24.05.1957
Neðri deild: 105. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1647 í B-deild Alþingistíðinda. (1534)

177. mál, Landsbanki Íslands

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Ég hef ekki getað vegna fjarveru minnar undanfarna daga fylgzt með þeim umræðum, sem fóru hér fram um þessi mál við 1. umr. En frv. tala fyrir sig sjálf, og ég vænti þess, að forseti misvirði það ekki við mig, þó að ég ræði þessi 3 bankafrv., sem fyrir liggja, jöfnum höndum, því að hér er um svo skyld mál að ræða, að varla er hugsanlegt að tala um eitt þeirra, án þess að hin komi inn á milli.

Ég hafði ekki hugsað mér að gera að umræðuefni aðalástæðuna, sem stjórnarflokkarnir hafa borið fram fyrir því, að þessi frv. eru fram komin, en það er hin svokallaða misnotkun sjálfstæðismanna á meirihlutavaldi sínu í bönkunum. Ég tel þessa ástæðu fyrir frv. svo barnalega og fjarstæðukennda, að hún í raun og veru sé ekki svaraverð. En ég vil taka undir ummæli hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) í sambandi við þá stofnun, sem hann er bankastjóri við og ég er einn í fulltrúaráði og hef átt sæti þar undanfarin ár. Mér vitanlega hafa aldrei átt sér pólitísk átök stað í stofnuninni um lánveitingar eða um meðferð nokkurra mála í starfi bankans. Áróðurinn um misbeitinguna í bönkunum er einhver sá lítilmannlegasti pólitíski áróður, sem hér hefur verið hafður í frammi. Og ef framsóknarmenn vildu aðeins spyrja þá menn, sem eru þeirra flokksmenn og eru í stjórn þessara banka, þá mundu þeir fá vitnisburð, sem væri mjög fjarstæður því, sem þeir nú nota sem pólitískan áróður.

Þessi frv., sem hér liggja frammi, hafa verið boðuð af stjórnarflokkunum sem meginmál þingsins og eitt stærsta mál í samningum stjórnarflokkanna. Það hefur verið boðað hér undanfarið með miklum áróðri, að hér yrði um mjög róttækar og mjög aðkallandi breytingar að ræða á bankastarfseminni í landinu. Það má segja, að oft verður lítið úr því höggi, sem hátt er reitt. Breytingarnar eru hvorki róttækar né mjög nauðsynlegar. Og þegar undan er tekin breytingin á Landsbankanum, þar sem seðladeildin er gerð að sérstökum seðlabanka, þá er hér um engar raunverulegar breytingar að ræða, að öðru leyti en því, að stjórnarflokkarnir hafa fellt niður umboð bankastjóra og bankaráða til þess að koma sínum eigin mönnum í stöðurnar. Að því leyti var hér sýnilega um talsverða nauðsyn að ræða, en það var ekki nauðsyn þjóðarinnar, sem kallaði á þessar breytingar, heldur stjórnarflokkanna til þess að skara eld að sinni köku, meðan nokkur glóð væri í hlóðunum. Þetta er ekki gert fyrir atvinnulífið í landinu, því að þessar breytingar, sem hrundið er í framkvæmd af pólitískum flokkshagsmunum, munu frekar auka tortryggni á íslenzkri bankastarfsemi og peningamálum bæði innanlands og utan. En sú bankastarfsemi nýtur hvergi mikils trausts, sem látin er haga seglum eftir því, sem hinir pólitísku vindar blása hverju sinni. Frv. eru öll sniðin með það fyrir augum að koma fylgismönnum stjórnarinnar í ný embætti og gera bankastarfsemina að miklu meira leyti en hún hefur verið áður háða hinu pólitíska valdi. Í löndum, þar sem bankastarfsemin og peningamálin hafa verið algerlega lögð undir duttlunga þeirra stjórnmálaflokka, sem eru með völd hverju sinni, hafa fjármálin jafnan verið í ólestri og landið hefur skort algerlega fjárhagslega kjölfestu. Ég á þó ekki við hér, að framkvæmdavaldið eigi ekki að hafa nein áhrif á peningamálin. Það væri að sjálfsögðu með öllu óeðlilegt. En ríkisvaldið á ekki að geta notað hankana sem fótaþurrku til þess að uppfylla allar óskir, sem því kemur í hug, hversu fráleitar sem þær eru og jafnvel þótt þær séu gagnstæðar heilbrigðri fjármálastefnu.

Peningarnir, sem hankarnir hafa til umráða, eru sparifé þjóðarinnar, og þjóðin treystir þeim til að vernda þessa sparifjáreign sína gegn því, að eignin verði gerð verðlaus af ríkisvaldi á hverjum tíma, sem ef til vill skortir stefnu, framsýni og viðsýni í efnahagslegum málum.

