22.05.1957
Efri deild: 105. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1553 í B-deild Alþingistíðinda. (1461)

159. mál, skattur á stóreignir

Sigurður Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. gat þess í upphafi framsöguræðu sinnar, að á frv. þetta bæri að líta sem einn lið í efnahagsmálaráðstöfunum ríkisstj. Þar sem þessu er þannig varið, verður það að teljast eðlilegt, að inn í umr. um frv. spinnist nokkuð almennar umr. um ástand efnahagsmálanna í hinu íslenzka þjóðfélagi í dag, og verður þá einnig nauðsynlegt að líta nokkuð um öxl og þá fyrst og fremst til þess tíma, er hæstv. núverandi ríkisstj. var mynduð.

Hæstv. ríkisstj. lýsti því yfir við valdatöku sína og raunar fyrir hana, að fram mundi verða látin fara almenn „úttekt“ á þjóðarbúinu og ástandi efnahagsmálanna. Jafnframt var því heitið, að nýjar leiðir mundu verða farnar til lausnar þeim vanda, sem við blasti, og tillögur um ný úrræði fram lagðar.

Í samræmi við þessi fyrirheit réð svo hæstv. ríkisstj. innlenda og erlenda sérfræðinga til þess að kryfja vandamálin og ástand efnahagsmála þjóðarinnar í heild til mergjar. Því hafði verið heitið, að þjóðinni yrði gert ljóst álit þessara sérfræðinga og að allt skyldi fara fram fyrir opnum tjöldum. Það fyrirheit var út af fyrir sig mjög loflegt, því að æskilegt var, að þjóðin fylgdist sem bezt með þeirri rannsókn og úttekt, sem fram færi og verða átti grundvöllur að nýjum leiðum og úrræðum í þessum þýðingarmiklu málum.

Rannsókn fór fram, en því miður varð niðurstaðan sú, að almenningi var ekki gert kunnugt, hver niðurstaða „úttektarinnar“ hefði orðið. Jafnvel þegar hæstv. ríkisstj. lagði fyrir Alþ. till. sínar til stuðnings útflutningsframleiðslunni fyrir jól, fengust ekki upplýsingar um það, hverjar niðurstöður sérfræðinganefndanna hefðu verið og hverjar till. hefðu verið uppi um leiðir til lausnar vanda efnahagsmálanna. Það fékkst heldur ekki upplýst, hverjar þarfir atvinnuveganna raunverulega væru, þegar rætt var um till. ríkisstj. fyrir jólin.

Ég álít, að þetta hafi verið mjög miður farið og hafi gert hæstv. ríkisstj. að mörgu leyti erfiðara fyrir sjálfri síðar, að almenningur skyldi ekki fá upplýsingar um það, hvað raunverulega var að gerast í þessum málum, — hvað hinir innlendu og erlendu sérfræðingar sögðu um ástand efnahagsmálanna og upp á hvaða leiðum var brotið. Ekki sízt olli þetta miklum vonbrigðum, vegna þess að lofað hafði verið fullt og fast nýjum leiðum og úrræðum.

Um þetta þýðir ekki að fjölyrða. Það er komið sem komið er. Enn hefur hvorki þing né þjóð fengið upplýst, hverjar tillögur sérfræðinganna voru og hverjar þarfir atvinnuveganna raunverulega voru, þegar hinar nýju ráðstafanir voru gerðar á Alþ. nokkru fyrir síðustu áramót.

En staðreyndirnar standa eftir um það, sem gert var. Það, sem fyrst og fremst var gert til stuðnings útflutningsframleiðslunni á s.l. vetri, var, að lagðir voru á nýir skattar, er nema munu um 300 millj. kr., og því fé verður varið til áframhaldandi og stóraukinna uppbóta á útflutningsframleiðslu landsmanna.

Eins og ég sagði áðan, var í þessum málum engin ný leið farin og ekkert nýtt úrræði bent á. Hæstv. ríkisstj. og flokkar hennar og málgögn hafa þó haldið því fram, að með þessum till., með þessum geysilega þungu nýju skattaálögum hafi hag framleiðslunnar verið borgið. En nú er svo komið, að sú staðreynd verður ekki sniðgengin, að síðan þessar till. voru samþ., hafa orðið stórkostlegar kauphækkanir í landinu, sem síðan hafa stuðlað að hækkun verðlags og enn nýjum erfiðleikum fyrir framleiðsluna. En ætlun hæstv. ríkisstj. var fyrst og fremst að koma í veg fyrir það kapphlaup, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum milli kaupgjalds og verðiags. Hvorki meira né minna en 13 kauphækkanir hafa átt sér stað síðan um síðustu áramót. Ég get í stuttu máli nefnt þá aðila, sem kauphækkanir hafa fengið, og það er í raun og veru grundvallaratriði í þessum umræðum, að menn geri sér ljósa þá þróun, sem er að gerast, vegna þess að menn verða að ganga út frá ástandinu eins og það er, en ekki eins og menn vildu gjarnan að það hefði verið.

Fyrstu aðilarnir, sem kauphækkun fengu, voru í fyrsta lagi starfsfólk Sambands ísl. samvinnufélaga, sem fékk kauphækkun, er var látin verka aftur fyrir sig allt til næstsíðustu áramóta. Hæstv. fjmrh. sagði í umr. í Nd. í gær eða fyrradag um þetta, sem ég var áheyrandi að, að þetta væri ekki rétt með farið, starfsfólk Sambands ísl. samvinnufélaga hefði aðeins verið að fá kauphækkun, sem aðrir hefðu fyrir löngu, jafnvel fyrir ári verið búnir að fá, sumpart með setningu nýrra almennra launalaga og sumpart með samningum við atvinnurekendur.

