18.05.1957
Neðri deild: 100. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1609 í B-deild Alþingistíðinda. (1522)

177. mál, Landsbanki Íslands

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hjálpa til þess að koma þessum umræðum inn á níð um menn og flokka, en ég gæti trúað því, að einhverjir, sem hafa hlustað á þessa ræðu hv. þm. Reykv. (BBen), hafi talið, að fram kæmu frekar lítil rök í því máli, sem verið er að ræða um. Hann orðaði það svo smekklega að segja, að þetta væri eitt af lubbaháttum Framsfl., lubbamennsku eða eitthvað þess háttar, sem er nú nokkurn veginn það sama. Ég held, að hv. 1. þm. Reykv. ætti að forðast að draga það inn í umr., hverjir stjórnmálamenn beiti hér lubbamennsku og bolabrögðum. Það er bezt fyrir hann. Hann reyndi að nefna dæmi um þetta framferði Framsfl., og ég vil þá skora á hann, ef hann vill fara lengra í þessum umr., að benda á einhver dæmi. Ég ætla að svara þeim dæmum, sem hann minntist á, þar sem hann beindi máli sínu sérstaklega að mér, að ég hafi beitt lubbamennsku eða bolabrögðum gagnvart þeim, sem ég hef sem ráðh. haft yfir að segja og hefði haft vald til að beita. Það er bezt, að hann komi með dæmi, og ég svara því fyrir fram, að ég hygg, að honum verði ekkert auðvelt að nefna þau.

Jú, hann nefndi það, að ég hefði bolað í burtu tveimur dómurum úr hæstarétti. Þeir báðir urðu af eðlilegum ástæðum að fara, vegna þess að aldurstakmarkið 85 ár var til staðar, og lubbamennskan, eða hvað hann vill kalla það, var af því tagi, að í embættið voru nefndir menn, þegar þessum aðferðum átti að hafa verið beitt, sem hafa tryggt það alveg ótvírætt, eins og hann varð að viðurkenna seinna í sínum ummælum um þetta atriði, að við hér á Íslandi búum við það, — án þess að leggja nokkurn dóm á þá, sem verið hafa í hæstarétti, ég leiði alveg minn hest frá því, — að við búum hér í dag við réttarfar, sem við getum þakkað fyrir að eiga, öryggi dómsvalds, sem við getum þakkað fyrir að eiga. Ég býst við, að það séu fáir eða engir í þessu landi, þó að menn greini stundum á um dóma hæstaréttar, sem ekki viðurkenna, að það sé eitt af því bezta, sem við eigum í okkar þjóðfélagi.

Svo talaði hann ýmist um það, að Framsfl. væri að reyna að tryggja sér sem allra flest sæti, það væru bitlingar og bein og þar fram eftir götunum, en svo þurfti hann að koma því að líka, sem var í algerri mótsögn við þetta, að þetta væri vitanlega greiðsla til stuðningsmannanna fyrir það, að þeir hefðu stutt ríkisstj. að verkum undanfarin ár, eins og menn heyrðu. Og hann sagði einn hlut í þessu sambandi, sem ég leyfi mér að minna á, — ég ætla ekki að rekja margt af því, — hann sagði, að það væri vitanlega ekkert við því að segja, þó að þessir menn fengju starf og stöður, aðeins eitt væri það, aðeins eitt, sem ekki mætti koma fyrir, og það væri, að forseti þessarar virðulegu samkundu yrði bankastjóri við þjóðbankann. Það var það voðalegasta, sem gat komið fyrir. Nú vil ég beina þeirri fyrirspurn, af því að þeir hafa verið svo ákaflega ríflegir með fyrirspurnirnar, hvort það hafi komið fyrir, þegar var reynt að koma stjórninni saman aftur, nýsköpunarstjórninni sælu, að hæstv. forseta þessarar deildar hafi verið boðið bankastjórastarf í þjóðbankanum til þess að reyna að koma stjórninni saman. Þessir menn þekkja, að það þarf að greiða fyrir það að koma stjórnum saman, þeir geta sannarlega úr flokki talað. Ég hygg, að engin stjórn hafi kostað meira í því efni heldur en sú stjórn, sem ég minntist á áðan, án þess að rekja það nánar.

