16.05.1957
Neðri deild: 98. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1720 í B-deild Alþingistíðinda. (1641)

148. mál, eyðing refa og minka

Frsm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Frv. þetta um eyðingu refa og minka var lagt fram í Ed., og voru gerðar á því þar smávægilegar breytingar. Landbn. þessarar hv. d. hefur haft frv. til athugunar og hefur orðið sammála um að mæla með samþykkt þess með nokkrum breytingum, sem ég mun nú gera grein fyrir. Breytingar þessar eru prentaðar með áliti nefndarinnar á þskj. 528. Einn nm., Gunnar Jóhannsson, var ekki viðstaddur, þegar málið var afgreitt í nefndinni.

Nefndinni þótti rétt, að Búnaðarfélag Íslands hefði íhlutun um þessi mál, sem svo mjög snerta bændur landsins, en milli bændanna og Búnaðarfélags Íslands eru mjög náin tengsl og stjórn þess skipuð bændum og starfslið þess sífellt í lifandi sambandi við bændurna og landbúnaðinn. Þess vegna breytti n. upphafi 1. gr. þannig, að yfirstjórn þessara mála, sem frv. fjallar um, skuli vera í samráði við Búnaðarfélag Íslands.

Þá þótti n. rétt, að í lögum um þetta efni væri ákvæði um, að viðkomandi ráðherra gæti, að fengnu áliti Búnaðarfélagsins, falið veiðistjóra eyðingu fleiri dýrategunda en refa og minka, svo sem svartbaks og fleiri dýra, sem kunna að valda tjóni í náttúruríki landsins, enn fremur verndun hreindýrastofnsins, ef þurfa þykir. Till. nefndarinnar um þetta eru byggðar á þeirri hugsun, að þar sem hér er verið að stofna nýtt embætti, þá sé einnig fyrir því séð, að embættismaður sá, sem fær þessi mál til meðferðar, hafi nóg að starfa, og þá einnig til að fyrirbyggja það, að fleiri embætti verði stofnuð til að sinna þessum eða skyldum málaflokkum en brýna nauðsyn ber til.

Nefndin hefur hugsað sér og rætt um það, að þegar embætti þetta tekur til starfa, verði skrifstofuhald þess hjá Búnaðarfélagi Íslands, og telur n., að með því muni sparast fjármunir, svo að verulegu nemi, en sjálfsagt sé að halda skriffinnsku og skrifstofukostnaði í sambandi við þetta nýja embætti sem mest í skefjum.

Þá gerir n. tillögur um, að verðlaunaákvæðum 9. gr. verði breytt og verðlaunin hækkuð nokkuð frá því, sem gr. gerir ráð fyrir. Er þetta gert í trausti þess, að allhá verðlaun fyrir að vinna hlaupadýr og drepa minkana, hvar sem til þeirra næst, freisti manna til þess að leggja sig alla fram í þessu starfi og fleiri sjálfboðaliðar komi til liðs við þá, sem ráðnir verða til þessara starfa.

Refaskytturnar verða að leggja mjög hart að sér oft og tíðum, og starf þeirra er hin mesta þolraun. Þær verða að liggja úti á vetrum nætur og daga í misjöfnum veðrum uppi á heiðum og þola vosbúð og kulda. Hið sama er að segja um þá, sem taka að sér grenjaleit og grenjavinnslu á vorin.

Mörg hin síðari ár hefur það komið í ljós, að þessi störf hafa ekki þótt eftirsóknarverð, og ungir menn hafa ekki komið í þetta starf til þess að fylla í skörðin fyrir hina eldri, sem helzt hafa úr lestinni. Er því svo komið nú mjög víða, að menn hafa ekki fengizt til að gerast refaskyttur, en það veldur aftur því, að refakynið eykst og margfaldast og gerist sífellt ágengara við sauðfjárstofn landsmanna.