Þetta er að sjálfsögðu rétt hjá hæstv. ráðh., að aðrir aðilar höfðu fengið svipaða kauphækkun eða hærri áður. En það breytir engan veginn þeirri staðreynd, að þessi aðili fékk nú kauphækkun, eftir að hæstv. ríkisstj. var búin að lýsa því yfir sem sinni stefnu, að frá kauphækkunum skyldi horfið og kapphlaupið milli kaupgjalds og verðlags stöðvað. Þrátt fyrir þessi ummæli hæstv. ráðh. stendur sú staðreynd óhögguð, að starfsmenn S.Í.S. voru einir þeir fyrstu, sem fengu kauphækkun í lok s.l. árs, sem verkaði um það bil heilt ár aftur fyrir sig.

Þá urðu blaðamenn til þess í svipaðan mund að fá allverulega kauphækkun.

Eftir áramótin komu svo verkföll og kaupdeilur í Grindavík og Akranesi, sem lauk með kauphækkunum. Þá koma í fimmta lagi farmenn, sem Sjómannafélag Reykjavíkur samdi fyrir og töluverð kauphækkun náðist fyrir eftir um það bil eins mánaðar verkfall.

Í sjötta lagi lýsti svo hæstv. viðskmrh. því yfir sjálfur, og blað hans flutti þá fregn með stórum fyrirsögnum, að sjómenn hefðu fengið 14–13% kauphækkun með þeim ráðstöfunum, sem hæstv. ríkisstj. gerði til stuðnings sjávarútveginum um síðustu áramót. Á því hefði að vísu farið miklu betur, að þessar upplýsingar hefðu verið gefnar í þann mund, sem lögin um þær ráðstafanir voru sett, en þá varðist hæstv. sjútvmrh. allra tíðinda um það atriði og raunar miklu fleiri, eins og t.d. um það, hverjar raunverulegar þarfir sjávarútvegsins væru, sem hægt væri að hafa til hliðsjónar, þegar ákveðið væri af hv. Alþingi, hvaða byrðar skyldu lagðar á landsfólkið til þess að afla tekna upp í útflutningsuppbæturnar og stuðninginn við útflutningsframleiðsluna.

Í sjöunda lagi komu svo Iðjusamningarnir, sem höfðu í för með sér nokkra kauphækkun til lægst launaða verkafólksins í Iðju og þá fyrst og fremst kvenna, sem talið var búa við skarðan hlut.

Í áttunda lagi kom kauphækkunin til flugmannanna, sem fengu mjög veruleg gjaldeyrisfríðindi, er jafngilda mikilli grunnkaupshækkun.

Í níunda lagi kom hækkun til yfirmanna á togurum, í tíunda lagi 7 aura hækkun uppbóta á mjólkurlítra, í ellefta lagi hlýtur að leiða verulega kauphækkun af till., sem hv. Alþingi hefur samþykkt um jafnrétti karla og kvenna og hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir með stuðningi allra flokka þings.

Í tólfta og þrettánda lagi hafa nú verkamannafélögin í Reykjavík og Hafnarfirði samið um nokkra kauphækkun.

Á okkur sjálfstæðismenn hefur verið deilt fyrir það, að við höfum í blöðum okkar sagt þjóðinni frá því, sem er að gerast í þessum efnum. Það hefur verið talið bera vott ábyrgðarleysis okkar og jafnvel um stefnubreytingu í kaupgjalds- og verðlagsmálum, að við höfum gefið þjóðinni kost á því að fylgjast með því, þegar verkalýðsfélög hafa sagt upp og þegar nýir samningar hafa verið gerðir, og jafnframt sagt frá niðurstöðum þeirra.

Ég hygg, að í þessu felist hinn mesti misskilningur. Ég veit, að hæstv. ríkisstj. gerir sér það ljóst, að þótt hún láti t.d. Tímann, eitt aðalmálgagn sitt, þegja um það, sem er að gerast í þessum málum, verkföll og kauphækkanir, þá breytir það ekki þeirri staðreynd, að þessir hlutir hafa gerzt og eru að gerast, því að um þessar mundir hefur fjöldi verkalýðsfélaga sagt upp samningum og sum þegar boðað verkföll.

Stefna sjálfstæðismanna í þessum málum er þess vegna gersamlega óbreytt, þótt þeir í sínum góða blaðakosti gefi almenningi kost á því að fylgjast með því, sem er að gerast. Og því fer auðvitað fjarri, að það sé sjálfstæðismönnum að kenna, að allmörg verkalýðsfélög hafa ekki viljað una við þá yfirlýsingu Alþýðusambands Íslands, að nú skyldi ekki sagt upp samningum og krafizt kauphækkana. Það sést auðvitað gleggst á því, að mörg félög, þar sem flokkur ríkisstj. er í forustu, hafa sagt upp samningum, og meira að segja forustufélag Alþfl.-manna, Sjómannafélag Reykjavíkur, varð fyrst verkalýðsfélaganna til þess að fara út í verkfall. Það er þess vegna eins og hver önnur fásinna, að sjálfstæðismenn beri ábyrgð á þessari þróun, sem hæstv. ríkisstj. telur sér að vísu óhagstæða og út frá því sjónarmiði, að stöðva beri kapphlaupið milli kaupgjalds og verðlags, er að sjálfsögðu óheppileg og hættuleg.

Þar að auki hefur ríkisstj. beinlínis sjálf, bæði sem heild og einstakir ráðh., unnið að því að leysa einstakar kjaradeilur, sem ekki hefur verið hægt að leysa öðruvísi en með kauphækkunum. Verður þá enn ljóst hversu ósanngjörn sú ásökun er á hendur Sjálfstfl., að hann beri fyrst og fremst ábyrgð á þessum atburðum. En ég hef dregið upp mynd af þessu hér, þessum kauphækkunum, vegna þess að sú mynd sýnir enn betur en það, sem gerðist um síðustu áramót, að hæstv. ríkisstj. hefur gefizt upp við að koma fram nokkurri stefnubreytingu í dýrtíðar-, kaupgjalds- og verðlagsmálum. Það er ekki einungis, að hún hafi ekki flutt neinar nýjar till., ný úrræði um það, hvernig vandinn skuli leystur í þessum málum, heldur hefur þróunin, sú óheillaþróun, sem átt hefur sér stað tvö s.l. ár með kapphlaupinu milli kaupgjalds og verðiags, haldið áfram í ríkum mæli, og það er rétt, sem sagt hefur verið, að dýrtiðin hefur á undanförnum mánuðum farið hraðvaxandi. Að sumu leyti hefur það átt rætur sínar að rekja til beinna ráðstafana hæstv. ríkisstj,, þ.e.a.s. skatta- og tollahækkananna, og sumpart til kauphækkananna. Þetta sést greinilegast á því, að nú hefur kaupgjaldsvísitalan hækkað um 4 stig, sem þýðir að sjálfsögðu aukin útgjöld fyrir atvinnureksturinn og fyrir ríkið sjálft.

