24.05.1957
Neðri deild: 105. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1635 í B-deild Alþingistíðinda. (1532)

177. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Eins og frá er skýrt í nál. á þskj. 602, eru fjhn.- menn ekki allir sammála um afgreiðslu þessa máls. Í meiri hl. eru þrír nm., og mæla þeir með því, að frv. verði samþ., en hinir tveir nm. leggja á móti því.

Meiri hl. n. flytur brtt. við frv. á þskj. 608. 1. brtt. er um viðbót við 2. gr. frv. Með þessum viðauka við 2. málsgr. gr. verður hún nákvæmlega eins og málsgr. er nú í 1. gr. laganna. Hafði þessi síðari hluti málsgr. fallið niður, þegar frvgr. var samin, og er hér nánast um leiðréttingu að ræða.

2. brtt., við 9. gr., er aðeins leiðrétting á orðalagi.

3. brtt., við 11. gr., er um að fella niður tilvitnun í 7. tölulið 17. gr., sem nú er 14. gr. í lögunum. Þótti óþarft að hafa þessa tilvitnun í 17. gr., en engin breyting er gerð á henni með þessu frv.

Um 4. og 5. brtt. er það að segja, að það eru aðeins leiðréttingar.

6. brtt. er um, að 14. gr. frv. falli niður. Sú grein snertir 20. gr. laganna, sem felld var niður með sérstökum lögum 1951, þó að hún sé enn tilfærð í lögunum, eins og þau eru prentuð í lagasafninu.

8. brtt. við 16. gr. má skoða aðeins sem leiðréttingu.

En ég átti eftir að gera grein fyrir 7. brtt., við 15. gr. Samkv. frv. er landsbankanefndin lögð niður. Eitt af verkefnum hennar var að úrskurða reikninga bankans, en við samningu frv. hefur láðst að taka það fram, hvaða aðili ætti að taka við því verkefni. Er hér lagt til, að svo verði fyrir mælt, að ráðh. úrskurði reikningana. Er þetta í samræmi við ákvæði um sama efni í lagafrv. um Útvegsbanka Íslands, sem nú er einnig til meðferðar hér á þinginu, og einnig er þetta í samræmi við ákvæði laganna um Búnaðarbankann.

Eins og ég sagði áðan er 8. brtt. aðeins leiðrétting.

9. brtt. er við 18. gr. frv. Í 35. gr. núgildandi Landsbanka laga segir svo:

„Bankaráðsmenn skulu allir vera búsettir í Reykjavík eða svo nálægt Reykjavík, að þeim sé auðvelt að sækja bankaráðsfundi, hvenær sem er.“

Þetta ákvæði hefur verið tekið óbreytt í 18. gr. þessa frv., en n. leggur til, að sú breyt. verði á þessu gerð, að eigi þurfi nema annar hvor, aðalmaður eða varamaður í bankaráði, að vera búsettur í höfuðstaðnum eða nágrenni hans. Verði frv. samþ. með þessari breyt., mætti t.d. kjósa mann í bankaráð, þó að hann væri búsettur fjarri Reykjavík, ef varamaður hans væri í Reykjavík eða svo nálægt, að hann gæti sótt fundi mjög fyrirvaralítið.

10. og 11. brtt. eru aðeins fluttar til leiðréttréttingar á tilvísun í ákveðnar greinar.

Með 12. brtt. er lagt til, að 28. gr. frv. falli niður, þar sem réttara þótti að hafa ákvæði hennar í bráðabirgðaákvæði.

13. brtt. er aðeins lagfæring á orðalagi.

Og þá er það 14. og um leið síðasta brtt., sem er um það, að á eftir 30. gr. frv. komi ákvæði til bráðabirgða.

Með fyrirmælum 29. gr. frv. er felldur niður VII. kafli laganna, sem er bráðabirgðaákvæði frá eldri tíma. Í þeim bráðabirgðaákvæðum eru m.a. ákvæði þau, sem tekin eru í fyrri málsgr. brtt., og er talið, að þau ákvæði megi ekki falla úr gildi. Þau hafa verið alllengi í landsbankalögum. Í síðari málsgr. bráðabirgðaákvæðanna samkv. brtt. eru hins vegar tekin upp fyrirmæli, sem nú eru í 28. gr. frv. Auk þess eru tekin í þessa brtt. fyrirmæli um, að starfstímabil þeirra bankaráðsmanna, sem ráðgert er að Alþ. kjósi, þegar eftír að það hefur samþ. þetta frv., skuli vera til ársloka 1961, en starfstímabil formanns og varaformanns til ársloka 1962. Var n. bent á það, að hagkvæmara væri að láta kjörtímabilið enda við áramót. Mun það nú vera aðalreglan, að kjörtímabil nefnda, sem Alþ. kýs, byrjar og endar við áramót, en samkv. ákvæðum frv. á kjörtímabil hinna þingkjörnu bankaráðsmanna að vera 4 ár, en ríkisstj. að skipa formann og varaformann til 5 ára.

Hef ég þá gert grein fyrir þessum brtt., sem meiri hl. flytur.

Við atkvgr. um brtt. í n. greiddu þeir hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) og hv. 9. landsk. þm. (JR), sem skipa minni hl. n., atkv. með einstökum brtt., en sátu hjá við atkvgr. um aðrar. Þeir töldu þó ekki ástæðu til að taka þátt í að bera þær fram, og eru því till. fluttar af meiri hl. nefndarinnar.

Ég vil geta þess að lokum, að það kom fram í n., að einn af þeim, sem skipa meiri hl. fjhn., hv. 3. þm. Reykv. (EOl), hefur nokkra sérstöðu í málinn viðkomandi ákvæðinu um seðlabanka, og mun hann ef til vill gera grein fyrir því í umr., ef hann telur ástæðu til þess.