18.05.1957
Neðri deild: 100. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1615 í B-deild Alþingistíðinda. (1524)

177. mál, Landsbanki Íslands

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs aftur vegna þess, að ég beindi tiltekinni spurningu til hæstv. forsrh., sem mér fannst í sjálfu sér vera einföld og ætti að vera eðlilegt að svara, en hæstv. ráðh. hefur í einni ræðu, sem hann síðan hefur talað, algerlega skotið sér undan að svara. Hæstv. forsrh. vék að aðstöðu sjálfstæðismanna í bönkunum og að þeir hefðu þar meiri hluta í bankastjórnum og bankaráðum og sagði þá, eins og ég sagði áðan, að það lægi í augum uppi, að slíku gæti ríkisstj. ekki unað. Og um þetta sagði hann svo, að fyrir þessu lægju svo augljós rök, að ekki þyrfti að rekja. Ég bað hæstv. forsrh. að gera mér og öðrum hér í hv. þd. grein fyrir þessum augljósu rökum, sem mér hefur ekki fundizt vera jafnaugljós og honum, en ætti þó að mega ætla, að hæstv. forsrh., sem telur þau svo augljós, ætti að vera auðvelt að leiða fram í dagsljósið. Ég reyndi að orða þessa fyrirspurn svo skýra, að hún yrði ekki hjá sér leidd og við henni kæmu einhver svör. Hún var beint út af ræðu ráðherrans sjálfs, en er hins vegar mjög tengd ýmsu öðru skrafi um meirihlutavald sjálfstæðismanna í hönkunum og skrifum, þ. á m. því, sem kemur fram í einu stjórnarblaðinu í morgun, Alþýðublaðinu, á forsíðu, um leið og sagt er frá þeim frv., sem hér hafa verið lögð fram, að það er innrömmuð grein um það, hvað gerist í bönkunum. Þar er talið upp í fjórum liðum, hvað gerast muni. Það er nú aðallega um það, að metin muni verða jöfnuð í mannaráðningum í bönkunum, en að efnislegri breytingu á skipun bankamálanna er, held ég, alls ekki vikið í því, þegar stjórnarblaðið fer að skýra frá, hvað leiða muni af samþykkt þessara frumvarpa. Það er m.ö.o.: að dómi þessa blaðs sýnist það vera aðalkjarni þessara frv., hvernig hægt sé að jafna metin manna á milli í bönkunum. Væntanlega er þetta byggt á einhverjum misskilningi hjá blaðinu, sem ég skal nokkuð víkja að síðar. En það segir í þessum fyrsta lið, hvað gerast muni, með leyfi hæstv. forseta:

„Sjálfstæðismenn hafa nú meiri hluta bankastjóra og í bankaráðum Landsbankans og Útvegsbankans. Þannig ræður stjórnarandstaðan kjarnanum í fjármálalífi þjóðarinnar, en það gerir ríkisstj. ókleift að starfa eins og hún þarf að geta starfað.“

Það er ekki til mikils mælzt, þegar talað er eins og hæstv. forsrh. talaði og þegar stjórnarblöðin bera fram slíkan boðskap, að spurt sé: Á hvern hátt hefur aðstaða sjálfstæðismanna í bönkunum gert ríkisstj. ókleift að starfa eins og hún þarf að geta starfað? Þessari spurningu eigum við rétt til að verði svarað hér við 1, umr. þessa máls og áður en lengra er haldið áfram varðandi meðferð málsins.

Í forustugrein þessa sama blaðs, Alþýðublaðsins, er einnig það sama upp á teningnum, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta, að það skapi ríkisstj. óeðlilega og óviðunandi erfiðleika, þegar stjórn seðlabankans og stærstu viðskiptabankanna er henni beinlínis fjandsamleg.