Málin standa þá þannig, ef litið er á heildarmyndina af efnahagsástandinu, að núverandi hæstv. ríkisstj. hefur ekki komið með nein ný úrræði, hún hefur aðeins vaðið lengra út í fen styrkjastefnunnar, hún hefur lagt á hærri skatta og tolla en nokkur ríkisstj. hefur gert á jafnskömmum tíma áður, og það, sem verst er af öllu, ólánsatburðarásin, kapphlaupið milli kaupgjalds og verðlags, heldur áfram hröðum skrefum.

Er ég þá kominn að því, sem hefur borið allmjög á góma í umr. um þetta frv. hér á þingi undanfarna daga. Það eru líkurnar á yfirvofandi gengislækkun. Fyrsta vísbendingin um það, að hæstv. ríkisstj. kynni að hafa gengislækkun í huga sem örþrifaráð í baráttu sinni við vanda efnahagsmálanna, kom í Tímanum, nokkru eftir að miðstjórnarfundi Framsfl. lauk. Hinn 20. marz komst Tíminn, með leyfi hæstv. forseta, m.a. að orði á þessa leið:

„Þær skoðanir komu fram, að heppilegra mundi hafa verið að gera róttækari og óflóknari ráðstafanir í efnahagsmálunum um seinustu áramót.“

Það dylst engum, að hér er átt við það, að á miðstjórnarfundi Framsfl. hafi komið fram þær skoðanir, að heppilegra hefði verið að fella gengið um síðustu áramót heldur en halda áfram styrkjastefnunni með stórkostlegum nýjum álögum tolla og skatta. Síðan þessi ummæli komu fram í Tímanum, hefur orðrómur gengið um það, að hæstv. ríkisstj. hygðist með haustinu fella gengi íslenzku krónunnar. Það hefur jafnvel flogið fyrir, að einstakir ráðh. hefðu skýrt vildarmönnum sínum frá því, að þetta mundi vera í uppsiglingu og þeim mundi betra og hollara að miða efnahagsráðstafanir sínar við þessa vitneskju.

Ég skal engan dóm leggja á það, hvort þessi orðrómur hefur við rök að styðjast. Mér þykir raunar ótrúlegt, að hæstv. ráðh. leyfi sér slíkt ábyrgðarleysi og slíka einstæða misnotkun á hinu æðsta stjórnvaldi í landi sínu. Ég verð að segja það, að þó að ég treysti ekki vel þessari hæstv. ríkisstj., þá verð ég að telja ótrúlegt, að einstakir hæstv. ráðh. hafi leyft sér slíkar aðfarir.

Loks koma svo ummæli tveggja hv. þm. Alþfl. hér á hv. Alþ. um þetta atriði. Það eru í fyrsta lagi ummæli hv. þm. Siglf. (ÁkJ), er féllu í neðri deild Alþingis fyrir nokkrum dögum. Þar komst þm. að orði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Kemur ríkisstj. raunverulega ekki auga á neitt nema nýja skatta? Er það ætlun hennar um næstu áramót að leggja 200–300 millj. kr. nýja skatta á þjóðina? Færeyingum eru borguð 50–70% hærri laun en íslenzkum sjómönnum, af því að gengi krónunnar er vitlaust skráð. Sér hver maður, að gengislækkun verður óhjákvæmileg, sérstaklega eftir aðgerðir Alþingis í efnahagsmálunum í vetur.“

Þetta voru ummæli hv. þm. Siglf. í þingræðu í hv. Nd. fyrir nokkrum dögum. Þessi sömu ummæli gerði hv. þm. Hafnf. (EmJ), formaður Alþfl., að umræðuefni nokkru síðar í þingræðu um þetta sama mál, sem hér liggur fyrir. Hann lýsti því að vísu yfir, að hv. þm. Siglf. hefði ekki túlkað stefnu og skoðanir Alþfl. í heild í ræðu sinni. Hins vegar komst þm. Hafnf., sem er formaður Alþfl., að orði á þessa leið:

Alþfl. hefur aldrei farið dult með skoðun sína í þessu máli. Hann hefur viljað fara allar hugsanlegar leiðir, áður en til gengislækkunar kæmi. En hann hefur gert sér ljóst, að ef vissum skilyrðum er ekki fullnægt, þá yrði að grípa til hennar. Spurningin er, hvort ríkisstj. muni takast að halda kapphlaupinu milli kaupgjalds og verðlags svo í skefjum, að gengislækkun verði hindruð. Ef það tekst ekki, þá er um ekkert annað en gengislækkun að ræða.“

Leiðirnar í efnahagsmálunum eru ekki nema tvær, sagði hv. þm. Hafnf., og fyrr í sinni ræðu hafði hann lýst, hverjar þessar leiðir væru, það væri í fyrsta lagi styrkjaleiðin, í öðru lagi gengislækkunarleiðin. Styrkjaleiðin hefði verið farin um síðustu áramót. Þegar á það er litið, að auðsætt er og raunar viðurkennt af hæstv. ríkisstj. og talsmönnum hennar, að fyrri leiðin, sem hv. formaður Alþfl. talaði um, styrkjaleiðin, hefur þegar misheppnazt, og enn fremur litið á það, að hv. þm. Hafnf. segir, að ef hún mistakist, þá sé ekki um neitt annað að ræða en gengislækkun, þá verður auðsætt, að að áliti formanns eins stjórnarflokksins er á næstunni ekkert annað fyrir hendi en gengislækkun.

