24.05.1957
Neðri deild: 105. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1650 í B-deild Alþingistíðinda. (1535)

177. mál, Landsbanki Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. frsm. meiri hl. fjhn. gat þess, að ég hefði um nokkuð veigamikið atriði verið á annarri skoðun en meðnefndarmenn mínir, eins og ég lét koma fram í nefndinni, og það er rétt, að ég geri stutta grein fyrir því.

Ég álít og hef lengi álitið og ekki farið neitt dult með það hér á Alþ., að það, sem bæri að stefna að í bankamálum Íslendinga, væri, að upp kæmi sjálfstæður seðlabanki, sem væri án allra tengsla við nokkurn viðskiptabanka. Ég álít þetta vera nauðsynlegt. Og mér þykir mjög leitt, að það skuli ekki hafa tekizt samkomulag um að skapa slíkan banka nú. Þetta hefur ekki aðeins verið álit mitt og þess flokks, sem ég tilheyri. Þetta hefur verið álit Alþfl. líka síðustu áratugina. Emil Jónsson, núverandi formaður flokksins, hv. þm. Hafnf., flutti frv. um þetta 1937, sem þá var undirbúið af skipulagsnefnd atvinnumálanna eða „Rauðku“. Og þetta hefur ekki aðeins verið álit verkalýðsflokkanna hér á Alþingi allan þennan tíma; þetta hefur líka verið álit þeirra færustu sérfræðinga, sem meira að segja ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsóknar hefur fengið til landsins til þess að athuga um þessi mál, og það ekki aðeins álit sérfræðinga frá Svíþjóð, sem létu fyrrum uppi þessi álit eftir beiðni vinstri stjórnarinnar 1934–37, heldur líka allt amerísku sérfræðinganna eins og Murphys, sem eindregið ráðlögðu að koma upp seðlabanka og gáfu þá ráðleggingu ríkisstjórn Sjálfstfl. og Framsóknar á sínum tíma.

Í fyrsta lagi álít ég, að seðlabanki eigi að vera sjálfstæður án allra tengsla við viðskiptabanka. Það er að vísu stefnt nokkuð í þá átt og nokkurt spor stigið í þá átt með því, sem nú er gert, þannig að nú verði ekki lengur sömu bankastjórarnir fyrir seðladeild og sparisjóðsdeild Landsbankans, eins og verið hefur undanfarið, sem ég álit að hafi verið mjög slæmt fyrirkomulag, þannig að þarna er stigið þó nokkurt spor í rétta átt, spor, sem fyrst er stigið nú, þó að — eins og ég heyri nú á fulltrúum Sjálfstfl. — þeir þykist hafa verið sammála slíkri stefnu, og fór þó lítið fyrir því, þegar við forðum daga áttum nokkurt samstarf við Sjálfstfl. Í fyrsta lagi álít ég því, að það beri að stefna að því, og ég vil taka það fram í sambandi við þetta, þó að ekki sé stigið nema nokkurt spor í þá átt nú, að við höfum sjálfstæðan seðlabanka hér án allra tengsla við viðskiptabanka.

Í öðru lagi: Ég álit, að seðlabanki eigi að reka sína efnahagspólitík í samræmi við pólitík ríkisstjórnarinnar, og það vil ég leggja áherzlu á, alveg þveröfugt við það, sem hv. 2. þm. Reykv. var að segja nú.

Sá, sem ber ábyrgð á efnahagspólitík eins lands, eins og ríkisstj. á Íslandi gerir, á að ráða efnahagspólitíkinni, hún á að bera ábyrgð á henni gagnvart almenningi. Það er það', sem er lýðræði og þingræði. Hún á að standa reikningsskil, þegar kosningar fara fram. En hún á ekki að þurfa að beygja sig undir vald einhverra embættismanna í þjóðfélaginu, sem hafa sem prívatmenn einhverja allt aðra skoðun og leyfa sér í krafti þess, að þeir eru embættismenn, sem ráða peningastofnun, að ætla að reyna að þvinga upp á eina ríkisstj. allt annarri pólitík en þeirri, sem þing og þjóðkjörin ríkisstj. vill hafa. Þetta vil ég taka skýrt fram.

