24.05.1957
Neðri deild: 107. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1680 í B-deild Alþingistíðinda. (1553)

177. mál, Landsbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég held, að almennar umr. um bankapólitík, eins og nokkuð hefur verið farið inn á hér, eigi lítinn rétt á sér í sambandi við þau frv., sem hér hafa verið flutt af hæstv. ríkisstj., því að þau marka enga almenna bankapólitík, þau eru flutt til þess að koma tilteknum mönnum úr stjórnarliðinu að tilteknum embættum, og ber því fyrst og fremst að ræða þau út frá því sjónarmiði. Það væri að gera þeim allt of hátt undir höfði að ræða þau út frá öðru sjónarmiði.

Eina dæmið, sem hér í dag hefur verið nefnt af hálfu stjórnarsinna um misbeitingu pólitísks valds sjálfstæðismanna í bönkunum, er okkur sjálfstæðismönnum ótrúlega mikils virði. Hv. 5. landsk. er búinn að halda hér 4 ræður, og það kveður við í ræðunum: dæmið, sem ég nefndi, stendur alveg óhaggað. Dæmið, sem hv. 5. landsk. nefndi, stendur alveg óhaggað að því leyti, að menn geta látið það liggja milli hluta, hvort rétt sé nefnd tala hans um skuldir eða lánveitingar bankanna til Hafnarfjarðarkaupstaðar, það skiptir engu máli í þessu sambandi og því, sem hér er verið að deila um. Hv. 5. landsk. þm. segir, að það, að Hafnarfjarðarkaupstaður hafi ekki nema 350 þús. kr. lán frá bönkunum af 112 millj. kr. lánum, sé glöggt dæmi um, hvernig misrétti eigi sér stað í bönkunum vegna aðstöðu sjálfstæðismanna. Hann hefur ekki gert minnstu tilraun til þess að sýna fram á, að það sé sjálfstæðismönnum eða meirihlutavaldi þeirra að kenna, að Hafnarfjörður hefur ekki meiri lán í bönkunum heldur en um er að ræða.

Ef þetta dæmi ætti að hafa nokkurt gildi í þeim umr., sem hér er um að ræða, hvort sjálfstæðismenn hafa misbeitt sínu valdi, þá yrði að sýna fram á það, eins og ég hef áður sagt: Hvenær hafa sjálfstæðismenn notað meirihlutavald sitt til þess að hindra lánveitingar til Hafnarfjarðar, og eru lánveitingarnar til Hafnarfjarðarbæjar minni nú, eftir að fleiri sjálfstæðismenn eru í bankastjórastöðum í bönkunum en áður var? Þetta hefur hv. 5. landsk. algerlega yfirsézt, og þetta er það eina, sem skiptir máli í sambandi við deilur um þessi mál. Það eina, hvort hann geti með rökum sýnt fram á, að sjálfstæðismenn hafi notað aðstöðu sína til að hindra lánveitingar til Hafnarfjarðarbæjar, hefur hann ekki gert tilraun til að sýna fram á, eða hvort lánveitingar til Hafnarfjarðarbæjar hafi orðið þeim mun minni sem áhrif sjálfstæðismanna eða aðstaða í bönkunum hefur orðið meiri. Ekkert liggur fyrir um það, og hv. þm. hefur ekki gert tilraun til að sýna neitt fram á um það.

Þess vegna er það rétt, sem hann segir. Af því að menn hafa ekki vefengt tölur að öðru leyti en því, að náttúrlega hv. þm. A-Húnv. sýndi fram á allt aðrar tölur, stendur óhaggað, sem hann sagði; það má standa alveg nákvæmlega óhaggað, það skiptir ekkert verulegu máli í þessu sambandi, vegna þess að það, sem þessi hv. þm. sagði, sker ekki á nokkurn hátt úr um það, sem hér var verið um að deila, og alveg sama, hvort talan er rétt eða röng, hvort það eru 350 þús. eða 31/2 millj., vegna þess að hvort sem það eru 350 þús. eða 31/2 millj., þá hefur ekki verið sýnt fram á, að það sé sjálfstæðismönnum eða ofríki eða meirihlutaaðstöðu þeirra að kenna, að upphæðin sé annaðhvort þetta lítil eða þetta mikil.

