17.05.1957
Neðri deild: 99. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2343 í B-deild Alþingistíðinda. (152)

Athugasemdir um fundarhöld

Forseti (EOl):

Út af ummælum hv. 1. þm. Reykv. vil ég taka það fram, að sú stjórnarandstaða, sem hingað til hefur verið á Alþ., hefur orðið að sætta sig við það, að umræður væru teknar upp, án þess að nokkur fyrirvari væri gefinn, 2. umr. látin fara fram 1 eða 2 mínútum eftir að fyrri umr. hefur verið lokið og ekki verið tekið tillit til, þó að mælzt hafi verið til, að frestað væri.

Ég held, að það sé óþarft að kvarta yfir, að ofbeldi hafi verið beitt í sambandi við fundarsköp hér, og nú er hafður sá óvenjulegi háttur á að tilkynna degi áður, þegar þingfundur er að hefjast, að þingfundur muni verða á laugardegi, sem oft hefur tíðkazt áður. Þar er aðeins fyrirhuguð m.a. 1. umr. um stórmál, og ég veit, að svo stór flokkur sem Sjálfstfl. hefur næga málsvara, þótt þm. hans sumir þurfi að gegna störfum annars staðar.

Ég get því ekki orðið við þeim tilmælum að fella niður fund á morgun. En hitt mun ekki þurfa að óttast, að menn fái ekki að nota sinn fulla rétt til þess að tala.