10.05.1957
Efri deild: 97. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1580 í B-deild Alþingistíðinda. (1487)

13. mál, innflutnings- og gjaldeyrismálfjárfestingarmála o. fl.

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta til l. um breyt. á l. nr. 88, um skipan innflutnings- og gjaldeyrismála, fjárfestingarmála o. fl., er stjórnarfrv. og er flutt til staðfestingar á samhljóða brb.- lögum frá því í septembermánuði s.l.

Frv. felur í sér þá einu breytingu frá áður gildandi lögum, að forstöðumönnum innflutningsskrifstofunnar verði fjölgað um tvo, úr tveimur í fjóra. Ástæðurnar fyrir þessari breytingu eru svo alkunnar og augljósar, að naumast er ástæða til að fara um þær mörgum orðum.

Fáir menn fara með öllu meira vald í þjóðfélaginu en þeir, sem stýra þessari stofnun. Þeir hafa með höndum ráðstafanir á mestum hluta gjaldeyris þjóðarinnar, veitingu allra leyfa til fjárfestingar og yfirstjórn verðlagsmála. Það er því mikils um vert, að allir borgarar landsins séu og finni sig jafnréttháa gagnvart slíkri stofnun, en á því hefur þótt nokkur misbrestur, að ekki sé fastar að orði kveðið, með þeirri skipan, sem verið hefur að undanförnu.

Á hinn bóginn er augljóst, að störf innflutningsskrifstofunnar eru raunverulega framkvæmd í umboði ríkisstj. á hverjum tíma og á hennar ábyrgð. Gat því ekki farið hjá því, að ný ríkisstj. hlyti að gera þær breytingar á forstöðu stofnunarinnar, sem tryggðu þar aðild allra þeirra stjórnmálaflokka, sem að henni standa, jafnframt því sem stjórnarandstöðuflokkurinn héldi þar sínum fulltrúa, og virðist, að allir mættu una þeirri skipan.

Fjhn. hefur athugað þetta frv. og leggur til, að það verði samþ. óbreytt. En rétt er að geta þess, að tveir nm., hv. 6. þm. Reykv. (GTh) og hv. þm.

Vestm. (JJós), voru fjarstaddir við afgreiðslu málsins úr n. og eiga því ekki hlut að nál.