24.05.1957
Neðri deild: 105. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1636 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

177. mál, Landsbanki Íslands

Fram. minni hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Minni hl. fjhn. hefur skilað séráliti, en það hefur nú ekki unnizt tími til að útbýta því, en þar sem tími þingsins er orðinn svo takmarkaður, hef ég ekki við það að athuga fyrir mitt leyti að halda áfram umræðunum, enda þótt ekki sé búið að útbýta álitinu, og væntanlega berst það bráðlega á fundinn.

Þess er getið í greinargerð fyrir stjfrv. því, sem hér liggur fyrir, að þegar núverandi ríkisstj. hafi tekið við völdum, hafi hún lýst yfir því, að hún mundi beita sér fyrir breytingum á bankalöggjöf landsins, m.a. þeirri, að seðlabankinn yrði settur undir sérstaka stjórn. Ég held, að það hafi hvergi, hvorki fyrr né síðar, komið nokkurs staðar fram nein önnur efnisbreyting á bankalöggjöf landsins, sem vekti fyrir hv. núverandi stjórnarflokkum og stefnt væri að.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er gerð nokkur breyting á skipan seðlabankans. Hins vegar hefur það komið fram, sem reyndar var löngu kunnugt orðið, að meginástæða núverandi stjórnarflokka til málamyndabreytinga á bankalöggjöfinni væri sú að koma þar að í stöður bankastjóra og bankaráðsmanna fylgismönnum núverandi hæstv. ríkisstj. Á þetta hefur reyndar ekki verið dregin dul hér við 1. umr. málsins, enda þótt þetta frv. auglýsi ekki beinlínis þennan tilgang, en þó að svo sé ekki, þá leynir hann sér heldur ekki í frv.

Það er gert ráð fyrir því að setja seðlabankann undir sérstaka stjórn tveggja bankastjóra, auk þriggja meðstjórnenda, sem skipaðir eru af ríkisstj. eftir tilnefningu bankaráðs, og það er gert ráð fyrir því, að umboð núverandi bankaráðs falli niður og síðan verði kosið nýtt bankaráð, þar sem ríkisstj. skipar formanninn, en fjórir eru kosnir af Sþ.

Þá er vikið að því í grg. frv., að af hinni breyttu skipan á framkvæmdastjórn Landsbanka Íslands leiði, að umboð núverandi bankastjóra hans falli niður í því formi, sem þau nú eru, en í nál. meiri hl. fjhn. er slegið föstu, að umboð núverandi bankastjóra falli niður. Hvort sem þessi staðhæfing er nú rétt, að umboðið falli niður, eða hitt, að breyting eigi sér stað á þessum embættum vegna breyttrar skipunar á stjórn bankans, og það fái þess vegna í raun og veru ekki staðizt staðhæfingin um, að umboðin falli niður, miðað við ákvæði frv., þá er hitt augljóst, að hv. stjórnarflokkar stefna að því og hæstv. ríkisstj. með þessu frv. að geta ráðstafað 5 bankastjóraembættum í Landsbankanum og 4 bankaráðsstöðum af 5, og þá sýnist mér, að sæmilega sé að verið.

Því hefur verið haldið fram hér við 1. umr. málsins af hæstv. forsrh., að vegna þess að sjálfstæðismenn hafi sölsað undir sig eða lagt undir sig meirihlutaaðstöðu — eða hvernig það var nú orðað — í bankaráðum og meðal bankastjóra hinna tveggja banka, Landsbankans og Útvegsbankans, þá sé það fjötur um fót ríkisstj. og hún geti engan veginn unað því, og mun hann hafa orðað það eitthvað á þá leið, að til þess lægju svo augljós rök, að ekki þyrfti að rekja, að þessu meirihlutavaldi þyrfti ríkisstj. að hnekkja, og væri það undirstaðan undir þeim frv., sem hér væru flutt. — Hæstv. ráðh. var inntur eftir því, hver væru hin augljósu rök, og reyndar mátti varla minna vera en að hann gerði grein fyrir þeim, sérstaklega þar sem þau áttu að vera svo augljós. En hann vék sér nú undan því og gerði enga grein fyrir þeim augljósu rökum, og jafnframt, þegar hann hélt því fram, að meginástæðan fyrir því, að þetta frv. væri fram komið og önnur bankafrumvörp, væri sú, hversu sjálfstæðismenn hefðu misbeitt valdi sínu í bönkunum, þá var bann inntur eftir því, í hverju árekstrar hefðu orðið innan bankanna sjálfra vegna pólitísks meiri hluta sjálfstæðismanna eða milli hins pólitíska meirihlutavalds sjálfstæðismanna, eins og um er talað, og ríkisvaldsins sjálfs. En þessu vék hæstv. ráðh. sér einnig undan að svara; og allt er þetta skiljanlegt, vegna þess að hér er um tilbúnar ástæður að ræða, sem enginn fótur er fyrir.