Eins og hv. 5. þm. Reykv. gat um í sinni ræðu, var hér skipuð nefnd 1951, sem ég skipaði sem þáverandi bankamálaráðherra til þess að gera till. um stofnun sérstaks seðlabanka og gera aðrar breytingar á bankalöggjöfinni, sem þessari nefnd kynni að þykja nauðsyn á. Þessi tilraun stanzaði þá á mótstöðu Framsfl. Hann neitaði þá að verða með því, þegar til kastanna kom, að stofnaður yrði sérstakur seðlabanki, þó að hann í byrjun, þegar þetta mál var til umræðu í ríkisstj., væri því fylgjandi, að þessi mál væru sett í n. til þess að fá afgreiðslu hjá þinginu sama árið. Hver hin raunverulega ástæða flokksins var til þess að ganga á móti málinu þá, fékkst aldrei upplýst. Þessi tilraun rann því út í sandinn, en frá n. kom svo frv. um Framkvæmdabankann, sem að mestu leyti var samið af erlendum sérfræðingi, sem hingað hafði verið fenginn í því skyni.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé, að til sé í landinu bankastofnun, sem geti haft forustu og eftirlit með peningamálum þjóðarinnar, eins og tíðkast um þjóðbanka annarra landa. Slík stofnun á að hafa þá skyldu að taka í taumana, ef fjármálin virðast ætla að losna úr böndunum, og hún á með ráðstöfunum sínum að koma í veg fyrir erfiðleika, ef sýnilegt er, að kreppa er í aðsigi. M.ö.o.: hlutverk slíkrar stofnunar á að vera að vaka yfir því, að jafnvægi geti haldizt í efnahagsmálum þjóðarinnar. En skilyrði fyrir því, að slíkt megi takast, er, að þjóðbankinn sé ekki um of háður ríkisvaldinn. Rétt og heilbrigð fjármálastjórn getur stundum verið gersamlega andstæð stefnu hins pólitíska valds. Þá getur afkoma þjóðarinnar verið undir því komin, að heilbrigð skynsemi fái að ráða. Undir slíkum kringumstæðum á bankinn að geta haft vald til þess að stinga við fótum og jafnvel hafa á þann hátt vit fyrir þeirri ríkisstj., sem gengur í berhögg við heilbrigða fjármálastjórn. Þjóðbankinn á ekki að skipta um stjórn eða stefnu frá degi til dags, eins og vindurinn blæs í stjórnmálunum. Hann á að vera klettur í hafinu, sem stendur af sér öldurót stjórnmálanna og heldur vörð um sparaða fjármuni þjóðarinnar og verndar efnahagslífið fyrir áföllum, hvort sem þau áföll stafa af óviturlegri ráðsmennsku almennings eða lausbeizlaðri stefnu í stjórnmálum.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, ber allt með sér, að þeim flokkum, sem eru við völd, er ætlað að hafa úrslitaáhrif á stjórn bankans á hverjum tíma. Í 3. gr. frv. segir, að „forseti skipar aðalbankastjóra seðlabankans að fengnum tillögum bankaráðs“. Þetta: „að fengnum tillögum“ — ætti samkvæmt venju að vera svo, að forsetinn ráði því ekki, hver verður aðalbankastjóri í seðlabankanum, heldur sá ráðh., sem fer með þessi mál á hverjum tíma, ræður því, hvaða maður er í þessari stöðu. Það er ekki ljóst, eftir því sem ég get séð af frv., hvort aðalbankastjóranum er ætlað að vera háður sömu ákvæðum og hinum bankastjórunum um 12 mánaða uppsagnarfrest eða hvort hann á að vera ráðinn til lífstíðar. En ég vil benda á, að öll ákvæði, sem gera þessar ábyrgðarmiklu stöður í bankanum ótryggar, þótt menn hafi gegnt starfi sínu með sæmd, leiða til þess að gera bankann um of háðan pólitíska valdinu. Aðalgallinn er þó á þessu frv., eins og hv. 5. þm. Reykv. tók fram, að það er engin trygging fyrir því, að með frv. sé náð þeim tilgangi, sem í raun og veru er stefnt að. Og þeim tilgangi verður að mínu viti aldrei náð, fyrr en seðlabankinn er orðinn sjálfstæður þjóðbanki, en ekki samblöndun, eins og hann verður hér eftir, í viðskiptadeild og seðladeild. Og það versta, sem getur hent í sambandi við svona ráðstafanir, er að gera leik, ef svo mætti segja, með þjóðbankann og gera úr honum eitthvað, sem hvorki er fugl né fiskur.