Þannig er þá ástandið í íslenzkum efnahagsmálum í dag, eftir að hæstv. ríkisstj. hefur setið að völdum í rúmlega níu mánuði eða um það bil. Styrkjastefnan hefur verið reynd með stórkostlegum nýjum sköttum og tollum, dýrtíðin heldur áfram að magnast, vísitalan hækkar, hver vinnudeilan skellur yfir á fætur annarri, og hver kauphækkunin á fætur annarri fylgir í kjölfar þeirra, samtals 13, eins og ég taldi upp áðan.

Gagnvart þessari mynd af efnahagsástandinu stöndum við í dag, þegar hæstv. fjmrh. leggur frv. um enn nýjan skatt fyrir þessa hv. þingdeild.

Áður en ég kem að því að ræða beint um þetta frv., vildi ég fara nokkrum orðum um skattamál okkar almennt á undanförnum árum.

Það hefur yfirleitt verið viðurkennt af öllum stjórnmálaflokkum, að skattar væru hér orðnir allt of háir. Þessi skoðun hefur m.a. birzt í því, að flestir, ef ekki allir stjórnmálaflokkar hafa fyrir kosningar lofað að beita sér fyrir endurskoðun skattalöggjafar, og á undanförnum þingum hefur hvert frv. rekið annað um lagfæringar á einstökum atriðum skattalaga, frádrátt og undanþágu í þágu einstakra stétta og starfshópa. Niðurstaðan varð og sú í tíð hæstv. fyrrv. ríkisstj., að skattalögin voru tekin til endurskoðunar í samræmi við endurtekin fyrirheit bæði Sjálfstfl. og Framsfl. Þessari endurskoðun skattalaga lauk ekki nema að nokkru leyti.

Ég hygg, að ég muni það rétt, að það hafi verið árið 1955, sem endurskoðuð voru þau ákvæði skattalaga, sem fjölluðu um skattgreiðslur persónulegra skattgreiðenda, og niðurstaða þeirrar endurskoðunar varð sú, að samþ. var á Alþingi breyting á skattalögunum, sem hafði í för með sér, að mig minnir, 25–29% lækkun á skattgreiðslum persónulegra skattgreiðenda. Hins vegar náðist ekki samkomulag um skattgreiðslur félaga, og endurskoðun skattalaga að því leyti, er til þeirra tekur, hefur ekki enn þá farið fram, ef ég man rétt.

Meðal almennings er sú skoðun einnig almenn og miklu almennari en meðal fulltrúa þjóðarinnar hér á þingi, að skattar séu orðnir allt of háir. Á ég þá í þessu sambandi fyrst og fremst við hina beinu skatta, þeir séu orðnir það háir, að þeir dragi mjög úr persónulegri hvöt einstaklinganna til þess að vinna og framleiða og bæta sinn hag. Má raunar öllum vera ljóst, hversu hættulegt það er fyrir ungt og vaxandi þjóðfélag, sem stendur mitt í uppbyggingu, að lama athafnaþrá og framtak borgara sinna og verða til þess þar með, að þeir haldi að sér höndum, noti ekki krafta sína eins og þeir geta og gjarnan vildu í sína eigin þágu og þjóðfélagsins. Það er nefnilega staðreynd, að ekkert þjóðfélag verður byggt upp eða safnar miklum þjóðarauði, er síðan komi til skipta á milli einstaklinga þess, án þess að einstaklingurinn sjálfur sé sterkur og dugandi og hafi áhuga fyrir því að leggja sig fram. Það er þess vegna áreiðanlegt, að það er ekki of djúpt tekið í árinni, að Íslendingar séu komnir út á hála braut að því er snertir skattheimtu og skattalöggjöf. Sést það m.a. bezt á því, að það er almennt viðurkennt, að skattsvika og fjölþættrar viðleitni til þess að sniðganga skattalöggjöf verði hér mjög vart og í vaxandi mæli, en það sprettur af því, að einstaklingurinn finnur svo að sér þrengt, að hann neyðist út í það að falsa framtöl sín, svíkja þjóðfélagið og í raun og veru að gera sjálfan sig að minni manni fyrir. En á þessu ber þjóðfélagið fyrst og fremst sök.

Nú má enginn skilja mín orð þannig, að ég sé mótfallinn því, að þeir, sem hafa miklar tekjur, eða þeir, sem eiga miklar eignir, greiði háa skatta. Vitanlega verður þjóðfélag í hraðri uppbyggingu að leggja á mikla skatta, eila verður það alls ekki fært um að sinna þeim fjölþættu verkefnum, sem krafizt er af því að það sinni og framkvæmi. En meðalhófsins verður að gæta. Ríkisvaldið má ekki ganga lengra en svo í skattheimtunni, að hvöt einstaklingsins til þess að leggja sig fram, til þess að vinna vel sjálfum sér og þjóðfélaginu til gagns verði ekki lömuð. Það er kjarni málsins. Á þessum kjarna málsins hefur löggjafinn að mínu viti of oft misst sjónar á undanförnum árum.

Ég er þá kominn að frv. sjálfu, um skatt á stóreignir, sem hér liggur fyrir til 1. umr. Áður en ég ræði það frekar efnislega, get ég ekki varizt því að benda á, að það eru ekki einungis við þm. Sjálfstfl., sem teljum þetta frv. að mörgu leyti vanhugsað og hættulegt fyrir atvinnulífið í landinu. Einn af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. hefur talið sig knúðan til þess að gefa í Nd. í umr. um þetta mál yfirlýsingu um algera andstöðu sína við þetta frv. Hv. þm. Siglf. komst þannig að orði í hv. Nd., að hæstv. ríkisstj. gæti vel unað við skattaálögur sínar, þótt þessum skatti væri sleppt, því að hún væri þegar búin að slá öll met í þessu efni. Hv. þm. Siglf. hélt síðan áfram: Hinar síendurteknu skattaálögur eru meginástæða til þess, að fleiri og fleiri atvinnurekendahópar koma til ríkisstj. til þess að biðja um styrki. Þessir styrkir væru svo greiddir með enn auknum almennum álögum. Þessu fylgdi svo, að fleiri og fleiri menn þyrfti til alls konar eftirlits, fólk væri tekið frá jákvæðum framleiðslustörfum til neikvæðra skrifstofustarfa.

