18.05.1957
Neðri deild: 100. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (1587)

178. mál, Útvegsbanki Íslands

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. um þetta, og eins og hæstv. forsrh. sagði, þá hafa bankamálin verið rædd öll sameiginlega að undanförnu. Ég kvaddi mér aðeins hljóðs vegna þess, að ég gerði beina fyrirspurn um það hér áðan varðandi efnishlið málsins, sem talið var að ég hefði misskilið, að ákvæði væri í frv. og grg. um, að það féllu niður umboð bankastjóra Útvegsbankans. Ég bað um, að mér yrði bent á það, og það var ekki gert. Ég held, að það sé óhætt að fullyrða það nú, að ég þarf ekki að biðja afsökunar á því, að ég hafi misskilið málið, heldur hefur ekki verið á þetta bent, af því að þetta stendur hvorki í greinum frv. né í grg., svo að það mun í þessu sambandi hafa verið algerlega rétt, sem ég hélt fram.