Ég skal þá minnast lítillega á Útvegsbankann. Breytingin á Útvegsbankanum, að gera hann að þjóðbanka úr hlutafélagsbanka, er í sjálfu sér ekki óeðlileg, þar sem ríkisstj. eða sá ráðh., sem yfir þessum banka ræður, hefur farið með allt vald um val á stjórn bankans, frá því að hann var stofnaður. Hlutafé bankans er nú 7.3 millj. Af þessu hlutafé á ríkisstj. 6.4 millj. Bankinn sjálfur á 593 þús. og einstakir hluthafar eiga 307 þús., eða um 4% af hlutafénu. Af þessu er sýnilegt, að bankinn er í raun og veru þjóðbanki, þ.e.a.s. hann er ríkisbanki. Hann er í raun og veru eign ríkisins. Þó að hann að forminu til hafi í mörg ár verið hlutafélag, þá hafa þeir hluthafar, sem þarna standa að bankanum auk ríkissjóðs, ekkert haft að segja í stjórn eða framkvæmd bankans. Með hluthafa bankans hefur verið farið mjög illa frá öndverðu, og er þá vægt til orða tekið. Þeir hafa hvorki haft nokkuð að segja um stjórn bankans né fengið að njóta nokkurra hlunninda af hlutafé sínu umfram mjög lága sparisjóðsvexti. Ég tel það því horfa til bóta út af fyrir sig, að þessum hluthöfum er nú sýnd sanngirni með því, að þeir eiga að geta fengið sannvirði fyrir bréfin samkvæmt mati, en að sjálfsögðu eru eignir bankans nú orðnar talsvert miklar, og auðvitað verður tekið tillit til þess, þegar bréfin verða metin. Í raun og veru er því ekki um neina breytingu á bankanum að ræða aðra en þá, að í stað þess að bankaráðsmenn hafa undanfarið verið kosnir á aðalfundi af fulltrúa ráðherra, á nú að kjósa þá af Alþingi, og í stað þess að ríkissjóður ber nú aðeins ábyrgð á sparisjóðsinnstæðum í bankanum, þá kemur ríkissjóður hér eftir til þess að bera ábyrgð á öllum skuldbindingum bankans. Ég vil ekki segja, að þetta út af fyrir sig geri mikinn mismun, vegna þess að þegar ríkið á orðið 96% af hlutafénu og eignum bankans, þá mundi það, ef til kastanna kæmi, bera ábyrgð á skuldbindingum hans, ef á þyrfti að halda.

Ég get ekki lokið máli mínu án þess að minnast lítils háttar á Framkvæmdabankann, þó að breytingin á honum sé ekki mikil. Ég verð að segja það, að mér þykir mjög vafasamt, að Framkvæmdabankinn hafi tilverurétt í því formi, sem hann er nú. Hlutverk hans er í sjálfu sér mjög einfalt og þarfnast ekki mikils stjórnarbákns né umfangsmikils rekstrar. Og nú, þegar seðlabankinn verður settur undir sérstaka stjórn og tekur að sér hlutverk þjóðbankans, þá tel ég óviðfelldið, að þjóðbankinn sjái ekki um opinberar lántökur þjóðarinnar út á við, heldur geri Framkvæmdabankinn það. Framkvæmdabankinn er t.d. látinn taka Sogslánið, þó að hann hafi hvergi komið þar nærri, og tekur álitlega fjárfúlgu fyrir þá þjónustu. En því miður hefur ekki hin fyrsta ganga þessarar stofnunar verið eins heppileg og æskilegt hefði verið, og er af þeim ástæðum enn meiri nauðsyn að haga svo rekstri þessarar stofnunar í framtíðinni, að óhöppin endurtaki sig ekki. Ég hygg, að stofnunin sé rekin með miklu meiri kostnaði en nauðsyn krefur til þess að sinna þeim verkefnum, sem henni voru ætluð í öndverðu.

Ég sé, að hæstv. fjmrh. er ekki við í d., en ég hefði gjarnan vilja spyrja hann um, hversu mikill rekstrarkostnaður bankans hefur verið á síðasta ári. En kannske veit hæstv. menntmrh. það, því að hann er í framkvæmdaráði bankans.

Þótt sumt af þessum bankafrv. sé til bóta, bera þau þó með sér, að yfir bankastarfseminni og stjórn almennra peningamála vofir mikil hætta vegna hinna pólitísku áhrifa, sem, eins og nú sést, er ákaflega auðvelt að beita í ranga átt. Öll þessi mál eru nú að komast undir harðhenta pólitíska stjórn, og þau verða sýnilega að verulegu leyti í framtíðinni rekin með flokkspólitíska hagsmuni fyrir augum. Ef svo verður haldið áfram í framtíðinni eins og hér er til stofnað, þá má ætla, að örugg og heilbrigð fjármálastefna muni eiga hér erfitt uppdráttar í framtíðinni.