Ég vil almennt segja um þá aðferð, sem hér er viðhöfð, að sá hugsunarháttur er mjög vítaverður að telja, að stjórnarvöldin á hverjum tíma eigi að vera þess umkomin að koma embættis- og starfsmönnum frá ábyrgðarmiklum störfum eða stöðum af þeim sökum einum, að þeir fylgja ekki sömu pólitísku skoðun og stjórnarherrarnir einir, en ekki vegna þess, að talið sé, að þeir hafi neitt misgert í störfum sínum. Hér er komið út á mjög hála braut, sem erfitt verður að stöðva sig á. Í fyrsta lagi skapar þetta fordæmi í sambandi við bankamálin ótvírætt, þannig að af því getur eðlilega leitt, að í hvert skipti sem ríkisstjórnarskipti eigi sér stað hér á landi, þá telji menn eða þeir aðilar, sem að þeim standa, nauðsynlegt, að samtímis fari fram bankastjóraskipti eða yfirráð yfir bönkunum, hvort sem er í bankaráðum eða öðrum stjórnum bankanna. Í öðru lagi hafa hér engin takmörk verið sett. Það er talað um bankastjóra í dag og bankaráðsstöður, en að hvaða embættismönnum eða starfsmönnum verður komið næst? Er ekki alveg eins hægt að hugsa sér, að ríkisstj. telji, að hún geti ekki haft þennan og þennan mann í starfi, við skulum segja vegamálastjóra, póst- og simamálastjóra, útvarpsstjóra, og svona mætti lengi halda áfram að telja, af því að hann fylgdi ekki þeim pólitísku skoðunum, sem stjórnin boðar, og væri að því leyti að einhverju leyti fjötur um hennar fót.

Hjá okkur hefur til þessa ríkt sú grundvallarhugsjón eins og annars staðar í lýðfrjálsu ríki, að embættismönnum, sem tekið hafa að sér trúnaðarstörf í þágu ríkisins eða opinberra stofnana, beri að rækja þær skyldur, sem þeim eru lagðar á herðar, án tillits til þess, hvaða pólitíska skoðun þeir kunna að hafa, og engu að síður að beita sinni atorku í þjónustu ríkisstj., sem þeir verða að vinna fyrir, hvort sem þeim líkar betur eða verr við hennar stjórnarstefnu. Ef til vili mætti segja, að mikilvægara væri, að þessi skilningur ríkti óskoraður í sambandi við peningastofnanir landsins, vegna þess að það kann að vera miklu meira í húfi varðandi það, að um þær skapist viðunandi öryggi og traust, bæði út á við og inn á við, heldur en þótt um ýmsar aðrar stöður og embætti væri að ræða.

Hér eru sem sagt reifuð nokkuð almenn sjónarmið í þessu máli, og það er nauðsynlegt vegna þess, hvað haft er í frammi sí og æ bæði í umr. hér á Alþ. og einnig utan þings um hin pólitísku átök í þessum svokölluðu bankamálum. Ég skal reifa þau nokkru nánar almennt, áður en ég vik að efni frv. frekar, og þá vil ég leyfa mér að vitna til þess, að í það hefur verið látið skina hér á þinginu, að sjálfstæðismenn hafi misbeitt valdi sínu innan bankanna, og samtímis hafa stjórnarblöðin gengið mjög skelegglega fram í því að viðhafa órökstudd stóryrði í þessu sambandi.

Í Tímanum 23. maí eru á 7. síðu birtar tilvitnanir í skrif Alþýðublaðsins annars vegar og hins vegar Þjóðviljans um þessi efni, sem ég vil leyfa mér að víkja aðeins að nokkrum orðum, með leyfi hæstv. forseta. Þar er vitnað í Alþýðublaðið frá 22. maí, þar sem segir:

Ríkisstj. hafði í upphafi lýst yfir því, að hún mundi taka bankamálin til athugunar. Sjálfstfl. hafði á undanförnum árum sölsað undir sig yfirstjórn bankanna, sett trúustu þjóna sína þar í stöður og notað aðstöðu sína til áhrifa og valda í þjóðfélaginu.“

Leyfist mér að víkja fyrst nokkuð að þessu atriði, að sjálfstæðismenn hafi sölsað undir sig yfirstjórn bankanna. Það hefur verið vikið að því reyndar áður, að ýmsir þeirra manna, sem gegnt hafa bankastjórastöðum og eru sjálfstæðismenn, hafa verið valdir til þessara starfa, án þess að Sjálfstfl. hafi beitt neinu meirihlutavaldi í bankaráðinu til þess. Á þetta bæði við á sínum tíma um ráðningu Jóns Mariassonar í Landsbankanum og Gunnars Viðar í sama banka. Varðandi það, að sjálfstæðismenn hafi ráðið tveimur síðustu bankastjórastöðum með meirihlutaaðstöðu sinni í Útvegsbankanum, vil ég segja það, að frá 1938 og þar til 1952, eða í 14 ár, var enginn sjálfstæðismaður í bankastjórn Útvegsbankans. Í þrjú ár, frá 1952 til 1955, eða áramótanna 1955–56, var einn sjálfstæðismaður í bankastjórninni af þremur, og síðan frá áramótum 1955 og 1956 hafa þar verið tveir sjálfstæðismenn bankastjórar.