Hv. stjórnarsinnar reyna stöðugt að stimpla okkur sjálfstæðismenn sem umboðsmenn hinna ríku, vegna þess að við vörum hæstv. stjórn við ákafa hennar í skattheimtunni. Nú koma hennar eigin stuðningsmenn og taka undir þessar aðvaranir, segja það fullum fetum, að hæstv. ríkisstj. hafi þegar slegið öll met í þessum efnum og hún ætti þess vegna að geta látið staðar numið.

Mér er auk þess kunnugt um það, að ýmsir af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. eru alveg sama sinnis og hv. þm. Siglf. Þeir eru bara dulari en hv. þm. Siglf., þeir fara betur með þessa skoðun sína, og þeir vilja ekki ergja flokksbræður sína í ríkisstj. með því að segja þetta opinberlega. Ég er t.d. alveg sannfærður um það, að ef hæstv. fjmrh. gegnumlýsti sinn ágæta flokk, Framsfl., þá sæi hann innan í mörgum þm. Framsfl. ákaflega mikla óbeit á þessu frv., sem hæstv. ráðh. hefur lagt hér fyrir í dag, og hann mundi sjá meira, ef hann færi út um byggðir landsins og út um kaupstaði og sveitir. En hæstv. ráðh. heldur bara, að það þurfi ekki nema að nefna menn, sem eiga milljón og yfir það, þá muni allir rétta upp hendurnar og segja: Við skulum flá milljónamæringana. — Það er þetta hugarfar, sem liggur bak við stefnu hæstv. fjmrh., það er að flá köttinn.

Hér er ekki fyrst og fremst verið að ganga hart að nokkrum ríkum mönnum, og það er ekki það, sem ég er fyrst og fremst að fárast yfir. Það er sú stefna hæstv. fjmrh., sem í þessu frv. birtist, sú stefna, að það sé í raun og veru áfellisvert, ef einhverjum tekst að koma atvinnutæki á sæmilega traustan grundvöll, hvort sem það er í iðnaði eða sjávarútvegi, og þá beri bókstaflega að refsa þeim aðila, sem gerist sekur um slíka óhæfu. Ef ríkið sleppur við það að gefa með einhverjum, einhverri starfsgrein eða með einhverjum atvinnurekstri, þá verður að leggja á skatt, sem kemur niður á honum. Það er þessi hugsunarháttur, sem liggur bak við þetta frv. Að það sé einhver réttlætiskennd, sem sé svona miklu þroskaðri í brjósti hæstv. fjmrh. og hv. stjórnarflokka yfirleitt, sem liggi á bak við þetta frv., því trúi ég ekki og það eru áreiðanlega fáir menn, sem trúa því, í þessu landi.

Nei, það er þetta, að flá köttinn. Þarna er grunntónn stefnunnar, sem kemur fram í þessu frv., sem þó bitnar fyrst og fremst á atvinnulífinu, á þeim fyrirtækjum, sem eiga að standa undir atvinnu og afkomu almennings í landinu.

Það liggur þannig fyrir sem staðreynd, að það eru ekki einungis við sjálfstæðismenn, sem gagnrýnum þetta frv. og erum því mótfallnir, heldur stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. sjálfrar, jafnvel á Alþingi. — Ég get ekki látið hjá liða að geta þess, að mér hefur borizt til eyrna, að einum af hv. varaþm. stjórnarliðsins hafi verið bannað að mæta á þingi þessa dagana, vegna þess að kunnugt sé um það eða a.m.k. nokkur vafi leiki á um fylgi hans við stóreignaskattsfrv. Það er meira að segja komið þannig, að líkar eru til þess, að hæstv. ríkisstj. verði að reka sína eigin menn af þingi til þess að losna við andstöðu þeirra við þetta frv., sem þeir telja vera eitthvert réttlætismál og hæstv. fjmrh. heldur að menn syngi fagnaðarsöng yfir úti um byggðir landsins.

Það er sagt, að megintilgangur þessa frv. sé sá að afla fjár til veðdeildar Búnaðarbanka Íslands og byggingarsjóðs ríkisins. Þetta eru að sjálfsögðu ákaflega góðar stofnanir, og situr sízt á mér eða okkur sjálfstæðismönnum að leggja stein í götu tekjuöflunar til þeirra. En mér er spurn: Hvernig stendur á því, að þessar stofnanir hafa verið hafðar út undan af hæstv. ríkisstj., að hún hefur ekki átt neitt aflögu handa þeim af því gífurlega fjármagni, sem hún þegar hefur innheimt og áskotnazt með nýjum sköttum og tollum? Hvernig stendur á því, að veðlánakerfið, sem stofnað var fyrir 2 árum og orðið hefur að stórmiklu gagni, hefur að mestu staðið máttvana og fjárþrota, síðan núverandi hæstv. ríkisstj. tók við völdum? Ég hef að vísu rætt orsakir þess fyrir nokkrum dögum hér í hv. þingdeild og skal ekki endurtaka það nú, aðeins benda á það, að ein meginástæða þess er sú, að sparifjármyndun í landinu hefur stöðvazt og fólk hefur vantrú á efnahagsmálastefnu stjórnarinnar yfirleitt. Þess vegna hafa bankarnir ekki fé, eins og þeir höfðu þegar þetta veðlánakerfi var sett á laggirnar, til þess að veita hinn nauðsynlega og sjálfsagða stuðning við umbætur í húsnæðismálum landsmanna.

