24.05.1957
Neðri deild: 107. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1668 í B-deild Alþingistíðinda. (1547)

177. mál, Landsbanki Íslands

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls fyrr í dag lét ég það eftir hv. stjórnarandstæðingum að nefna fyrir þá eitt glöggt og mjög skýrt dæmi um það, hvernig misrétti, sem ríkt hefur í útlánum bankanna vegna algerra yfirráða sjálfstæðismanna, hefur komið fram á einu tilteknu bæjarfélagi í þessu landi. Ég nefndi, að útlán þriggja höfuðbankanna til sveitarfélaga væru 112.6 millj., og skýrði frá því, að af þessum 112.6 millj. hefði þriðja stærsta bæjarfélag landsins, Hafnarfjörður, ekki nema 0.3 millj. Ég tók það fram, að í þessum tölum væru alls ekki sérstök atvinnufyrirtæki þessara bæja, eins og togaraútgerð, og mér virtist þeir tveir hv. sjálfstæðismenn, sem töluðu á eftir mér, hafa skilið þetta. En hv. þm. A-Húnv. hefur auðsýnilega ekki áttað sig á þessu atriði, því að nú kemur hann hér í kvöld með þær upplýsingar, að ég hafi farið þarna með fleipur og vitleysu, því að Hafnfirðingar hafi fengið 31/2 millj. að láni í Landsbankanum fyrir einu ári. En þetta lán var til frystihússins, sem bæjarútgerð Hafnarfjarðar á, og lán til frystihúsa og útgerðar eru ekki flokkuð í bönkunum sem lán til sveitarfélaga, hvort sem það eru elnstaklingar eða bæjarfélög, sem eiga þessi fyrirtæki. Þau eru flokkuð sem lán til sjávarútgerðar og fiskvinnslu. Þess vegna kemur þetta málinu ekkert við. Það stendur óhaggað, að af 112.6 millj., sem þessir bankar hafa lánað til sveitarfélaga, til hinna venjulegu sveitarfélagaþarfa og framkvæmda, hafa Hafnfirðingar ekki fengið nema 0.3 millj.

Hv. 2. þm. Reykv. (BÓ) hefur gert sér mikinn mat úr því, að líklega skuldi Hafnfirðingar ekki nema 0.3 millj., og megi þakka fyrir það, — það sé sjálfstæðismönnum að þakka, að bærinn skuldi svona lítið. Því miður skuldar Hafnarfjarðarbær töluvert miklu meira en þetta, rétt eins og hver einasti aðili, sem hefur orðið að standa í miklum framkvæmdum á síðustu árum. En þetta er táknrænt dæmi um, hvernig það er fyrir þá aðila, sem ekki eru í náð Sjálfstfl., að fá lán í bönkum hér á landi. Hafnarf jarðarbæ vantar vatnsveitu mjög alvarlega. Það er svo alvarlegt mál, að ekki er víst, að frystihúsið nýja geti tekið til starfa, fyrr en hún er komin. Þetta er framkvæmd, sem sennilega mun kosta um eða yfir 2 millj. Hafnfirðingar, forráðamenn bæjarins, gengu banka úr banka í Reykjavík viku eftir viku, áttu fund eftir fund með bankastjórum og báðu þó ekki um nema 400 þús. kr. upp í kostnað þessa nauðsynlega fyrirtækis. Árangurinn var sá, að þeir fengu loksins í Útvegsbankanum ekki 400 þús., sem var þó ekki nema brot af því, sem þurfti til framkvæmdarinnar, heldur 150 þús. Og halda menn, að það hafi verið langt og gott lán í svo nauðsynlega bæjarframkvæmd? Nei, það skyldi greiðast á sex mánuðum. Mér kæmi ekki á óvart, þótt búið væri að greiða meiri hlutann af því nú þegar.

Það er því augljóst, að þessi aðili og tugir eða hundruð annarra aðila, sem sjálfstæðismenn hafa ekki meiri þóknun á en Hafnarfjarðarbæ, hafa orðið að heyja slíka baráttu fyrir lánsfé, sem allir verða þó að viðurkenna að er til nauðsynlegustu framkvæmda fyrir bæjarfélög og um leið atvinnulíf þeirra.

Hv. 2. þm. Reykv. skaut því hér fram, hvers vegna Hafnfirðingar hefðu ekki farið til vina sinna í Búnaðarbankanum og fengið hjá þeim lán. Ég skal upplýsa hann um það, að þetta er nákvæmlega það, sem þeir hafa gert. Af þessum 350 þús. kr., sem þeir hafa getað herjað út úr þremur höfuðbönkum þjóðarinnar, eru 250 þús. úr Búnaðarbankanum, þeim eina, sem sjálfstæðismenn ráða ekki. Sé þessi litla upphæð tekin og athuguð, þá verður hlutur sjálfstæðismanna enn minni, ef hún er skorin niður og henni er skipt á þá banka, sem hafa lánað hana. Hins vegar eru sem betur fer fleiri aðilar, sem hafa örlítil fjárráð í þessu landi, heldur en þessir þrír bankar, enda veit ég ekki, hvernig bæjarfélög eins og Hafnarfjörður hefðu farið að, ef svo væri ekki. Það eru ekki sjálfstæðisbankastjórarnir í stærstu bönkum þjóðarinnar, sem bjarga þessari vatnsveitu fyrir Hafnfirðinga. Það verða fyrirtæki eins og Brunabótafélagið, sem gera það. Þar er meiri skilningi að mæta og e.t.v. tilviljun, að þessi framkvæmd er þess eðlis, að Brunabótafélagið má lána til hennar.

Af þessum frekari skýringum, sem hv. 2. þm. Reykv. auglýsti eftir og hér eru fram komnar, hlýtur að verða ljóst, að það, sem ég sagði í upphafi, stendur óhaggað. Þetta eina dæmi, sem sjálfstæðismenn eru nú þrír hver af öðrum búnir að standa upp, einu sinni og tvisvar hver, til þess að reyna að hrekja, stendur óhaggað. Og það hefur ekki í þessum umr. þurft nema þetta eina dæmi, sem svo augljóst er, til að sanna, að sú höfuðröksemd, sem færð er fram fyrir þeim breytingum á bönkunum, sem verið er að gera, á rétt á sér. Framkoma sjálfstæðismanna á undanförnum árum, þegar þeir hafa sölsað undir sig óeðlilega mikil yfirráð yfir bönkunum, afnot þeirra og misnotkun á þessari aðstöðu, hefur gert þennan eftirleik algerlega óhjákvæmilegan.