04.04.1957
Efri deild: 82. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (1628)

148. mál, eyðing refa og minka

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Í frv. þessu er gert ráð fyrir því í 11. gr., að eitrað skuli fyrir refi og minka ár hvert, og er það samhljóða því ákvæði, sem er í gildandi lögum. Það er orðað þannig, að skylt skuli að eitra fyrir refi og minka ár hvert.

Nú hafa verið uppi, eins og kunnugt er, allmiklar deilur um þessa eitrun. Sumpart hafa menn haldið því fram, að eitrunin, eins og hún hafi verið framkvæmd, væri ómannúðleg, og sumpart verið talið, að hún kæmi engan veginn að því gagni, sem ætlazt væri til.

Um þessa hluti get ég að vísu ekki dæmt, en allmikið hefur verið skrifað um þetta efni, þar sem hörð gagnrýni hefur komið fram á þessa eitrun fyrir refi. Innan þeirrar nefndar, sem þetta frv. samdi, hefur einnig gætt nokkurs meiningamunar í þessu efni, og kemur það fram í aths. við 11. gr.

Ég vildi leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp eina setningu, sem hljóðar svo: „Nefndin er þó ekki fyllilega sammála um þetta atriði, og telur einn nm., Páll A. Pálsson, að heppilegra væri, að í staðinn fyrir upphafsorð 11. gr.: „Skylt er“ stæði: Heimilt er. Með þeirri breytingu væri það raunverulega á valdi veiðistjóra, hvar eitrað væri, og væri á þann hátt hægt að taka til greina óskir fuglafriðunarnefndar og eitra ekki t.d. á þeim hluta Vestfjarða, þar sem heimkynni arnarins eru nú helzt “

Ég er þeirrar skoðunar, að það mundi vera til bóta, ef þessu yrði breytt í samræmi við það, sem þarna er sagt, að 11. gr. heimilaði eitrun refa og minka, en skyldaði ekki til hennar. Það yrði þá á valdi veiðistjórans, hvar og hvenær eitrun yrði framkvæmd, en ekki tekin eins afdráttarlaus ákvörðun um það og er í þessu frv.

Ég vildi aðeins koma þessari skoðun minni á framfæri nú þegar, ef sú hv. nefnd, sem tekur málið til athugunar, vildi einnig hugleiða þetta sérstaklega.