17.05.1957
Neðri deild: 99. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 2343 í B-deild Alþingistíðinda. (153)

Athugasemdir um fundarhöld

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég vil benda forseta á, að þannig stendur á, að af talsmönnum flokksins í þeim málum, sem hér liggja fyrir, eru Björn Ólafsson og Ólafur Thors hvorugur staddur í bænum um þessa helgi, að ég og Magnús Jónsson höfðum auglýst fundarhöld á Akureyri, að Ingólfur Jónsson hafði bundið sig í sínu héraði á morgun, að Pétur Ottesen hafði átt tal um það fyrir nokkrum dögum við forseta, að hann þyrfti að hverfa á braut um helgina. Segja má, að það sé ef til vill nokkur léttúð af þm. að fara svona að. En þegar búið er að halda mönnum hér starfslausum mörgum mánuðum saman, þá geta menn auðvitað ekki sett öll störf til hliðar um helgar í þeirri óvissu ég veit ekki, hvort maður á að segja trú eða von, að loksins fari að bóla á málefnum stjórnarinnar.

Ég veit það, að hæstv. forseti muni ekki svipta okkur neinum formlegum rétti; ég gruna hann ekki um það, enda veit ég ekki, hvor aflmeiri yrði, ef hendur væru látnar skipta á annað borð, þannig að utan réttar ætti að leysa málin. En ég er ekki að tala um það. Ég veit, að hann hefur réttinn og valdið í sínum höndum. Ég vildi beina því til hans að beita því sem mildum höfðingja. En ef hann vill ekki þann veg að fara, heldur fara eftir því, sem hann hingað til hefur talið verst í stjórnarfarinu, þá hann um það að velja sér það fordæmi. En ég hélt nú sannast sagt, að hæstv. forseti hefði fengið nóg af því að beita valdi sínu með hæpnum hætti snemma á þinginu og ætlaði ekki að fara að endurtaka það.

Það má vel vera, að einhverjir okkar getum hagað þannig störfum og háttum, að við getum verið við upphaf þessarar umr. á morgun, ég get ekki um það dæmt á þessu stigi. En það rekst á þær fyrirætlanir, sem við höfum haft fram að þessu. Ég hygg sannast sagt, að þær séu ekki margar óskirnar, sem ég í nafni stjórnarandstöðunnar hef borið fram við hæstv. forseta á þessu þingi, og stj. hafi oftar leitað til okkar um fyrirgreiðslu en við til hennar. Ég minnist þess, að fyrir jólin leitaði ég fyrirgreiðslu hæstv. félmrh. um frestun á einu tilteknu máli. Hann varð ljúflega við þeirri ósk, og hæstv. forseti má vel gera sér það til sæmdar að verða enn þá lakari en sá ráðh.