Um meirihlutaaðstöðu innan bankaráðsins vil ég vekja athygli á því, að bráðlæti þessarar hæstv. ríkisstj. og stuðningsmanna hennar er svo mikið, að þeir telja með öllu ófært að bíða þess, að þeir geti náð meirihlutaaðstöðu þar, sem verða mundi með eðlilegum hætti á næsta vori, þegar á að kjósa á ný í bankaráð Útvegsbankans eða fulltrúaráð Útvegsbankans, og þeir mundu, með því að þeir fara með bankamálin og ríkisstj., geta ráðið þeim mönnum. M.ö.o.: það hefði að eðlilegum hætti nú verið tæpt ár eða rétt um það bil ár, þar til meiri hlutinn í bankaráði Útvegsbankans hefði verið í höndum núverandi stjórnarsinna, og það bankaráð hefði að sjálfsögðu haft í hendi sér, eins og bankaráðin hafa alltaf haft, ef það óskaði þess og teldi nauðsynlegt að skipta um bankastjóra, að segja þeim upp með sex mánaða fyrirvara eða árs fyrirvara eða þá að greiða þeim laun og láta þá fara strax, og geri ég ekki ráð fyrir, að kostnaðurinn af slíkum atriðum hafi verið látinn hindra, að slík málsmeðferð væri á höfð. En hvort hitt er svo það, sem máli skiptir, að núv. hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar treysta vart á það, að þeir verði í meiri hluta eða fari með völd ríkisstj. að ári liðnu, það skal ég láta óumsagt, en það gæti gefið til kynna slíkt óðagot eins og hér er um að ræða, að ekki teldu þeir sig of örugga í sessi og betra væri að vera búinn að koma ár sinni fyrir borð, áður en um of seinan væri. Kynni þá svo að fara að vísu, að hæstv. stjórnarstuðningsmenn hafi gleymt því gamla spakmæli, að skamma stund verður hönd höggi fegin og slíkar tiltektir, eins og hér eru hafðar í frammi, kunni að draga á eftir sér nokkurn dilk, þó að síðar verði, og skal ég ekki fleiri orðum um það fara. En augljóst má það vera, hversu hér er teflt á tæpt vað og hversu aðferðin er í eðli sínu misráðin.

Þá kem ég aftur að því, sem segir um misbeitingu sjálfstæðismanna í bönkunum í þessum tilvitnunum Alþýðublaðsins frá 22. maí. En þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Misbeiting þeirra (þ.e. sjálfstæðismanna) á lánsfé varð ekki þoluð lengur, ef ríkisstj. átti að geta unnið viðreisnarstörf sín í efnahagsmálum til nokkurrar hlítar. Voru mörg dæmi þess, að þýðingarmiklum atvinnufyrirtækjum var haldið í fjársvelti, en í gæðinga og vafasama gróðabrallsmenn var ausið fé. Og þegar frambjóðendur Sjálfstfl. fóru út á landsbyggðina, gátu þeir í skjóli yfirráðanna í bönkunum lofað gulli og grænum skógum í peningalegum efnum, enda var það ekki sparað, sérstaklega ef litlu munaði milli flokkanna. Fólst í þessu mikil pólitísk spilling.“

Það er sagt, að í þessu hafi falizt mikil pólitísk spilling. En ég segi: það felst mikil pólitísk spilling í því að viðhafa annað eins gaspur, önnur eins órökstudd ósannindi og hér eru höfð í frammi. Það hefur margverið innt eftir því, og ég inni enn eftir því, að menn nefni, þótt ekki sé nema eitt einasta dæmi um misbeitingu á pólitísku valdi sjálfstæðismanna innan bankanna, þótt ekki væri nema eitt einasta dæmi, og mega þeir menn minni menn beita, sem sitja hér á þingbekkjum og standa á bak við annan eins óhróður og þennan, en steinþegja, þegar stendur upp á þá að reyna að standa við þau stóru orð, sem þeir bæði sjálfir eru búnir að hafa í frammi og láta sín blöð lepja dag eftir dag að undanförnu um misbeitingu hins pólitíska valds í bönkunum. Það er pólitísk spilling að standa að slíkum óhróðri og þegja, og ég skora á, ef einhver þingmaður er hér, að reyna að réttlæta þessi orð, og verði það ekki gert, þá mun þögnin ekki síður skiljast.