Á hvern hátt hefur það komið fram, að stjórn þessara banka og þá sér í lagi fyrir tilstuðlan sjálfstæðismanna hafi verið þessari hæstv. ríkisstj. fjandsamleg? Og af því tilefni m.a. og öðru tengdi ég við fsp. mína til hæstv. forsrh. annarri fsp. til hv. þm. N-Þ., sem ekki heldur hefur svarað þeirri fsp., þó að ég haldi, að hann hafi heyrt hana, enda þótt hann hafi ekki setið í sæti sínu, þegar ég talaði áðan, um það, hvort hann af tilefni slíkra ummæla eins og þessara gæti upplýst hv. þingheim um það, að hann hafi verið borinn ofurliði í málum, sem hann hafi óskað að koma fram, vegna meirihlutavalds Sjálfstfl. í bankaráði Útvegsbankans, en í stjórn þess banka höfum við báðir átt sæti nú um skeið, eða að sjálfstæðismenn þar vegna meirihlutaaðstöðu sinnar hafi orkað því, að fram gengi mál, sem þessi hv. þm. og bankaráðsmaður þar hefur verið andstæður, sem gæti þá m.a. varpað einhverju nánara ljósi á það, hver þörf væri, eins og talað er um, fyrir nýskipan og breytingu á þessum málum.

Það er eitt út af fyrir sig að telja nauðsynlegt að breyta bankalöggjöf eða einhverri annarri löggjöf þessa lands, en þegar sagt er að þurfi að breyta henni af tilteknum tilefnum, sem hæstv. forsrh. tilgreinir og stjórnarblöðin flytja og fara með, án þess að tilgreina nánar, hvað fyrir þeim vakir, þá ber þeim mönnum, sem að slíkum málflutningi standa, fyrst og fremst hæstv. forsrh., og ekki sízt þeim mönnum, sem eiga bæði sæti hér á hv. Alþ. og í stjórnum þessara stofnana, að svara fyrir sig og gera nánar grein fyrir því, við hvað er átt hérna, m.ö.o. að koma til dyranna eins og þeir eru klæddir og af fullri hreinskilni annaðhvort að staðfesta þær ásakanir, sem hér hafa verið hafðar í frammi, eða bera þær til baka eða í þriðja lagi að kjósa þann kostinn að segja ekki neitt, og má þá nokkrar ályktanir einnig af því draga.

Ég tók fram í fyrri ræðu minni, að ég mundi ekki á þessu stigi málsins ræða nokkuð sem nemur efni þeirra frv., sem hér hafa verið lögð fram. En hæstv. forsrh. vék að frv. um Útvegsbankann jöfnum höndum og því frv., sem nú er sérstaklega á dagskrá, og sagði meðal annars, að hvað væri eðlilegra en að breyta hlutafélagsformi þessarar bankastofnunar, þannig að bankinn yrði framvegis ríkisbanki, ekki aðeins að efni til, eins og hann raunverulega hefur verið og réttilegt er, heldur einnig að formi?

Úr því að hæstv. forsrh. vék að þessu máli nú undir þessum dagskrárlið, vil ég taka það fram, að ég er hæstv. ráðh. alveg sammála um það, að það er fullkomlega eðlileg ráðstöfun að breyta formi þessarar bankastofnunar eins og hér er gert, vegna þess að efnislega er þetta ríkisbanki, þar sem örlítið hlutafé er á höndum einstaklinga á víð og dreif og hefur engin áhrif á minnsta hátt um rekstur eða stjórn bankans að neinu leyti. Og þá er einnig eðlilegt, þegar slík formbreyting á sér stað, eins og hæstv. ráðh. vék að, að það séu í leiðinni endurskoðuð ýmis ákvæði um bankann.

Ég vil á þessu stigi málsins segja það, að ég er í sjálfu sér samþykkur slíkri formbreytingu eins og þessari. Ég hef ekki haft aðstöðu til þess, þar sem þessum frv. var útbýtt í gær, að fara neitt nánar í einstök atriði þeirra, og það gefst nægur tími til þess undir meðferð málsins, og veit ég ekki, hvort þær breytingar, sem kunna að vera á eldri lögum, eru að mínu skapi eða ekki. Það skiptir ekki máli nú og má athuga það síðar. Eins hafa talsmenn Sjálfstfl., aðrir en ég, talið, að það væri í sjálfu sér eðlilegt að breyta skipan bankamálanna varðandi seðlabankann, eins og þeir viku hér að bæði hv. 9. landsk. og 1. þm. Rang., svo að það er sem sagt sitt hvað, sem við efnislega höfum ekki að athuga við að lagfært sé í þessari bankalöggjöf fremur en í annarri löggjöf.

