17.05.1957
Neðri deild: 99. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2341 í B-deild Alþingistíðinda. (149)

Athugasemdir um fundarhöld

Bjarni Benediktsson:

Ég bið afsökunar á því, herra forseti, að ég kom aðeins of seint, ég tafðist hér fyrir utan. En mér er sagt, að tilkynnt hafi verið, að það ætti að vera fundur hér á morgun á venjulegum tíma. Nú vil ég sízt draga úr fundarhöldum hér í deildinni eða starfsemi. En þannig er mál með vexti, að ég og ýmsir fleiri a.m.k. af mínum flokksbræðrum höfðum ekki hugmynd um það, að hér ætti að verða fundur á morgun, fyrr en við heyrum það nú, og ég og annar þm. til höfum ákveðið að fara til Akureyrar um helgina, búnir að auglýsa það. Fleiri þm. ætluðu að fara til sinna heimkynna. Við getum auðvitað ekkert haft á móti því, að fundir séu haldnir á laugardögum, ef menn vita það með nægum fyrirvara, en ég vil mjög alvarlega mælast undan því, að það sé gert alveg fyrirvaralaust og eftir að menn í góðri trú eru búnir að efna til mannfunda, sem eru því annaðhvort lítt eða ekki samrýmanlegir, að hér séu haldnir fundir, því að ef tala á um einhver af þeim stærri málum, sem hér liggja fyrir, þá veit ég, að ég og ýmsir aðrir af þeim, sem höfum ráðið brottför okkar, ætluðum að taka til máls.

Nú hygg ég, að viðurkenna verði, að við í stjórnarandstöðunni höfum ekki með óþörfum málalengingum tafið þetta þing. Þó að við höfum stundum talað, hefur það ekki verið þannig, að afgreiðsla mála hafi af þeim sökum tafizt. Og eins og þetta þing er orðið langt, þá sé ég ekki, að það geti á miklu oltið, hvort fundur verður einn laugardag eða ekki. Því eru það tilmæli mín, að þessi fundur verði látinn falla niður, af því að menn höfðu í góðri trú ráðstafað deginum á annan veg.