18.05.1957
Neðri deild: 100. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1621 í B-deild Alþingistíðinda. (1525)

177. mál, Landsbanki Íslands

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. gat ekki mælt á móti því, sem er óhnekkjanleg staðreynd, að núverandi lög um Landsbanka Íslands voru sett af Framsfl., og einmitt þeim atriðum, sem Framsfl. vill nú breyta, breytti hann, þegar hann náði völdum 1928, úr því horfi, sem lokkurinn vill nú færa málin í. Segja mátti, að 1928 væri ekki svo mjög athugavert við, þó að flokkurinn breytti þessu, því að hann hafði verið andstæður þessum ákvæðum laganna 1927 og vildi þá hafa þau á annan veg. Þess vegna mátti segja, að það væri eftir atvikum ekki óeðlileg afleiðing þess, þegar Framsókn og Alþfl. fengu þingmeirihluta eftir kosningar 1927, að þessu ákvæði væri breytt. En þar með setti Framsfl. sínar eigin leikreglur og breytti frá því, sem aðrir höfðu sett. En þegar atvikin verða svo slík, að Framsókn fær ekki öllu eins ráðið og hún vill, eftir þeim eigin reglum, sem hún að mjög yfirveguðu máli og eftir harða baráttu fékk knúið fram, þá þolir hún ekki sitt hlutskipti, heldur breytir til enn á ný. Það er þetta, sem í raun og veru er eftirtektarverðast við þetta mál, sá hugsunarháttur, sem þarna lýsir sér, það óþolgæði, að geta ekki farið eftir settum reglum, jafnvel þó að þær séu settar af manni sjálfum, ef maður er ekki ætíð ofan á, á hverju einasta augnabliki. Það er þetta, sem ég leyfði mér áðan að kalla labbakútshátt, og ég held, að það sé sízt orðum aukið.

Það er ekki svo, að hér sé um einstakt atvik að ræða, heldur lýsir þessi sami hugsunarháttur sér í framferði flokksins í stjórnarathöfnum og stjórnmálabaráttu fyrr og síðar. Ég minnti á það, þegar hæstv. forsrh. lét það vera eitt af sínum fyrstu verkum að víkja frá tveimur æruverðugum hæstaréttardómurum. Hann ber fyrir, að það hafi verið nauðsynlegt vegna aldurs. Það voru engin lagaákvæði, sem knúðu hann til þess að gera það, og báðir mennirnir voru í fullu fjöri, annar lifði a.m.k. kringum 20 ár, eftir að hann var sviptur embætti; Eggert heitinn Briem dó skömmu síðar, og þá hefði af sjálfu sér opnazt möguleiki fyrir hæstv. forsrh. að koma að sínum manni. En eftir þessum lögmálum mátti ekki bíða. Það mátti ekki bíða þess, að mennirnir annaðhvort féllu fyrir ætternisstapa eða töpuðu svo heilsu, að þeir gætu ekki gegnt starfinu, nei, þarna varð að breyta til. Hæstv. forsrh. segir, að þeir menn, sem hann hafi sett, hafi tryggt það, að réttarfar hér á landi væri til fyrirmyndar. Ég fullyrði það, að þó að þeir menn, sem síðan hafa skipað hæstarétt, séu ágætir menn, og ég hef aldrei, hvorki fyrr né síðar, úr því dregið, þá er réttaröryggi hér á landi sízt meira nú en var í tíð þeirra hæstaréttardómara, sem áður voru, og gæfa hinna nýrri og yngri manna var einmitt sú, að þeir höfðu þroska og vit til þess að feta í fótspor sinna fyrirrennara, en beita ekki því valdi, sem þeim var fengið, á pólitískan hátt. Og eins vona ég að verði, þegar þar að kemur, um þá menn, sem til þessara starfa verða valdir nú, hversu mörg og mikil sem þau verða. En verknaður hæstv. forsrh. er engu að síður hinn sami. En þessi viðleitni til að vilja ekki hlíta settum reglum er, eins og ég segi, ekki eitt einstakt tilfelli, heldur lýsir sér í starfsháttum hæstv. forsrh., hvar sem hann fær höndum undir komið. Það var með sama hætti farið í kringum kosningalöggjöfina, höggvið mjög nærri eða beinlínis brotin fyrirmæli stjórnarskrárinnar um úthlutun uppbótarsæta til þess að koma með rangindum inn fleiri þm. á Alþingi. Hvort sem menn geta deilt um varðandi kosningaklækina, að þeir hafi verið löglegir eða ekki, geti staðizt samkv. lagabókstaf eða ekki, þá getur enginn efazt um, að þar var um fullkomna klæki að ræða, þar var þessi sama viðleitni, að vilja ekki hlíta settum reglum, hafa rangt við til þess að bæta sinn eigin hlut. Það er í skjóli þeirra ranginda, sem hæstv. forsrh. hefur hlotið sín völd, og það er ósköp eðlilegt, að hann noti þau á þann veg, sem nú lýsir sér. Hann væri ekki eðli sínu trúr, ef hann færi ekki þannig að.