Hæstv. forsrh, sagði, að það hefði að vísu verið í lögum og væri svo nú, sem rétt er, að bankaráðin hafa rétt til þess að segja bankastjórum upp, þ.e.a.s. reka bankastjóra, ef maður vill orða það þannig, með sex mánaða fresti. En hæstv. ráðh. tók fram, að sú aðferð hefði ekki verið valin, eða orðaði það einhvern veginn þannig: hún hefur ekki þótt hæfa í okkar þjóðfélagi, að bankaráðin færu þá leið að segja bankastjórum þannig upp eða reka þá með þessum hætti. Og af þessu dró hæstv. ráðh. þá ályktun, að það væri nauðsynlegt í lögunum að gera formbreytingar í þessum málum eins og hér væri lagt til. Nú er ég hæstv. forsrh. alveg sammála um, og ég held, að það sé almennt viðurkennt, að það hafi ekki þótt hæfa sú aðferð hér á landi, hvorki varðandi bankastjórastöður né stöður annarra embættismanna, að beita valdi til þess að láta menn fara, sem ekki hafa til saka unnið, heldur aðeins af pólitískum ástæðum eða einhverjum öðrum ástæðum, sem ekki eru tengdar við starfið sjálft. Mér sýnist, að þetta sé mjög mikilvæg yfirlýsing frá hæstv. forsrh., og get ég fyrir mitt leyti kannske sérstaklega vel við hana unað varðandi þann banka, sem ég hef gegnt bankastjórastarfi í, ekki sízt vegna þess, að þar er beinlínis tekið fram í 37. gr., að Útvegsbanki Íslands eða hinn nýi ríkisbanki, þegar þetta er orðið að lögum, taki við öllum réttindum og skyldum gagnvart starfsfólki og framkvæmdastjórn Útvegsbanka Íslands h/f, ef hlutafélagið hættir störfum. M.ö.o.: þegar þetta frv. væri orðið að lögum, mundi ríkisbankinn taka við öllum réttindum og skyldum gagnvart starfsfólki og framkvæmdastjórn Útvegsbanka Íslands h/f, og er þess vegna ekki um neinar manna- eða embættisbreytingar að ræða eftir þessum lögum varðandi Útvegsbankann. Um framkvæmdina veit maður ekkert enn í dag annað en þessa yfirlýsingu hæstv. forsrh., sem hann gaf áðan, að hér á landi teldist það óhæfa að nota þann rétt, sem í þessum lögum eins og eldri lögum er svo fenginn bankaráðunum, að segja mönnum að tilefnislausu upp eða reka bankastjórana.

Í lögunum um Landsbankann eða frv. til breytinga á landsbankalögunum er í raun og veru svipaðs eðlis, að umboð bankastjóranna þar falla ekki niður, þó að lögin séu samþykkt. Hins vegar er að því vikið í grg. Segir þar í 28. gr., að þegar lög þessi hafa öðlazt gildi, kýs Alþingi í bankaráð skv. 36. gr. Jafnframt skipar ríkisstj. formann og varaformann bankaráðs, og falla þá um leið niður umboð núverandi bankaráðsmanna. Og hið nýkjörna bankaráð skal síðan hlutast til um, að stjórn seðlabankans og framkvæmdastjórn viðskiptabankans verði komið í það horf, sem lög þessi gera ráð fyrir.

Nú er það hins vegar svo, að það verða ekki með sama hætti sömu embætti eftir sem áður í Landsbankanum, og því segir um þetta atriði í grg. frv.:

„Af hinni breyttu skipan í framkvæmdastjórn Landsbanka Íslands leiðir, að umboð núverandi bankastjóra hans falla niður í því formi, sem þau eru nú.“

Er auðvitað eðlilegt að skilja þetta eins og væntanlega ríkisstj., sem samið hefur frv., og aðrir gera og lýsa hérna, að umboð bankastjóranna falla ekki niður, en í staðinn fyrir að vera bankastjórar seðlabanka sparisjóðsdeildar og veðdeildar eins og nú er, þá verða þarna annars vegar bankastjórar viðskiptabankans og hins vegar seðlabankans, og þarf þess vegna að sjálfsögðu að breyta formi umboða þeirra.

Þetta eru atriði varðandi efnishlið málsins, sem þýðingarmikil eru og einnig mjög athyglisverð og þýðingarmikil varðandi eftirleik þessa máls hér á þingi. Mér þykir þess vegna ekki sízt vænt um þá yfirlýsingu hæstv. forsrh., sem hann gaf áðan í því efni, hvað teldist hæfa hér á landi um aðgerðir bankaráða í þessu sambandi.