En það er bezt, að ég svari þá öðrum atriðum í þessu sambandi. Hv. 1. þm. Reykv. spurði um það, hvaða ágreiningur hafi komið fram milli bankastjóranna í Landsbankanum og Útvegsbankanum, sem geri það réttlætanlegt að breyta um. Hann skoraði á mig að svara þessu. Hann minntist á eitt mál, sem þá má gjarnan minnast á, og út fyrir það kemur vitanlega ekki til mála að fara að ræða þetta mál. Það kemur vitanlega ekki til mála að fara að flytja hér inn í hv. þingdeild deilur, sem þarna kunna að hafa verið á ferðinni. En hann minntist á eitt mál, og þess vegna skal drepið á það. Og það vill einmitt svo vel til, að núna á þessari stundu, þegar hann er að tala, er hv. þm. N-Ísf. að deila á félmrh. fyrir það, að hann útvegi ekki fé úr bönkunum í húsnæðismálin, og ég hygg, að hann sé enn að tala. Hann er að skamma stjórnina fyrir að útvega ekki peninga úr bönkunum. Það er ekkert launungarmál, að það hefur verið kallað á ríkisstj. og óskað eftir því, að hún útvegaði þessa peninga. Hún hefur sagt nei. Það er kallað á bankana, og þeir hafa sagt nei. Og það er alveg rétt, að það hafa verið fleiri bankastjórar þessu fylgjandi heldur en þeir. En menn verða að skilja það, hvert eðli bankanna er. Það er vitað mál, að bankaráðin ráða litlu eða engu í daglegum rekstri bankanna og hvernig þeim peningum, sem til eru í bönkunum, er varið á hverjum tíma. Með því að verja peningunum af hendi meiri hl. bankastjóranna, og auðvitað ráða tveir af þremur, er hægt að ráðstafa fjármagninu þannig á löngum eða stuttum tíma, að það sé hægt fyrir þann, sem sterkastur er í þessu efni, Landsbankann, að svara og kannske með vissum rökum þannig, að peningarnir séu ekki til.

Þetta er höfuðatriðið í framkvæmdinni í bankamálunum. Það er vitanlega ekki nema að verulega litlu leyti í höndum bankaráðanna, það er í höndum hinna daglegu framkvæmdastjórna.

Það er m.a. vitað, og þarf ekki að benda á það frekar hér, að með því að draga inn á einu sviði lánastarfseminnar, — það skilur hver maður, — þá eru hugsanlegir möguleikar til að færa út á öðru sviði. En með því að koma lánunum þannig fyrir, að þau séu föst í einu, þá er ef til vill hægt að svara með rökum, að það sé ekki hægt að veita þau í annað, án þess að nefna þær greinar.

Ég ætla svo að minnast — ég tók fyrst það, sem síðast kom fram — á önnur atriði, sem fram hafa komið. Það er þá fyrst og fremst hv. þm. Rang. Hann sagði, að það væri raunverulega hrein blekking, að Sjálfstfl. réði óskorað bæði í Útvegsbankanum og Landsbankanum. Þetta er vitanlega algerlega rangt; það er vitað mál, að Sjálfstfl. hefur meiri hl. í bankaráðum beggja þessara banka, og enn fremur hefur hann meiri hl. bankastjóranna, sem geta ráðið öllu, sem þeir vilja ráða. Hér er því um hreina blekkingu að ræða og sézt bezt af því, að eftir þessum kenningum hv. þm. Rang. ætti það ekki að skipta máli, hvort Sjálfstfl. hefur einn eða tvo bankastjóra í bönkunum, því að ef það er ekki öðru náð með þessu frv. en því, að stjórnarflokkarnir hafi tvo af hverjum þremur í bönkunum, þá ráða þeir eftir þessu ekki óskorað.

Hann minntist á það, og það minntist hv. 1. þm. Reykv. á einnig, að þetta væri vafasamt fordæmi; og allir hafa þessir þm. eða flestir látið liggja að því, að þessi breyting muni fela það í sér, að sér grefur gröf, þótt grafi.

