24.05.1957
Neðri deild: 107. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1683 í B-deild Alþingistíðinda. (1554)

177. mál, Landsbanki Íslands

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég held, að hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) hafi tileinkað sér og sínum flokki heldur meira af trausti Landsbankans en þeir geta eignað sér með réttu, þegar hann hafði þau orð áðan, að það væri tekið fram af stjórnarliðinu, að það mætti ekki aðskilja seðlabankann frá Landsbankanum vegna þess trausts, sem sú stofnun hefði aflað sér.

Það er sem betur fer lengri ævi Landsbanka Íslands heldur en það tímabil, sem Sjálfstfl. hefur sölsað undir sig meirihlutayfirráð í honum. Það er aðeins síðasta tímabilið og það sem betur fer stutt. Sjálfstfl. hefur átt áreiðanlega minnstan þátt í því að byggja upp það traust, sem Landsbanki Íslands nýtur. Það hafa aðrir menn gert, áður en Sjálfstfl. sölsaði undir sig yfirráð yfir þessum banka. Það eitt er víst. Það er ekki Pétur Benediktsson, sem helzt hefur getið sér orð fyrir að kasta steinum í glugga og standa fyrir uppþotum, sem hefur skapað traust Landsbankans.

Það er enginn vafi á því, að þá gekk Sjálfstfl. fram af þjóðinni, þegar hann brauzt til meirihlutavalds í tveimur aðalbönkum landsins. Almenningsálit þessarar þjóðar hefur aldrei samþykkt það, og það hefur verið sífelld hneykslunarheila hjá þjóðinni, þegar Sjálfstfl. brauzt til meirihlutaaðstöðu í bankaráði Landsbankans, með bankastjóra Landsbankans, í bankaráði eða fulltrúaráði Útvegsbankans og tók meiri hluta af bankastjórasætum Útvegsbankans líka. Það duldist ekki þjóðinni, að þessi flokkur var þar með að taka sér aðstöðu til að hygla sínum gæðingum meira en góðu hófi gegndi, og þar með var brotið niður öryggi, sem þjóðin á heimtingu á að sé byggt upp í aðalbankastofnunum hennar, öryggi, sem veiti tryggingu fyrir því, að allir eigi aðgang að bönkum landsins án tillits til stjórnmálaskoðana, en það er ekki tryggt, þegar einn stjórnmálaflokkur hefur tekið öll ráð í aðalbönkum þjóðarinnar.

Ég veit, að Sjálfstfl. er búinn að gera sér það ljóst, að hann gekk feti framar en hóflegt og skynsamlegt var, þegar hann brauzt til valda á þennan hátt í bönkum landsins.

Ég hef tekið eftir því í umr. um bankafrumvörpin, að það er í rauninni enginn kraftur í andstöðu Sjálfstfl. í bankamálunum, fremur en það var það í húsnæðismálunum. Þegar leið á umr. í húsnæðismálunum, fór svo, að við atkvgr. um brtt. Sjálfstfl. var að tínast upp ein hönd hérna megin í salnum og önnur hönd hinum megin í salnum, en hvar Sjálfstfl. var, það sá enginn. Sjálfstfl. var týndur við lokaafgreiðslu húsnæðismálanna hér í kvöld. Það bar ekki mikið á 17 manna þingflokki hér í þeirri afgreiðslu málsins. Nei, flokkurinn var týndur, og seinast fór það svo, að húsnæðismálalöggjöfin var afgr. hér með 20 shlj. atkv., ekki eitt einasta atkvæði á móti. Stjórnarandstaðan, sem hafði framan af farið geyst á móti málinu, gleymdi sér alveg og greiddi ekki atkvæði á móti.

Ég hugsa, að þetta fari eins í bankamálunum, að þeir sitji bara hjá og láti fara sem minnst fyrir sér, þegar kemur að lokaafgreiðslunni.

