24.05.1957
Neðri deild: 107. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1670 í B-deild Alþingistíðinda. (1548)

177. mál, Landsbanki Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Reykv. (BÓ) vék nokkrum orðum til mín hér áðan út af því, sem ég hafði sagt til hans í dag í sambandi við þá almennu stefnu í bankamálum. Mér hefur skilizt á honum, að Sjálfstfl. væri á því, að það ætti að stofna sjálfstæðan seðlabanka, og jafnvel væri ekki fjarri, að sumir fleiri sjálfstæðismenn tækju undir þetta. Hins vegar rynni hv. 2. þm. til rifja, hve verkalýðsflokkarnir væru kúgaðir af Framsókn, að þeir skyldu nú ekki geta gert meira en það að setja seðladeildina undir sérstaka stjórn. Má ég þá spyrja: Þegar Sjálfstfl. með sinn áhuga á að fá sjálfstæðan seðlabanka hafði forustu fyrir ríkisstj. og var stærri flokkur jafnvel í ríkisstjórn en Framsókn, kom þá hans mikli áhugi og það, að hann var frjáls og hvergi kúgaður, fram í því að geta ekki einu sinni stigið þetta litla spor, sem er þó stigið nú, í áttina til þess að fá seðlabanka sjálfstæðan, það spor að setja hann undir sérstaka stjórn?

Ég held, að hv. 2. þm. Reykv. eigi ekkert að vera að finna svona mikið til með okkur og okkar vesalmennsku í þessu, fyrst hans bardagakraftur og hans flokks var það mikill í þessum málum, að hann fékk aldrei neinu áorkað.

Þá talaði hv. þm. um, að ég talaði hér um, að ríkisstj. ætti á öllum tíma að ráða bönkunum, þeirra útlánum og hvað þeir gerðu. Það var rangt hjá honum. Það, sem ég sagði, var, að seðlabankinn ætti að reka sína efnahagspólitík í samræmi við pólitík ríkisstj., m.ö.o.: að það ætti að vera ein efnahagspólitík í landinu, en ekki tvær, að það ætti að vera einn aðill í landinu, þ.e. Alþingi og þess ríkisstj., það þýðir þjóðin, sem réði á hverjum tíma, hvers konar efnahagspólitík væri rekin, og seðlabankinn ætti að reka slíka pólitík, ætti að hafa póltík, sem væri í samræmi við þá pólitík, sem ríkisstj. hefði. Það þýðir hins vegar alls ekki, það hef ég aldrei sagt og er alveg á móti, að ríkisstj. sem slík eigi að hafa og stjórna sjálfum útlánum viðskiptabankanna. Og það hefur enginn sagt, að ríkisstj. sem slík ætti að gera það.

Ég er hræddur um, að hv. 2. þm. Reykv. geri ekki í sínum hug þann mun á seðlabanka og hans pólitík, hans efnahagsstefnu og almennri viðskiptapólitík viðskiptabankanna eins og ber að gera. Ég vitnaði hér í dag ekki aðeins í það, sem verkalýðsflokkarnir á Íslandi hefðu áður barizt fyrir í þessum efnum, heldur meira að segja það, sem amerískir sérfræðingar þeirrar stjórnar, sem hv. 2. þm. Reykv. stóð að, hefðu lagt til í þessum málum og gekk í sömu átt og var rannar hið sama og það, sem við höfðum lagt til, bæði Alþýðubandalagið og Alþfl. Hitt er svo annað mál, að á hverjum tíma er það samningamál innan ríkisstj., hve langt tekst að koma fram málum hinna ýmsu flokka. Og ef Sjálfstfl. hefur aldrei getað fengið Framsókn til að gera neitt í sínu máli viðvíkjandi bönkunum, þá mætti hv. 2. þm. Reykv. frekar vera hrifinn af, að við höfum þó fengið hana út í þetta, þó að við værum náttúrlega með þessa bölvaða kröfuhörku að vilja alltaf fá meira og meira, eins og við höfum verið að lýsa.

