæður í sparisjóðum og eiga skuldabréf með ríkisábyrgð og ríkisskuldabréf, skuli ekki telja þau verðmæti með eignum í sambandi við þetta skattuppgjör. Þetta þýðir, að þeir, sem fyrir frv. standa, vilja, að þeir, sem eiga eignir sínar í peningaverðmætum, þurfi ekki að greiða af þeim skatt, heldur komi skatturinn fyrst og fremst á hina, sem hafa haft undir höndum hinar föstu eignir, sem kalla mætti í þessu falli, og hafa raunverulega stórgrætt á því ástandi, sem verið hefur undanfarið.

Hér er því stefnt að tvennu: að þessir aðilar leggi nokkurn skerf til þeirra ráðstafana í efnahagsmálum, sem hafa verið gerðar nú í vetur, og jafna metin og minnka ósamræmið á milli þeirra, sem annars vegar hafa átt eða eiga innstæður, peningaverðmæti, og hinna, sem hafa haft undir höndum eða eiga föstu eignirnar.

Þetta er fullkomlega réttmætt að mínum dómi. Þetta ætti að verka heppilega þannig, að með þessu sýndi löggjafinn því fólki, sem vill leggja fjármuni sína í innstæður og geyma þá í peningaverðmætum, að hann metur það með því að hlífa þeim eignum við þessum skatti, sem nú er á lagður.

Ég hygg, að þetta, að þannig er gert upp á milli eignanna einmitt á þessa lund, muni heldur verða til þess að örva menn framvegis í því að leggja fjármuni sína í banka og sparisjóði og eiga peningaverðmæti. En það er mjög mikil nauðsyn einmitt á því hér hjá okkur að ýta undir, að menn vilji gera þetta, því að lánsfjárskortur sá, sem við búum við, er svo stórkostlegur, stafar fyrst og fremst af því, hversu menn sækja ört í það að festa fé sitt, ýmist eyða því eða festa það í því, sem kallað er raunveruleg verðmæti, en hafa ekki viljað eiga á hættu að eiga það sem innstæðu í peningastofnunum landsins.

Þessi þróun er geysilega háskaleg. Við vitum, að hún stafar aðallega af þeirri miklu verðbyltingu, sem orðið hefur hér á undanförnum áratugum, og slæmri reynslu manna í sambandi við það. En allt, sem gengur í þá átt að bæta hag þeirra, sem vilja eiga innstæður, stefnir að mínu viti rétt. Þannig hefur verið gengið inn á þá braut að gera sparisjóðsinnstæður skattfrjálsar, þegar um tekju- og eignarskatt er að ræða, og vexti af þeim. Og hér er stigið enn skref í sömu átt í þessu frv., þar sem gert er ráð fyrir, að þessar innstæður séu líka skattfrjálsar við uppgjör til stóreignaskatts.

Menn hafa rætt nokkuð um, að þessi skattur mundi valda erfiðleikum í atvinnulífinu. Ég vil benda á, að þessari skattlagningu verður að teljast í hóf stillt, þar sem gert er ráð fyrir, að enginn skattur sé greiddur af fyrstu milljóninni, sem hver einstakur á. Þá vil ég benda á í því sambandi, að eignamatið er mjög varlegt. Það er áreiðanlegt, að engin eign verður metin til þessa skatts með fullu gangverði, eins og frá matsákvæðum er gengið, enda hefur enginn haldið því fram í sambandi við umr. um þetta mál, t.d. í hv. Nd. eða utan þings, í alvöru, að ég hafi getað merkt, að eignir væru metnar umfram það, sem gera mætti ráð fyrir að gangverð þeirra væri.

Þegar þetta er haft í huga og svo hitt, að ein milljón er skattfrjáls, þá hljóta allir að sjá, að hér er í hóf stillt þeim framlögum, sem þeim ríkustu er ætlað að leggja til, og enn fremur er að sjálfsögðu gert ráð fyrir því, að menn greiði þennan skatt á nokkrum árum.