Um minkinn er það að segja, að honum virðist fara fjölgandi og nemur sífellt stærra svæði af landinu sér til bólfestu. Er sú þróun mjög ískyggileg, hvort sem litið er á þetta frá hagsmunalegu sjónarmiði, þar sem um er að ræða eyðingu af völdum minksins á nytjafiskum í ám og stöðuvötnum og útrýmingu æðarvarps, eða hins vegar litið er á þetta frá náttúruverndarsjónarmiði.

Frv. skiptir kostnaði við refa- og minkaeyðingu á ríkið, sýslu- og bæjarfélög og hreppana í vissum hlutföllum. Við hækkunartillögur nefndarinnar á verðlaunum eykst kostnaðurinn talsvert. En það er álit okkar nefndarmanna, að sjálfsagt sé af þjóðfélagsins hálfu og þeirra, sem mest eiga í húfi, að hvetja einstaklinga til að leggja sig fram í baráttunni við þessa vágesti og það verði ekki með öðru fremur gert en með ríflegum verðlaunum, svo að til nokkurs sé að vinna.

Ég vil í þessu sambandi minnast á eitt atriði, sem getur haft mikla þýðingu í sambandi við útrýmingu refa og minka, en það er, að séð verði um það af hálfu hins opinbera, að alltaf sé völ á í landinu hinum fullkomnustu skotvopnum, sem þekkt eru, til notkunar fyrir refaskyttur, og að önnur áhöld, sem annars staðar kunna að hafa verið reynd með árangri og notuð við útrýmingu refa og minka, verði ævinlega til. En ég hygg, að nokkur misbrestur hafi verið á því, að góðar byssur til slíkra nota hafi fengizt keyptar í landinu, vegna þess að treglega hafi gengið að fá leyfi fyrir slíkum innflutningi. Ef svo er, sem ég hygg að hafi við rök að styðjast, að góðar byssur séu litt fáanlegar til þessara nota, þá þarf hið skjótasta að ráða bót á því og viðkomandi yfirvöld að láta það mál til sín taka og það sem fyrst.

Þá vil ég víkja með nokkrum orðum að 11. gr., sem hefur verið sú gr. frv., sem mest hefur verið deilt um, en hún hefur að geyma ákvæði um eitrun fyrir refi. Ég hef ekki kynnt mér, hve langt er síðan farið var að eitra fyrir refi, en það er álit mjög margra bænda, sem við eitrun hafa fengizt, að það sé hin áhrifamesta aðferð til útrýmingar refastofninum. Þessi útrýmingaraðferð er hins vegar vandasöm með tilliti til þess, að önnur dýr, sem ekki er ætlazt til að útrýma, geti náð í eitrið, ef ekki er því betur með þetta farið.

Í sambandi við eitrunina er þess að geta, að landslag og staðhættir í hinum ýmsu héruðum landsins eru misjafnlega vel lagaðir til þess að búa svo um eitrun, að öðrum dýrum en refum stafi ekki hætta af. Þetta fer eftir því, hversu auðvelt er að koma eitrinu fyrir á stöðum, þar sem fuglar ná ekki til þess. Auðveldast er að eitra án slíkrar áhættu, þar sem hraunlendi er, því að þar er hægast að koma hinum eitruðu hræjum fyrir, svo að fuglar nái ekki í þau, en refurinn finnur þau eigi að síður.

Að undanförnu hafa verið í landinu miklar deilur um það, hvort leyft skuli að eitra fyrir refi, og stendur þar maður á móti manni og vitna til reynslu sinnar og annarra með og móti eitrun. Þá hafa menn einnig höfðað í þeim umræðum til tilfinninga og mannúðar. Hafa sumir vorkennt refum að deyja af eitri, en hins vegar hafa aðrir talið ekki minni vorkunn sauðkindinni að deyja eða dragast upp af dýrbiti, og verð ég að segja, að ég er þeirra megin í málinu. Að öðru leyti ætla ég ekki að blanda mér í þær umræður.

