17.05.1957
Neðri deild: 99. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2342 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

Athugasemdir um fundarhöld

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Beiðni stjórnarandstöðunnar varðandi fyrirkomulag þingstarfa hefur nú ekki verið ákaflega margbrotin á þessu þingi eða oft þurft á það að reyna, hvort eftir henni væri farið eða ekki. Hins vegar minnist ég þess, að þegar afgreiða þurfti í skyndi að áliti stjórnarflokkanna mál fyrir jólin, beinlínis lögðum við okkur fram. þrátt fyrir andstöðu við málið, til þess að greiða fyrir, að svo mætti verða.

Það má auðvitað öllum vera ljóst, að jafnvel þó að þannig standi á nú, að allmargir þm. Sjálfstfl. séu burtu um þessa helgi, þá eigum við þess fullan kost, ef við viljum, að tefja þingstörf, nema forseti beiti þá því valdi, sem hann hefur og meiri hl. til þess að skera niður umr. Ég veit ekki, hvort það bætir nokkuð starfshætti eða greiðir fyrir, að menn leggi á þá braut, enda segi ég ekki, að það verði gert, að við svörum því ofbeldi, sem hér á að fremja, með því. En þegar það er fyrst tilkynnt, að hér skuli halda fund á laugardegi, sem ekki hefur verið gert á þessu þingi yfirleitt, eftir að búið er að auglýsa, að ég eigi að fara norður til Akureyrar — og er þó sem stendur aðaltalsmaður míns flokks í þessari d. — og hv. 2. þm. Eyf. (MJ) með mér, eftir að vitað er, að aðrir þm. þurfa nauðsynjar vegna að fara úr bænum og höfðu bundið sig þar, þá tel ég það fullkomna misbeitingu á forsetavaldi, ef ekki er orðið við þeirri ósk okkar, að fundur falli niður, þannig að við eigum þess kost að taka þátt í umr. um þau mál, sem hér verða væntanlega til umr.

Ég hef út af fyrir sig ekki á móti því, að einhver af þeim málum, sem stjórnmáladeilur standa ekki um, verði hér til umr. og á þann veg greitt fyrir þingstörfum. En ég tel það mjög miður farið, ef eftir það, sem á undan er farið með þingstörf, að búið er að halda mönnum hér verklitlum eða verklausum mánuðum saman á kostnað alþjóðar og þinginu og stj. til skammar, á að knýja svo fast á, að fyrirvaralaust verði teknar upp umr. um mikil deilumál á þeim tíma, þegar talsmenn stjórnarandstöðunnar eru þegar opinberlega búnir að binda sig annars staðar. Og ég vil enn beina því til forseta með allri virðingu og vinsemd, en í fullri alvöru, að hann taki þetta á ný til athugunar.