Í bankamálunum hafa sjálfstæðismenn viðurkennt tvær meginbreytingarnar vera réttmætar, sem sé þær að breyta Útvegsbanka Íslands h/f úr hlutafélagi í ríkisbanka. Það hefur í raun og veru verið víðurkennt af öllum ræðumönnum Sjálfstfl. um bankamál, og það er vitanlega höfuðbreytingin að því er snertir Útvegsbankann. En að öðru leyti er réttarafstaða hans gagnvart seðlabanka á ýmsan hátt styrkt með þessu frv. Önnur höfuðbreyting, sem gerð er með þessum bankafrv., er sú, að það er gerð meiri aðgreining á seðlabanka og viðskiptadeild Landsbankans heldur en áður hefur verið, og það viðurkenna sjálfstæðismennirnir líka að sé til bóta, sé í rétta átt, sé bara ekki nógu stórt spor, því að þeir hefðu viljað, að seðlabankinn væri algerlega aðskilinn frá viðskiptadeild Landsbankans, svo að aðstaða allra viðskiptabankanna væri nákvæmlega hin sama gagnvart seðlabankanum.

Hér hefur komið fram, að ýmsir meðal stjórnarflokkanna eru líka þeirrar skoðunar, að eðlilegast hefði verið að stíga þetta spor stærra og aðgreina seðlabankann algerlega, en Sjálfstfl. hefur bara aldrei beitt sér fyrir þeim aðskilnaði fram að þessu, og nú er verið að stíga spor í rétta átt. Þess vegna ættu þeir auðvitað að greiða atkvæði með frv., af því að það framkvæmir þá breytingu, sem stefnir í rétta átt og þeir hafa, að því er virðist, beðið eftir.

Það, sem þeir nú upp á síðkastið hafa gert að aðaluppistöðu sins máls, er svo það, að þeir þykist vera rangindum beittir með ummælum í blöðum stjórnarflokkanna í þá átt, að sjálfstæðismenn hafi misnotað aðstöðu sína í bönkunum. Hvað skyldi nú vera átt við með þessu? Það er auðvitað verið að gefa í skyn með þessu í blöðunum, að þeir kunni, eftir að þeir höfðu lagt svo mikla höfuðáherzlu á að ná meirihlutaaðstöðu bæði í Landsbanka og Útvegsbanka, að hafa hyglað eitthvað sínum gæðingum og fylgismönnum í lánveitingum umfram andstæðinga sína. Það er vitanlega verið að segja þetta. Og skyldu þeir vera alsaklausir af því? Ætli þeir hefðu viljað leggja höndina á hjartað, hver og einn, sjálfstæðismennirnir hér í þessari hv. d., þar á meðal bankastjórar í þeirra hópi, og segja: Nei, það höfum við aldrei gert, við höfum aldrei látið okkur detta í hug að veita hærri lán til manna með tilliti til þess, að þeir væru í Sjálfstfl., heldur en t.d. í Alþfl. eða Alþb., nei, það hefur okkur aldrei dottið í hug. Við vorum ekki að brjótast til valda í Landsbankanum og Útvegsbankanum til þeirra hluta. Nei, við erum alsaklausir af því?

Þeir hafa verið að óska eftir dæmum, dæmum, sem sýndu þessa misnotkun. Þeir treysta auðvitað á, að það væri ekki svo hægt um vik að nefna dæmi um þetta og að menn vildu ekki nefna dæmi um það, þó að þeir vissu, því að það yrði of nærgöngult við menn, sem ættu viðskipti við bankann. Ég er t.d. alveg sannfærður um það, að ef einhver hv. þm. hefði vikið sér hér úr ræðustóll að hv. 5. þm. Reykv. (JóhH) og spurt hann: Hvað skuldar Kveldúlfur, hvað skuldar Sigurður Ágústsson, hvað skuldar þessi og þessi nafngreindur maður eða þetta nafngreinda fyrirtæki? þá hefði Jóhann Hafstein undireins sagt: Mér er ekki leyfilegt að skýra frá því. — Vitanlega. Það var í skjóli þessa, sem hv. þm. Sjálfstfl. hafa hér verið að segja: Nefnið þið dæmi. — Þeir vita það, að væru þeir spurðir sjálfir, þá gætu þeir ekki og mættu ekki nefna nein dæmi.