Það á ekki að vera til neitt bankavald í okkar þjóðfélagi, sem sé óháð þjóð, þingi og ríkisstjórn. Það á ekki að vera til neitt embættismannavald, sem ekki sé gefið undir fólkið sjálft og þess rétt kjörnu fulltrúa og þess ríkisstjórn. Og að því álít ég að eigi að stefna. Það er ekki hægt að stjórna landi eins og Íslandi, þar sem öll efnahagspólitíkin er ákveðin af Alþingi og ríkisstjórn, svo að vel fari og svo að það komi fram, hver það er, sem ábyrgðina ber, ef það eru tvö völd í landinu og ef einhver lítil embættismannaklíka getur svo að segja sett ríkisstj. stólinn fyrir dyrnar. Það er ríkisstj., sem ber ábyrgð gagnvart þjóðinni og þinginu á pólitíkinni, sem rekin er, og hún verður að hafa þá aðstöðu að geta séð um, að hennar efnahagspólitík sé framkvæmd. Tvö völd í landinu eru í þessu tilfelli algerlega óþolandi.

Mér skildist á hv. 2. þm. Reykv. hér áðan, að hann vildi meina, að pólitíkinni, — og ég var nú dálítið hissa á honum sem stjórnmálamanni að tala svona illa um pólitík, — að pólitíkinni hætti eitthvað við að vera sérstaklega óskynsöm og óheilbrigð. Og hann virtist mega líta svo á sem í þjóðbankanum réði alltaf heilbrigð skynsemi og þar þyrfti að stinga við fótum; bankinn þyrfti að stinga við fótum, ef fulltrúar þjóðarinnar og ríkisstj. kynnu ekki fótum sínum forráð. M.ö.o.: hv. 2. þm. Reykv. virðist hafa allmiklu meiri trú á þeim embættismönnum, sem séu settir til að stjórna peningastofnun, sem þjóðin á, heldur en á þjóðinni sjálfri, Alþingi hennar og ríkisstjórn hennar, og virðist álíta, að undir slíkum kringumstæðum séu það embættismennirnir, skriffinnarnir, sem eigi að stjórna, þeir séu ímynd og fulltrúar heilbrigðrar skynsemi og þeim beri að hafa vit fyrir ríkisstj., sem sé alveg viss með að flana út í einhvern fjanda.

Ég hef ofur litla reynslu af því, hvernig þetta er. Ég hef sjálfur staðið í því hér á Alþingi að þurfa að reyna að koma í gegn eins smáu máli og því að fá stofnaða eina stofnlánadeild, til þess að það væri hægt að kaupa þá 30 togara til landsins og nokkurn bátaflota, sem stofnað var til 1945, og það var ekki hægt að fá samkomulag við þjóðbankann um að stofna þetta, það þurfti fyrst hálfs árs baráttu utan þings og síðan að kúska það meira eða minna hérna á Alþingi og gefa þó eftir í því sambandi.

Það var líklega bankavaldið, sem var þar fulltrúi heilbrigðrar skynsemi, sem stóð á móti því, að það væru keyptir togarar til landsins, þegar stjórnmálavaldið, þegar Alþingi og ríkisstj. hafði vít fyrir bönkunum um þetta. Það sýndi sig, að það var ríkisstj. og Alþingi, sem stóð vörð um efnahagslega hagsmuni, en það var bankavaldið, sem hvorki skildi upp né niður í efnahagsmálum þjóðarinnar, og það er jafnvel til enn þá, að menn, sem eru að gera út hér á Íslandi, fái þau svör hjá bankastjórum, að sagt sé við þá: Hvern fjandann ertu að fást við að gera þetta út? — Nei, ég held það sé ekki vert að vera að taka undir það sem stundum kemur nú hjá almenningi um að skamma pólitíkina þannig.