Ég sagði við 1. umr. þessa máls, að milli mín og fulltrúa Framsfl. í Útvegsbankanum, eða framsóknarmannsins, sem þar er bankastjóri, og áður milli þriðja bankastjórans, sem ekki var sjálfstæðismaður, hefðu aldrei orðið nein pólitísk átök, aldrei neinir pólitískir árekstrar og engir árekstrar reyndar í máli, sem nokkru skipti. Ég man ekki, hvort í einhverjum smámálum hefur einhverju tíma komið fyrir, að ég eða þessi bankastjóri sætum hjá við afgreiðslu mála, en árekstrar hafa þar engir átt sér stað, og í bankaráðunum hefur aldrei, síðan ég kom í þennan banka, átt sér stað neinn innbyrðis árekstur af pólitískum sökum.

Ég las hér upp áðan þau orð frá Alþýðublaðinu, að þegar frambjóðendur Sjálfstfl. fóru út á landsbyggðina, gátu þeir í skjóli yfirráðanna í bönkunum lofað gulli og grænum skógum í peningalegum efnum, enda var það ekki sparað, sérstaklega ef litlu munaði milli flokka. — Nú vil ég segja, að ég skora enn á einhvern hv. þm., sem hér situr á, þingbekkjum, ef bann hefur fram að færa rökstuðning fyrir þessum ásökunum, að hann geri það. Ég fór mjög viða um landið fyrir kosningarnar á s.l. sumri, bæði norðan, austan og vestan, og mér þætti vænt um það og vil beinlínis inna eftir því, ef einhver af hv. þm., sem margir hverjir eru úr þeim kjördæmum, sem ég fór einmitt um í pólitískum fundarferðum, getur nefnt eitt einasta dæmi þess, að þeir hafi orðið varir við, að ég hafi á þessum ferðum misbrúkað bankastjórastöðu mína á þennan hátt, sem hér er um talað. Ég bíð eftir því, hvort einhver hv. þm. í umr. mun minna mig á það.

En framhaldið af slíkum óþverra, eins og þarna er til vitnað í þessum blöðum, er svo þetta, með leyfi hæstv. forseta: „Margt fleira mætti um misbeitingu sjálfstæðismanna í bönkunum segja, en slíkt er alþjóð svo kunnugt, að óþarft er að rekja það lengur.“ Hvað er það, sem alþjóð er svona kunnugt, ef aldrei er rakið neitt? Og svo kóróna þessir menn ósvífni sína með orðum eins og þessum, með leyfi hæstv. forseta, úr sama blaði: „Ofstæki og misbeiting valds verður aldrei til lengdar þolað í lýðfrjálsu landi.“ Þessir menn eru hér að misbeita sínu pólitíska valdi og beina ásökunum gegn okkur sjálfstæðismönnum sem ástæðu fyrir ásökunum, sem á engan hátt eru rökstuddar eða gerð tilraun til að rökstyðja.

Alveg hliðstæð ummæli eins og þessi eru í þessu sama blaði, tekin upp úr Þjóðviljanum, og ég skal ekki lengja ræðutímann með því að gera of mikið að því að lesa upp þessi ummæli, sem eru hliðstæð. En ég nefni það aðeins til þess að segja, að hér á eiga öll blöð stjórnarinnar sömu sökina, þau hafa sí og æ verið að flytja þennan boðskap út um landið um hina ægilegu misbeitingu á hinu pólitíska valdi sjálfstæðismanna í bönkunum, en aldrei eða naumast nokkurn tíma bent á nokkur dæmi.

Ég sagði: naumast nokkurn tíma, vegna þess að það er ein undantekning frá þessu. Það var nefnilega, að Tíminn og Þjóðviljinn ekki alls fyrir löngu nefndu eitt tiltekið dæmi, og það er eina dæmið, sem nefnt hefur verið um misbeitingu sjálfstæðismanna, eina tiltekið dæmi um misbeitingu sjálfstæðismanna á prenti að undanförnu, sem mér er kunnugt um, um misbeitingu hins pólitíska valds okkar sjálfstæðismanna í bönkunum. En það er líka að dómi þessara manna bezta dæmið, og af því má nokkuð læra, hvers eðlis og hvers virði ásakanirnar eru, þegar við höfum eigin orð þessara manna um það; hvað sé bezta dæmið fyrir misbeitingu hins pólitíska valds af hendi sjálfstæðismanna í bönkunum.

Þjóðviljinn birti ekki alls fyrir löngu forustugrein undir fyrirsögninni: „Íhaldið og bankarnir“, og auk hins venjulega óhróðurs og ósanninda, sem í þessari grein fólust, var birtur kafli úr grein, sem birtist í Tímanum daginn áður, einnig um misnotkun Sjálfstfl. á valdaaðstöðu í bönkunum, og þessi tilvitnun um misnotkun okkar sjálfstæðismanna á valdaaðstöðu í bönkunum úr Tímanum, sem Þjóðviljinn tók upp, er svona, með leyfi hæstv. forseta: „Bezta dæmið um misnotkun Sjálfstfl. á valdaaðstöðunni í bönkunum er rekstrarlán KRON. Síðastliðið ár mun sala KRON hafa numið um 36 millj. kr. Sjálfstæðisbankastjórunum þótti hæfilegt rekstrarlán því til handa 60 þús. kr. Á sama tíma hafa alls kyns skransalar og braskarar mokað fé úr lánastofnunum. Það er þessi ósómi, sem verður drifinn út. Ríkisstj. verður nú að ganga þannig til verks, að smánarbletturinn verði þveginn af íslenzkri lánapólitík, svo að mynd verði á.“ Hér höfum við þá bezta dæmið. Önnur eru þá sennilega ekki jafnslæm og þetta, en þetta er bezta dæmið um ósómann af hálfu okkar sjálfstæðismanna.