Svo voru nefnd bæjarfélög, Hafnarfjörður og Reykjavík. Það er orðið upplýst, að það er sannleikur, að það eru aðeins 0.3 millj. kr., sem Hafnarfjarðarkaupstaður hefur fengið samtals lánað í bönkum, og meginhlutinn af því í banka, sem Sjálfstfl. hafði ekki meirihlutavald yfir. Bæjarfélagið er undir stjórn Alþýðuflokksmanna. Og nú gæti maður spurt: Hvað er með reikning Reykjavíkurbæjar? Er hann ekki svona lágur líka? Eða ef það skyldi vera hærra hlutfallslega, það skyldi þá ekki vera af því, að Reykjavíkurbær væri undir meirihlutastjórn sjálfstæðismanna? Mér dettur ekki í hug að spyrja um það hér á Alþingi, af því að ég veit, að það fæst ekkert svar við því: Hvað skuldar Reykjavíkurbær? Ekki að meðtalinni bæjarútgerðinni í Reykjavík og ekki að meðtöldum öllum stofnunum Reykjavikurbæjar, heldur bara bæjarsjóður Reykjavíkur. Ég spyr ekki um það, því að það má enginn segja frá því, ekki einu sinni bankastjórinn, sem jafnframt er þá bæjarráðsmaður og gæti gefið hér upplýsingar sem bæjarráðsmaður.

En það er alveg vitað mál, að langmestan hluta þeirrar fúlgu, sem bæjarfélög á Íslandi hafa fengið í bönkum, hafa þeir lánað Reykjavíkurbæ, og það er erfitt að afsanna það, að það kunni ekki að standa í sambandi við meirihlutavald sjálfstæðismanna í bönkunum og meirihlutaaðstöðu sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Reykjavíkur. Ef hlutfallið er þarna mjög Reykjavík í hag, þá fellur grunsemd á þessa menn fyrir það að hafa meira að segja í þessu efni misnotað aðstöðu sína í bönkunum gagnvart bæjarfélögum landsins, og ég veit, að þeir vilja ekki leggja höndina á hjartað og segja: Það er enginn fótur fyrir þessu, — því að tölurnar mundu tala á móti þeim, meðan þeir væru með höndina á hjartanu. (JóhH: Það er hægt að nefna þetta, þetta er í bæjarreikningum Reykjavíkur, það er engin leynd á því.) Það er oft siður óknyttastráka að þræta fyrir það, sem þeir hafa gert, þó að þeir viti, að öllum sé kunnugt um óknyttina.

Nú er það alveg vitanlegt, að sjálfstæðismenn hafa auðvitað í gegnum meirihlutaaðstöðu sína í bönkunum hyglað sínum mönnum meira en andstæðingum, og þess vegna stappar það mjög nærri því, að hv. sjálfstæðismenn hér á Alþingi hagi sér eins og forhertustu óknyttastrákar, þegar þeir leyfa sér að neita því, að þeir hafi hyglað sínum mönnum meira en andstæðingum í gegnum meirihlutaaðstöðu sína í bönkunum, því að það veit öll þjóðin, að þeir hafa gert, og hefði verið miklu manndómslegra af þeim að segja: Jú, auðvitað höfum við haft betri aðstöðu en aðrir í bönkunum, og til þess voru refirnir skornir, til þess sóttumst við eftir meirihlutaaðstöðu í bönkunum, að við ætluðum heldur að gera betur við okkar menn en andstæðingana. — Þetta hefði verið manndómsmerki af þeim. En það örlaði bara ekki á því, þeir höfðu ekki þennan manndóm til. Það eru miklu þróttmeiri óknyttastrákar, sem þora að játa á sig yfirsjónir og strákapör, en þingflokkur Sjálfstfl. er ekki skipaður slíkum strákum.

Það er ekkert leyndarmál, þótt það kunni bara að vera tilviljun, að stærstu skuldakóngar Landsbankans og annarra banka þjóðarinnar eru sjálfstæðismenn, og það dettur engum lifandi manni í hug að halda, að það sé af því, að þeir séu fátækari en aðrir menn. Þvert á mótí. Menn vita, að innan raða Sjálfstfl. eru efnaðri menn en yfirleitt í öðrum stjórnmálaflokkum, en þó hafa þeir fengið mest lánað í bönkunum og vitanlega af því að Sjálfstfl. hefur haft þar sterkustu aðstöðu til lánveitinganna.

Formaður Sjálfstfl. hefur oft hérna á þessum stað, ekki síður en annars staðar, barið sér á brjóst og sagt: Ég er skuldugasti maður landsins. — Og það er hann, sem hefur stjórnað taflinu, þar sem allt miðast við það að ná meiri hluta í báðum bönkunum. Tilviljun kannske, skuldugasti maður landsins að eigin sögn, valdamesti maður í bönkunum.