Það er ekki hægt að áætla, hversu mikið þessi skattur muni gefa í tekjur. En menn hafa viljað stefna að því, að hann gæfi ekki minna en 80 milljónir, og setjum svo, að það tækist, þá yrði það, sem menn ættu að greiða, um 8 milljónir á ári að viðbættum vöxtum af því, sem útistandandi er.

Þegar þess er gætt, hvernig hér er háttað um verðgildi peninga, verður ekki sagt, að hér sé um stórfelldar álögur að ræða, sem gæti haft alvarlega röskun í för með sér í þjóðlífinu á einn eða annan hátt eða atvinnurekstrinum, þegar þess er þá einnig gætt, að sumar eignir, sem mest eru notaðar í atvinnurekstrinum, eins og t.d. skip, er ráðgert að meta sérstaklega vægilega til skattsins.

Ég held, að það sé því að seilast nokkuð langt til raka að halda því fram, að hér sé verið að lögfesta álögur, sem geti valdið stórerfiðleikum í atvinnurekstrinum. Einnig vil ég í því sambandi benda á, að því miður er því nú þannig farið, — ég segi og legg áherzlu á: því miður er nú þannig ástatt hjá okkur, að þeir, sem hafa fyrst og fremst stundað undirstöðuatvinnuvegi landsmanna eða þá atvinnuvegi, sem þjóðin á mest undir, þ.e.a.s. framleiðsluatvinnuvegina, hafa ekki safnað stóreignum eða grætt á því verðbyltingarástandi, sem hér hefur verið nú áratugum saman. Því miður eru það ekki þeir, sem eiga stóru eignirnar, og þess vegna kemur þetta minnst niður á þeim mönnum. Miklu fremur eru það hinir, sem hafa snúið sér að alls konar annarri starfsemi, milliliðastarfsemi og hvers konar annarri starfsemi, sem hafa safnað hinum stóru eignum.

Það er gert ráð fyrir því í frv., að þessi skattur verði ekki að eyðslueyri hjá ríkinu, heldur gangi hann í sjóði, að tveim þriðju í þann sjóð, sem á að lána til íbúðabygginga í kaupstöðum, en að einum þriðja í veðdeild Búnaðarbankans og verði að starfsfé hjá þessum sjóðum. Bak við þetta liggur sú hugsun, að þetta fé megi ekki verða að eyðslueyri, heldur eigi það að verða áfram að gagni við að byggja upp í landinu, og hafa þá þessir tveir sjóðir orðið fyrir valinu. Mun öllum hv. dm. vel ljóst, að með því móti verði fénu vel varið, því að einmitt nú alveg nýlega hafa íbúðamálin og raunar líka málefni veðdeildarinnar, Búnaðarbankans, verið til ýtarlegrar umr. hér í hv. d., og hefur þá áreiðanlega rifjast fullkomlega upp fyrir mönnum, hversu rík nauðsyn er á því, að einmitt þessar stofnanir fái aukinn stuðning frá því, sem verið hefur.

Mér finnst ég hafa með þessum fáu orðum tekið fram það, sem mestu máli skiptir, en leyfi mér að öðru leyti að vísa til grg., sem fylgir frv., þar sem fjallað er sæmilega ýtarlega um hvert meginatriði fyrir sig.

Ég vil benda hv. dm. á eða rifja það upp, sem þeir þó vita mjög vel, að um þetta mál hafa orðið ýtarlegar umr. í hv. Nd., sem ég efast ekkert um að þeir hafa fylgzt allvel með, og að þetta mál hefur fengið mjög nákvæma athugun í fjhn. Nd. Ætti það því ekki að vera neitt óviðurkvæmilegt, þó að ég færi fram á, að þetta mál fengi sæmilega skjóta afgreiðslu hér í d.

En það geri ég einnig með sérstöku tilliti til þess, að það er mjög liðið á þingtímann og æskilegt, að hægt sé að ljúka þinginu sem allra fyrst.

Ég vil því, um leið og ég legg til, að málínu verði vísað til hv. fjhn. þessarar d., óska eftir því við form. fjhn., að hann vildi hraða meðferð málsins, eftir því sem hann og hv. fjhn. sæi sér frekast fært.