Nú get ég upplýst það, að hér er verið að vitna til viðskipta KRON við Útvegsbanka Íslands, og án þess að ég vilji ljóstra upp nokkrum leyndarmálum, sem ég hef ekki aðstöðu til, eða nokkru um viðskipti þessa fyrirtækis við bankana, þá get ég af þessu tilefni upplýst, að ákvörðun var tekin um rekstrarlán þessa fyrirtækis 27. nóv. 1945; og þá var rekstrarlán þessa fyrirtækis lækkað um 40%, um leið og tiltekin eign var úr veðböndum leyst. Það var lækkað um 40%. Þá var enginn sjálfstæðismaður í bankastjórninni. Rekstrarlán þessa fyrirtækis hefur ekki borið á góma, síðan ég kom í bankann, fyrr en á s.l. ári, og sú niðurstaða varð á viðræðum milli framkvæmdastjórans og mín í því efni, að ég tilkynnti honum, að þeim mundi vera heimilt að rúmlega ferfalda sitt rekstrarlán í bankanum. Það mun hafa verið í ágúst s.l. Þá voru að vísu tveir sjálfstæðismenn af þremur í bankanum.

Þetta er bezta dæmið, eftir því sem stuðningsmenn ríkisstj. segja sjálfir, um misbeitingu okkar á pólitísku valdi. En ef þetta er nú bezta dæmið um misbeitinguna á hinu pólitíska valdi, hvað verður þá um hin dæmin? Við fáum kannske að heyra eitthvað um þau hér á eftir.

Mönnum finnst kannske, að ég gerist nokkuð fjölorður um þetta. En ég tel, að svo hafi gengið úr hófi fram blaðaskrif að undanförnu um þessi málefni, að ég efast um, að eins þungar sakir og hér er um að ræða hafi verið á menn bornar áður fyrr í ábyrgðarmiklum stöðum og af jafnmiklu tilefnisleysi.

Ég vil taka upp úr Þjóðviljanum í dag, stærsta stjórnarblaðinu, þessi ummæli, sem sýna, að þessi tónn heldur áfram, þar sem segir, með leyfi hæstv. forseta: „Völd sín í bönkunum hafa þeir (þ.e.a.s. sjálfstæðismenn) notað til að hlynna að braskfyrirtækjum auðkýfinga, þeir hafa notað þau til að halda uppi fyrirtækjum, sem raunverulega voru gjaldþrota og hefði átt að gera upp fyrir löngu, og þeir hafa enn fremur notað þau til að auðvelda íhaldsframbjóðendum blekkingastarfsemi og atkvæðaveiðar. Það hefur verið reynt að koma því inn hjá fólkinu í landinn, að engrar fyrirgreiðslu í lánsfjármálum væri að vænta, nema viðkomandi styrkti og kysi íhaldsmenn á Alþingi. Þessa ófyrirleitni og spillingu, sem fylgt hefur yfirráðum íhaldsins í tveimur aðalviðskiptabönkunum, verður að uppræta, og að því er stefnt með því bankamálafrv., sem ríkisstj. hefur lagt fyrir Alþingi.“ Svo mörg eru þau orð.

Það er mikil ósvífni, að þeir menn, sem standa að flutningi þessara frv., segi, að þau séu flutt til þess að uppræta ófyrirleitni og spillingu sjálfstæðismanna, þegar þessi frv. eru öll gegnumsýrð einmitt af þessum hugsunarhætti og þessum lélegu einkennum, sem hér er verið að tala um. Vegna hvers koma ekki þessi bankafrv. fram fyrr en í lok þingsins? Það er vitnað til þess, að það hafi verið eitt af stefnumálum núverandi stjórnarflokka að setja seðlabankann undir sérstaka stjórn og breyta bankalöggjöfinni, og það var sagt frá því í baust, að sett hefði verið nefnd til að vinna að endurskoðun bankamálanna af hálfu núv. ríkisstj. Síðan gerist ekkert í þessum málum, og loksins þegar komið er að þinglokum, leggur hæstv. ríkisstj. fram mjög flausturslega og illa undirbúin frv., sem hún kallar endurskoðun á bankalöggjöfinni, en í felst í raun og veru ekkert annað en að seðlabankinn er að vissu leyti gerður sjálfstæðari en áður var, en þó ekki sjálfstæður seðlabanki í raun og veru, hvorki fugl né fiskur, og allar aðrar breytingar eru miðaðar við það eitt, að núverandi hv. stjórnarsinnar fái aðstöðu til þess að skipa sína menn í stöður innan bankanna og ryðja öðrum mönnum úr vegi af því tilefni.