Við skulum samt gá að því, að meira að segja Landsbankinn sjálfur er upphaflega myndaður af þessari pólitísku stofnun, Alþingi, og er eingöngu til fyrir hennar vald, og Alþingi hefur ekki skapað hana til þess að kjósa sér neinn einræðisherra yfir sig, heldur til þess að ráða sjálft málum þjóðarinnar. Ég vil þess vegna taka það fram, og það er mín meining líka með þessum lögum, sem hér eru samþykkt, að seðlabanki á að reka sína efnahagspólitík í samræmi við pólitík ríkisstj. Og ef hv. 2. þm. Reykv. heldur, að þetta sé einhver sósíalistísk kenning og aðeins einhverjir voðalegir uppreisnarmenn, sem séu að gerbylta bankamálunum og stofna öllu í hættu, þá vil ég segja honum, af því að ég býst við, að það huggi hann, að slík till. er beinlínis till. þess sérfræðings, sem ríkisstj., sem hann stóð að og Framsfl., fékk hingað til landsins til að gefa álit um, hvernig ætti að koma fyrir bankamálum landsins. Náttúrlega var sá sérfræðingur amerískur, og í hans till., þ.e. till. Murphys, segir alveg beinlínis í íslenzku þýðingunni, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Augljóst er samt, að Íslandi ber ávallt að hafa eina samræmda allsherjarstefnu í efnahagsmálum, og þá stefnu ber þeirri ríkisstj., sem með völd fer á hverjum tíma, að ákveða.“ Hv. 2. þm. Reykv., sem hér talar um, að bankarnir eigi að hafa einhverja forsjá með ríkisstj. og Alþingi, hugsar enn þá aftur í 19. öld, þegar einkabankar í Evrópu, sem nokkrir ríkir menn áttu, gátu sett þjóðþingi og ríkisstj. stólinn fyrir dyrnar. Sá tími er liðinn. Það er nú almenningur, það er nú þjóðin eða þingið og ríkisstj., sem ákveða þessa hluti. Hins þekkir maður til, að þar sem hafa verið einkabankar enn með mikil völd á undanförnum áratugum, hefur þeim bönkum þótt gott að geta notað sitt vald til þess m.a. að bola þeim stjórnum frá, sem verkalýðshreyfingin að einhverju leyti hefur staðið að. Meira að segja til þess að leggja enn þá betri áherzlu á þetta, segir Murphy í þessari sömu skýrslu sinni, með leyfi hæstv. forseta: „Hér skal það tekið fram, að enda þótt lagt sé til, að bankinn verði armur ríkisvaldsins og í öllum úrslitum algerlega undir ríkisvaldið settur, þá er hér lagt til, að hann verði ekki armur fjmrh. eða nokkurs sérstaks ráðuneytis, heldur ber hann eingöngu ábyrgð gagnvart ríkisstj. í heild.“

Ég les þetta aðeins upp til þess, ef verða mætti, að sannfæra hv. 2. þm. Reykv. um, að það eru ekki bara einhverjir galgopar, sem vilja stofna bankamálunum í voða, sem vilja tengja þarna ríkisstj. og seðlabanka miklu nánar og tryggja, að það sé ein samfelld og samræmd efnahagspólitík, heldur beinlínis alþjóðabankinn og sá erindreki, sem sú stjórn, sem hann stóð að, fékk hingað til lands til þess að ráðleggja ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsóknar í þessum bankamálum.

Ég álít í þriðja lagi, að það, sem ætti að stefna að í bankamálum, væri sameining seðlabankans og Framkvæmdabankans. Framkvæmdabankinn var á sínum tíma myndaður af ríkisstj. Sjálfstfl. og Framsfl. Ég álít þá myndun hafa verið óeðlilega og var á móti henni, og ég álít, að eigi að stefna að því að samræma þetta. Og ég vil enn fremur taka fram, að ég álít, að það ætti að vera hlutverk seðlabanka, ef það er ekki hlutverk einhverrar annarrar stofnunar, að búa til áætlanir um okkar þjóðarbúskap fram í tímann í samráði við ríkisstj., það sé eðlilegt hlutverk, sem slíkum aðila sé ætlað.

Það mætti náttúrlega margt fara að deila um í sambandi við bankamálin, en ég skal ekki fara út í þau mál hér að öðru leyti. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, vegna þess að það, sem fyrir mér er höfuðatriði í sambandi við þetta, er, hvert sé verið að stefna í þessum málum. Ég hefði kosið, að það hefði verið stigið fullt spor í þá átt að mynda hér sjálfstæðan seðlabanka, sem hefði slíkt samstarf við ríkisstj. og samræmdi sína stefnu hennar stefnu, eins og ég hef greint frá. Ég álít, að það hefði verið æskilegast. Hins vegar er það frv., sem hér liggur fyrir, stórt spor í rétta átt, og þar sem þessi mál hafa nú staðið óhreyfð svona lengi og ég hef sjálfur reynsluna af, hve erfitt hefur verið að þoka þeim, þó að hinir ýmsu flokkar hafi átt á undanförnum áratugum samstarf á víxl, þá verð ég að segja, að það er þó gott, að það skuli þó hafa fengizt fram að fara að mjakast í rétta átt, eins og gert er með þessu.