Hæstv. forsrh. forðaðist algerlega að svara því, sem um var spurt: Í hverju hefur komið fram ágreiningur milli bankanna og ríkisstj., og í hverju hefur komið fram ágreiningur milli sjálfstæðismanna og framsóknarmanna innan bankanna? Þetta eru vitanlega meginatriði þessa máls. Ef ekki er hægt að nefna eitt einasta dæmi þess, að slíkur ágreiningur hafi átt sér stað, þá er þar með fallin burt sú tilraun til efnislegra röksemda, sem hæstv. forsrh. hefur reynt að bera fram, heldur stendur valdbeitingin, hin nakta svívirðilega valdbeiting, óhjúpuð eftir. Hæstv. forsrh. lét svo sem þessi dæmi mætti ekki nefna. Hæstv. forsrh. mundi vissulega ekki vera feiminn um að nefna þau, ef þau væru fyrir hendi. Hann nefnir þau ekki, einungis af því að þau eru ekki til.

Hæstv. forsrh. sagði og þóttist svara því, sem ég sagði varðandi útvegun fjár til húsabygginga, með því, að hv. þm. N-Ísf. (SB) hefði vítt stjórnina í Ed. fyrir að útvega ekki fé í bönkunum, og taldi, að það stangaðist við það, sem ég sagði. Vitanlega stangaðist þetta ekki á neinn veg. Og hæstv. forsrh, hefði ekki átt að vera að rifja þetta upp, vegna þess að ómöguleiki bankanna til að útvega þetta fé er ekki vegna þess, að fénu hafi verið ráðstafað með öðrum hætti, eins og hæstv. forsrh. vildi vera láta, heldur vegna þess, að afleiðing hans stjórnarmyndunar, hans valdatöku var sú, að sparifjársöfnun í landinu hætti, að fólkið treysti ekki lengur fjármálastofnunum til þess að ávaxta sitt fé, af því að það óttaðist þá framsóknarkrumlu, sem koma mundi og féð væri a.m.k. ekki vel varið í. Það er þannig beinlínis fyrir áhrif hæstv. forsrh. og ríkisstj. hans, sem þeir örðugleikar á fjárútvegun hafa komið fram, sem raun ber vitni um. Hæstv. forsrh. væri sýnu nær að gera sitt til þess og halda þannig á að endurvekja traust manna á sparnaði, á því að leggja fé inn í banka og sparisjóði, til þess að eðlileg fjármálaþróun geti átt sér stað. Við skulum vona, að þegar allt þetta brambolt er um liðið, þá komi sú kyrrð, hvort sem þessi stjórn verður við völd lengur eða skemur, að menu á ný fari að leggja fé til hliðar og spara. En það fæst ekki með slíkum aðferðum og þessum. Og það fæst heldur ekki, vil ég segja hæstv. fjmrh., með því einu, að hann komi fram í útvarp öðru hverju og hvetji menn til sparnaðar og tali um örðugar afleiðingar þess, að ekki sé sparað. Það duga engin orð í þessu, það eru athafnirnar, sem máli skipta. Meðan hæstv. fjmrh. á ásamt félögum sínum þátt í þeirri löggjöf, bæði varðandi þetta, varðandi skattafrv. margs konar og ekki sízt stóreignaskattinn,

meðan hann á þátt í þeirri löggjöf, sem gerir það að verkum, að fólkið vill frekar eyða hverjum eyri en leggja hann til hliðar, þá er það hann sjálfur, hæstv. fjmrh., sem ætti að halda áminningarræðurnar yfir sér og hlífa Íslendingum við að heyra slíkt hræsnistal eins og hann hefur viðhaft um þessi efni í útvarpið ekki alls fyrir löngu. Og það er von, að hæstv. fjmrh. sé ekki með hýrri há og eins og vængbrotin kolla hér vappandi um salinn, vegna þess að hann finnur auðvitað ósköp vel sjálfur, í hvern vanda hann er kominn og hversu hann á í raun og veru eðli sínu samkvæmt illa heima á þeirri skútu, þar sem hæstv. forseti Nd. er merkisberi.