Þetta hefur tekið langan tíma. Það er ekki það, að það hafi tekið svona langan tíma að semja þessi frv. Maður skyldi hafa skilið það, ef hæstv. ríkisstj. hefði núna lagt fram vandað og heilsteypt frv. um sjálfstæðan seðlabanka, byggt á gaumgæfilegri rannsókn þeirra mála, að þá hefði það tekið tíma. En það tekur engan tíma að búa til þennan ramma utan um mannaskiptin, enda er staðreynd, að það er ekki alls fyrir löngu, sem hæstv. forsrh. mun hafa átt hlut að máli um, að skipuð væri ný nefnd til að berja þetta saman, því að nú væru góð ráð dýr, nú yrði bara að koma sér saman um mennina, áður en þingi lyki; nefnd sú, sem skipuð hafði verið í haust til að endurskoða bankamálin, hefði ekki komið málunum í böndin, og það eina, sem skipti máli nú, væri að koma sér saman um, hvaða menn ættu að vera á hverjum stað, og þegar það lægi fyrir, væri hægt að búa til rammann utan um það.

Þetta er ekki pólitísk spilling. Nei, það þarf ekki að uppræta svona. En það verður líklega meira af þessu tagi, ef þessi hæstv. ríkisstj. á eftir að vera lengi við völd, hér í okkar þjóðfélagi, og sannleikurinn er sá, að þegar það spurðist, að hv. stjórnarflokkar væru búnir að koma sér saman um mennina, þá stóð heldur ekki lengi á þessum frv., sem hér liggja fyrir.

Nú vil ég leyfa mér að víkja að öðrum þætti þessara mála, og það er það, hvaða áhrif sjálfstæðismenn í ríkisstj. og í bönkum hafa haft á möguleika Íslendinga til þess að afla erlendis lána eða viðhalda eðlilegri fjármálastarfsemi og efnahagsþróun í landinu. En það segi ég af því tilefni, að það er fléttað inn í þessar umr., að það hafi þurft að koma sjálfstæðismönnum úr ríkisstj. og það þurfi að koma sjálfstæðismönnum úr stjórnum bankanna og þangað þurfi að koma inn kommúnistum, til þess að hægt sé að búast við því, að við getum fengið lán hjá Bandaríkjamönnum eða öðrum aðilum á erlendum vettvangi. Um þetta segir Þjóðviljinn í forustugrein í dag undir fyrirsögninni: „Barátta fyrir völdum“. Við hvað skyldi bann eiga? Barátta fyrir völdum. Hann segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Það þurfti að reka íhaldið úr ríkisstj., til þess að Íslendingar gætu virkjað Efrifossa, og það þarf einnig að reka það úr meirihlutaaðstöðu í bönkunum til þess að efla traust þeirra inn á við og út á við.“ Þá heyra menn það. Það þarf að tryggja aðstöðu kommúnista við seðlapressuna að öðru leyti í stjórn Landsbankans, víst í stjórn Útvegsbankans líka, til þess að efla traust þessara banka inn á við og út á við. En hvernig er þetta? Er ekki eitthvað farið að bila minnið hjá Alþýðubandalagsmönnum um það, að þurft hafi að reka íhaldið úr ríkisstj., til þess að Íslendingar gætu virkjað Efrifossa? Það var einhvern tíma önnur skýring á því, hvernig hægt væri að virkja Efri-fossa. Það var í sama blaði, Þjóðviljanum, frá 9. des. og undir fyrirsögninni: „Hernámið og Sogsvirkjunin“. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta, af því að þar er gefin nokkur skýring á því, að það var ekki íhaldið, sem þurfti að reka til að virkja Efrifossa, það þurfti að gerast eitthvað annað. Orðrétt segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nú hefur það gerzt í beinn framhaldi af nýju hernámssamningunum, að Bandaríkin hafa allt í einu lýst sig fús til að hlaupa undir bagga með lán til Sogsvirkjunarinnar að upphæð 160 millj. kr. Þannig virðist að því stefnt að taka örlæti Bandaríkjamanna tveim höndum, enda þótt vitað sé, að nauðsynleg lán séu fáanleg annars staðar án allra óeðlilegra skilmála og með langtum hagstæðari greiðsluskilmálum fyrir Íslendinga.“ Þetta segir blaðið, Ber að skilja þetta svo, að einhverjir óeðlilegir skilmálar hafi fylgt Sogsláninu frá Bandaríkjamönnum? Fulltrúar Alþb. hér á þingi kynnu kannske að geta gefið á því skýringu, og sjálfsagt vita þeir þetta allt saman miklu betur, þegar þeir verða búnir að fá fulltrúa í stjórn seðlabankans og fara sennilega sjálfir að halda áfram þeim lánveitingum til Sogsvirkjunarinnar, sem nú þegar er stofnað til, því að mér skilst, að lánveiting, sem nú hefur verið tekin, sé aðeins fyrir þetta ár, en hv. stjórnarflokkar treysti því, að áframhald geti orðið á næsta ári. Og ef að líkum lætur og miðað er við það, til hvers refirnir eru hér skornir, þá verða það sennilega fulltrúar Alþb. í stjórn seðlabankans, sem einhvern hlut eiga að því máli, ef þá formaður bankaráðs leyfir þeim að fá að vita, hvað verður að gerast í því bankaráði eða þeirri stjórn, því að mér skilst nú, að honum sé ætlað að vera svo „póleraður“ og fínn, að hann sé alveg í sérstökum „klassa“. Ætli þeir fái að tala við hann, verði ekki í öðru herbergi, og þeir fái bara að tala í gegnum mikrófón, hinir meðstjórnendurnir í þessari stjórn seðlabankans, eða hafa sendil á milli?