Sannleikurinn er sá, að þessar hótanir hafa ekkert að segja fyrir mig, — þessar hótanir um það, að sér grafi gröf, þótt grafi, hér sé fordæmi, sem hægt sé að fara eftir, o.s.frv. Við efumst ekkert um það af þeim vinnuaðferðum. sem Sjálfstfl. hefur beitt, hvaða vinnuaðferðum hann beitir, þar sem hann hefur meiri hl. Þeir þurfa ekkert að segja okkur frá því. Þar er eitt m.a., að Sjálfstfl. hefur raunverulega sjálfur grafið sér þessa gröf, ef um eitthvað slíkt er að ræða, því að honum hefur tekizt að koma ár sinni þannig fyrir borð, án þess að ég ætli að minnast hér á vinnuaðferðirnar, að hann er búinn að ná meirihlutavaldi í báðum bankaráðunum í aðalviðskiptabönkunum og jafnframt meiri hluta bankastjóranna; og hv. þm. Sjálfstfl. vita ósköp vel, hvernig þetta hefur verið gert, hvernig það hefur tekizt. Það er ekki meiri festa í fyrirkomulagi á stjórn bankanna eða þeirri löggjöf, sem um þær gildir, heldur en það, að sá flokkur, sem hefur bankamálaráðherrann á hverjum tíma, getur, eins og ég sagði áðan, sent ofan í banka með vissu árabili og látið kjósa þar meiri hl. eftir eigin geðþótta, hvað sem aðrir menn í ríkisstj. hafa sagt og segja. Og þessu valdi hefur Sjálfstfl. beitt alveg hiklaust.

Hv. 9. landsk. (ÓB) og aðrir hv. þm., sem hér hafa talað, hafa látið orð falla um það, að þessi breyting, sem hér væri gerð, væri eingöngu spursmál um vald, um meirihlutayfirráð yfir bönkunum. Þetta er vitanlega algerlega rangt, eins og ég benti á í upphafi. Útvegsbankanum er gerbreytt. Honum er breytt úr hlutafélagi í ríkishanka, og ég vil nú satt að segja spyrja þessa hv. þm. að því: Hvað er eðlilegra en að þetta sé gert? Eins og ég rakti, þá eru fjórir af hundraði eign einstaklinga í þessu hlutafélagi. Og hvergi hefur nokkurn tíma og verður nokkurn tíma sett bankalöggjöf á Íslandi eins og sú, sem er sett um þetta hlutafélag, þar sem ríkisstj. á tilviljunarkenndan hátt, hvaða flokkar sem eru með henni hverju sinni, ræður algerlega yfir skipan bankans. Vitanlega er ekkert eðlilegra en að þetta hlutafélag væri gert að ríkisbanka, þar sem einstaklingar leggja ekki til nema svo sáralítið brot af hlutafé bankans, og þá um leið vitanlega eðlilegt, að um leið og þessi banki er gerður að ríkisbanka, þá kjósi sameinað Alþingi stjórn bankans á þann hátt, sem gert er ráð fyrir í því lagafrumvarpi. Það er enn fremur alger blekking, að ekki sé gerbreyting gerð á Landsbankanum. Ég rakti það áður og sé ekki ástæðu til að endurtaka það. Seðlabankinn er gerður miklu sjálfstæðari gagnvart viðskiptabanka Landsbankans og þá um leið jafnari aðstaða hans gagnvart öðrum viðskiptabönkum heldur en verið hefur.

Hér var um það spurt af hv. 5. þm. Reykv., hvort það teldust eðlileg rök, þar sem ég minntist á, að óeðlilegt væri, að einn flokkur réði óskorað yfir tveimur stærstu viðskiptabönkum landsins. Þá vildi hann færa Búnaðarbankann undir þetta einnig og spurði að því, hvort það sé þá eðlilegt, að Framsfl. hafi þar meiri hluta.

