24.10.1956
Efri deild: 4. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í B-deild Alþingistíðinda. (1485)

13. mál, innflutnings- og gjaldeyrismálfjárfestingarmála o. fl.

Sjútvmrh. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 13, er flutt til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin af núverandi ríkisstj. Efni frv. er aðeins um það að fjölga forstöðumönnum innflutningsskrifstofunnar úr tveimur, eins og verið hafði í lögum, í fjóra. Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta litla efni neitt frekar á þessu stigi málsins. Aðalástæðan til þess, að rétt þótti að gera þessa breytingu, var sú, að sá háttur hafði verið hafður á áður, að aðeins fulltrúar þáverandi ríkisstj., einn maður frá hvorum flokki, hafði verið í innflutnings- og gjaldeyrisskrifstofunni, en nú þótti fullkomlega eðlilegt, að þeir flokkar, sem nú höfðu bætzt við í ríkisstj., fengju fulltrúa einnig í þessari stofnun, eins og jafnan hafði verið áður. Annars liggur fyrir endurskoðun á löggjöfinni um innflutnings- og gjaldeyrismál, og verður þá sjálfsagt um fleiri breytingar að ræða á þessari löggjöf, þegar þeirri endurskoðun er lokið.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða þetta mál frekar á þessu stigi, en legg til, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. fjhn.