24.05.1957
Neðri deild: 105. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1707 í B-deild Alþingistíðinda. (1592)

178. mál, Útvegsbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Jónas Rafnar):

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað frv., en ekki orðið sammála um afgreiðslu þess. Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþykkt. Ég og hv. 5. þm. Reykv. leggjum til, að frv. verði fellt.

Það má segja, að í þessu frv. felist aðallega tvær veigamiklar breytingar á núgildandi löggjöf um Útvegsbanka Íslands h/f. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir þeirri formsbreytingu, að Útvegsbanki Íslands skuli breytast úr hlutafélagi í ríkisbanka. Út af fyrir sig er sú breyting ekki óeðlileg, þar sem bankinn hefur í raun og veru starfað eins og ríkisbanki, enda er langsamlega mestur hluti hlutafjárins í eigu ríkisins. Eftir grg. frv. munu 4.20% af hlutafénu vera í einkaeign, bankinn á sjálfur 8.11%, og afganginn, 87.69%, á ríkið. Í frv. er gert ráð fyrir eignarnámi á hlutabréfum einstaklinganna, enda komi fyrir fullar bætur. Í frv. er gert ráð fyrir, að sérstök matsnefnd, tilnefnd af hæstarétti, framkvæmi matið á bréfunum.

Þá er það önnur breytingin á lögunum, sem er meginástæðan fyrir flutningi þess, að umboð núv. bankastjóra og bankaráðs á að falla niður. Það er ljóst af forsögu þessa máls, að aðalástæðan fyrir flutningi málsins er sú, að núverandi stjórnarflokkar hafa komið sér saman um að bola þeim mönnum, sem stjórnað hafa Útvegsbankanum að undanförnu, frá áhrifum í bankanum. Fyrir síðustu kosningar héldu þessir flokkar því fram, að það þyrfti að gera margvíslegar breytingar á bankalöggjöfinni og þá sérstaklega þannig, að hægt væri að koma sjálfstæðismönnum úr bankastjórastöðum og úr bankaráði. Að vísu var þó ekki bent á verulegar misfellur í stjórn bankanna, og eftir því sem mér hefur skilizt í þeim umræðum, sem hér hafa farið fram, og ekki sízt í umræðunum um frv. um breyt. á landsbankalögunum, hefur enn þá ekki verið bent á neinar misfellur.

Það má segja, að forsendan fyrir þeim þremur frv. um breytingar á bankalöggjöfinni sé sú sama, sem sé að það á að yfirfæra valdið í þessum lánsstofnunum yfir til nýrra og annarra aðila.

Við, sem stöndum að áliti minni hlutaus, teljum, að þessi ástæða sé ekki nógu rík til þess, að rétt sé að breyta því formi, sem verið hefur á bankalöggjöfinni fram til þessa. Við viljum ekki viðurkenna þær ásakanir, sem fram hafa komið á stjórn bankanna, og í umr. hér áðan var þess krafizt af þingmönnum, að bent yrði á ákveðin dæmi, og það hefur ekki verið gert fram til þessa. Sjálfstæðismenn treysta þeim mönnum, sem stjórnað hafa málefnum Útvegsbankans, og telja, að það sé engin ástæða til þess að fara að samþykkja nýja löggjöf eingöngu til þess eins, að nýir menn komist þar til áhrifa og valda.

Í umr. um frv. um breyt. á landsbankalögunum hefur það komið fram og kemur raunar fram í grg. fyrir báðum þeim frv., sem legið hafa fyrir, að ríkisvaldið eða sú stjórn, sem situr að völdum, þurfi að hafa sterk og mikil ítök í stjórn bankanna, þannig að sú peningapólitík, sem ríkisstj. rekur hverju sinni, finni náð fyrir augum þeirra manna, sem á sama tíma stjórna bankamálunum.

Það hlýtur að vera hverjum manni ljóst, að það er ekki hægt að stjórna bönkunum nema í fullu samræmi eða samráði a.m.k. við þá pólitík í efnahagsmálunum, sem ríkisstj. rekur, og ég held, að flestir séu á einu máli um það, að á undanförnum árum hafi ekki orðið neinir verulegir árekstrar á milli bankanna og þeirra ríkisstjórna, sem setið hafa að völdum.

Ég tel ástæðu til þess að benda á það, að í augum margra manna og ekki sízt þeirra, sem koma mjög mikið nálægt efnahagsmálunum og hafa bein afskipti af peningamálum þjóðarinnar, er það varhugavert, að bankarnir eigi í einu og öllu að lúta valdboði þeirrar ríkisstj., sem hverju sinni situr. Ég held, að það muni einmitt verða til þess að auka traust lánsstofnananna og verða til þess að efla sparifjármyndunina í landinu, ef fólkið, sem á peninga í bönkunum, veit að þeim er stjórnað fyrst og fremst með hag bankanna fyrir augum. — Ég vildi gjarnan, að þetta kæmi fram í sambandi við umr.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð mín öllu fleiri. Í umr. um landsbankafrv. kom fram greinilega sjónarmið okkar sjálfstæðismanna, og það væri endurtekning á því, sem sagt hefur verið í því máli, ef ég færi núna við flutning þessa máls að rifja það allt saman upp aftur. En af þeirri ástæðu, sem ég greindi áðan, leggur minni hl. til, að þetta frv. verði fellt.