Þessu er því að svara, að Búnaðarbankinn er meira en nokkur annar, nema ef það væri Iðnaðarbankinn, aðallega þrjár deildir: veðdeild, byggingarsjóður og ræktunarsjóður, sem lánar út eftir ákveðinni lagasetningu. Að vísu hefur bankinn sparifé og er að því leyti viðskiptabanki, og að því leyti telur hv. 5. þm. Reykv. þetta óeðlilegt og að þessi banki ætti þess vegna að koma undir sömu reglu og hinir viðskiptabankarnir. Jú, það er sá munur náttúrlega á Iðnaðarbankanum og Búnaðarbankanum, þó að það hafi nú mikið verið talað um það löngum, að það ætti að koma þar til ríkisábyrgð á sparifé, sem ekki er til staðar, og færi þá að verða lítill eða enginn munur á þessum bönkum. En Iðnaðarbankinn er, eins og við vitum, algerlega undir stjórn Sjálfstfl., bæði að því er snertir bankaráð og bankastjóra, og er verulegur viðskiptabanki, í miklu meiri hliðstæðu, þótt ekki sé ríkisbanki, heldur en Búnaðarbankinn við hina stóru og gömlu viðskiptabankana.

Það kom fram hjá hv. 9. landsk., að hann teldi alveg eðlilegt, að bankastjórar seðlabankans væru embættismenn, — ég hygg, að ég fari ekki rangt með það, sem hann sagði, en ég hygg, að það hafi verið að efni til þetta — væru embættismenn, sem eiga eins og aðrir embættismenn að fara eftir vilja ríkisstj., sem á að marka og bera ábyrgð á stefnunni í fjármálum þjóðarinnar. Já, hv. þm. játar það, gefur það til kynna, að þetta sé rétt haft eftir, að þeir eigi að vera embættismenn, sem eiga eins og aðrir embættismenn að fara eftir vilja ríkisstj., sem á að marka og bera ábyrgð á stefnunni í peningamálum.

Hér er sagt það, sem er umhugsunarvert, mjög umhugsunarvert. En dettur nú hv. þingdeild í hug og þessum hv. þm., að þegar stjórnarandstaða, sem kallar sig sjálfa mjög harða, hefur meirihlutavald í bankaráði tveggja viðskiptabanka, þ. á m. í sjálfum þjóðbankanum og seðlabankanum, og meirihlutavald í framkvæmdastjórn, eða álítur hann, að þessir hv. stjórnendur bankanna séu líklegir til þess að vilja fara að ósk ríkisstj. í peningamálum þjóðarinnar? (Gripið fram í: Því ekki það?) Ja, því ekki það? Ja, við skulum láta það alveg liggja milli hluta og láta menn svara því hvern fyrir sig. Og hann segir meira að segja: Ef þetta er ekki gert, þá á að láta þessa menn fara, eða þeir eiga að fara.

Það er að vísu alveg rétt. Það er heimild fyrir því í okkar bankalöggjöf að segja bankastjórum upp og það með stuttum fyrirvara, með sex mánaða fyrirvara. Sú leið hefur nú yfirleitt ekki verið valin í okkar þjóðfélagi, a.m.k. ekki að ráði, að fara þær leiðir. Og þá held ég satt að segja, að hver einasti sanngjarn maður muni viðurkenna, að ef ríkisstj. ætlar sér að ráða stefnunni í peningamálum og bera ábyrgð á henni, eins og þessi hv. þm. viðurkennir að verði að vera, og bankarnir eigi að haga sér í samræmi við það, eins og hann einnig viðurkennir, og viðurkennir náttúrlega fyrst og fremst sem hagfræðingur, sem þekkir þessi mál, þá er ekki um annað að ræða fyrir ríkisstj. en að breyta til. En með þessu er jafnframt komin viðurkenning á það af þeim mönnum, sem einnig viðurkenna, að sá meiri hluti í bönkunum, í framkvæmdastjórn og bankaráði, sem nú er, muni ekki vera fús til að fara eftir vilja ríkisstj., fengin viðurkenning fyrir því, sem mest er fjasað út af, af því, sem ég sagði í niðurlagi ræðu minnar, að það er eðlilegt og þarf ekki að færa rök að því, þessi hv. þm. hefur fært skýlaus rök að því, að ríkisstj. verður gegnum trúnaðarmenn sína í bönkunum, þá menn, sem hún treystir, að geta ráðið í höfuðatriðum peningastefnunni í landinu.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að svara fleira að sinni.