Ég vil svo aðeins víkja að Búnaðarbankanum aftur. Ég skaut því inn hér, að hæstv. forsrh. hefði sagt, að það hefði ekki áður atvikazt þannig, að sjálfstæðismenn eða neinn einn flokkur væri í hreinum meiri hl. í neinum banka eða viðskiptabanka, eins og hann orðaði það, og minnti þá á Búnaðarbankann, og sjálfsagt hefði ráðh. viljað hafa vaðið fyrir neðan sig, þegar hann nefndi viðskiptabanka. Nú veit ég ekki í raun og veru, hvernig á að draga mörkin eða að hve miklu eða litlu leyti Búnaðarbankinn er viðskiptabanki alveg nákvæmlega í sama skilningi og Útvegsbankinn, og hann er a.m.k. alveg nákvæmlega sams konar viðskiptabanki og Útvegsbankinn og sparisjóðsdeild Landsbankans,að öllu öðru hygg ég, heldur en því, sem gjaldeyrisviðskiptum viðvíkur. Og sparisjóðsinnstæður Búnaðarbankans eru ekki miklu minni og þar af leiðandi bolmagn bankans ekki miklu minna en t.d. Útvegsbankans í þessu sambandi, og af því ætti náttúrlega augljóslega að mega draga þá niðurstöðu hjá þeim, sem segja um þessa ríkisbanka, Útvegsbankann og Landsbankann, að þeir eigi að lúta ákveðinni skipan, þar sem löggjafarvaldið og ríkisstjórnin geti haft nægjanleg áhrif og ítök, að þetta ætti að alveg nákvæmlega sama leyti að gilda um Búnaðarbankann.

Mér heyrðist hálfpartinn á ræðu ráðh., að þegar hann vék að þessu máli, þá fór hann að tala um Iðnaðarbankann. Ég veit nú eiginlega ekki, hvað hann snertir þetta mál, nema ráðh. sagði: Iðnaðarbankanum ráða sjálfstæðismenn. — Framsóknarmenn ráða að vísu í Búnaðarbankanum, og þá má þetta gott heita. Þessi stórpólitík að jafna metin fyrst í Útvegsbankanum og Landsbankanum og svo: Ja, þó að við ráðum einir framsóknarmenn í Búnaðarbankanum, þá ráða sjálfstæðismenn í Iðnaðarbankanum. — Iðnaðarbankinn er hlutafélag, og það hefur víst viljað þannig til undanfarið, að þeir, sem hafa verið í bankaráði, eru fleiri sjálfstæðismenn en annarra flokka menn. En algerlega er það undir hælinn lagt, hvernig það skipast. Og sá er munur á, að Búnaðarbankinn er ríkisbanki, en Iðnaðarbankinn er hlutafélag, sem ríkið á aðeins part af hlutafénu í, innan við helming, að ég hygg. Og Búnaðarbankinn hefur ábyrgð ríkissjóðs fyrir öllum sparisjóðsinnstæðum, sem Iðnaðarbankinn hefur ekki. Þess vegna á ekki við hér samanburður milli Búnaðarbankans og Iðnaðarbankans, en hins vegar liggur ákaflega nærri hjá þeim mönnum, sem vilja framgang þeirra mála, sem hér liggja fyrir, samlíkingin við Búnaðarbankann.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um það, en segi þetta til ábendingar:

Hæstv. forsrh. sagði eitthvað á þá leið, að menn þyrftu að skilja eðli bankanna til þess að átta sig á, að því er mér skildist, að það væri nauðsynlegt að flytja frv. eins og þau, sem hér lægju fyrir. Bankaráðin ráða ekki daglegum rekstri bankanna. En það væri þá ekki eins mikil ástæða til þess að gera alla þessa nýskipun á bankaráðum, sem hér er verið að gera í Landsbankanum, í Framkvæmdabankanum og í Útvegsbankanum, nema þá, sem af því leiddi, að verið væri að breyta honum úr hlutafélagi í ríkisbanka. Þau ráða ekki daglegum rekstri, segir hæstv. ráðh., en það eru m.ö.o. bankastjórarnir, og segir síðan í framhaldi af því: með því að lána tveir af þremur, og þessir tveir ráða auðvitað, þá er hægt að svara ríkisstj. með rétti, að peningar séu ekki til. Með þessum orðum segir hæstv. ráðh., þegar umbúðirnar eru af teknar: Sjálfstæðismennirnir í Útvegsbankanum og Landsbankanum hafa, án þess að hinn eini framsóknarmaður í báðum bönkunum hafi getað við ráðið, undanfarið veitt lán þannig í bönkunum, að þegar ríkisstj. biður um lán í því tilfelli, sem um var rætt til íbúðabygginga, þá er það ekki til lengur, af því að sjálfstæðismennirnir eru búnir að ráðstafa því annað, og þess vegna geta þeir sagt við hæstv. ríkisstj.: Því miður er þetta ekki hægt. — Og til þess að koma í veg fyrir þetta, segir ráðh., þarf að framkalla þessa breytingu. Hæstv. forsrh. veit, að það, sem hann er að gefa í skyn, er ósatt, algerlega ósatt. Það er ekki nokkur fótur fyrir því, að sjálfstæðismennirnir, — ég held, að það sé hægt að fullyrða það fyrir báða bankana, Landsbankann og Útvegsbankann, — hafi með neinu móti ráðstafað fé bankanna í andstöðu við þá tvo bankastjóra Framsfl., sem í þessum bönkum eru, — ekki í einu eða neinu. Og fyrir sjálfan mig vil ég taka það skýrt fram, að frá því að ég kom í Útvegsbankann 1952, hefur aldrei í einu eða neinu, sem nokkru máli skiptir, um lánveitingar bankans eða aðrar ráðstafanir verið ágreiningur milli mín og Valtýs Blöndals, bankastjóra Framsfl. þar. Hann hefur aldrei þurft að sæta því, að ég með öðrum sjálfstæðismanni bæri hann ofurliði í ákvörðunum í neinu máli, sem nokkru skipti, segi ég, og kannske ekki neinu, og ég þurfti heldur aldrei að sæta því, meðan ég var einn sjálfstæðismaður í stjórn þessa banka, að Valtýr Blöndal — með þriðja bankastjóranum þá — notaði meirihlutaaðstöðu þeirra tveggja til þess að bera mig ofurliði í sambandi við lánveitingar eða ákvarðanir bankans.

Ég veit, að það eru svo náin kynni hæstv. forsrh. við þennan bankastjóra, Valtý Blöndal, og hann hefur að öðru leyti þann skilning á bankastarfseminni hér sem bankaráðsformaður og með langa reynslu þar að baki, að það, sem hann gefur hér í skyn, er það sama, sem hans flokkur og aðrir pólitískir flokkar hafa verið að reyna að læða í hugskot landsmanna undanfarið, fyrir kosningarnar í sumar og síðan, um leið og þeir sjálfir vita, að þetta er ósatt. Og eins og ég spurði áðan tilteknum spurningum, sem ég vænti að verði svarað, þá mælist ég til þess, að ef þeir flm., sem hér standa að og eiga stjórnendur í þessum banka, víta annað og sannara í þessu efni, þá geri þeir grein fyrir því. Hér er ekki nein þagnarskylda, sem hlífir neinum, því að það er sitt hvað, hvort starfsmenn bankanna, bankastjórar og bankaráðsmenn, séu bundnir þagnarskyldu um einstakar lánveitingar og viðskiptasambönd einstakra manna við bankana eða hvort almenn málefni eru reifuð og gerð grein fyrir um afstöðu til lánveitinga, án þess að nokkur nöfn þurfi að nefna, ef tilfellin væru fyrir hendi. Sannleikurinn er sá, að í banka eins og Útvegsbankanum er mikill meiri hlutinn af öllum lánveitingum bankans til sjávarútvegsins, sem eru algerlega í föstum og formbundnum skorðum. Að öðru leyti eru lánsviðskiptí slíkra banka alltaf að verulegu leyti bundin af fortiðinni og því, sem áður hefur gerzt, og ég minni á það, að frá 1938, að Jón Ólafsson féll frá og hafði þá verið aðstoðarbankastjóri við bankann, höfðu sjálfstæðismenn engan mann í bankastjórn Útvegsbankans fram til 1952, og þótti þolanlegt sumum þá. Ég bygg, að engin stefnubreyting hafi orðið síðan á lánveitingum þessa banka, sem gagnrýnd verði frá því sjónarmiði, að síður hafi verið búið að hag almennings og atvinnuveganna í þessu landi með lánveitingu bankanna, nema síður sé. Og ég tek mjög undir það, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði hér áðan, að þegar þessi mál koma til meðferðar í þingnefndum, þá gangi þær fram í því að kryfja nokkru nánar til mergjar og niður í kjölinn allar þær getsakir, sem hér hafa verið hafðar í frammi um misnotkun sjálfstæðismanna á stjórn bankanna í þessu landi.