En þótt öllu slíku tilfinningatali í þessu efni sé sleppt, þá stendur það eftir, að fjölgun refastofnsins þýðir aukin vanhöld og tjón fyrir sauðfjárbúskap landsmanna, sem er ein höfuðstoðin í matvælaframleiðslu þjóðarinnar, og af þeirri framleiðslu hafa lífsframfæri sitt nokkrar þúsundir manna í landinu.

Ég get nefnt dæmi af bónda á Suðurlandi, sem á s.l. ári missti í gin tófunnar fjórða part af lömbum sínum, og þetta var a. m. k. 15–16 þús. kr. skaði fyrir hann. Það er því engin furða, þó að bændur, sem búa við slíkan vágest, vilji neyta allra bragða til þess að útrýma honum.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er ákvæði um, að skylt skuli að eitra á hverju ári fyrir refi í afréttum og heimalöndum. Nú eru, eins og ég hef tekið fram, mismunandi skilyrði í hinum ýmsu landshlutum til þess að eitra þannig, að af því stafi lítil hætta fyrir önnur dýr en refi, og enn fremur er í hinum ýmsu landshlutum mismunandi mikil þörf fyrir eitrun, því að sums staðar er auðveldara en annars staðar að vinna dýrin með skotum og ef til vill ýmsum öðrum aðferðum. En svo eru til þau svæði, þar sem menn kunnugastir staðháttum telja, að eitrun sé einnig nauðsynlegur þáttur aðgerðanna og án hennar sé ekki hægt að halda tófunni niðri eða réttara sagt fjölgun hennar í skefjum.

Með hliðsjón af þessum breytilegu aðstæðum og því, að nú skal setja mann með sérþekkingu í þessum málum yfir þetta starf að útrýma tófunni, þá þótti n. rétt að breyta ákvæðunum um eitrunina í 11. gr. þannig, að í stað þess, að skylt sé að eitra í afréttum og heimalöndum ár hvert, verði skylt að eltra á tilteknum svæðum, þegar veiðistjóri mælir fyrir um, að svo skuli gert, og að heimilt sé að eitra fugla. Þetta ætti að vera mikil öryggisráðstöfun til þess að fyrirbyggja þá miklu hættu, sem ýmsir álíta að sé eitruninni samfara. Veiðistjóri getur samkvæmt þessu fyrirskipað eitrun, þar sem hennar virðist vera brýn þörf. En á öðrum stöðum, þar sem menn geta ráðið niðurlögum refsins með öðrum aðferðum, losna menn við að eitra, því að auðvitað fyrirskipar veiðistjóri ekki eitrun nema þar, sem hennar er þörf.

Þá ætti bann við því að eitra rjúpu og aðra fugla að stórminnka hættuna af því, að eitruð hræ verði haferninum að bana, en að allra dómi eru eitruð fuglahræ hættulegust, þar sem þau liggja úti á viðavangi og hundar og hræfuglar geta náð í þau og borið heim að bæjum eða þau fokið fyrir vindum.

Þar sem gert er ráð fyrir í 1. gr., að sérfræðingur um lifnaðarhætti refa og minka verði valinn í starf veiðistjóra, en n. er ekki kunnugt, að maður með slíka þekkingu sé til í landinu, gerir n. till. um ákvæði til bráðabirgða, að á meðan ekki er völ manns með þessa menntun, sé heimilt að ráða mann í bili til starfsins, þótt hann skorti sérþekkingu.

Þá leggur n. til, að lögin taki strax gildi.

Ég þykist þá hafa gert nokkra grein fyrir þeim breytingum, sem n. hefur leyft sér að bera fram á þskj., og þeim rökum, sem til þeirra liggja. Vænti ég, að hv. þdm. geti fallizt á breytingar þessar og að málið megi nú sem skjótast ná fram að ganga.