Þessi hv. þm. minntist á lán til vatnsveitunnar. Það verður óendanlega haldlítið, þegar farið er að tala um einstakar lánveitingar eins og þessar. Það hefur verið í lögum Útvegsbankans og er í 2. gr. þeirra laga óbreytt, sem nú er verið að ganga frá, að hlutverk Útvegsbankans er að styðja sjávarútveg, iðnað og verzlun landsmanna og greiða fyrir fjármálaviðskiptum þeirra, er stunda þessar atvinnugreinar. Það er ekki hlutverk Útvegsbankans að veita fjárfestingarlán til vatnsveitna í landinn, og þegar hv. 5. landsk. þm. fjargviðrast yfir því, að það hafi gengið illa fyrir Hafnarfjarðarkaupstað að fá lán til vatnsveitna frá bönkunum, þá langaði mig til að spyrja, ef þetta ætti að hafa nokkra þýðingu: hvað hafa bankarnir lánað á þessum sama tíma öðrum bæjarfélögum til vatnsveitna? Þeir hafa lánað einhverjar smávægilegar upphæðir til vatnsveitna, eins og bent er á. Útvegsbankinn hefur lánað þarna 150 þús. kr., en það er auðvitað verkefni Brunabótafélags Íslands og annarra brunatryggingafélaga að lána til vatnsveitnanna, og það getur vel verið, að Brunabótafélag Íslands hafi getað lánað Hafnarfjarðarkaupstað þeim mun meira til vatnsveitna, sem það á hinn bóginn hefur fengið meira lán hjá Útvegsbankanum og öðrum bönkum til þess að fullnægja sínum þörfum. Og það liggur nú einmitt þannig fyrir, að ég held, að það séu nokkru hærri lánveitingar til Brunabótafélagsins heldur en þetta vatnsveitulán, svo að aðstoð bankanna til tryggingafélaganna kemur auðvitað óbeint til bæjarfélaganna. En aðalatriðið er það, að hv. þm. hefur tekið sér fyrir hendur að sanna misbeitingu valds sjálfstæðismanna í bönkunum með einu dæmi, sem snertir ekki nokkurn skapaðan hlut þetta atriði, og það er svo magnað, að þessi hv. þm. segir núna, að þetta eina dæmi, sem ég nefndi, að Hafnarfjarðarkaupstaður hefur 350 þús. kr. lán hjá bönkunum, aðeins það, alveg án hliðsjónar af því, hvernig þetta lán er til komið, kannske þessar 350 þús. kr. séu eingöngu veittar af sjálfstæðismönnum, á að vera sannanir fyrir misbeitingu á lánveitingum sjálfstæðismanna. Og þessi hv. þm. segir: Þetta eina dæmi sannar, að breytingarnar á þeirri bankalöggjöf, sem hér er verið að leggja til, eiga rétt á sér. (Gripið fram í.) Já, og þetta eina dæmi sannar nákvæmlega ekkert af því, sem því er ætlað að sanna.

Hv. þm. sagði áðan, að hann væri búinn að tala fjórum sinnum. Ég held, að honum væri óhætt að tala fimm sinnum, sex sinnum, sjö sinnum og átta sinnum. (Gripið fram í.) Nei, ég held, að honum mundi ekki nægja það til þess að bæta úr því glappaskoti, sem hv. þm. hefur orðið á, að hætta sér út á þennan hála ís, og eins og ég sagði áðan, er þetta eina dæmi ótrúlega mikils virði fyrir okkur sjálfstæðismenn í þessum umr. og verður áreiðanlega sögulegt í þeim bæði fyrr og síðar.

Ég vil svo ljúka mínu máli í sambandi við þessar umr. með því að vekja athygli á einni staðreynd, sem ég held að hafi ekki verið nægjanlega leidd athygli manna að, og hún er sú, þegar við sjálfstæðismenn segjum: Af hverju var ekki skrefið tekið lengra, af hverju var ekki stofnaður sjálfstæður seðlabanki, unnið vandlega að þeim málum og þar með komizt hjá þessu samkrulli, sem nú er með viðskiptabanka og seðlabanka Landsbankans? Við höfum heyrt tvo hv. þm., hinn glöggskyggna frsm. meiri hl. fjhn., hv. þm. V-Húnv., gefa sína skýringu á þessu máli: Það er vegna þess, að Landsbankinn nýtur svo mikils trausts út á við. — Eftir honum kom svo hv. 5. landsk. þm. og sagði: Landsbankinn nýtur svo mikils trausts út á við, að við megum með engu móti rýra þetta traust út á við. Þess vegna, þó að við vildum heldur aðskilja seðlabankann, eins og hefur verið stefna Alþfl., og á ég þar við afstöðu hv. 5. landsk., þá gerum það samt sem áður ekki í dag, af því að Landsbankinn nýtur svo mikils trausts út á við, — þessi banki, sem sjálfstæðismenn hafa haft meiri hl. í af bankastjórunum, meiri hl. í bankaráðunum, og það á nú að vera höfuðforsendan fyrir þeirri breytingu á bankalöggjöfinni, sem verið er að bera fram, að meirihlutavaldi sjálfstæðismanna sé hnekkt í þessum banka, sem nýtur svo mikils trausts út á við, að við megum vara okkur á þeim aðgerðum, sem við erum að gera núna í bankamálunum. Þó að við viljum fá sérstakan seðlabanka, þá megum við ekki láta það koma fram, að það sé ekki samt sem áður enn þá undir verndarvæng, grein af sama meiði, seðlabankinn og viðskiptabankinn, meiði, eins og stendur einhvers staðar í þessum skjölum ríkisstjórnarflokkanna, grein af þessum sama meiði, Landsbankanum, þar sem þetta hroðalega misbeitingarvald, hið hroðalega pólitíska misbeitingarvald Sjálfstfl. hefur verið við hún og hefur neytt okkur til þess að gera þær ráðstafanir, sem hér er um að ræða. — Mér finnst, að þessi viðurkenning, sem hér er komin fram frá hv. þm. V-Húnv. og hv. 5. landsk., sé viðeigandi lokaorð stjórnarflokkanna í þessu máli, í þessari aðför að bönkum landsins, þrátt fyrir allt, þótt sjálfstæðismenn séu taldir af þessum mönnum án nokkurra raka og án þess að hafa tilfært nokkur dæmi hafa misgert í þessum bönkum og farið illa með aðstöðu sína þar, þá er það samt sem áður, að þeir hafa skapað svo mikið traust á þessum banka út á við, að umfram allt má það ekki koma fram út á við, þó að við viljum stofna seðlabanka, annað en hann sé þó a.m.k. grein af þessum trausta og styrka meiði, sem Sjálfstfl. hefur byggt svona mikið traust fyrir í þjóðfélaginu og út á við.