Mig langar til að víkja betur að þessu, því að hér stendur í sömu grein í Þjóðviljanum frá 9. desember, með leyfi hæstv. forseta: „Það er því mikil og skaðleg skammsýni að ætla nú að rjúka til og semja við Bandaríkin um 160 millj. kr. lán til virkjunar Sogsins í stað þess að hagnýta þá möguleika, sem fyrir hendi eru í Evrópu. Ef af því verður, er þjóðinni bundinn þungur og erfiður baggi, sem örðugt getur orðið að rísa undir, og það liggur í augum uppi, að hér er náið samband milli þess, sem gerzt hefur í hernámsmálunum, og þessa óvænta lánstilboðs. Ætlunin er að greiða fyrir nýjum hernámsframkvæmdum með því að veita íslendingum lán.“ Og svo heldur blaðið áfram: „Síðan er ætlazt til, að tekjur af þeim framkvæmdum gangi til að greiða aðstoðina, þegar séð er, að eðlileg kaup á afurðum okkar hrökkva ekki til. Allt á þetta að binda land og þjóðfastara á hernámsklafann og tryggja Bandaríkjunum sem lengsta og öruggasta dvöl á Íslandi með herlið sitt og bækistöðvar.“

Þegar þessi orð eru höfð í huga, skýtur nokkuð skökku við ummæli þessa blaðs í dag, þegar það gerir að umræðuefni ræðu hv. 1. þm. Rang. um bankamálin og lánstraustið út á við, sem hann hélt nýlega á Varðarfundi. Þar er það rakið, að íhaldið hafi gengið hvarvetna bónleiðir til búða í lánamálum sínum, meðan það var í ríkisstj.

Nú er á það að líta, að á meðan íhaldið var í ríkisstj., hafði hæstv. fjmrh. eðli málsins samkvæmt og núverandi fjmrh. forgöngu um lánsútveganirnar út á við, og það er rétt, að það gekk örðuglega að afla lána, og var reynt til þess bæði hjá Bandaríkjunum, hjá alþjóðabankanum í Washington og annars staðar fyrir milligöngu Framkvæmdabankans með þeim hætti, sem ætlazt hafði verið til að þessar lánaumleitanir færu fram. Það gekk að vísu erfiðlega. Hitt hefur hins vegar verið upplýst og lágu fyrir upplýsingar um í stjórnarráðinu við stjórnarskiptin, að þáverandi forsrh. hafði tilboð um vilyrði fyrir verulega stóru láni í Vestur-Þýzkalandi, áður en fyrrv. ríkisstj. fór frá völdum. En það er ekki aðalatriðið í þessu sambandi, heldur hitt, að nú hælast þessir menn, fulltrúar Alþb. og Þjóðviljinn, yfir því, að það hafi þurft að reka íhaldið úr stjórn til þess að fá lán til Sogsvirkjunarinnar í Bandaríkjunum, lán, sem þeir sjálfir eru búnir að segja að sé mútufé og kölluðu 30 silfurpeninga í blaði sínu í haust sem leið, — mútufé til þess að fá þá sjálfa og aðra stuðningsmenn stjórnarflokkanna til að kingja loforðum sínum og svíkja kjósendur landsins um að efna það að láta herinn fara úr landi. Menn, sem þannig haga sér í málum eins og þessum, geta sjálfsagt gripið til óyndisúrræða í öðrum málum og misráðinna aðgerða, eins og telja verður að gert sé með þeim bankamálafrv., sem hér hafa verið lögð fram og eru til umr.

