18.05.1957
Neðri deild: 100. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1632 í B-deild Alþingistíðinda. (1528)

177. mál, Landsbanki Íslands

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. nefndi það síðast, sem er alveg rétt, að við erum um það sammála, að ríkisstj. eigi að ákveða stefnuna í peninga- og bankamálum og bankastjórum og öðrum stjórnendum bankanna beri að framkvæma þá stefnu og að ríkisstj. sé að sjálfsögðu heimilt að tryggja það, að hún verði framkvæmd. En ég vil gjarnan undirstrika það, að það er annað atriði, sem ég tel í rauninni það þýðingarmesta einmitt í sambandi við þau mál, sem hér eru til umr., sem við erum algerlega ósammála um, en það er, með hverjum hætti ríkisstj. beri að tryggja, að sú stefna í peningamálum, sem hún hefur ákveðið, verði framkvæmd.

Hæstv. forsrh. er þeirrar skoðunar, sem segja má að sé aðalkjarni þeirra frumvarpa, sem hér liggja fyrir, að þetta eigi að tryggja annaðhvort með mannaskiptum í stjórn bankanna, þegar ný ríkisstj. kemst til valda, eða ef sú leið þykir ekki fær, að fjölga nægilega mikið í þessum stjórnum, til þess að ríkisstj. hafi þar meiri hluta.

Ég lít aftur svo á, eins og komið hefur fram í mínum fyrri ræðum, að það sé ekki þessi leið, sem beri að fara, heldur hin, að ríkisstj. setji um það ákveðnar reglur með löggjöf eða á annan hátt, hvaða stefnu beri að framfylgja í þessum málum, og svo er það annað mál, að ef til árekstra kemur varðandi framkvæmd þessarar stefnu milli bankastjóranna og ríkisstj., þá væri eðlilegt, að stjórnendur bankanna annaðhvort segi af sér eða verði látnir fara. En það, sem vantar hér í, er þetta, að hæstv. forsrh. hefur ekki viljað verða við ítrekuðum ummælum okkar sjálfstæðismanna um að gera ákveðna grein fyrir því, í hverju þessir árekstrar hafa verið fólgnir. Hann hefur ekki viljað nefna þar ákveðin dæmi.

Að lokum vil ég aðeins minnast á annað atriði, sem að vísu snertir ekki þetta mál beint. Hæstv. forsrh. sagði, að með tilliti til þeirrar afstöðu, sem sjálfstæðismenn hefðu haft til kaupgjaldsmálanna að undanförnu, væri ekki hægt að treysta þeim til þess að framkvæma stefnu ríkisstj. í peningamálum. Hér mun hæstv. forsrh. fyrst og fremst eiga við kauphækkun þá, sem verkalýðsfélagið Iðja fékk á síðastliðnu vori. Það er nú í rauninni heldur langt sótt að kenna sjálfstæðismönnum um þá kauphækkun, ef hún að einhverju leyti þykir varhugaverð. En þetta er rökstutt á þann hátt, að sjálfstæðismenn séu í meiri hluta hjá iðnrekendafélaginu og iðnrekendafélagið hafi látið undir höfuð leggjast að spyrna gegn þessum kröfum. Og hvað sem segja má um þessa kauphækkun Iðju til handa, ber þó að hafa það hugfast, að hér er um að ræða eitthvert lægst launaða fólkið í landinu og kauphækkunin ekki ýkja mikil, miðað við þær kauphækkanir, sem venjulega hafa átt sér stað, þegar vinnudeilur hafa orðið. En ég vil í þessu sambandi leyfa mér að minna á aðra launadeilu, sem var leidd til lykta í febrúar eða marzmánuði s.l., en það var kaupdeila flugmanna og flugfélaganna. Þá hældust stjórnarblöðin um það, hvern þátt ríkisstj. hefði átt í giftusamlegri lausn þeirrar launadeilu. Það var að vísu ekki notað orðið kauphækkanir um þau hlunnindi, er flugmennirnir fengu, en hlunnindin voru vægt metin a.m.k. samsvarandi 30% kauphækkun. Því hefur enginn hnekkt enn þá. En allir vita, að flugmennirnir eru meðal þeirra launastétta þessa lands, sem einna hæst eru launaðar, án þess að tekin sé afstaða til þess, hvort þeim beri það kaup eða ekki, um það skal ég ekki segja vegna ókunnugleika.