16.05.1957
Neðri deild: 98. fundur, 76. löggjafarþing.
Sjá dálk 1724 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

148. mál, eyðing refa og minka

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég var á siðasta Alþ. einn þeirra þm., sem þá fluttu till. til þál., sem samþ. var á þinginu og hefur leitt til þess, að lögin um eyðingu refa og minka hafa verið tekin til endurskoðunar milli þinga. En í þessari till. var ríkisstj. falið að láta slíka endurskoðun fara fram með það fyrir augum, að leitað væri úrræða í baráttunni gegn þeim skaðlegu vargdýrum, sem hér er um að ræða.

Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að málið hefur verið tekið til ýtarlegrar athugunar, bæði milli þinga og nú á þingi, og vildi mega vænta þess, að það bæri árangur í framtíðinni í baráttunni gegn þessum vargdýrum.

Að öðru leyti vildi ég í örfáum orðum leyfa mér að gera grein fyrir því, að ég hef á þskj. 497 leyft mér að flytja brtt. við 9. gr. frv., þar sem eru ákvæði um verðlaun fyrir að vinna hlaupadýr og minka.

Í frv., eins og það var lagt fyrir, var gert ráð fyrir, að þessi verðlaun væru 250 kr. fyrir tófu og 125 kr. fyrir mink, sem er nokkur hækkun frá því, sem nú er í lögum. Þegar frv. mþn. var tekið til meðferðar af búnaðarþingi, sem haldið var í vetur, gerði búnaðarþingið m.a. till. um það, að þessi verðlaun yrðu hækkuð nokkuð, bæði fyrir tófur og minka. Ég hef leyft mér að flytja brtt. um það, að þessi till. búnaðarþings verði tekin upp og 9. gr. frv. breytt í samræmi við það.

Nú sé ég, að hv. landbn. hefur gert brtt. við þessa gr. og lagt til, að verðlaun verði hækkuð fyrir minka upp í sömu upphæð og ég lagði til í minni brtt. á þskj. 497 og fyrir tófur upp í 350 kr. Mun ég, á meðan á þessari umr. stendur, athuga nánar, hvort ég held fast við þá brtt., sem ég hef borið fram, eftir að þessi brtt. frá hv. landbn. hefur komið fram. En á því er enginn vafi, að það er mjög æskilegt, að þessi verðlaun fyrir að vinna hlaupadýr geti orðið svo há sem menn nú telja að eðlilega megi við koma. Þeim mönnum hefur nú farið fækkandi — því miður — í landinu, sem leggja það fyrir sig að liggja fyrir tófum eða elta uppi tófur á vetrum til þess að eyða þeim, og er það mikill skaði, ef slíkum mönnum fækkar. Það er, eins og hv. frsm. landbn. tók fram, mikið erfiði, sem menn leggja á sig við þessa veiði, og er þess ekki að vænta, að menn leggi slíkt erfiði á sig, án þess að þar sé nokkuð að hafa í aðra hönd.

Fyrir nokkrum áratugum var þannig ástatt, að refaskinn voru í háu verði, og þá fengu menn allmikið fyrir erfiði sitt með því að selja skinnin, þó að ekki væru þá nein verðlaun greidd. En síðan hefur sú breyting orðið á, að skinnin mega heita verðlaus eða a.m.k. mjög verðlítil, þannig að þau gefa ekki neitt teljandi í aðra hönd þeim, sem við tófuveiðar fást á vetrum, og þess vegna hafa verðlaunin verið tekin upp í lög. En þær upphæðir, sem nú eru greiddar, eru sýnilega of lágar.

Ég vil geta um það í þessu sambandi, að eftir því sem mér virðist og hef fengið upplýsingar um, þá hygg ég, að kostnaðurinn við það að skjóta refi 'á vetrum sé, jafnvel þótt verðlaunin yrðu hækkuð nokkuð, lægri miðað við árangur heldur en t.d. kostnaður við að vinna greni á vorin, sem viða verður mjög mikill. Ég vil endurtaka það, að það væri mjög óheppilegt, ef menn hættu að fást við þessar veiðar, og verður að koma í veg fyrir, að svo geti farið.