Um þetta frv. um breytingu á lögum um Landsbanka Íslands vil ég segja það, að þegar af þeirri ástæðu, sem ég nú hef rakið, þegar viðurkennd er meginorsök þess, að frv. er flutt, þá getum við sjálfstæðismenn ekki aðhyllzt það og erum því gersamlega andvígir. En sök sér væri, eins og ég sagði áðan, ef einhverjir af stjórnarliðinu reyndu að færa þeim staðhæfingum stað, að þær nauðsynjar hafi til borið að. flytja þetta frv., sem tilgreindar eru, að brjóta hafi þurft á bak aftur pólitíska misnotkun sjálfstæðismanna. En fyrir utan þetta vil ég einnig segja það, að að öðru leyti er frv. mjög ófullkomið. Við höfum lýst því yfir, — ég held fleiri af málsvörum Sjálfstfl. við 1. umr., — að við teldum eðlilegt að skipa stjórn seðlabankans með öðrum hætti en væri og að því bæri að stefna að koma hér upp sjálfstæðum seðlabanka. Þau mál hafa oft áður verið rannsökuð og athuguð, enda er naumast hægt að hugsa sér að setja upp vandaða löggjöf í þessu efni öðruvísi en að undangenginni ýtarlegri rannsókn á málinu og að krufin sé til mergjar peningaþróunin og fjármálastarfsemin í landinu jafnframt.

Það mun hafa verið árið 1936, að samið var og flutt frv. um seðlabanka Íslands að tilhlutun skipulagsnefndar atvinnumála, samið af hagfræðingnum dr. Erik Lundberg. Á árinu 1951 komst mikil hreyfing á þessi mál að nýju, en þá skilaði erlendur sérfræðingur í þessum efnum líka, dr. Murphy, ýtarlegum till. til ríkisstj. um stofnun sjálfstæðs og sérstaks seðlabanka á Íslandi. Í ágústmánuði 1951 skipaði þáverandi viðskmrh. 6 manna nefnd til þess að gera till. um almenna bankalöggöf, og var þá sérstaklega tilgreint, að verkefni n. skyldu vera að endurskoða þá skipan, sem nú er á yfirstjórn peningamálanna, þ. e. skipulag Landsbanka Íslands og fyrirkomulag seðlaútgáfunnar. Í því sambandi var einnig óskað, að endurskoðuð væri gildandi löggjöf um banka og sparisjóði, eftir því sem n. þætti þurfa, og loksins átti að gera athuganir og till. um myndun lánsstofnunar, er veiti fé til fjárfestingar í sambandi við atvinnuvegina, og upp úr þeirri athugun var svo stofnaður Framkvæmdabanki Íslands, eins og hv. þm. er kunnugt um. En n. hefur ekki að öðru leyti skilað áliti, og þess vegna eru þessar rannsóknir og athuganir frá eldri tímum ekki enn þá krufnar til mergjar. Og þær eru ekki lagðar til grundvallar þeim till., sem hér eru hafðar í frammi, heldur er aðeins miðað við það að hafa umbúðirnar, mér liggur við að segja sem veigaminnstar, til þess að geta tryggt megintilganginn að veita skjólstæðingum ríkisstjórnarinnar hæfilega aðstöðu í bönkunum.

Seðlabankinn er með þessu frv., eins og ég sagði áðan, í raun og veru hvorki fugl né fiskur. Landsbankinn er bæði seðlabanki og viðskiptabanki og hvort tveggja í senn. Að sumu leyti er aðgreiningin eftir þessu frv. ákaflega óljós, og að öðru leyti er hún óeðlileg. Ég fæ t.d. ekki séð, að það geti talizt eðlilegt, að veðdeild Landsbankans eigi að tilheyra seðlabankanum. Veðdeild Landsbankans er í raun og veru ekki annað en fasteignalánastofnun, og hver viðskiptabanki og sparisjóður gæti sett upp alveg hliðstæða deild. Og hvernig mundi það líta út í bankakerfinu, að viðskiptabankarnir væru allir með sína veðdeild, en aftur á móti væri svo seðlabankinn, sem á að vera viðskiptabanki viðskiptabankanna, með þessa gömlu veðdeild Landsbankans innan sinna vébanda? Hv. stjórnarstuðningsmenn kunna kannske á þessu einhverja skýringu, en hún hefur ekki komið fram. Það er margt fleira svipaðs eðlis. En ég vil segja það, að þegar þetta frv. er flutt í lok þingsins og við stjórnarandstæðingar höfum engan tíma haft til þess að taka málið upp á þeim grundvelli að taka til meðferðar fullkomna endurskoðun á löggjöfinni varðandi sjálfstæðan seðlabanka, þá hefur okkur ekki gefizt tóm til að fjalla um málið þannig að leggja fram till. í málinu, sem að því stefndu. Og miðað við tilefni þessa málefnaflutnings, sem ég hef áður vikið að, höfum við ekki séð ástæðu til þess enn a.m.k., hvað sem síðar kann að verða, undir meðferð málsins að flytja neinar brtt. við málið, en leggjum til, eins og ég hef áður komið að og greinir í nál. okkar, sem ég vænti að nú sé búið að útbýta, að þetta frv, verði fellt.