Það er sem sé upplýst mál, að hér var engin aðstaða, hvorki fyrir menn úr þingliði Sjálfstfl. né stjórnarflokkanna, að gefa upp einstaka menn og segja: Þessi skuldar þetta og hinn hitt. Svona skuldar þessi mikið og svona skuldar þessi lítið, — til þess að sanna, hvernig misbeitingin hefði átt sér stað, miðað við einstaklinga. En það er hægt að óska eftir samanburði á hliðstæðum fyrirtækjum.

Ég mundi t.d. vilja spyrja um það: Viljið þið setja, hv. þm. Sjálfstfl., höndina á hjartað og segja: Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis hefur átt jafngreiðan aðgang að bönkunum hér í Reykjavikurborg eins og jafnstór verzlunarfyrirtæki, sem lúta hér í þessum bæ stjórn sjálfstæðismanna, og það er fullkomið samræmi milli þeirra lána, sem hafa verið veitt Kaupfélagi Reykjavíkur og nágrennis og jafnstórum verzlunarfyrirtækjum í bænum? — Ég veit alveg fullvel, að þeir mega leita vel og vandlega til að finna verzlunarfyrirtæki á stærð við Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis, sem hefur fengið eins lítið lánað í bönkunum, þar sem sjálfstæðismennirnir ráða, eins og Kaupfélag Reykjavíkur hefur fengið. Kannske tilviljun eða kannske af því að þetta fyrirtæki sé svo efnalega sterkt, að það hafi ekki á neinum lánum þurft að halda. Nei, það er ekki ástæðan, og það er ekki heldur ástæðan, að það hafi ekki beðið um lán, það er alveg áreiðanlegt; það hefur ekki átt þess kost af einhverjum ástæðum.

Ég er líka viss um það, að þið munduð hika við, hv. þm. Sjálfstfl., að setja höndina á hjartað og segja: Samband íslenzkra samvinnufélaga, heildverzlun allra kaupfélaga landsins, hefur fengið eins mikil lán í bönkunum, miðað við umsetningu sína, eins og heildsölufyrirtæki kaupmanna hér, sem hafa haft jafnmikla umsetningu samanlagt og S.Í.S. Ef þessum tölum væri slegið upp og væri hægt að gera það hér, þá er ég viss um það, að um S.Í.S. annars vegar og heildsölufyrirtækin samanlögð, sem hefðu jafnmikla veltu og vöruumsetningu, eins mikla þjónustu fyrir kaupmannastéttina og sambandið hefur fyrir kaupfélögin, mundi koma út, að lánsupphæðin til heildsalanna væri hlutfallslega margfalt meiri en til Sambands íslenzkra samvinnufélaga. Ég er alveg sannfærður um það, og eru þó Framsfl. og fulltrúar samvinnumanna með langtum betri aðstöðu í bönkunum heldur en t.d. Alþýðuflokksmenn og Alþýðubandalagsmenn, en þeir hafa verið í minni hluta í bönkunum. Sjálfstfl. hefur haft þar meirihlutaaðstöðuna og húsbóndavaldið, og þeirra húsbóndavald mun koma í ljós í því, ef litið er á tölur og samanburð milli fyrirtækja, að það eru alls staðar hærri tölurnar af einhverri tilviljun, sem koma í hlut þeirra, sem standa Sjálfstfl. nær.

Svo berja þessir hræsnarar sér á brjóst og segja: Misnotkun á bönkunum, nei, það hefur okkur aldrei dottið í hug, af því erum við þó saklausir.

Eða ef við tækjum bara útgerðarmennina og það væri farið að líta á pólitískan litarhátt þeirra í samanburði við lánsupphæðir þeirra í bönkunum, þá er ég alveg sannfærður um, að útgerðarmenn með svipaðan skipafjölda mundu koma út með hærri tölur, hærri lánstölur, hærri skuldatölur í bönkunum, þegar þeir eru sjálfstæðismenn, heldur en þegar það eru annarra flokka menn.

Kannske Sjálfstfl. vilji bjóða upp á svona samanburð, gera svona talnasamanburð og láta tölurnar tala? Ég bíð eftir því, að þeir bjóði það, því að þá verður unnið úr þessu og úr þessu skorið. (JóhH: Það er hér með boðið.) Ágætt, þá er bara sjálfsagt að láta rannsaka þetta.

Og svo segja þeir: Ja, það eru ekki málefnin, sem ráða breytingum á bankalöggjöfinni hér, og viðurkenna þó, að það eru þarna stórkostleg atriði, sem verið er að breyta í skipulagi bankanna, bæði að því er snertir skipulag Landsbankans og Útvegsbankans, — nei, það er bara verið að ryðja burt sjálfstæðismönnum, það er bara verið að koma nýjum mönnum að.