Það er staðreynd, sem almennt er viðurkennd, að atvinnurekstur landsmanna á nú við mjög mikla rekstrarfjárerfiðleika að etja. Allt bendir til þess, ekki sízt vegna þess, að sparifjármyndunin er stöðvuð, að þessir erfiðleikar muni fara vaxandi. Enn fremur má á það benda, að aukinn framleiðslukostnaður lendir á atvinnutækjunum með vaxandi og sífellt hækkandi kaupgjaldi og dýrtíð. Ef við þetta á svo að bætast, að ríkisvaldið, sem öðrum þræði þykist þó vera að hjálpa framleiðslunni og er að því, kemur og leggur sligandi skatta fyrst og fremst á atvinnutækin, þá getur engum dulizt, hvaða afleiðingar slíkt hlýtur að hafa. Það hlýtur að leiða til samdráttar í atvinnulífi landsmanna. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég var þar kominn máli mínu, að ég ræddi um, að atvinnurekstur landsmanna ætti um þessar mundir við mikinn skort á rekstrarfé að búa og að ekki væri annað sýnna en að sá skortur og þeir erfiðleikar, sem af honum leiddi, mundu á næstunni fara vaxandi. Sprettur það m.a. af því, að framleiðslukostnaður fer töluvert hækkandi, bæði af völdum hækkaðs kaupgjalds og vaxandi dýrtíðar í landinu yfirleitt.

Þegar við þetta bætist, að nú er lagður á nýr skattur, sem fyrst og fremst bitnar á atvinnutækjum landsmanna, þá verður auðsætt, út á hve hála braut almannavaldið er komið.

Annars vegar blasir sú staðreynd við, að öll útflutningsframleiðsla þjóðarinnar er rekin með stórkostlegu tapi, sem ríkissjóður greiðir og aflar sér tekna til þess með stórkostlegum álögum á almenning. Hins vegar kemur nú almannavaldið sjálft og ákveður að leggja nýjar álögur á þessi sömu framleiðslutæki sem það er að styrkja.

Eins og ég mun hafa drepið á í upphafi máls míns, er það ekki alvarlegasta hlið þessa máls, að nokkrir efnaðir menn verða að greiða allháan aukaskatt í ríkissjóð. Í fjármagnslitlu þjóðfélagi, sem er í örri uppbyggingu, er það auðvitað sjálfsagt, að þeir, sem hafa háar tekjur og eiga miklar eignir, greiði háa skatta.

En hið alvarlegasta er hitt, að þetta hlýtur að hafa þau áhrif að draga saman atvinnulífið og minnka atvinnu í landinu. Það eru hin almennu áhrif þessarar skattlagningar, sem eru að minn viti miklu geigvænlegri og varhugaverðari en áhrifin gagnvart einstaklingunum, sem skattinn eiga að greiða.

Í þessu frv. er engin grein gerð fyrir því, hvernig eigi að leysa þetta vandamál, hvernig eigi að hindra það, að skattlagningin hafi þau áhrif, sem ég nú hef verið að lýsa. Í grg. er ekki einu orði að þessu vikið.

Flestir menn, sem hugsa þetta mál rólega og æsingalaust, munu gera sér það ljóst, hversu öfuguggalegt það er í raun og veru, að á sama tíma sem ríkisvaldið er að leggja óhemjuálögur á almenning til þess að styðja t.d. sjávarútveginn, þá skuli þetta sama vald koma og leggja stórkostlega nýja skatta á þessi sömu atvinnutæki, sem er verið að styrkja með stórfelldum framlögum af almannafé.

Það liggur þannig ljóst fyrir, að þessi skattlagning verður ekki atvinnulífinu til gagns, nema miklu síður sé. Hún bitnar fyrst og fremst á sjávarútvegi og iðnaði landsmanna.

En mundi þá vera hægt að gera ráð fyrir því, að með þessari löggjöf verði leyst lánsfjárvandamálið að einhverju leyti eða dregið úr dýrtíðarmynduninni.

Lánsfjárvandamálið er auðvitað útilokað að verði leyst með þessari löggjöf, þó að hún afli 8 millj. kr. tekna á ári. Að vísu er það ekki fyllilega vitað, hve tekjurnar verða miklar. En það er gert ráð fyrir því, að það verði um 8 millj. kr. á ári næstu 10 ár. Lánsfjárvandamálið verður ekki leyst vegna þess, að þessa fjár til að greiða skattinn verður annaðhvort að afla með sölu á eignum þeirra, sem skatturinn leggst á, eða þá með tilfærslu á því sparifé, sem kynni að vera til í landinn og þessir aðilar kynnu að eiga eða geta aflað sér.

Þá er spurningin sú, hvort þessi skattlagning mundi geta dregið úr verðbólgunni. Engin rök hafa verið færð fyrir því, að þessi nýi skattur mundi draga úr henni, og það er fyrst og fremst vegna þess, að það er ekki meiningin að nota þær tekjur, sem af honum koma, til þess að borga upp skuldir eða til þess að safna þeim í sjóði. Þvert á móti er ætlunin að nota tekjurnar til þess að styðja með íbúðalánastarfsemi og til þess að efla veðdeild Búnaðarbanka Íslands, sem síðan mun lána fé til fjárfestingar í sveitum.

Vitanlega eru þetta hvort tveggja mjög gagnlegir hlutir, og fjarri sé það mér að hafa á móti því, að þessari starfsemi sé sýndur skilningur og veittur stuðningur. En það má ómögulega gera sér það í hugarlund, að með þessum ráðstöfunum sé verið að vinna gegn verðbólgu. Þvert á móti hlýtur hin aukna fjárfesting, sem rennur í kjölfar þessarar lánastarfsemi, að hafa í för með sér aukna verðbólgu. Þetta er að vísu ekkert nýtt, að samtímis því, sem við Íslendingar þykjumst vera að berjast gegn verðbólgunni, gerum við ráðstafanir, sem verka alveg þveröfugt.

ríkisstj., sem felldi gengið á sínum tíma árið 1950, gerði sig seka um kórvillu, skylda þessari. Hún gekk svo langt, að hún skyldaði bankana til þess að dæla hagnaði sínum af gengisbreytingunni út í fjárfestingu, sem auðvitað var hin hrapallegasta villa, sem hægt var að gera.

