26.04.1957
Efri deild: 89. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1716 í B-deild Alþingistíðinda. (1630)

148. mál, eyðing refa og minka

Frsm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Landbn. hefur athugað frv. til laga um eyðingu refa og minka, sem hér er til umræðu. Varð fullt samkomulag um að mæla með samþykkt frv., þó með nokkrum breytingum.

Um 1., 2. og 4. brtt. n., þ.e.a.s. brtt. við 2., 3. og 10. gr. frv., er það að segja, að það eru ekki efnisbreytingar, aðeins hagrætt orðalagi til frekari skýringar.

3. brtt. n. er við 9. gr. frv. og fjallar um verðlaun fyrir unnin dýr. Í gildandi lögum eru verðlaun þessi 180 kr. fyrir hlaupadýr, ref, en 90 kr. fyrir unninn mink. Frv. þetta gerir ráð fyrir því, að verðlaun þessi verði hækkuð upp í 250 kr. á ref og 125 kr. á mink.

Annars eru skoðanir skiptar um það, hvort hækkun verðlauna sé raunhæf aðgerð til útrýmingar vargdýrum þessum. Víða erlendis er það talið vafasamt, svo sem rakíð er í grg. frv. Hérlendis hafa verðlaun farið hækkandi. Ljóst er, að þau þurfa að vera það há, að þau hvetji menn til að leggja eitthvað á sig til að vinna vargdýrin. Hins vegar getur greiðsla hárra verðlauna að sjálfsögðu orðið þungur útgjaldabaggi fyrir ríkissjóð og aðra aðila, sem þær greiðslur eiga að bera.

Að athuguðu máli ákvað nefndin að láta ákvæðin um verðlaun haldast óbreytt að öðru leyti en því, að þau eru lítillega hækkuð fyrir minkinn, eða úr 125 kr. í 150 kr.

Að mínum dómi er minkurinn enn varhugaverðara skaðræðisdýr en refurinn, og ber margt til þess. Hann gerir usla bæði á sjó og landi, í vötnum og veiðiám, og er furðu nærgöngull híbýlum manna og gripahúsum. Auk þess þekkjum við miklu minna til lifnaðarhátta hans en refsins, sem landsmenn hafa haft kynni af frá upphafi Íslandsbyggðar. Það er hægt að bera vissa virðingu fyrir gamla íslenzka fjallarefnum, sem oft hefur orðið að heyja harða og miskunnarlausa lífsbaráttu eins og fólkið í landinu, en minkurinn er sem illkynjuð sending síðustu og verstu tíma, sem ógnar nú íslenzku náttúru- og fuglalífi í vaxandi mæli. Má búast við, að hann verði viða erfiður viðfangs, t.d. í Breiðafjarðareyjum, þar sem landnám hans færist út, eftir því sem eyjabúum fækkar og fleiri eyjar leggjast í auðn.

Síðasta búnaðarþing lagði til, að verðlaun fyrir hlaupadýr og minka yrðu ákveðin nokkru hærri en hér hefur verið skýrt frá, en ekki þótti fært að taka það til greina, enda skoðanir í þessu efni skiptar hjá fulltrúum búnaðarþings.

5. og síðasta brtt. n. er við 11. gr. frv. Sú þriggja manna nefnd, er samdi frv., gerði ráð fyrir því, að sú regla yrði látin gilda, sem gilt hefur, að skylt sé að eitra árlega fyrir refi og minka. Einn nm. taldi þó, að heppilegra væri, að í staðinn fyrir upphafsorð 11. gr.: „Skylt er“ stæði: Heimilt er — o.s.frv.

Landbn. hefur þótt rétt að láta orðalag frv. haldast um þetta atriði. Hins vegar leggur n. til, að skotið verði inn í gr. undanþáguheimild svo hljóðandi: „Skylt er að eitra fyrir refi og minka ár hvert í afréttum og heimalöndum, þar sem þessara vargdýra hefur orðið vart. Veiðistjóri getur þó ákveðið, að ekki skuli eitrað á vissum svæðum, ef henta þykir eða hætta er á, að eitrið geti útrýmt sjaldgæfum fuglategundum úr náttúruríki landsins.“

Meginreglan verður því eftir sem áður sú, að skylt er að eitra fyrir refi og minka ár hvert, en veiðistjóra er veitt allvíðtæk heimild til að veita undanþágur frá reglunni. Verður að teljast eðlilegt, að þeim manni, sem bera á höfuðábyrgð á útrýmingu vargdýranna, séu gefnar nokkuð frjálsar hendur og nægilegt olnbogarúm í starfi sínu. Ekki er víst, að alls staðar sé jafnrík þörf til að eitra. Þá eru ýmsir uggandi um afdrif arnarins, ef mikið er eitrað. Almennt greinir menn og talsvert á um eitrun sem aðferð til útrýmingar refum og minkum. En þar sem hér er um að ræða hina mestu landplágu, verður að beita öllum hugsanlegum ráðum í baráttunni gegn henni. Verður veiðistjóri að meta, hvaða árásarvopn henta bezt í þeirri herferð.

Skulum við vona, að í embætti veiðistjóra veljist hæfur og ötull maður. Skiptir þá væntanlega ekki meginmáli, hvort embætti veiðistjóra og þau verkefni, er því fylgja, tilheyra starfrækslu Búnaðarfélags Íslands undir yfirstjórn landbrn., svo sem segir í erindi frá búnaðarþingi, eða hvort umrætt embætti heyrir beint undir landbrn., eins og gert er ráð fyrir í I. gr. frv. þessa.

Læt ég svo útrætt um þetta nál., en vona, að frv. nái fram að ganga og verði að lögum á þessu þingi.