22.05.1957
Sameinað þing: 59. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1578 í B-deild Alþingistíðinda. (1480)

149. mál, fjáraukalög 1954

Frsm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Frv. þetta til fjáraukalaga fyrir 1954 er með svipuðu sniði og fjáraukalagafrumvörp undanfarinna ára. Við uppsetningu þess hefur verið tekið tillit til bendinga, sem fjvn. gaf í sambandi við afgreiðslu fjárl. 1951.

Annars skipta ekki frumvörp til fjáraukalaga mjög miklu máli lengur. Þau eru lögð fram árlega til þess að fullnægja fyrirmælum stjskr., en eru hins vegar í raun og veru að mestu leyti dauður bókstafur, eins og ég hef víst áður sagt, þegar ég hef haft á hendi framsögu fyrir fjvn. um frv. til fjáraukalaga. Fyrirmælin um, að þau skuli samin og lögð fyrir Alþ., eru frá þeim tímum, þegar þau gátu komið fram jafnsnemma eða þá rétt eftir að umframgreiðslur fóru fram úr ríkissjóði, og þá var ríkissjóðurinn líka ekki öllu umfangsmeiri en ýmsir sveitarsjóðir eru nú. Þá var með þessu frv. leitað heimildar þingsins fyrir aukagreiðslum. En nú er svo orðið fyrir breytta tíma, að þau verða ekki fram lögð fyrr en svo löngu eftir að greiðslurnar hafa farið fram, að efni þeirra er fyrnt í hugum manna og ekki öllu nálægara en snjórinn, sem féll í hittiðfyrra eða árið þar á undan. Aftur á móti hafa umframgreiðslurnar komið fram í ríkisreikningnum, gengið í gegnum endurskoðunardeild stjórnarráðsins og athugun yfirskoðunarmanna og fengið þannig staðfestingu og samþykki Alþ. í reikningnum með 3 umræðum í hvorri deild þingsins. Þetta virðist allrækileg og fullkomin afgreiðsla, sem ætti að nægja. Hún gefur bæði tækifæri til athugasemda við framkvæmd fjárl. og til að staðfesta framkvæmdina.

Vafalaust verður breyting gerð á ákvæðum um fjáraukalög, þegar stjskr. verður breytt næst, ef í það stórræði verður einhvern tíma ráðizt. Máske verður þá ríkisreikningurinn gerður að fskj. með fjáraukalögum. Það fyrirkomulag mætti a.m.k. vel láta sér detta í hug. Þá yrði hann ekki lagður fyrir deildir þingsins eins og nú, heldur afgreiddur í Sþ. eins og fjárl., en ákvörðun um þetta bíður vitanlega síns tíma.

Nú standa sakirnar þannig, að ríkisreikningurinn 1954 hefur verið samþ. og þar með allt, sem frv. það til fjáraukalaga 1954, er hér liggur fyrir, á að innihalda.

Fjvn. hefur athugað frv. og borið það gaumgæfilega saman við reikninginn. Við þann samanburð kom fram skekkja, sem nam kr. 2684606.27. Skekkja þessi er í sambandi við 10. gr. reikningsins. Sú grein er í þrem köflum: 1. kafli: stjórnarráðið; 2. kafli: hagstofan; 3. kafli: utanríkismál. Þeim, sem hefur samið frv., hefur láðst að taka upp í það annað en umframgreiðslur 3. kaflans. Hjá hagstofunni eru að vísu engar umframgreiðslur. Fjárlagaveitingin til hennar stenzt vel og skilar meira að segja ofur litlum afgangi. En niðurstaðan af allri gr. er samt of lágt reiknuð um fyrrnefnda upphæð.

Af þessari skekkju leiðir, að gera þarf breytingar á fjórum liðum frv., eins og lagt er til í nál. á þskj. 576.

Mér finnst það aðfinnsluverð óvandvirkni hjá þeim, sem samið hefur frv., að hafa látið svona lagaða villu eiga sér stað. Má vera, að minni alúð hafi verið við höfð, af því að frumvarpsgerðin þyki ekki hafa mikla þýðingu nú orðið, en það getur þó ekki réttlætt óvandvirknina um að hafa frv. í fullu samræmi við reikninginn.

Hitt má svo ef til vill lengi deila um, hvað eigi að taka inn í frv. af eignahreyfingartölum 20. gr. Við þann lið gerir n. þó enga aths. að þessu sinni, en það skal samt tekið fram „til eftirbreytni framvegis“, eins og yfirskoðunarmenn ríkisreikninganna segja oft, að taka ber upp í fjáraukalagafrumvörp allt af 20. gr., sem til umframútborgana getur talizt, og hafa í því efni sem fyllst samræmi milli ára, svo að fjáraukalögin séu sambærileg frá ári til árs.

Fjvn. mælir með samþykkt frv. með þeim leiðréttingum, sem gera þarf á því samkv. till. hennar á þskj. 576. Með samþykkt þess er verið að fullnægja stjórnarskrárákvæði, svo sem skyldugt er, en efni frv., umframgreiðslurnar 1954, er Alþ. búið að samþ. um leið og ríkisreikninginn 1954. Þessi afgreiðsla málanna er þess vegna formsatriði í raun og veru.