Úr því að ég vík að hæstv. forseta deildarinnar, þá taldi hæstv. forsrh. það nánast vera ósvinnu af mér, að ég teldi óhæfu, að slíkur forustumaður þingsins kæmi í Landsbankann. Ég vil nú vitna til þess, sem hans eigið blað sagði hinn 3. maí s.l., með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Hermanns Jónassonar hefur í einu og öllu sýnt, að hún er ábyrg og lýðræðissinnuð umbótastjórn. Ef kommúnistar eiga einhverja aðild að þeirri stjórn, eins og Morgunblaðið básúnar út um allan heim í skjóli fréttamiðlunar sinnar, þá er víst, að þeir eru svo gersamlega áhrifalausir, að þeirra gætir ekki á hinn minnsta hátt.“ Þetta sagði Tíminn 3. maí.

Nú er það viðurkennt, að einn aðaltilgangur þeirrar lagasetningar, sem hér er efnt til, er sá að fá kommúnistum mjög mikil og e.t.v. úrslitaráð í fjármálakerfi þjóðarinnar. Hverjum dettur í hug, að hægt sé að telja kommúnista gersamlega áhrifalausa um verk ríkisstjórnarinnar, eftir að þeir hafa leitt hana til þess að setja slíka löggjöf til að skapa þeim moldvörpuhreiður í sjálfum fjármálastofnununum til þess að grafa þaðan undan fjármálakerfi þjóðarinnar og öðru, sem til hags hennar heyrir?

Hæstv. forsrh. spurði og bað mig um að svara því, hvort rétt væri, að Einari Olgeirssyni hefði verið boðið bankastjóraembætti í sambandi við myndun eða endurreisn nýsköpunarstjórnarinnar haustið 1946 og veturinn 1947. Það er mér gersamlega ókunnugt. Ég veit hitt, að þeir samningar fóru út um þúfur, vegna þess að mönnum kom ekki saman um skilyrðin, sem vera þyrftu fyrir áframhaldandi samstarfi, enda var þá þegar búið að sýna sig að áliti mínu og margra annarra, að kommúnistar væru með öllu ósamstarfshæfir. Hitt verð ég svo að segja, úr því að hæstv. forsrh. er að tala um eitthvað, sem hafi átt sér stað í samningum manna á milli, að mig hefur oft undrað á þeim óheilindum, sem einmitt hæstv. forsrh. hefur gert sig sekan um varðandi talið um áhrif okkar sjálfstæðismanna í bankamálunum og árásir hans flokksblaða á okkur fyrir það á sínum tíma, að Jóhann Hafstein var skipaður bankastjóri í Útvegsbankanum, og það þarf ekki að vera neitt leyndarmál, vegna þess að hæstv. forsrh. Hermann Jónasson margbað okkur um það sjálfstæðismenn í ríkisstjórninni að skipa Jóhann Hafstein sem bankastjóra. Hann margbað okkur um það, og það var vegna þess, að af vináttu hans við ágætismanninn Valtý Blöndal vildi hann forða Valtý frá að fá manninn í bankann, sem Valtýr taldi sér erfitt að eiga að vinna með. Ég sé ekki, að þessi milliganga hæstv. forsrh. núverandi hafi á nokkurn hátt verið honum til lasts, en það er til lasts, að hann skuli síðan eftir það, sem gerzt hefur, vera sérstaklega að setja út á, að Jóhann Hafstein hafi verið valinn til þessarar stöðu. Hvernig til tókst með það val, má svo sjá af því, sem Alþýðublaðið segir í morgun, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir:

„Það verður engan veginn reynt að bola sjálfstæðismönnum frá bönkunum. Sennilegt er talið, að helztu bankamenn þeirra, Pétur Benediktsson og Jóhann Hafstein, verði áfram í stöðum sínum og Jón Mariasson einnig í annarri hvorri deild Landsbankans.“

Þetta stendur í Alþýðublaðinu, og er hægt að fá skýrari sönnun fyrir því, að þessir umgetnu embættismenn, opinberu starfsmenn hafa ekki af sér gert í sínu starfi, heldur en þegar eitt stjórnarblaðanna lætur slíkan boðskap fylgja lagafrv. eins og Alþýðublaðið gerir?

Eins og ég tók fram hér í gær, hafði ég ráðstafað mínum tíma þannig, að ég verð nú að fara úr bænum. Ég vildi að vísu tala nokkru lengra mál, en það verður undan að fallast, þar sem ég þarf að komast með flugferð til Akureyrar, og mun ég þá væntanlega tala betur um málið og ýtarlegar við 2. umr.