Engu að síður sagðist stjórnin vera í mjög harðri og einlægri baráttu við verðbólgu og dýrtíð í landinu og varð að vísu töluvert ágengt í þeirri baráttu, þó að þessi ráðstöfun hennar gengi gersamlega í berhögg við yfirlýsta meginstefnu stjórnarinnar. Vitanlega gekk það fé, sem þar var dælt út í fjárfestingu, til gagnlegra hluta, alveg eins og ætlunin er með þeim tekjum, sem gert er ráð fyrir að fáist af þessum nýja stóreignaskatti.

Allar líkur benda til þess, að lánsfjárvandamálið verði ekki leyst með að leggja nýja og stórfellda skatta á þjóðina. Svo nærri hefur nú verið gengið gjaldþoli einstaklinganna, að þar er í raun og veru lengur ekki feitan gölt að flá, eins og sést greinilegast af því, að hæstv. núverandi ríkisstj. leggur þó ekki í að heimta hærri stóreignaskatt af þjóðinni en 80 millj. kr. á tíu árum, þ.e.a.s. 8 millj. kr. á ári.

Menn beri nú þetta saman við þær hótanir allar og bægslagang, sem uppi hafa verið af hálfu kommúnista á undanförnum mánuðum, sem sífellt hafa talað um óhóflega auðsöfnun „milljónunga“, sem nú gengju um ljósum logum í þessu landi. Af þeim og þeirra málflutningi hefur mátt skilja, að á glámbekk lægju hundruð milljóna króna, sem ríkisvaldið hefði ekkert annað að gera en að raka til sín í einu vetfangi og leysa síðan með því öll vandamál, sem við blöstu, ekki sízt í fjárfestingarmálum.

Ég veit, að hv. þm. hafa á undanförnum árum heyrt hinar orðmörgu og innfjálgu ræður hv. 3. þm. Reykv. (EOI) um þessi ósköp, sem lægju óhirt við götuna af auðmagni á Íslandi. Nú kemur stjórn þessa hv. þm. og leggur fram frv. um stóreignaskatt, og þá er þó ekki risið hærra á þeim en svo, að það á að innheimta 8 millj. kr. á ári af þessum hundruðum „milljónunga“, sem hér ganga um strætin og hafa rakað til sín þessum óhóflega gróða á seinustu árum.

Í þessu felst í raun og veru ákaflega merkileg játning á því, að þessi flokkur hafi farið með fleipur eitt um þessi mál á undanförnum árum.

Engu að síður getur þessi skattheimta haft þau áhrif, sem ég hef lýst hér, dregið úr möguleikum athafnalífsins og skapað atvinnuleysi í landinu, í raun og veru enn meira öngþveitisástand en nú þegar ríkir hér.

Hæstv. fjmrh. talaði hér áðan um það, að eðlilegt væri, að stóreignamenn landsins legðu fram skerf til almenningsþarfa, ekki sízt þegar á það sé litið, að stórfelldir skattar hafi verið lagðir á alþýðu manna með þeim till., sem ríkisstj. flutti á s.l. vetri.

Þetta er mikið rétt og hljómar sérstaklega vel í eyrum mikils fjölda fólks. En spurningin er bara þessi : Verður almenningi það til gagns eða góðs, að nær sé gengið atvinnuvegunum, þeim mönnum, sem eiga atvinnutækin, og félagasamtökum þeirra en gert hefur verið á undanförnum árum? Ef hér hefðu ríkt sérstaklega mild skattalög, sem hefðu skapað mönnum skilyrði til þess með heiðarlegu móti að eignast stórfé, þá mætti segja, að stóreignaskattur væri réttlætanlegri en hann er í dag. En því er bara ekki að heilsa. Hér hefur gilt mjög ströng skattalöggjöf, sem skapað hefur ákaflega takmörkuð tækifæri til verulegrar auðsöfnunar einstaklinga. Ég veit, að það eru nokkrir einstaklingar og nokkur félagasamtök til í landinu, sem hafa safnað allmiklu fjármagni, en í langsamlega flestum tilfellum er þetta fjármagn bundið í atvinnutækjum, sem atvinna og afkoma almennings víðs vegar um land byggist á. Á það má einnig benda, að í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að víss félagasamtök sleppi við þessa skattheimtu, þrátt fyrir það að því hafi ekki verið mótmælt, að þau séu meðal þeirra samtaka, sem mestu fjármagni hafa safnað á undanförnum árum.

Það hefur einnig verið játað af hæstv. fjmrh., að með þessu frv. sé allhart gengið að þjóðnytjafyrirtækjum, eins og t.d. flugfélögunum, sem byggð hafa verið upp af miklum dugnaði og bjartsýni á undanförnum árum og með drengilegum stuðningi ríkisvaldsins og hæstv. fjmrh. Að því hafa verið leidd rök, að þessi fyrirtæki muni verða fyrir stórfelldu áfalli, ef það frv., sem hér liggur fyrir, verður samþ. óbreytt eins og það nú liggur fyrir. Nokkur breyting mun nú hafa verið gerð á frv. að því er snertir matsverð á flugvélum. En felld hefur verið brtt. frá sjálfstæðismönnum, þar sem lagt var til, að í staðinn fyrir, að flugvélar skuli teljast með vátryggingarverði að frádregnum 20%, skuli koma 50%. Þessi till. frá sjálfstæðismönnum í Nd. hefur verið felld.

Að því hafa ekki heldur verið leidd rök af hálfu hæstv. fjmrh., að sjávarútvegurinn þoli eða geti með sæmilegu móti tekið á sig þennan nýja skatt. Mér er sagt, að hæstv. sjútvmrh. hafi haldið því fram, að þetta snerti alls ekki sjávarútveginn. Ég veit ekki, hvaðan hæstv. sjútvmrh. hefur þessar upplýsingar. Ef þeir, sem samið hafa þetta frv., hafa myndað sér þessa skoðun á hlutunum, þá væri fróðlegt að fá upplýsingar um það, á hvaða grg. þeir hafa byggt þetta álit sitt. Allt bendir til þess, að hraðfrystiiðnaðurinn í landinu og ýmis útgerðarfyrirtæki, sem berjast í bökkum, muni verða fyrir miklu áfalli af álagningu þessa nýja skatts. Ég vildi gjarnan mega spyrja hæstv. ríkisstj. að því, hvort hún mundi verða reiðubúin til þess að hjálpa þessum útgerðarfyrirtækjum, sem atvinna og afkoma almennings er undir komin, til þess að greiða þennan skatt, jafnhliða því sem ríkið er að innheimta stórkostlega skatta af almenningi til þess að standa undir útflutningsframleiðslunni.