Nú skal ég alveg fyllilega játa, að það er ekki við það unandi og það er ekkert öryggi í því að hafa eingöngu einn stjórnmálaflokk í landinu allsráðandi í bönkunum, og þeir hefðu átt að hafa skynsemd til þess sjálfir, sjálfstæðismenn, að sjá, að það var ekki líklegt til þess að skapa traust, ekki allsherjartraust a.m.k., og það hefði því verið eðlilegast, að þeir hefðu beitt sér fyrir því að breyta því aftur. En var þess von af mönnunum, sem höfðu með ofurkappi brotizt til valda, brotizt til meirihlutavalda í báðum bönkunum? Nei, þess var ekki von.

Það er út af fyrir sig alveg hægt að segja það, að það er breyting, sem þjóðin æskir, að það sé skapað meira pólitískt jafnvægi í bönkunum. Það hlýtur að eyða tortryggni, en auka hana ekki, og það er bönkunum hollt. Það er áreiðanlega atvinnulífinu hollt, að það sé öllum vitanlegt, að hver sem fæst við verzlun, viðskipti eða framleiðslustörf til lands eða sjávar á það vást að eiga jafna áheyrn í bönkunum, hvaða stjórnmálaskoðun sem hann leyfir sér að hafa. Og það er á engan hátt gengið svo til verks með þessum breytingum að því er snertir mannabreytingar, að gengið sé á nokkurn hátt á hlut Sjálfstfl. Honum er gefinn kostur á að eiga mann, sem fer með bankastjóravald í seðlabankastjórninni, honum er gefinn kostur á að eiga hvern þann fulltrúa, sem hann óskar eftir, í bankastjórasæti í Landsbankanum og sömuleiðis í Útvegsbankanum. En Sjálfstfl. stefndi að því að þurrka stjórnmálaandstæðinga sína út í bönkunum, af því að hann vantar hinn lýðræðislega anda, sem ræður gerðum núverandi stjórnarflokka einmitt í þessum málum. Þarna er tryggt, að allir stjórnmálaflokkar eigi fulltrúa, þvert á móti því, sem sjálfstæðismennirnir höguðu sínum störfum áður í þessum efnum, boluðust einir til valda.

Ég hygg, að eitt þeirra mála, sem núverandi stjórn hefur borið fram, sem þjóðin bíður eftir með mestri eftirvæntingu að verði leyst, sé einmitt breytingin á bankamálunum. Þjóðin hefur fordæmt þetta einræðisbrölt Sjálfstfl. í aðalpeningastofnunum þjóðarinnar, og það var beðið eftir því, að þeir væru settir þar rétt á sínu stað, ekki bolað út, heldur látnir hafa hæfilega hlutdeild í stjórn bankanna og meira ekki, og það er það, sem er gert með þessum frv.

Þeir hafa því undan engu að kvarta. Fulltrúar sjálfstæðismanna í bankaráði eiga engan meiri rétt til að sitja þar heldur en aðrir fulltrúar, sem hafa löglegt umboð frá þjóðinni til þess að taka þátt í að stjórna þessum stofnunum, sem þjóðin á mjög mikið undir að sé stjórnað án allrar hlutdrægni. Og maður kemur alltaf manns í stað. Það er ekki heldur hægt að skjóta neinum stoðum undir það, að bönkunum sé betur borgið undir einræðisstjórn sjálfstæðismanna heldur en manna úr öllum stjórnmálaflokkum og þannig manna, sem bera hag allra þeirra manna fyrir brjósti, sem bera hita og þunga dagsins í viðskiptamálum og atvinnumálum.

Ég tel, að það, hversu sjálfstæðismenn hafa barizt linlega í húnæðismálunum og þessum málum, sýni það, að þeir játa hið innra með sjálfum sér, að þær breytingar, sem hér er verið að lögfesta, eru réttmætar og þarfar, og það staðfestu þeir einmitt með því að gleyma að greiða mótatkvæði á móti húsnæðislöggjöfinni áðan. Ég gæti bezt trúað því, að þeir viðurkenndu á sama hátt með því e.t.v. að gleyma að greiða mótatkvæði á móti bankalöggjöfinni, því að þeir vita, að hér er verið að framkvæma nauðsynlegar og réttmætar breytingar á löggjöf landsins.