Hæstv. forsrh. sagði, að Sjálfstfl. og sjálfstæðismenn auðvitað, í framhaldi af því, sem ég nú hef sagt, notuðu aðstöðu sína og hefðu notað aðstöðu sína til að hafa meiri hluta í bankastjórnunum. Ja, hvernig var það, þegar Gunnar Viðar var ráðinn bankastjóri í Landsbankanum? Hvaða meirihlutaaðstöðu notuðu sjálfstæðismenn til þess? Hvernig var það, þegar Vilhjálmur Þór var ráðinn bankastjóri? Í fyrra tilfellinu höfðu sjálfstæðismenn ekki meiri hluta í bankaráðinu, í síðara tilfellinu höfðu sjálfstæðismenn meiri hluta í bankaráðinu, en samt var þessi framsóknarmaður kosinn bankastjóri af því bankaráði, sem sjálfstæðismenn höfðu meiri hluta í. (Fjmrh.: Þeir gerðu það nú ekki með glöðu geði.) Ja, það skyldi vera, að hæstv. fjmrh. gerði allt með glöðu geði, sem hann er að gera í þessari hæstv. ríkisstj. (Fjmrh.: Þeir gerðu það af því, að þeir voru neyddir til þess.) Maður þarf nú ekki að vera að tala strákslega, þó að maður sitji í ráðherrastól. — Þegar Jón Maríasson, sem hér er talað um, varð bankastjóri, hvaða valdbeiting Sjálfstfl. var þar að verki? Hér eru bæði ráðh. og aðrir búnir að taka nokkuð mikið upp í sig fyrr og síðar um valdaaðstöðu og valdbeitingu innan bankanna. Hitt höfum við sjálfstæðismenn síður en svo við að athuga, að bæði bankalöggjöfin og önnur, eins og ég sagði áðan, sé endurskoðuð og það fært til betri vegar, sem ástæða þykir til, og við munum um þessi mál vinna að þeirri hlið málanna elns og öðrum undir meðferð málsins.

Ég vil aðeins ljúka máli mínu með því að vara við þeirri stórkostlegu hættu, sem leiðir af því fordæmi, sem hér er tekið upp. Hæstv. forsrh. sagði: Ríkisstj. verður á hverjum tíma að geta treyst þeim mönnum, sem sitja í bönkunum, og verður þess vegna að hafa aðstöðu til þess að setja í bankana þá menn, sem hún gelur treyst á hverjum tíma. — En það er enga niðurstöðu hægt að draga af þessu aðra en þá, að menn verði alltaf að þurfa að búast við því, þegar ríkisstjórnaskipti eru, að þá verði einnig mannaskipti í stofnunum eins og bönkum þessa lands, og það er miklu glæfralegra spil og miklu meira alvöruleysi en ætlast mætti til af hæstv. ríkisstj. og Alþingi að leiða peningamál okkar inn á þær brautir, því að sannast að segja verður alltaf niðurstaðan í þessum málum, eins og hv. 1. þm. Rang. kom að, hreint ekki það, hvort Pétur eða Páli er bankastjóri í þessum bönkum. Og vafalaust verða þeir menn, sem af þessari stjórn verða valdir til þeirra starfa, ekki síður hæfir út af fyrir sig heldur en þeir, sem nú eru. En það, sem máli skiptir, er sú almenna peningapólitík, sem í landinu er rekin, það stjórnarfar. sem á hverjum tíma á sér stað í landinu og leggur grundvöllinn að því, að þessar peningastofnanir fái á eðlilegan hátt að þróast til hagsbóta fyrir almenning í þessu landi, eins og hlutverk þeirra er að gegna hagsmunum almennings og eins og þeim hefur verið stjórnað undanfarin ár til þess að gegna hagsmunum almennings í þessu landi.