Ég get nú stytt mál mitt um þetta frv., ekki sízt vegna þess, að ég á sæti í þeirri hv. n., sem mun fjalla um það. Ég vil aðeins undir lok míns máls, að það komi fram, að meðal lögfræðinga hefur verið vakin athygli á því, að mjög hæpið sé, að þessi löggjöf fái staðizt gagnvart ákvæðum stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins. Hefur þá verið vitnað til 67. gr. stjórnarskrárinnar, en þar segir svo, með leyfi hæstvirts forseta:

„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína, nema almenningsþörf krefji; þarf til þess lagafyrirmæli, og komi fullt verð fyrir.“

Í 69. gr. stjórnarskrárinnar segir enn fremur: „Engin bönd má leggja á atvinnufrelsi manna, nema almenningsheill krefji, enda þarf lagaboð til.“

Ég skal ekki fullyrða neitt um það, hvort þetta frv. og ákvæði þess stangast á við ákvæði stjórnarskrárinnar um þetta efni, en hitt vil ég segja, að það jaðrar a.m.k. við það. Og það færi ekki illa á því, að dómstólar yrðu látnir skera úr um það, hvort svo sé eða ekki.

Hæstv. fjmrh. hefur talið nokkurs ósamræmis gæta í afstöðu okkar sjálfstæðismanna nú gagnvart þessu frv. og málafylgju okkar fyrir 7 árum, þegar ríkisstj., sem við áttum sæti í, beitti sér fyrir setningu stóreignaskatts. Á það hefur verið bent, að allt öðru máli gegndi, þegar sá stóreignaskattur var á settur. Hann var settur sem liður í fjölþættum ráðstöfunum þáverandi ríkisstj. til þess að koma á jafnvægi í efnahagslífi þjóðarinnar með mjög róttækum ráðstöfunum. Gengisbreyting var samþ. og jafnhliða henni gerðar ýmsar aðrar ráðstafanir. Hér er ekki um að ræða neinar slíkar róttækar ráðstafanir. Eins og ég hef vikið að hér á undan, hefur núverandi hæstv. ríkisstj. aðeins haldið áfram lengra út í styrkjastefnufenið. Hún hefur hvergi brotið í blað. Hún hefur engin ný úrræði lagt fram. Hún hefur ekki einu sinni viljað láta þjóðina sjá niðurstöður þeirra rannsókna, sem fram fóru á efnahagsástandinu hér á landi á s.l. sumri, nokkru eftir að hún tók við völdum. Sú ríkisstj., sem felldi gengið og flutti frv. um stóreignaskattinn, hafði allt annan hátt á. Hún lagði öll plöggin á borðið, álit þeirra sérfræðinga, sem hún kvaddi sér til aðstoðar, um þær leiðir, sem um væri að ræða til lausnar efnahagsvandamálunum. Og hún gerði till. um nýjar leiðir og breytta stefnu gagnvart efnahagsvandamálunum. Í stað styrkjastefnunnar var að því ráði horfið, að framleiðslutækin skyldu bera sig styrkja- og uppbótalaust. Þessa stefnu tókst að framkvæma með allgóðum árangri um nokkurra ára skeið. Og einmitt vegna þess, hversu vel það tókst, gerðu kommúnistar sitt fræga herhlaup 1955 með þeim árangri, sem okkur öllum er kunnugt.

Einn af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. hefur einnig viðurkennt gersamlega rök okkar sjálfstæðismanna í þessum efnum. Hv. þm. Siglf. benti á það í sinni ræðu í Nd. fyrir nokkrum dögum, alveg eins og við sjálfstæðismenn höfum gert, að 1950 hefði staðið allt öðruvísi á, þá hefðu allt önnur rök og gildari hnigið til þess, að stóreignaskattur væri á lagður, heldur en nú. Til viðbótar þeim rökum, sem hann flytur og ég hef drepið á hér, vil ég aðeins benda á það, að það tíðkast ekki í nokkru þjóðfélagi, að stóreignaskattur, sem verkar aftur fyrir sig, skattleggur í raun og veru tekjur og eignir langt aftur í tímann, sé lagður á á nokkurra ára fresti. Það er eins og hvert annað siðleysi í skattamálum að haga sér þannig og skapar fullkomið öryggisleysi og efnahagslega upplausn í þjóðfélögunum. — Það er þess vegna ekki ég einn og við sjálfstæðismenn, sem höldum þessu fram, heldur nánustu stuðningsmenn og samverkamenn hæstv. ríkisstj.

Ég vil að lokum draga saman í örfá atriði niðurstöður míns máls um efnahagsmálastefnu hæstv. ríkisstj., sem þetta frv. á samkvæmt yfirlýsingu hæstv. fjmrh. að vera einn liður í.

Hæstv. ríkisstj. hefur engin ný úrræði eða leiðir bent á í efnahagsmálunum síðan hún tók við völdum.

Í öðru lagi hefur engin „úttekt“, sem almenningur hefur átt kost á að kynna sér, farið fram á efnahagsástandinu.

Í þriðja lagi voru 300 millj. kr. nýir skattar lagðir á almenning á s.l. vetri.

Í fjórða lagi á sér stað áframhaldandi kapphlaup milli kaupgjalds og verðlags. Verkföll og vinnudeilur vaða uppi.

Í fimmta lagi er gengislækkun yfirvofandi samkvæmt yfirlýsingum sjálfra stjórnarfl.

Í sjötta lagi hefur enn verið bætt nýjum skatti á þjóðina, skatti, sem fyrst og fremst bitnar á atvinnuvegunum og hlýtur að hafa í för með sér erfiðari aðstöðu framleiðslunnar á næstunni og felur í sér mikla hættu á þverrandi atvinnu og versnandi afkomu almennings í landinu.