Svo kom hv. þm. með það, að það væri nú víst ekki rétt efnilegt með afskipti flokks, sem ég tilheyrði, eins og Alþb., þegar við færum nú að skipta okkur af bönkunum og að fá að ráða einhverju þar. Ég tók það hér fram í dag, að ég hefði í það eina skipti, sem ég hef haft einhver afskipti af ríkisstj., fyrir utan nú, haft nokkur afskipti af bönkum, þau afskipti að fá Alþ. til að samþykkja lög, sem breyttu nokkuð bankakerfi, eftir að hafa orðið að berjast fyrir í heilt ár við bankana að fá það í gegn og það þó að meiri hl. Sjálfstfl. stæði þá með mér í þeirri baráttu. Og ég held, að hv. 2. þm. Reykv. geti ekki sýnt fram á, að þau afskipti hafi verið til ills, heldur þvert á móti hafi þau verið til góðs, þannig að flestallir menn á landinu og jafnvel Sjálfstfl. sjálfur hælir sér af því núna, að slíkt skuli hafa verið gert, þó að það hafi orðið að knýja vissan hluta af Sjálfstfl. þá til þess og jafnvel að gera það í óvilja þeirra, sem stóðu á móti þeirri stjórn, sem Sjálfstfl. þá myndaði. Það, sem hefur alltaf verið erfitt í sambandi við þá menn, sem nánast eru tengdir bönkunum í Sjálfstfl., er að fá þá til þess að skilja, að sköpun verðmætanna sé aðalatriðið í þjóðfélaginu og það sé þýðingarmikið fyrir banka að lána íslenzka peninga til þess að gera íslenzkum aðilum mögulegt að kaupa togara og báta, sem framleiða gjaldeyri, þegar meira að segja er nægur gjaldeyrir til erlendis til þess að kaupa þá. Það átti viss hluti úr Sjálfstfl. þá bágt með að skilja, að það væri praktísk efnahagspólitík, og móti því stóðu þeir, sem stjórnuðu bönkunum þá. Og hv. þm. virðist eiga erfitt með að skilja þetta í fleiri samböndum. Hann minntist á tíma, þegar 100 þús. kr. voru nokkurt verðmæti, og þá hafi verið bæjarfulltrúi í Reykjavik, sem hafi heimtað 100 þús. kr. út úr bönkunum, jafnvel oftar en einu sinni, til þess að láta menn vinna fyrir. Ætli það hefði nú ekki verið nær fyrir hv. þm. að minnast ekki á slíkt. Ég hef ekki orðið var við, að Sjálfstfl. kæri sig um, að það sé minnzt á, að það skuli hafa orðið að verða allt að því blóðugar óeirðir í Reykjavík fyrir 35 árum til þess að knýja það fram, að menn gætu fengið vinnu eina viku af fjórum og að það væri ekki lækkað við þá kaupið í þeirri vinnu. Það virtist þá stundum erfitt fyrir þessa menn að skilja, að það eru hendur mannanna, sem skapa verðmætið í þjóðfélaginu, og að jafnóðum sem þær skapa þetta verðmæti, þá kemur þetta verðmæti inn í bankana aftur sem peningar. Meira að segja þegar Landsbankinn var kúgaður til þess fyrir 13 árum að lána 100 millj. kr. til þess að kaupa togara, þá komu þeir peningar margfaldir inn í bankann aftur og hafa gert það á öllum þessum árum, og á því hefur bankinn lifað og grætt síðan, að hann var kúgaður þá. En hitt er satt, að það er ljótt, að það ástand skuli vera til, að menn skuli þurfi að rísa upp í bæjarstjórn til þess að heimta það, að 100 þús. kr. sé varið til þess, að menn, sem eru atvinnulausir, fái að vinna og fái að skapa verðmæti fyrir þjóðfélagið.

Hv. 2. þm. Reykv. virðist hins vegar eiga ákaflega erfitt með að skilja þetta. Hann man máske meira að segja eftir því seinast, þegar hann var ráðherra, að þá urðu verkamenn að ganga í hópgöngu neðan af hafnarbakka upp í Arnarhvol til hans til þess að sanna honum, að það væri atvinnuleysi í Reykjavík, eftir að hann hafði sjálfur hér úr ráðherrastóli lýst því yfir, að atvinnuleysi væri hér ekki til. Hann man kannske líka eftir, að honum er ef til vill ekki alls varnað um að vilja, að ríkisstj. hafi afskipti af bönkum. Það eru bara dálítið sérstakrar tegundar afskipti, sem hann vill láta ríkisstjórn hafa af bönkum. Eða hvort man hann eftir því sem ráðherra að hafa skrifað Landsbanka Íslands bréf, þar sem hann lagði fyrir Landsbankann að stilla mjög í hóf útlánum til húsbygginga? Og þegar ég sem þingmaður, þáverandi 2. þm. Reykv., hvað eftir annað hvatti hann til þess að lesa þetta bréf fyrir þingheimi, þá fékkst bréfið aldrei fram. Var það þó á því ári, sem minnst hefur verið lánað til húsbygginga af öllum undanförnum 15 árum og minnst verið byggt í Reykjavík og þar að auki atvinnuleysi í bænum. Þá sá hv. 2. þm. Reykv. sem ráðherra ástæðu til þess, að ríkisstj. hefði bein afskipti, ekki af seðlabanka og að ráða hans efnahagspólitík, heldur af hinu, að áminna Landsbankann sem viðskiptabanka um að stilla í hóf útlánum til húsbygginga, þegar svo var dregið úr öllum útlánum af hálfu bankastjóranna, að öll vinna við slíkt og framleiðsla á húsum var minnkuð úr hófi fram. Það fannst samt hv. núverandi 2. þm. Reykv. of mikið.

Ég held þess vegna, að við ættum ekki að fara út í almennar umr. um efnahagspólitík, hvorki hankanna né ríkisstj., á undanförnum árum. Ég hef nefnt þau afskipti sem ég hafði af efnahagspólitík banka og ríkisstjórnar seinast þegar ég hafði eitthvað með ríkisstj. að gera, og ég vil minna hv. 3. þm. Reykv. á, hvernig efnahagspólitíkin hefur verið síðan, þegar Sjálfstfl. hefur setið í ríkisstj. og meira eða minna ráðið bönkunum. Efnahagspólitíkin og undirbyggingin á atvinnulífi landsmanna hefur verið þannig, að í þau 8 ár hefur ekki verið keyptur einn einasti nýr togari til landsins til viðbótar þeim flota, sem fyrir var, en það hafa verið keyptir 5004 bílar. Þetta er efnahagspólitík Sjálfstfl. í ríkisstj. og í bönkum. Ég held, að þeim flokki farist ekki að tala um, að það stafi nein hætta af því, þó að við, sem höfum átt aðalþáttinn í að skapa núverandi efnahagsundirstöðu undir atvinnulífið á Íslandi, komum nærri því að kunna að hafa einhver áhrif á, hvernig efnahagslífið verður á næstu 10 árum.