17.05.1957
Neðri deild: 99. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2342 í B-deild Alþingistíðinda. (150)

Athugasemdir um fundarhöld

Forsett (EOl):

Út af ummælum hv. 1. þm. Reykv. (BBen) vil ég taka það fram, að eins og honum er kunnugt, er það mjög títt, þegar á líður þing, að þingfundir séu haldnir á laugardögum. Þingmönnum hefur ekki á þessu þingi verið íþyngt svo með fundarhöldum, að þegar komið er eins langt fram á sumar og nú er og þing eins langt og þetta þing er orðið, þá verður ekki talið, að það sé neitt verið að íþyngja þingmönnum með því að halda fundi á laugardögum. Og mörgum laugardagsfundum man ég eftir á þingi, þegar ekki hefur verið tilkynnt áður um, að þeir yrðu haldnir, heldur beinlínis bara boðaðir sem hverjir aðrir fundir. Ég verð þess vegna að halda fast við þessa tilkynningu, þó að ég annars hafi mjög miklar tilhneigingar til þess að taka tillit til þeirra óska, sem fram koma frá hv. stjórnarandstöðu.