24.05.1957
Neðri deild: 107. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (1552)

177. mál, Landsbanki Íslands

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég er hræddur um, að ef sjálfstæðismenn tryðu því, að það væri augljóst öllum, sem heyra, að ég fari með fleipur, þá hefði ekki þurft fjóra af reyndustu og voldugustu þm. flokksins til að standa upp hver á fætur öðrum til að reyna að hrekja þessi fáu orð mín.

Hv. síðasti ræðumaður hélt, að hann hefði kálað mér að fullu, þegar hann skýrði frá því, að formaður í bankaráði Útvegsbankans væri Alþfl.-maður. Hann nefndi ekki nafnið, en það er Stefán Jóh. Stefánsson. Var Stefán að níðast á Hafnarfirði, þegar Hafnarfjörður fékk ekki lán í Útvegsbankanum? spurði hv. þm. Nú hafa sjálfstæðismenn sjálfir sagt, að bankaráðin taki ekki ákvarðanir um lánveitingar. Það sannast af þessu dæmi, að Stefán hefur ekki ráðið við íhaldsbankastjórana í Útvegsbankanum, vegna þess að hann beitti sér fyrir því, að fyrirtæki, sem hann sjálfur stjórnar, Brunabótafélagið, lánaði 700 þús. kr. í þessa vatnsveituframkvæmd, eftir að bankastjórar sjálfstæðismanna í Útvegsbankanum voru búnir að vísa Hafnfirðingum á dyr. Það var þessi sami maður sem bjargaði málinu.

Það skín út úr hv. sjálfstæðismönnum ánægjan yfir því, að Hafnfirðingar skuli ekki hafa fengið meira lán og fjárhagur þeirra hljóti að vera ágætur. Það væri líklega bara ógæfa fyrir þá, ef þeir hefðu getað fengið meiri lán. En ég er hræddur um, að íbúar Hafnarfjarðar muni telja það meiri ógæfu, ef skortir vatn í bænum. Enn er hér leikinn sami skollaleikurinn: sjálfstæðismenn í bönkunum neita Hafnfirðingum um lán til að koma sér upp vatnsveitu; svo tala þeir hér í allan vetur um bæjarhverfi, sem er kallað „allsleysa,“ í Hafnarfirði. Af hverju er það „allsleysa“? Af því að það vantar vatn. Og af hverju vantar vatn? Af því að þessir sömu menn, sem eru að auglýsa þetta bæjarhverfi hér í þinginu, neita um lán til þess að koma vatninu þangað.

H. 1. þm. Rang. (IngJ) var kominn inn á nokkuð raunhæfar brautir. Þegar hann ætlaði að byrja að hrekja mitt mál, kom hann með nákvæmlega þær röksemdir, sem við höfum alltaf sagt að væru ráðandi í hugum sjálfstæðismanna. Hann fór að tala um þetta pólitískt og segja: ja, það væri vitlaust fyrir okkur að lána ekki Hafnfirðingum, því að þá mundum við tapa atkvæðum þar. — Þarna kom það einmitt, — svona er hugsað um þessi mál. En hann lagði dæmið rangt fyrir. Ég spái því, að þeir hafi hugsað svo: Ef við neitum Hafnarfjarðarbæ um lán í vatnið, þá verða bæjarstjórnin og kratarnir skammaðir, og þeir tapa atkvæðum. Ef við lánum peninga í frystihúsið, þá er það ríkisstj., sem gengst fyrir því, hún fær lof fyrir það, og við vinnum atkvæði. Hefur það verið svo, að sjálfstæðismenn níðast á og skamma bæjarstjórnina í Hafnarfirði fyrir allt, þ. á m. vatnsleysið, en þeir hæla sjálfum sér og fyrrv. ríkisstj. fyrir að eiga þátt í að koma þessu frystihúsi upp.

Þannig er þessi röksemd, sem hv. 1. þm. Rang. leiddi inn í umr., þegar hún er séð frá öðrum bæjardyrum en hans. Eftirleikurinn getur orðið annar en til er stofnað, þegar menn byrja að hleypa út úr huga sínum þeim röksemdum, sem ég er nú hræddur um að ráði að jafnaði mestu, þegar þessir menn beita sínu valdi í bönkunum.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð, enda er ég búinn með þann tíma, sem ég má nota, og meira en það. En ég sé ekki betur en þessir fjórir merku sjálfstæðisþingmenn hafi ekki getað hnekkt þeirri staðreynd, að af 112 millj. kr. lánveitingum til sveitarstjórnarmála í landinu hefur þriðja stærsta sveitarfélagið ekki fengið nema 0.3. Það stendur óhaggað.