27.05.1957
Efri deild: 111. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1712 í B-deild Alþingistíðinda. (1619)

179. mál, Framkvæmdabanki Íslands

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Eins og þetta frv. ber með sér, er það fært til samræmis við frv. um hina bankana og gert ráð fyrir því, að 5 manna bankaráð sé kosið þannig, að fjórir þeirra eru kosnir hlutbundinni kosningu á Alþingi og fimmta manninn skipar fjmrh. til jafnlangs tíma. Þetta frávik með það, að fjmrh. skipi bankaráðsformanninn, er vegna þess, að það er ætlazt til þess og hefur verið svo, að Framkvæmdabankinn sé til ráðuneytis um fjárfestingar fyrir fjmrn., og einnig hefur þar verið, eins og hv. alþm. er kunnugt, settur upp vísir til hagdeildar, sem fjmrn. hefur haft til samráðs. Einnig hefur þessi banki verið að því leyti tengdur og tengdari fjmrn. en aðrir bankar, að gegnum hann hafa verið útveguð og eru útveguð erlend lán, enda er tekið fram í 1. gr., að sú heimild fyrir ríkisstj. til að ábyrgjast lán, sem bankinn tekur, er hækkuð, svo sem 1. gr. ber með sér. Ég býst ekki við að þurfa að skýra það frekar. Það er ekki venja, að viðskiptabankarnir taki lán fyrir ríkisstj., og ekki er það heldur venja hér né annars staðar, að seðlabankarnir annist slíka fyrirgreiðslu. Af þessum ástæðum er formaðurinn skipaður af fjmrh., ef þetta frv. verður að lögum. — Ég óska svo eftir, að þessu máli verði vísað til 2. umr. að loknum þessum umr.